Skip to Content

Söguspeki

"Sjálfsblekking neikvæðninnar". Háskóla Íslands, 5. sept 2014

Sigurður Gylfi Magnússon stakk upp á því við mig í vor að í vetur yrði semínar hvern föstudag í HÍ þar sem áhugasamir gætu kynnt rannsóknir sínar á óformlegan hátt fyrir gestum sem mættu gjarnan mæta með nestið sitt og taka svo þátt í óformlegum umræðum. Ég reið á vaðið og flutti erindið ""Sjálfsblekking neikvæðninnar." Samskipti valdhafa, fræðimanna og almennings um túlkun sögunnar."

JFK - Hvað ef?

Glærur með erindi um John F. Kennedy og hvað hefði gerst, hefði hann ekki verið veginn í Dallas 22. nóv. 1963. Flutt á starfsmannafundi hjá embætti ríkisskattstjóra réttri hálfri öld síðar.

"Baráttan um söguna", Fréttablaðið 22. júní 2013

Þessi stutta blaðagrein vakti allmikil viðbrögð og var hennar víða getið. Hér má sjá fregnir Viðskiptablaðsins og DV um hana, og umfjöllun Egils Helgasonar. Einnig varð greinin Kristínu Svövu Tómasdóttur tilefni til að rifja upp ágætis skrif hennar um söguskoðun og ímyndir sem ég hvet fólk til að kynna sér. Kveikjan að greininni var sú að fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði álits míns á þjóðhátíðarræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Frétt RÚV má lesa hér og ræðu forsætisráðherrans hér. Loks bæti ég við með glöðu geði hvassri en frekar sundurlausri gagnrýni Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings.

"More Truthful History, Please", Iceland Review / Atlantica May/June 2013

Í þessari stuttu grein er vakið máls á þeirri staðreynd að margir, ekki síst málsmetandi áhrifamenn, segja Íslandssöguna eins og þeir vilja að hún eigi að vera - sameinandi saga um hetjudáðir heimamanna andspænis óblíðum náttúruöflum og jafnvel enn óblíðari útlendingum. Sitthvað má hins vegar við það að athuga, og það ætti beinlínis að vera skylda sagnfræðinga og annarra sem helga sig rannsóknum á liðinni tíð að gera það. Sagan er allt of mikilvæg til þess að valdhafarnir segi hana einir almenningi. 

Hvað ef... Íslandssagan sem gæti hafa gerst, 29. jan. 2013

Erindið var í hinni sígildu hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands. Myndina sem hér fylgir setti saman Ólafur Gunnar Guðlaugsson, sá ágæti grafíski hönnuður. Glærur sem stuðst var við má líta á hér (ekki voru þær allar sýndar, tímans vegna) en vitaskuld segja þær ekki alla söguna. Erindið var tekið upp og má nálgast upptökuna á heimasíðu Sagnfræðingafélagsins. Í kynningu á erindinu sagði svo:

Fólk hefur lengi velt því fyrir sér sem gæti hafa gerst í mannkynssögunni en gerðist ekki. Hvað hefði gerst ef Persar hefðu lagt Grikkland undir sig í fornöld? Hvað ef suðurríkin hefðu haft betur í bandarísku borgarstyrjöldinni? Hvað ef Hitler hefði fallið í fyrri heimsstyrjöldinni? Vissulega getur verið gaman að velta fyrir sér spurningum af þessu tagi en hafa þær eitthvert gildi í sagnfræði? Í erindinu verður komist að þeirri niðurstöðu að því megi hiklaust svara játandi. Hugleiðingar um það sem gæti hafa gerst hjálpa okkur til að skilja betur hvers vegna svo fór sem fór hverju sinni; hvað var nær óumflýjanlegt og hvað var eingöngu háð tilviljunum og duttlungum örlaganna. Nefnd verða nokkur dæmi úr Íslandssögunni þessu til stuðnings, allt frá þjóðveldi norrænna manna í Vesturheimi fyrir þúsund árum til þýsks hernáms í seinna stríði og bankahruns sem aldrei varð á okkar dögum.

