Skip to Content

"Bjarni Benediktsson" (2004)

„Bjarni Benediktsson,” í Ólafur Teitur Guðnason (ritstj.), Forsætisráðherrar Íslands – Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar Íslands í 100 ár (Akureyri: Bókaútgáfan Hólar, 2004), bls. 295-314.

Snemma árs 2004 bauðst mér að skrifa um Bjarna Benediktsson í væntanlegri bók um forsætisráðherra Íslands og ráðherra frá upphafi heimastjórnar til okkar daga. Ég tók því fagnandi, sá tækifæri til að koma á framfæri ýmsu sem ég hafði fundið á skjalasöfnum heima og erlendis. Lítt leiddi maður hugann að pólitísku yfirbragði verksins sem var gagnrýnt mjög um leið og það fréttist að til stæði að skrifa bók af þessu tagi. Dálítið um það má lesa hér.

Í inngangsorðum og lokakafla kaflans hér að neðan má greina afstöðu mína til mikilvægis einstaklinga og tilviljana í sögulegri þróun. Er þetta ekki bara eintómt kaos?

Í lokakaflanum leiðrétti ég líka slæma innsláttarvillu; orðið "ófyllt" misritaðist sem "ófullt" í bókinni og er við mig einan að sakast þar.

Inngangur

Einstaklingar skapa sögu liðinnar tíðar. Þeir eru þá á vettvangi sem forverar þeirra höfðu áður búið til og samtímamenn og náttúruöflin eru sífellt að breyta. Þótt eitt leiði af öðru í allri þeirri atburðarás, og oft sé líklegast að eitt gerist frekar en annað, er sagan að öðru leyti samansafn óteljandi ákvarðana og atburða þar sem allt hefði getað farið allt öðruvísi en það í rauninni fór. Saga Bjarna Benediktssonar sýnir mjög vel þetta tvennt, möguleg völd einstaklinga og vanmátt þeirra í rás viðburðanna. Á sinni tíð var Bjarni einn tilþrifamesti stjórnmálamaður Íslendinga en örlögin réðu því að krafta hans naut mun skemur en nokkurn hafði grunað.

Hér verður fjallað um þá þætti í sögu Bjarna Benediktssonar þar sem hann hafði mest áhrif á samtíð sína; þar sem hann skipti kannski sköpum.[1]  Annars vegar er valdaskeið Bjarna í embætti forsætisráðherra þá veigamest og hins vegar atbeini hans í utanríkismálum. En þrátt fyrir þetta þrönga sjónarhorn er nauðsynlegt að líta aðeins víðar yfir sviðið, þó ekki væri nema vegna þess að við getum ekki öðlast skilning á afstöðu Bjarna Benediktssonar þegar hún skipti hvað mestu máli nema við kynnum okkur einnig hvað hafði áður mótað manninn og skoðanir hans.

Fyrst er þess einnig að geta að tilviljanir (eða örlög) hefðu hæglega getað verið álíka afdrifarík við upphaf æviferils Bjarna og endalok. Bjarni Benediktsson var fæddur í Reykjavík árið 1908, sonur Benedikts Sveinssonar, síðar Alþingisforseta, og Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey. Í ársbyrjun 1905 varð Benedikt ritstjóri Ingólfs, málgagns hinnu róttæku Landvarnarmanna. Stjórnmála- og sjálfstæðisbarátta voru bæði honum og Guðrúnu í blóð borin en brauðstritið var erfitt. Í árslok viðurkenndi Benedikt í einkabréfi að þeim Guðrúnu væri nær ómögulegt að lifa af hinum óvissu ritstjórnartekjum: „Ég býst við að offra mér fyrir Ingólf enn, eitthvað fram eftir árinu. Verð svo kannske að flýja til Ameríku um mitt sumar sakir peningaleysis.”[2]

Víst er að Íslandssagan og saga Bjarna Benediktssonar hefði orðið allt önnur, hefði hann komið í heiminn vestur í Ameríku. Nú má vel vera að Benedikt hafi ekki verið full alvara með orðum sínum og ekki verður um það deilt að þau Guðrún ólu eldheita ættjarðarást með Bjarna og hinum barna sinna; þeim Sveini og Pétri sem eldri voru og yngri systrunum Kristjönu, Ragnhildi og tvíburunum yngstu, Ólöfu og Guðrúnu. Skapstórt fólk og dugmikið var að finna bæði í móður- og föðurætt Bjarna, og kippti honum í kynið. Hann var „einþykkastur” barnanna og „heldur skapstór,” sagði Benedikt Sveinsson árið 1916.[3] Tveimur árum síðar skrifaði Benedikt aftur um Bjarna sem þá var á tíunda ári: „Hann er lang-duglegastur við nám þeirra bræðra, og les mikið, t.d. Íslendingasögur og Noregskonunga, Tyrkja-ránið o.s.frv. jafnvel alþingistíðindi og mjög fljótur að lesa, athugull og skarp-greindur, heldur bráð-geður.”[4]

