Skip to Content

"Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík ..." (2007)

„„Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík dæju allir bæjarbúar“. Loftvarnir og almannavarnir á Íslandi, 1951-1973“. Saga, 45. árg. nr. 2, 2007, 7-44.

Í greininni er niðurstaðan sú að náttúruhamfarir hafi í raun bjargað hugmyndinni um almannavarnir á Íslandi því kjarnorkuógnin var í raun aldrei tekin alvarlega. Fróðlegt væri að rekja söguna áfram til okkar daga en líklega yrði niðurstaðan sú sama, að almenningur á Íslandi hafði ekki það miklar áhyggjur af ógninni úr austri og ráðamenn tímdu ekki heldur að verja stórfé til kjarnorkuvarna, enda margir hverjir eins vantrúaðir. Tilvísunin í titli greinarinnar er úr landsprófi vorið 1946. Kalda stríðið birtist á ýmsum stöðum.

Í útdrætti og áhugavaka um greinina segir:

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um ótta við loftárásir og kjarnorkuárásir á Ísland fyrstu áratugi kalda stríðsins. Sá ótti  réð því að stjórnvöld gripu til ákveðinna varna og vildu reyndar ganga mun lengra í þeim efnum. Á hinn bóginn voru viðamiklar varnir við loftárásum mjög kostnaðarsamar, svo ekki væri minnst á viðbúnað gegn kjarnorkuárásum og geisluvirku úrfalli. Og var í raun hægt að verjast þeirri gereyðingarógn? Viðbúnaður og undirbúningur til varnar loftárásum og kjarnorkuárásum gat orkað tvímælis og vakti enda harða gagnrýni, eins og rakið er í greininni.

Skipulegar loftvarnir hófust á Íslandi í seinni heimsstyrjöld en féllu niður að henni lokinni. Aukin spenna milli risaveldanna réð því að árið 1951 voru ný lög sett um loftvarnir og loftvarnanefnd Reykjavíkur var endurvakin. Næstu fimm ár undirbjó hún varnir gegn loftárásum á borgina eftir því sem fjárframlög leyfðu og gerði nær eingöngu ráð fyrir að þær yrðu með svipuðu lagi og verið hafði í heimsstyrjöldinni. Tímamót urðu svo þegar vinstri stjórn Hermanns Jónassonar tók við völdum í landinu árið 1956. Ríkisvaldið hætti þá að veita fé til loftvarna með þeim rökum, sem sósíalistar héldu helst á lofti, að þær væru gagnslausar á atómöld.

Þráðurinn var tekinn upp á nýjan leik þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks komst til valda, undir forystu Ólafs Thors. Almannavarnir ríkisins voru stofnaðar með lögum árið 1962 og til stóð að efla til muna varnir við kjarnorkuógninni, m.a. með útgáfu leiðbeiningabæklings. Af því varð þó aldrei því stjórnvöld óttuðust að slík fræðsla myndi minnka stuðning landsmanna við vestrænt varnarsamstarf. Almannavarnir voru því nánast orðin tóm fyrstu árin og nutu afar lítils stuðnings almennings. Árið 1967 var lögum um almannavarnir breytt þannig að þau tækju einnig til náttúruvár. Segja má að sú stefnubreyting hafi bjargað almannavörnum og náttúruhamfarir á fyrri hluta áttunda áratugarins sýndu rækilega fram á nauðsyn skipulegra varna gegn náttúruvá. Sem fyrr var vörnum gegn kjarnorkárásum þó lítt eða ekki sinnt; slíkar aðgerðir voru alla tíð í skötulíki á Íslandi.

Áhugavaki

Afar lítið hefur verið fjallað um loftvarnir og almannavarnir á Íslandi í kalda stríðinu. Ekki vantar þó að efnið ætti að þykja áhugavert og greinargóðar heimildir eru til um það. Skipulegar loftvarnir hófust hér á landi í seinni heimsstyrjöld en í þessari grein er saga þeirra og síðan almannavarna rakin frá því að ný lög voru sett um loftvarnir árið 1951 til þeirra tímamóta sem urðu í sögu almannavarna þegar eldgos varð á Heimaey árið 1973.

Þeir ráðamenn og embættismenn sem vildu hafa öflugar loftvarnir og almannavarnir á Íslandi óttuðust vitaskuld árásir úr austri. Í huga þeirra var sú ógn raunveruleg og gat dunið yfir nánast hvenær sem væri. Um það mátti þó deila og ekki síður þær takmörkuðu varnir sem gripið var til, fyrst á vegum loftvarnanefndar Reykjavíkur og síðan Almannavarna ríkisins. Birgðum var safnað, kannað hvað til væri af viðunandi skýlum og viðvörunarkerfi sett upp, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hinir áhyggjufullu sögðust vilja mun umfangsmeiri aðgerðir – til dæmis með því að dreifa leiðbeiningum um skjól gegn geisluvirku úrfalli – en glímdu við þann vanda að þá myndu þeir kannski hræða fremur en fræða. Svo voru þeir – einkum á vinstri væng stjórnmálanna – sem töldu allan viðbúnað af þessu tagi einskis enda væri  bæði óþarft og ómögulegt að verjast „Krúsjeff með koddaverum“. Og þar var almenningur yfirleitt sama sinnis.

 Drupal vefsíða: Emstrur