Skip to Content

Hrunið

Hrunið

Hrunið. Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík: JPV, 2009).

ISBN 9789935110633

Hafi ritunarsaga Óvina ríkisins verið óvenjuleg og jafnvel spennandi má svo sannarlega segja það sama um Hrunið. Um báðar bækurnar gildir að nánast fram á síðasta daga voru að koma fram nýjar heimildir og álitamál sem taka þurfti tillit til - ekki beint það sem maður á að venjast í heimi sagnfræðinnar. Að því sögðu er Hrunið sú bók mín sem helst má kenna við "blaðamannasagnfræði". Hún fjallar um málefni samtímans en um leið var reynt að gæta krafna um fræðileg vinnubrögð.

Líklega muna flestir Íslendingar hvar þeir voru og jafnvel hvernig þeim var innanbrjósts kl. 16:00 mánudaginn 6. október 2008 þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra flutti ávarp til þjóðarinnar í sjónvarpi, lýsti því að bankar landsins væru í stórkostlegum vandræðum, þjóðargjaldþrot gæti vofað yfir og grípa yrði til róttækra ráða. "Guð blessi Ísland," sagði forsætisráðherra að lokum, ávarpinu lauk og landinn var stjarfur. Hvað var eiginlega að gerast?

Sjálfur fylgdist ég með ávarpi Geirs á 5. hæð Háskólans í Reykjavík þar sem ég hafði þá skrifstofu mína. Sjónvarpstæki hafði verið rúllað út á gang og fylgdumst við þar allmörg með, starfsfólk HR. Man ég að við Ólafur Ísleifsson hagfræðingur ræddum eitthvað saman um boðskap Geirs á eftir. Ekki kom bókarhugmynd þá til tals en nokkrum dögum eða vikum síðar vaknði sú hugmynd. Ef ég man rétt var það Ólafur sem sagði að ég ætti hiklaust að setja saman bók um þessa sögulegu daga. Ég man að ég bar við fákunnáttu um efnahagsmál og meðfæddu áhugaleysi á fjármálum en datt þá nánast um leið í hug að við gætum unnið að bók í sameiningu.

Varð það úr. Hafist var hana. Mér tókst með herkjum að losna undan fullri kennsluskyldu á vorönn og ætlunin var að koma bók út snemma árs 2009. Jóhann Páll Valdimarsson forleggjari var heldur betur til í tuskið. En svo kom babb í bátinn: Ólafur Ísleifsson valdist í bankaráð Íslandsbanka og var því úr sögunni sem sagnaritari. Þá var úr vöndu að ráða. Til greina kom að hætta við allt saman eða finna annan hagfróðan til samstarfs, nú eða að gera þetta bara sjálfur. Í raun kom fyrsti kosturinn aldrei til greina og þegar á reyndi vildi ég helst vinna einn, hef aldrei verið mjög hrifinn af hópavinnu eða samstarfi þar sem ég þyrfti kannski að gera eitthvað sem manni væri í raun á móti skapi. Þetta hefði örugglega gengið upp með Ólafi en mér fannst ég ekki hafa tíma til að kanna mögulega samvinnu með öðrum.

Ástæðan var líka sú að ég mér fannst nauðsynlegt að setja saman bók eins og ég vildi skrifa; ekki mikla útleggingu á því hvers vegna svo fór sem fór því að það væri í raun illmögulegt í miðjum straumnum. Þvert á móti vildi ég skrifa eins hlutlæga frásögn - nánast krónólógíu í anda Aldarinnar okkar - sem yrði svo brotin upp með milliköflum þar sem litið yrði um öxl. Ég leyfi mér að fullyrða að eitt það besta við Hrunið er uppbygging hennar þó að ég geri mér grein fyrir því að ekki eru allir sammála því mati.

Svo fór að verkið óx og óx um leið og nýjar upplýsingar komu fram í sífellu. Mikilsvert var að ég gat ráðið mér aðstoðarmann, Kristbjörn Helga Björnsson sagnfræðing, sem lagði það meðal annars á sig að lesa Séð og heyrt í heild sinni frá 2003 ef ég man rétt til okkar daga. Kristbjörn var sannkölluð hjálparhella.

Þegar ljóst var að rannsóknarnefnd Alþingis myndi skila ítarlegri skýrslu um aðdraganda og orsakir bankahrunsins varð ég enn staðráðnari í því að einblína á atburðarásina en láta greiningu liggja milli hluta.

Fimmtudaginn 4. júní 2009 kom bókin loksins út, vonum seinna. Jóhann Páll forleggjari var orðinn svo óþolinmóður að hann sagði eitt sinn við mig að það yrði komið góðæri þegar ég loksins lyki við verkið... En það kom á daginn að eftirspurnin hafði ekkert minnkað þó að komið væri fram á sumar, von væri á rannsóknarskýrslu Alþingis, nánast á hverri stundu og Sofandi að feigðarósi, hrunsbók Ólafs Arnarsonar, nágranna míns af æskuslóðum á Arnarnesi, væri komin út. Hrunið rann út eins og heitar lummur eða Harry Potter bók eins og þessar fregnir bera vitni um. Önnur prentun var þegar ákveðin - "við verðum að prenta eins og [óprenthæft]", sagði einn vinur hjá Forlaginu. Einn vandi var þá að réttur pappír var ekki til; önnur prentun var því miklu þykkari en sú fyrsta.

Yfirleitt var verkinu vel tekið og þó að maður viðurkenni fúslega að færslur á bloggi jafnist ekki við fræðilega rýni að vægi (yfirlegan er varla eins mikil) stenst maður ekki mátið að benda á nokkrar jákvæðar athugasemdir;  hugleiðingar Kristjáns B. Jónassonar, mat Jóns Magnússonar, lof Guðbjörns Guðbjörnssonar, tollvarðar og Evrópusinna með meiru, og skilyrt lof Stefáns Snævarrs  - Og er það kannski til merkis um það að maður fylgist of vel með viðbrögðum lesenda að ég hélt þessu til haga af twitter sem þá var nýlegt fyrirbæri (og reyndar er ég alveg ósammála þessu með útlitið og uppsetninguna):

https://twitter.com/Andres_M Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson er afleit bók. Ekki að innihaldi, það er frábært. En sem bók, að útliti og uppsetningu, er hún hræðileg.8:09 AM Jun 11th from Nambu Þvílíkur dýrðardagur! Sól skín í heiði; í morgun kom pósturinn með Hrunið og nú áðan komu Þjóðmál inn um lúguna. — Farinn út í garð að lesa!7:06 AM Jun 11th from Nambu Var að fá Hrunið eftir Guðna Th. Jóhnnesson í pósti frá góðum vini, sem ritdæmdi hana í leiðinni. Hlakka mikið til lestursins.5:34 AM Jun 11th from Nambu

Hrunið var minn mesti bestseller þegar hér var komið sögu og kom sér vel þegar ég missti vinnuna við Háskólann í Reykjavík við samdráttaraðgerðir þar í kjölfar hrunsins. Allt tengist einhvern veginn. - Og síðar gerðu Þóra Arnórsdóttir og Eiríku Ingi Böðvarsson hjá RÚV flotta þætti, byggða á bókinni.Drupal vefsíða: Emstrur