Viðbót 8. febrúar 2013: Hér er athyglisverð viðbót við "hvað ef" hugleiðingar sem brenna á mörgum út af Icesave-deilunni.

"Gests augað. Íslensk saga og samtíð í skrifum erlendra höfunda" (2012)

"Gests augað. Íslensk saga og samtíð í skrifum erlendra höfunda" Saga 50/2 (2012), bls. 129-143.

Í þessari grein er fjallað um skrif erlendra fræðimanna og blaðamanna um íslensk málefni, einkum í sambandi við þorskastríð og bankahrunið 2008. Þau eru vegin og metin og heildarniðurstaðan sú að þótt gests augað geti verið glögg hamli það mjög flestum þeirra að kunna ekki íslensku. Dytti t.d. einhverjum heiðvirðum blaðamanni eða sagnfræðingi að fjalla um sögu Bretlands eða Bandaríkjanna án þess að kunna ensku? Sá samanburður kann að vera ósanngjarn og ekki er hægt að ætlast til þess að engir nema þeir sem kunna okkar ástkæra ylhýra fjalli um okkur en fólk ætti samt margt að gera sér betur grein fyrir þeim takmörkunum sem fylgja því að þurfa að reiða sig á viðtöl og eftirheimildir á ensku eða öðrum tungumálum.

"Hræðilegt og fræðilegt. Umræður um forsætisráðherrabókina". Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands des. 2004

„Hræðilegt og fræðilegt. Umræður um forsætisráðherrabókina”. Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands, nr. 138, desember 2004, bls. 4-5.

Í þessari grein eru raktar þær deilur sem urðu um bókina Forsætisráðherrar Íslands sem kom út árið 2004. Þarna má einnig finna mín sjónarmið. Til frekari glöggvunar má lesa erindi Ólafs Teits Guðnasonar, ritstjóra verksins, og gagnrýni eins helsta gagnrýnandans í stétt sagnfræðinga, Jóns Þórs Péturssonar. Þau voru flutt á málþingi um bókina í ReykjavíkurAkademíunni 17. sept. 2004.

"Þorskastríð í sjónvarpi. Frásagnir, sagnfræði og (hálf)sannleikur" (2003)

„Þorskastríð í sjónvarpi. Frásagnir, sagnfræði og (hálf)sannleikur”. Saga, 41. árg., nr. 1, 2003, bls. 185-198.

Í þessari grein velti ég vöngum yfir þeim heimildum sem hægt er að nota við að segja sögu þorskastríðanna, og geri það út frá sjónvarpsþáttaröðinni Síðasti valsinn sem Margrét Jónasdóttir var höfundur að og Stöð tvö sýndi í febrúar 2000. Lokaorðin voru þessi:

Samantekt: Síðasti valsinn er vandað verk og vel unnið. Í þáttaröðinni er að finna fjörlegar og fróðlegar frásagnir sem eru mikilvægar heimildir um sögu þorskastríðanna. Eflaust hefðu margar þeirra glatast ef sögumennirnir hefðu ekki verið beðnir um að segja sögu sína í þáttunum. Sú aðferð að styðjast nær eingöngu við frásagnir söguhetjanna án þess að leggja mikið mat á þær eða bera þær saman við aðrar heimildir vekur upp spurningar um það hversu áreiðanlegar þær eru. Þessi aðferð dugir ekki heldur vel við að útskýra stjórnmálahlið þorskastríðanna og ástæður þess að Íslendingar höfðu betur í þeim öllum. Þetta breytir því ekki að frásagnirnar eru prýðileg heimild um átökin á Íslandsmiðum eins og þau eru í minningu söguhetjanna. Frásagnir þeirra Breta, sem fram koma í þáttunum, lýsa því einnig vel um hvað þorskastríðin snerust frá þeirra bæjardyrum séð.

"Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?" (2004)

Þessa grein má finna í Ritinu árið 2004 en ég leyfi mér að birta hana hér líka, þ.e. word-skjalið sem ég sendi til birtingar (og má vera að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á seinni stigum).

Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?

Inngangur

Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið rætt um pólitískt hlutverk forseta Íslands. Sjónarmið fyrri forseta hafa verið rifjuð upp og þá meðal annars sú ákvörðun Kristjáns Eldjárns að veita Lúðvík Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, umboð til stjórnarmyndunar sumarið 1978, eftir að tveimur öðrum stjórnmálaleiðtogum hafði mistekist að mynda ríkisstjórn. Í dagbókum Kristjáns og minnisblöðum kemur fram að Baldur Möller og Jóhannes Nordal, nánustu ráðgjafar hans, viðurkenndu að hann ætti engra annarra kosta völ en að snúa sér til Lúðvíks. Tók Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, einnig undir það að sögn forsetans.[1]

Á sínum tíma gagnrýndi Morgunblaðið þó ráðstöfun Kristjáns harðlega.[2] Blaðið varði þá afstöðu sína líka í sumar þegar sá, sem þetta skrifar, rifjaði upp stjórnarmyndunarviðræður Lúðvíks Jósepssonar og benti á þann stuðning sem Kristján Eldjárn hafði við ákvörðun sína. Í forystugrein Morgunblaðsins sagði að Alþýðubandalagið hefði verið arftaki Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins og báðir flokkar hefðu verið á móti grundvallaratriðum íslenskrar utanríkis- og öryggismálastefnu, og notið til þess beins og óbeins stuðnings frá Sovétríkjunum. Af þeim sökum hefði skoðun Morgunblaðsins verið rétt og ákvörðun Kristjáns röng: „Lúðvík Jósepsson sem formaður Alþýðubandalagsins gat ekki notið trausts mikils meirihluta þjóðarinnar til þess að mynda ríkisstjórn á Íslandi á þeim tíma, sem hann fékk umboð til þess.”[3]

Hér er ekki ætlunin að rekja til hlítar rök með og móti ákvörðun Kristjáns. Það bíður betri tíma.[4] En Morgunblaðið sagði áfram: „Það getur verið erfitt fyrir unga sagnfræðinga nútímans að setja sig inn í andrúm kalda stríðsins. Það verða þeir þó að gera til þess að geta lagt hlutlægt mat á mál eins og þetta.”[5] Morgunblaðið tók þetta „föðurlega fram,” benti Egill Helgason blaðamaður á.[6] Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, komst einnig svo að orði, með vísan til þessarar forystugreinar: „Mér hefur alltaf fundist nokkuð sjarmerandi hvernig Styrmir [Gunnarsson ritstjóri] lítur á sig sem yfirdómara yfir forsetaembættinu.”[7]

Ábending Morgunblaðsins, „föðurleg” og „sjarmerandi”, gefur tilefni til frekari vangaveltna. Hún er í sjálfu sér skiljanleg, vel meint og ekkert nýmæli. Þeir, sem tóku þátt í átökum liðinnar tíðar, hafa gjarnan aðra skoðun á þeim heldur en þeir sem á eftir koma og voru hvergi nærri. Jafnvel mætti halda því fram að annað væri undarlegt.

Fangar fjarverunnar?

Fyrir rúmum 20 árum komu ýmsir virtustu sérfræðingar Vesturlanda í sögu kalda stríðsins saman og ræddu um upphaf þess.  Einn þeirra, Lawrence Kaplan, skar sig úr að því leyti að hann hafði barist í seinni heimsstyrjöldinni. Hann sagði:

Ég finn hjá mér þörf til þess að halda fram óskynsamlegri skoðun sem ég veit að ég ætti að vera gagnrýndur fyrir; sem sagt, hvernig geta menn í þessum hópi  (og í þeim eru auðvitað færustu fræðimenn í faginu í dag) í raun og veru áttað sig á aðdraganda kalda stríðsins nema þeir séu nógu gamlir til að hafa upplifað seinni heimsstyrjöldina og fyrstu árin eftir hana. ... Þetta er þessi fáránlega skoðun að ef þú varst ekki með mér á Filippseyjum að fagna því að Sovétríkin höfðu lýst yfir stríði á hendur Japönum sumarið 1945, eða þú hafir ekki bundið vonir við það – eins og öll mín kynslóð – að heimurinn og Bandaríkin myndu breytast með hinum nýju samtökum [Sameinuðu þjóðunum], þá getirðu ekki skilið hvernig kalda stríðið hófst.[8]

Kaplan bætti svo við að kannski ættu sagnfræðingar þess vegna aðeins að láta aðra um að skrifa sögu nýliðinnar tíðar, til dæmis stjórnmálafræðinga og blaðamenn, „sem láta sig litlu varða heimildir og hlutlægni. Sagnfræðingar ættu að einbeita sér að þeirri fortíð þar sem skrifleg gögn eru fyrir hendi og tilfinningahiti hefur kulnað.”[9]Þetta var bæði sagt í gamni og alvöru en aðrir hafa tekið í sama streng. Lester Pearson, kanadíski stjórnmálamaðurinn sem lét mikið til sín taka á alþjóðavettvangi, hafðilítið álit á fræðimönnum sem gagnrýndu vestræna valdhafa við upphaf kalda stríðsins. Hann fullyrti að slíkir endurskoðunarsinnar gætu ekki skilið þá sem tóku örlagaríkar ákvarðanir á þeim tíma af því að gætu ekki sett sig í spor þeirra.[10] Þeir væru með öðrum orðum fangar eigin fjarveru.

Fleiri dæmi mætti nefna. Á síðustu árum hafa ungir sagnfræðingar séð ævi og afrek Winstons Churchills í nýju ljósi. Eldri mönnum hefur þá jafnvel þótt sem rýrð væri varpað á arfleifð hans, og hvað vissu þessir stráklingar svo sem um Churchill? Sir Robert Rhodes James, sem skrifaði mikið um þann mikla leiðtoga, sagði til dæmis að stóran hluta þessarar endurskoðunarsagnfræði mætti rekja til „ungra manna með frekar takmarkaðan sjóndeildarhring og enga reynslu af stjórnmálum. Þar að auki hefur enginn þeirra séð Churchill í lifanda lífi, hvað þá hitt hann.”[11]

Sömu sögu er að segja af nýlegum rannsóknum á andspyrnuhreyfingunni í Danmörku. Ekki er skrifað jafnmikið um neitt annað tímabil í danskri sögu og ungir sagnfræðingar telja flestir að of mikið hafi verið gert úr baráttu Dana við hernámslið Þjóðverja.[12] Segja má að þessi endurskoðun hafi hafist fyrir alllöngu, árið 1971, þegar Aage Trommer komst að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni um skemmdarverk á járnbrautarteinum á stríðsárunum að þau hefðu litlu sem engu breytt um stríðsrekstur Þjóðverja. Um þúsund manns voru við doktorsvörn Trommers, þar á meðal margir sem börðust gegn Þjóðverjum og var þeim heitt í hamsi. Einn þeirra skrifaði síðar:

Jafn lærður og hann er ætti hann að beina sínum kalda hug að einhverju öðru. Hann var að minnsta kosti ekki með þessar myrku nætur, sá ekki járnbrautarlestir sem hvergi komust eða stritið sem þurfti til að bæta skaðann. Svo maður tali nú ekki um sorgina vegna þeirra félaga sem féllu.[13]

Að lokum má nefna að þessarar tilhneigingar til að halda því fram að þeir þekki ekki jafn vel söguna, sem reyndu hana ekki á sjálfum sér, hefur einnig gætt á Íslandi. „Sagan er mikilvæg, svo mikilvæg að sagnfræðingarnir, þótt góðir séu, mega ekki vera einir um hituna,” sagði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í erindi um stjórnmálasögu síðustu áratuga.[14] Flokksbróðir hans Björn Bjarnason hefur einnig sagt um sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna: „Efniviðurinn er ekki árennilegur fyrir þá sem koma að honum með litla reynslu aðra en felst í fræðilegri þjálfun”[15] Fróðlegt verður að sjá hvernig því verður tekið þegar ungir sagnfræðingar á Íslandi fara að skrifa bækur um þorskastríðin.