Bjarni fór í Menntaskólann í Reykjavík og skaraði þar fram úr. Áhuga hans á stjórnmálum tók þá einnig að gæta. „Bolschevikkastefnuna kvað hann óalandi og óferjandi,” kom fram á málfundi í skólanum síðla árs 1923, og mætti segja að snemma beygðist krókurinn. Seinna um veturinn bætti Bjarni þó við, sem ekki fór jafnvel við skoðanir hans þegar hann var kominn til vits og ára, að hann væri á móti „almennum kosningarjetti, yfirleitt.”[5] Bjarni lauk prófi í lögum árið 1930 með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin. Hann hélt til framhaldsnáms í Berlín en árið 1932 varð hann lagaprófessor við Háskólann, aðeins 24 ára gamall. Næstu ár samdi hann hið mikla stjórnlagarit sitt, Deildir Alþingis, og ýmsar aðrar fræðiritgerðir. Bjarni þótti góður kennari, en nokkuð kröfuharður.[6] Hann gekk í Sjálfstæðisflokkinn árið 1933 og árið eftir varð hann bæjarfulltrúi flokksins í Reykjavík. „Hann var bæði bráðþroska og brekkusækinn,” hefur hinum unga Bjarna verið lýst, „fullorðinslegur snemma og veitti sér ekki þann munað að sóa æskuárunum með þeirri bruðlunarsemi sem ungum mönnum er eiginleg.”[7]

Haustið 1935 gekk Bjarni Benediktsson að eiga Valgerði Tómasdóttur en hún lést af barnsfararsótt aðeins tæpu hálfu áru síðar. Ekki þarf að eyða orðum að því hve Bjarna var sá missir sár. Þótt hann bæri harm sinn í hljóði duldi hann vinum sínum þó ekki sorgarinnar; „viðkvæmnin kom til dyranna, eins og hún var klædd,” skrifaði Jóhann Hafstein síðar.[8] Á stríðsárunum urðu næstu tímamót í lífi Bjarna. Árið 1943 gekk hann að eiga Sigríði Björnsdóttur (og eignuðust þau fjögur börn; Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu). Árið 1940 skipti Bjarni einnig um starfsvettvang og gerðist borgarstjóri. Þá voru viðsjár í heiminum og æ síðan var Bjarni Benediktsson í forystusveit þeirra sem mótuðu sjálfstæðis- og utanríkisstefnu Íslands. Andstæðingar hans, bæði á þeim vettvangi og víðar, komust að því á þessum árum að illt var að egna óbilgjarnan. Bjarni var „stórgáfaður og stórlærður maður í sínu fagi,” sagði Lárus Jóhannesson síðar um eðliskosti síns nána vinar um þessar mundir, „en hann var þó ekki búinn að öðlast þá skapstillingu og sanngirni sem hann með sínum mikla viljakrafti og sjálfsafneitun tamdi sér eftir því sem árin liðu, né ná þeirri yfirsýn sem gerði hann að afburðamanni. Hann var baráttumaður að eðlisfari og gat verið harðskeyttur, ef svo bar undir...”[9]

...

Landsfaðir og flokksforingi

Landsfaðirinn Bjarni var allt annar maður en eldhuginn sem hafði engu eirt í átökum við óvini sína áður fyrr. Þá hefði Bjarni ekki viðurkennt það sem hann lét í ljós á stóli forsætisráðherra, að „[s]koðanamunur stafar sjaldnast af illvilja hvað þá samsærishug heldur ólíkum sjónarmiðum. Aukið víðsýni og umburðarlyndi létta lausn margs vanda.”[10] Trúnaðarvinir Bjarna sáu viðbrigðin kannski helst í mati hans á íslenskum „kommúnistum”. Andrew Gilchrist, sendiherra Breta í fyrsta þorskastríðinu, hafði eftir honum undir lok æviferilsins að sumir þeirra væru „fyrst Íslendingar og síðan kommúnistar, og það er ekki svo slæmt.” Gilchrist spurði hvort þetta þýddi að þeir hefðu breyst? „Já, þeir hafa breyst svolítið,” svaraði Bjarni og bætti svo við, sem sendiherrann tók til marks um sanngirni hans og víðsýni: „En kannski hef ég líka lært að skilja þá betur.”[11] Vitað er að Bjarni vildi athuga hvort verkalýðsforingjarnir Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson, sem höfðu klofið sig úr Alþýðubandalaginu og stofnað Samtök frjálslyndra og vinstri manna, gætu gengið til liðs við Viðreisnarstjórnina eftir kosningar 1971. Hann var því ekki heldur afhuga að fá Alþýðubandalagið með í það samstarf.[12]

