Skip to Content

Kafli úr bókinni

Inngangur

Fall bankanna á Íslandi haustið 2008 telst til afdrifaríkustu atburða í sögu lýðveldisins. Algert efnahagshrun var ekki fjarri þegar verst lét. Orðspor Íslands var í voða ytra, hér heima sat hnípin þjóð í vanda. Þá eru mótmælin og stjórnarskiptin í ársbyrjun 2009 ekki síður söguleg. Samfélagið nötraði, eldar loguðu við Alþingi.

Í þessari bók er greint frá því sem gerðist frá degi til dags þessa mánuði. Inn á milli er litið um öxl og minnst á dýpri ástæður þess að svo fór sem fór, án þess að lokadómur verði lagður á þær. Bókinni er einmitt ekki ætlað að útskýra til hlítar bankahrunið og afleiðingar þess. Til þess er of skammt um liðið og ég ásetti mér heldur ekki „að svipta hulunni af þessu glæpahyski í bönkunum og kerfinu öllu“ eins og einn kunningi minn sagði að gera þyrfti við fyrsta tækifæri. Það er í verkahring sérstaks saksóknara og hinnar opinberu rannsóknarnefndar sem Alþingi skipaði stuttu eftir hamfarirnar að kanna slíkar ásakanir. Á sama hátt bíður það hagfræðinga, lögfræðinga, fréttamanna, viðskiptafræðinga, heimspekinga, siðfræðinga, sagnfræðinga og annarra að gaumgæfa nánar en hér er gert þau fjölmörgu álitamál sem vöknuðu við hrun bankanna. Þá verður líka hægt að nýta frekari upplýsingar sem munu birtast þegar fram líða stundir.

Engu að síður var tímabært að setja saman rit af þessu tagi. Svo mikið gekk á hverju sinni, svo mikið var fjallað um málin í fjölmiðlum og netheimum að nær ómögulegt var að halda glöggri yfirsýn um rás viðburðanna. „Sannleikurinn er sá að maður er búinn að gleyma helmingnum af því sem er að gerast,“ sagði stjórnmálamaður sem stóð í eldlínunni, stuttu eftir að mesti hamagangurinn var liðinn hjá.[i] Einn þeirra sem var hinum megin, í fremstu röð mótmælenda með grímu fyrir andliti, lýsti einnig vel þeirri spennu sem ríkti í samfélaginu:

Vilji fólk fylgjast almennilega með því sem er að gerast á Íslandi í dag (látum vera að skilja það allt saman), krefst það þess að fólk sitji fyrir framan tölvuskjá allan daginn og ýti á ,,Refresh“ hnappinn á tíu mínútna fresti. Fyrirtækjafjölmiðlar (e. corporate media) og ríkismiðlarnir eru stútfullir af fréttum tengdum kreppunni og uppfæra vefsíður sínar stanslaust svo ótal spurningar vakna. Hvernig er staðan með IMF-lánið? En Icesave? Erum við ennþá hryðjuverkamenn? Eru bankastjórarnir enn á ofurlaunum? Hversu skuldug er þjóðin? Verður virkjað og fleiri álver reist? Hversu margir misstu vinnuna í dag? Er til einhver matur? Hvað með íslenska námsmenn erlendis? Er skynsamlegt að ganga í ESB? Hvar eru Baugs- og Björgólfsfeðgar? Og hvar er hann Bubbi? Var ríkisstjórnin vöruð við? Hver varaði hana við? Af hverju hlustaði hún ekki? Munu auðmenn sleppa við að borga? Verður einhverjum refsað? Hvað sagði þessi og hvað sagði hinn? Hvað komu margir á mótmælin?[ii]

Bókinni er ætlað að veita einhver svör við þess konar spurningum og hjálpa fólki að glöggva sig á atburðarásinni. Fyrirsagnir meginkafla eru margar sóttar í sjómannamál, í og með til þess að hnykkja á því að landkrabbarnir gerðu það í stórum stíl þegar hörmungarnar dundu yfir. Stafsetning hefur verið samræmd í beinum tilvitnunum, til dæmis þannig að alltaf er skrifað um innstæður frekar en innistæður. Innsláttar- og stafsetningarvillur eru leiðréttar án þess að orð sé á því gert. Þegar vitnað er í viðtöl við fólk í ljósvakamiðlum er smáorðum eins og „sko“ og „hérna“ oftast sleppt, nema þegar þau þykja sýna hik sem komi sögunni við.