Fangar fortíðarinnar?

Og vita þeir endilega betur sem voru á staðnum? Færa má gild rök fyrir því að svo sé alls ekki. Þvert á móti má vel vera að mönnum sé illmögulegt að átta sig á gangi sögunnar ef menn voru í hita leiksins. „Við þurfum að varast þá sagnfræði,” sagði hinn franski Fernard Braudel eitt sinn, „sem er enn þrungin tilfinningum þeirra sem upplifðu atburðina. ... Hún ber með sér reiði þeirra, drauma og glámskyggni.”[16]

Þetta eru vitaskuld ekki ný sannindi og margir þeirra, sem voru í eldlínunni hverju sinni, hafa gert sér grein fyrir þessu. Framsóknarmaðurinn Bernharð Stefánsson var framarlega í sínum flokki um miðja síðustu öld og sagði í ævisögu sinni að þegar „[s]agnfræðingar framtíðarinnar” færu að skrifa sögu þess tíma ættu þeir ekki að byggja á „minningum manna sem sjálfir hafa tekið þátt í bardaganum. Af þeim er varla að vænta óhlutdrægna frásagna. ... Hinsvegar munu þó ekki slíkar minningar þýðingarlausar með öllu, þegar sagan verður skrifuð.”[17] Í endurminningum sínum sagði útgerðarmaðurinn Þórarinn Olgeirsson, sem stóð í ströngu þegar löndunarbann var sett á íslenskan fisk í Bretlandi vegna landhelgisdeilu við Íslendinga, einnig að það yrði

... hlutverk seinni tíma sagnfræðinga að vega og meta hvaða öfl hafi mistökum ráðið, hvað hafi verið hið rétta og hvað rangt í öllum þessum málum. Um það verða síðari tíma kynslóðir ef til vill dómbærari en þeir nútímamenn, sem í eldinum stóðu og línurnar lögðu að lausn vandasamra viðfangsefna.[18]

Loks má geta þess um stjórnarmyndunarumboð Lúðvíks Jósepssonar og gagnrýni Morgunblaðsins, uppsprettu þessarar greinar, að Matthías Johannessen ritstjóri viðurkenndi þegar fram liðu stundir að blaðið hefði gengið of langt í aðfinnslum sínum við Kristján Eldjárn: „Ég get vel fallist á að leiðarinn um forsetann hafi verið óþarflega ögrandi af okkar hendi og ástæðulaus áminning í krossferðinni gegn þessum alþjóðlega kommúnisma, sem við erum sýknt og heilagt að lumbra á.”[19] Bretinn Selwyn Lloyd, sem reis til áhrifa skömmu eftir seinni heimsstyrjöld, skrifaði eitt sinn um þann kost við að eldast að þá geti menn skrifað með „meiri stillingu” um liðna tíð og séð báðar hliðar á hverju máli.[20] Það sýndi Matthías Johannessen í verki í sambandi við hina „óþarflega ögrandi” ádeilu á Kristján Eldjárn.

