Skip to Content

Kári í Jötunmóð (1999)

Kári í jötunmóð

Kári í jötunmóð. Saga Kára Stefánssonar og Íslenskrar erfðagreiningar (Reykjavík: Nýja bókafélagið).

ISBN 9979941820.

Vænt þykir mér um þessa fyrstu bók mína (sem enn má kaupa á góðu verði hjá Forlaginu...) Sagan af því hvernig hún varð til er merkileg í sjálfu sér. Páll Bragi Kristjónsson, sem hafði rekið forlagið Þjóðsögu og gefið þar út ýmis rit um ættfræði helst, vildi færa út í kvíarnar og naut þar liðsinnis og stuðnings Jakobs F. Ásgeirssonar rithöfundar. Til varð Nýja bókafélagið. Meðal annars skyldi gefa út alþýðleg fræðirit um samtímasögu og málefni líðandi stundar, einkum að breskri fyrirmynd en hana þekkti Jakob vel; hafði stundað nám í Oxford og heillaðist af þessari hefð þar ytra. Þannig var staðan vorið 1999.

Sjálfur gat ég þá talist "á lausu", hafði lokið einum vetri af doktorsnámi í sögu við St Antony's College í Oxford en allt var í óvissu um frekara nám út af erfiðleikum í sambandi við styrki sem of langt mál er að rekja hér. Ég var því til í tuskið þegar Jakob hafði samband við mig að frumkvæði Þórs Whiteheads, velunnara míns í fræðunum. Hugmyndin var að skrifa stutta en snarpa bók um kraftaverkamanninn Kára Stefánsson, ævintýralegan vöxt fyrirtækis hans, Íslenskrar erfðagreiningar, og genadrauminn mikla á Íslandi sem allir virtust svo heillaðir af.

Í fyrstu var hugmyndin sú að eiga Kára að við skrifin, ekki að vinna undir handarjaðri hans en geta leitað upplýsinga hjá honum og innan veggja fyrirtækisins. Þar þekkti ég líka hægri hönd Kára, Hannes Smárason, sem hafði verið mér samtíða í MR og bjó um þessar mundir á móti æskuheimili mínu við Blikanes úti á Arnarnesi. Skemmst er nú frá því að segja að Kári fann hugmyndinni allt til foráttu, vildi ekkert með mig hafa, grunaði mig og bókaforlagið um að ætla að græða á hans góða verki með því að dreifa á prenti slúðursögum og rógi. Engu breytti að ég segði það fjarri öllum sanni, við vildum bara segja góða sögu en vera auðvitað hreinskilnir.

Snemmsumars var því ljóst að engrar samvinnu var að vænta. Ég byrjaði samt að skrifa, talaði við þá sem vildu ræða við mig (Kári bað fólk um að aðstoða mig ekki) og safnaði gögnum eftir bestu getu. Naut ég þá aðstoðar ýmissa og að öðrum ólöstuðum nefni ég hér Skúla Sigurðsson vísindasagnfræðing. Smám saman tók verkið á sig mynd. Mest reiddi ég mig á efni í fjölmiðlum, ekki síst viðtöl við Kára sjálfan. Sem betur fór tókst þó einnig að afla annarra heimilda, til dæmis skjala úr stjórnkerfinu sem sönnuðu að gagnagrunnsfrumvarpið umdeilda var meira og minna samið eftir forskrift og óskum Kára, eins og rakið er í bókinni.

Um haustið fór ég aftur út til náms úti, búinn að færa mig frá Oxford yfir til Queen Mary í London á fínasta styrk og hugsandi að Oxford mætti fara fjandans til. Skrifunum lauk ég úti og Jakob F. batt lausa enda heima af mikilli elju, fylgdi verkinu eftir í prentsmiðju og stóð í öllu veseninu sem höfundar eiga annars að standa í. Hafi hann þökk fyrir!

Dag einn fékk ég svo símhringingu að heiman þar sem ég var í kaffipásu fyrir utan lestrarsalinn á British Library (innskot, einn uppáhaldsbrandarinn minn: "Useful tips for tourists in London: Try for yourself the famous echo in the British Library Reading Room). Í símanum var Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og spurði mig út í bókina. Sagði ég sem satt var að verkið væri ekki að undirlagi Kára Stefánssonar en alls ekki unnið honum til höfuðs. Eitthvað meira spjölluðum við í mestu vinsemd og ég hélt satt að segja að þetta væri unnið fyrir innslag um væntanlegar bækur sem var á eftir tíu- eða ellefu-fréttum sjónvarpsins á þeim tíma.

Það var öðru nær. Stórfrétt sjónvarpsins þetta kvöld var á þá leið að senn kæmi út ævisaga Kára Stefánssonar, í óþökk hans. Þetta var í sjálfu sér frétt, bækur af því tagi voru sjaldséðar á Íslandi þótt erlenda hefðin væri sterk, einkum í hinum engilsaxneska heimi. Um þetta hef ég t.d. fjallað í fyrirlestri og grein. En tónninn var sleginn. Hér höfðum við vinsælan frumkvöðul, að vísu umdeildan, og hans merka fyrirtæki, og einhvern ungan sagnfræðing að gera sér mat úr einkalífi hans og afrekum.

"Bestsellerinn" brást. Bókin seldist mun verr en við höfðum vonast til. Auðvitað skipti andrúmsloftið ekki einu og öllu, hvað þá ein frétt í sjónvarpi. Verkið galt fyrir það að vera skrifað hratt og ég var of blautur á bak við eyrun, þurfti að eyða of miklum tíma í að kynna mér grundvallaratriði í erfðafræði (ekki að ég hafi náð því öllu) og kunni einfaldlega ekki nógu vel að skrifa bók af þessu tagi. Nú veit maður að maður verður að hafa rammann tilbúinn í uppphafi og neita sér nær alveg um að breyta honum þegar skrifin eru hafin. Sáttur er ég samt við bókina. Frekari upplýsingar um þær umræður sem hún vakti má finna í viðtali við mig í Morgunblaðinu 22. des. 1999 og grein minni í sama blaði 29. febrúar 2000.

Í lokin er mér ljúft og skylt að geta þess að við Kári grófum stríðsöxina, svo notað sé orðalag hans. Hann bauð mér í flottan dinner úti í London í mars eða apríl eftir að bókin kom út, ef ég man rétt. Síðan hefur farið vel á með okkur, þá sjaldan að við höfum hist. Fínasta fólk þekki ég líka hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hefði aldrei haft tök á að koma heim ef ekki hefði verið fyrir fítonskraftinn í Kára Stefánssyni. Hitt stendur eftir að Íslendingar blekktu sig meira og minna í blindri aðdáun á meistaranum og áformum hans, sumir með skelfilegum fjárhagslegum afleiðingum. Hrunið var að byrja.Drupal vefsíða: Emstrur