Helstu heimildir við ritun bókarinnar voru þessar: Íslenskir og erlendir fjölmiðlar, dagblöð, vefrit, útvarp og sjónvarp. Bloggsíður og spjallsíður voru einnig nýttar til þess að fanga tíðarandann, eða í það minnsta hluta af honum. Viðtöl voru tekin við allmarga heimildarmenn, nær alltaf í skjóli trúnaðar. Ég reyndi einnig að skrá hjá mér alls kyns athugasemdir og alhæfingar sem féllu á mannamótum og fundum, í veislum eða heitum pottum, og nýtti þau í bókinni ef mér sýndist svo.

Ljóst er að þeir sem voru í hringiðunni miðri verða aldrei sammála um alla þætti atburðarásarinnar. Menn sem sátu sama fund muna hann á ólíka vegu, það sem einn segir skipta sköpum finnst öðrum léttvægt og sannleikur eins er lygi annars. Víst er að einhugur verður því aldrei um þá frásögn sem hér er að finna. Það á þó við um flest sem sagt er um liðna tíð og er ekkert nýtt. Frá sjónarhóli sagnfræðings var hins vegar fróðlegt og nýstárlegt að geta stuðst við hinar mýmörgu heimildir af netinu, einkum bloggið og athugasemdir við fréttir í netmiðlum. Óteljandi frásagnir eru til af þeirri angist sem greip fólk við fall bankanna haustið 2008, og nákvæmar lýsingar sjónarvotta má finna af mótmælum og átökum við Austurvöll í ársbyrjun 2009. Gætum við ekki gert kreppuárunum á fjórða áratug síðustu aldar miklu betri skil ef við hefðum heimildir af þessu tagi frá þeim tíma? Eða atburðunum við Austurvöll 30. mars 1949? Bloggið og netið skapa nýja vídd í spegli tímans. Sagnfræðin verður ekki söm.

Fjölmargir aðstoðuðu mig við gerð bókarinnar, einkum með því að lesa handritið yfir á ýmsum stigum og benda á fjölmargt sem betur mætti fara. Fyrir það þakka ég starfsfélögum mínum í laga- og viðskiptadeildum Háskólans í Reykjavík, Aðalsteini E. Jónassyni, Ragnhildi Helgadóttur, Ólafi Ísleifssyni og Stefáni Einari Stefánssyni. Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi, Jónasi Knútssyni, Símoni Á. Gunnarssyni, löggiltum endurskoðanda, og Jóni Þ. Þór sagnfræðingi þakka ég líka fyrir góðan yfirlestur og ekki síst móður minni, Margréti Thorlacius. Bjarna Guðmarssyni og öðrum sem komu að verkinu hjá Forlaginu þakka ég fyrir gott samstarf.

Þá stend ég í mikilli þakkarskuld við tvo félaga í sagnfræðingastétt. Guðmundur Sverrir Þór, sem nú stundar doktorsnám í hagfræði í Uppsölum, samdi útskýringalista í bókarlok og var sannkölluð hjálparhella þegar ég þurfti að reyna að skilja orð sem ég hafði sjaldan heyrt; skuldatryggingarálag, skortsölu, stöðutökur og þar fram eftir götunum. Kristbjörn Helgi Björnsson safnaði skriflegum heimildum af einstakri elju og valdi myndir í bókina. Hann tók líka nokkur viðtöl og skráði allmörg samtöl í umræðuþáttum útvarps og sjónvarps. Ég hefði aldrei getað skrifað þessa bók án aðstoðar Kristbjörns.

Að öllu þessu sögðu er mér ljúft og skylt að taka fram að ég ber einn ábyrgð á verkinu. Að lokum þakka ég konu minni Elizu allan stuðninginn og þolinmæðina meðan ég vann við verkið. Stundum lá við að manni féllust hendur og stundum var „helvítis fokking fokk“ það eina sem kom í hugann þegar maður settist niður og reyndi að lýsa þessari hörmungasögu.

 

Reykjavík,

síðasta vetrardag 2009Netheimildir voru aðgengilegar í byrjun mars 2009 nema annað sé tekið fram. Full slóð er aðeins gefin þegar einsýnt er að erfitt sé að rekja hana á annan hátt.

[i]Frásögn heimildarmanns.

[ii]„Hættum að blogga“, aftaka.org 14. nóv. 2008.Drupal vefsíða: Emstrur