Sama gildir auðvitað um þá þætti í sögu annarra þjóða sem hér hefur verið minnst á. Sir Robert Rhodes viðurkenndi fúslega að skoðanir hans og annarra, sem kynntust Churchill persónulega, hlytu að draga dám af því „óafmáanlega þakklæti og virðingu” sem þeir hefðu sýnt honum. „Einmitt!” hefðu hinir ungu sagnfræðingar eflaust hrópað ef Sir Robert Rhodes hefði haldið þessu fram í þeirra hljóði.[21] Og hinir kappsömu ungu sagnfræðingar hafa alls ekki það eitt að markmiði að gagnrýna allt og alla. Þannig hafa margir þeirra skilning á friðþægingarstefnu Neville Chamberlains, forsætisráðherra Breta, gagnvart Hitler árin fyrir seinni heimsstyrjöld, enda eru þeir ekki „fangar minninganna frá 1938-40”, eins og sagt hefur verið.[22]

Á sama hátt er það alls ekki kappsmál ungra danskra sagnfræðinga að gera lítið úr þeim sem lögðu líf sitt að veði í baráttunni við nasista í seinni heimsstyrjöld. En þeir vilja samt reyna að hafa það sem sannara reynist. Þeir benda til dæmis á að í könnun frá 1948 sagðist nær fimmti hver fullorðinn Dani hafa verið í andspyrnuhreyfingunni þótta alkunna hafi verið að í raun voru þeir miklu færri. Sagnfræðingarnir vilja með öðrum orðum andmæla þeirri goðsögn sem segir að „Jensen og Olsen hafi ætt út á strætin með vopn í hendi strax [hernámsdaginn] 10. apríl [1940]!”[23]

Oft er það því svo að söguhetjur geta sagt sína eigin sögu betur en aðrir. En þær eru jafnvel verr settar en þeir, sem á eftir koma, til þess að sjá rás viðburðanna frá mörgum sjónarhornum og setja hana í samhengi. Bein reynsla þeirra verður þeim þá trafala og hið fornkveðna gildir gjarnan að enginn er góður dómari í eigin sök. „Minni okkar flestra er ósjálfrátt hallandi okkur til heilla,” sagði Davíð Oddsson í erindi sínu.[24] „Þegar stjórnmálamenn horfa um öxl,” sagði Matthías Johannessen sömuleiðis, „hættir þeim til að segja söguna eins og þeir vilja, að hún hafi verið, en ekki eins og hún var. Asklok verður himinn.”[25]

Fangar samtímans?

Að sjálfsögðu er ekki þar með sagt að ungir sagnfræðingar samtímans geti tekið sér sæti ofar þeim sem á undan fóru, og sjái þar yfir allt sjónarsviðið. Sagnfræðingar eru jafn mikið börn síns tíma og aðrir. Þeir geta alls ekki sett sig á háan hest, haldið því fram að þeir, sem tóku beinan þátt í sögulegum atburðum, þekki ekki allar kringumstæður og viti ekki nóg því þeir hafi ekki stundað rannsóknir árum saman í skjalasöfnum og háskólum.

Auk þess má vera að ungum sagnfræðingum hætti til að vera of djarfir í túlkunum sínum og ályktunum því þeir telji sig þurfa að gera eitthvað „nýtt” í fræðunum. „Bestu sagnfræðingarnir og ævisöguritarnir eru í raun líkastir bardagamönnum,” var skrifað í Bretlandi fyrir skemmstu, „því þeir einbeita sér að því að slátra þeim dreka sem kallast „Viðtekin skoðun”.”[26] Aðrir hafa einnig rætt um þann „vanda” sagnfræðinga að vita „hvað gerist næst,” ólíkt þeim sem voru á vettvangi og vissu ekki hvað morgundagurinn bæri í skauti sér.[27] Sú hætta er því alltaf fyrir hendi að ungir sagnfræðingar gangi of langt í ályktunargleði sinni og viðurkenni ekki nægilega vel við hvaða kringumstæður söguhetjur tóku ákvarðanir sínar. Hans Kirchhoff, sem hefur manna mest rannsakað sögu andspyrnunnar í Danmörku, hefur til dæmis varað við því að í stað gömlu goðsagnarinnar um hetjuskap heillar þjóðar verði Danir gerðir að sjálfselskum gungum sem nutu lífsins á meðan veröldin í kringum þá lék á reiðiskjálfi.[28] Einnig hefur verið sagt um ævi áhrifamikilla manna að það sé ekki fyrr en með þriðju kynslóð að „jafnvægi” náist; „ævistarf þeirra sé þá metið af hlutlægni, án þeirrar andúðar eða dýrkunar sem einkenndi viðhorf fyrri kynslóða.”[29]