Hið landsföðurlega yfirbragð breytti því ekki að Bjarna Benediktssyni gat enn orðið heitt í hamsi. „Bjarni var járnkarl en mildaðist mjög með árunum,” sagði einn samstarfsmanna hans, „og þá kom í ljós að hann var góð sál sem ekkert aumt mátti sjá, eins og sagt er. Þá lét hann líka bera meira á sínum sérstaka húmoríska sans, sem hann átti ógrynni af...”[13] Hannibal Valdimarsson sagði sömuleiðis að þótt Bjarni „mildaðist og kyrrðist” með árum og aldri hefði áfram verið „stutt ofan í eldlega glóð skapmunanna…”[14]Flokksmenn Bjarna fundu þetta og minntust þess ýmsir að hafa verið teknir á beinið fyrir eitthvað sem leiðtoganum mislíkaði.[15]„Hann þorði ekki síst að vera heilsteyptur og misjafnlega vinsæll formaður og varaformaður flokks síns,” skrifaði Matthías Johannessen síðar.[16]

Enginn ógnaði Bjarna þó á valdastóli í Sjálfstæðisflokknum. Hefði honum enst aldur hefði hann eflaust verið þar í forystu nokkur ár til viðbótar í það minnsta. Heldur er þá ólíklegt að þau átök, sem urðu milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens, hefðu magnast með þeim hætti sem raun varð á. Einnig hefðu landhelgismál þróast á annan veg eins og áður hefur verið minnst á og hver veit nema varnarmál hefðu ekki komist í uppnám á fyrri hluta áttunda áratugarins. Íslandssagan gerbreyttist þegar Bjarni Benediktsson lét lífið í bruna á Þingvöllum í júlí 1970 ásamt Sigríði Björnsdóttur og dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Líf okkar hinna hélt þó áfram, hvert með sínum hætti. Kristján Eldjárn forseti skrifaði hjá sér um hinn fallna leiðtoga: „Veit ég að það skarð er mikið, sem nú stendur opið og ófyllt, en líf þjóðarinnar er þó meira en eins manns líf, og einhver mun berast í fylkingarbrjóst, hver sem það verður. Það er alveg satt að allir sakna Bjarna og finna hvílíkt traust var í honum … en böls mun alls batna, nú eins og ætíð.”[17]

 



[1]Nokkur yfirlit eru til um ævi Bjarna Benediktssonar. Sjá: Ólafur Egilsson (ritstjóri), Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1983). Jóhannes Nordal, „Bjarni Benediktsson.” Sigurður A. Magnússon (ritstjóri), Þeir settu svip á öldina. Íslenskir stjórnmálamenn (Reykjavík: Iðunn, 1983, bls. 255-270. Jóhann Hafstein, „Bjarni Benediktsson,” Andvari (nýr flokkur, XVI, 1974), bls. 3-47.

[2]Þjóðskjalasafn Íslands [hér eftir ÞÍ]. Bréfasafn Þórðar Sveinssonar yfirlæknis. Benedikt Sveinsson til Þórðar Sveinssonar, þriðja í jólum 1905.

[3]Skjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar [hér eftir SSÞH]. Bréfasafn Björns Þórarinssonar frá Víkingavatni, E 38. Benedikt Sveinsson til Björns Þórarinssonar, 2. janúar 1916.

[4]Sama heimild. Benedikt Sveinsson til Björns Þórarinssonar, 25. febrúar 1918.

[5]Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabóksafns [hér eftir Lbs-Hbs]. Fundargerðabók Framtíðarinnar,  676, fol. 14. aukafundur, 26. október 1923, bls. 142, og 3. fundur, 2. febrúar 1924, bls. 189.

[6]Sjá: Baldur Möller, „Lagakennsla og dómsmálastjórn.” Ólafur Egilsson (ritstjóri), Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna, bls. 29-43.

[7]Sverrir Kristjánsson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Þjóðviljinn, 16. júlí 1970.

[8]Jóhann Hafstein, „Bjarni Benediktsson,” bls. 8.

[9]Lárus Jóhannesson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið, 16. júlí 1970.

[10]„Aukið vinfengi og bætt sambúð. Áramótaræða dr. Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.” Morgunblaðið, 3. janúar 1964.

[11]Skjalasafn Sir Andrews Gilchrists. Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni.” ódagsett uppkast.

[12]„Reykjavíkurbréf”, Morgunblaðið, 5. desember 1994.

[13]„Slapp lifandi frá skemmtilegum þjóðflokki.” Viðtal við Knút Hallsson ráðuneytisstjóra, Morgunblaðið, 12. október 2003.

[14]Hannibal Valdimarsson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið, 16. júlí 1970.

[15]Anders Hansen og Hreinn Loftsson, Valdatafl í Valhöll, bls. 67.

[16]Matthías Johannessen, „Býsnavetur í íslenzkri pólitík,” Morgunblaðið, 23. febrúar 1980.

[17]Lbs-Hbs. Dagbók Kristjáns Eldjárns, 17. júlí 1970.



Drupal vefsíða: Emstrur