En sagnfræðingar ættu þó alls ekki að gera of lítið úr eigin getu til að segja satt frá liðinni tíð. Fyrir nokkrum árum hélt Morgunblaðið því fram að frásagnir og rannsóknir á fortíðinni væru ekkert annað en ófullkomin endursögn samtímamanna:

Sagnfræðingar sem og aðrir sem leggja stund á húmanísk fræði eru að átta sig á því að fátt verður sagt með fullri vissu um liðinn tíma, ekki einu sinni með fulltingi tölfræðilegra gagna; hver ný túlkun er einungis innlegg í samræðu sem hefur sannleikann að yfirskini en snýst í raun aðeins um sjálfa sig.[30]

Ef eitthvað er hafið yfir allan vafa í sagnfræði þá er það vissulega sú staðreynd að menn geta ekki búið til óumdeilanlega og hlutlæga úttekt á fortíðinni. En það breytir því ekki að sagnfræðingar ættu að reyna að stefna að því að segja eins satt og rétt frá staðreyndum og skoðunum og þeir geta; safna til þess eins mörgum heimildum og unnt er, leggja mat á þær og reyna að skilja hvernig menn hugsuðu á þeim tíma sem verið er að rannsaka. Slík fræðimennska snýst ekki „í raun aðeins um sjálfa sig” og kemst nær því að útskýra hvað gerðist heldur en minningar einstakra manna sem voru á vettvangi. Sjónarmið slíkra söguhetja getur verið fróðlegt en alls ekki nær sannleikanum á grundvelli þess að þær hafi verið á vettvangi og viti betur. Það getur til dæmis verið erfitt fyrir þá, sem voru í eldlínunni á sínum tíma, að losna úr andrúmi kalda stríðsins. Það verða þeir þó að gera til þess að geta lagt hlutlægt mat á málin.[1]Guðni Th. Jóhannesson, „„Að gera ekki illt verra.” Hugmyndir Kristjáns Eldjárns um pólitískt hlutverk forseta Íslands.” Erindi á málþingi Sagnfræðingafélags Íslands og Félags stjórnmálafræðinga, „Forsetinn og stjórnmálin að fornu og nýju,” ReykjavíkurAkademíunni, 9. júní 2004. Sjá einnig Morgunblaðið, 12. júní 2004.

[2]Morgunblaðið, 16. og 17. ágúst 1978 (forystugreinar).

[3]Morgunblaðið, 13. júní 2004 (forystugrein).

[4]Sjá væntanlegt rit höfundar um stjórnarmyndanir og stjórnarslit í forsetatíð Kristjáns Eldjárns.

[5]Morgunblaðið, 13. júní 2004 (forystugrein).

[6]Egill Helgason, „Geimverur og einsetukarlar,” 14. júní 2004. http://www.strik.is/frettir/pistlar_egils.ehtm?id=1744, skoðað 17. júní 2004.

[7]Fréttablaðið, 19. júní 2004.

[8]Umfjöllun Lawrence Kaplans um John Lewis Gaddis, „The Emerging Post-Revisionist Synthesis on the Origins of the Cold War”, Diplomatic History, 7. árg., nr. 3, 1983, bls. 194.

[9]Sama heimild, bls. 195.

[10]Peyton V. Lyon og Bruce Thordarson, „Professor Pearson: A Sketch.” Michael G. Fry (ritstj.), „Freedom and Change”. Essays in Honour of Lester B. Pearson (Toronto: McClelland and Stewart, 1975), bls. 4.

[11]Sjá Graham Stewart, „Churchill without the rhetoric,” The Historical Journal, 43. árg., nr. 1, 2000, bls. 306.

[12]Sjá t.d. Claus Bryld og Anette Warring, Besættelsestiden som kollektiv erindring. Historie- og traditionsforvaltning af krig og besættelse 1945-1997 (Frederiksberg: Roskilde Universitetsforlag, 1998), Hans Kirchhoff, Samarbejde og modstand under besættelsen. En politisk historie (Óðinsvé: Odense Universitetsforlag, 2001), Claus Bryld, Kampen om historien. Brug og misbrug af historien siden Murens fald (Frederiksberg: Roskilde Universitetsforlag, 2001), bls. 220-223, Henrik Lundbak, Staten stærk og folket frit. Dansk Samling mellem fascisme og modstandskamp 1936-47 (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, 2001), og John T. Lauridsen, Samarbejde og modstand. Danmark under den tyske besættelse 1940-45. En bibliografi (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, 2002), bls. 15-21.

[13]Sjá Lauridsen, Samarbejde og modstand, bls. 23.

[14]Davíð Oddsson, „Hvað er stjórnmálasaga?” Erindi í samnefndri fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands 31. október 2000. http://www.hi.is/~mattsam/Kistan/k00/davidodds.htm, skoðað 8. nóvember 2000.

[15]Björn Bjarnason, „Forsendur sigra í landhelgismálinu”, Morgunblaðið, 3. desember 1999. Sjá einnig Guðna Th. Jóhannesson, „Tíu spurningar. Hugleiðingar um þorskastríðin.” 2. íslenska söguþingið. Ráðstefnurit II (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag, 2002), bls. 439-441.

[16]Sjá Roberto Franzosi, „A Sociologist Meets History. Critical Reflections upon Practice,” Journal of Historical Sociology, 9. árg., nr. 3, 1996, bls. 385.

[17]Bernharð Stefánsson, Endurminningar, ritaðar af honum sjálfum II (Akureyri: Kvöldvökuútgáfan, 1964), bls. 6.

[18]Sveinn Sigurðsson, Sókn á sæ og storð. Æviminningar Þórarins Olgeirssonar skipstjóra (Reykjavík: Bókastöð Eimreiðarinnar, 1960), bls. 260.

[19]Matthías Johannessen, „Bréf til Herdísar. Valdir kaflar úr bréfum.,” Heimsmynd, 1. árg., 6. tbl., 1986, bls. 54.

[20]Selwyn Lloyd, Suez 1956. A Personal Account (London: Book Club Associates, 1978), bls. 262.

[21]Stewart, „Churchill without the rhetoric,” bls. 306.

[22]John Ramsden, „Ending in Failure” (ritdómur um David Dutton, Neville Chamberlain, og Robert Self (ritstj.), The Neville Chamberlain Diary Letters), Times Literary Supplement, 17. ágúst 2001, bls. 25.

[23]Sjá Lauridsen, Samarbejde og modstand, bls. 19-21.

[24]Davíð Oddsson, „Hvað er stjórnmálasaga?”

[25]Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf II (1981). Reykjavík: Almenna bókafélagið, bls. 374.

[26]Ian McIntyre, „Dragon-slayers lay to rest some monstrous historical tales,” Times, 7. desember 2002.

[27]Sjá t.d. Dean Acheson, Present at the Creation. My Years in the State Department (New York: Norton, 1969), bls. xvii.

[28]Kirchhoff, Samarbejde og modstand, bls. 342.

[29]Gunnar Stefánsson, „Frá ritstjóra,” Andvari, nýr flokkur XLIV, 127. árg., 2002, bls. 5.

[30]Morgunblaðið, 6. júní 1998 (forystugrein).

"Sagan á líðandi stundu", Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands, mars 2010

Í þessari grein sem birtist í marshefti Fréttabréfs Sagnfræðingafélags Íslands árið 2010 (bls. 6-7) er rætt um ólíka afstöðu sagnfræðinga og stjórnmálamanna til liðinnar tíðar. Einkum eru orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, gerð að umtalsefni. Það athugist að í greininni er þau sögð hafa fallið í ræðu 29. ágúst 2009. Þetta á að vera 28. ágúst.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur