Kafli úr bókinni
Hér getur að líta lokakafla bókarinnar
Færist ró yfir sviðið?
Útför dr. Gunnars Thoroddsens var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 30. september 1983. Athöfnin fór fram á vegum ríkisins og var henni útvarpað. Séra Þórir Stephensen dómkirkjuprestur jarðsöng. Dómkórinn söng og hljóðfæraleikurvar í höndum Marteins H. Friðrikssonar dómorganista, Þorvaldar Steingrímssonar fiðluleikara og Gunnars Kvarans sellóleikara. Minnisblað Gunnars Thoroddsens um tilhögun útfararinnar fannst ekki fyrr en síðar. Í flestu var hún þó í samræmi við óskir hans. Reyndar var fyrst leikið á orgel og selló lag hans sjálfs, „Melankólí“.
Gunnar Thoroddsen var jarðsettur í Gufuneskirkjugarði. Fjölmargir minntust hans með hlýju og virðingu. „Dr. Gunnar Thoroddsen var mikið prúðmenni í allri framgöngu,“ sagði forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir. „Um hann lék oft gustur eins og vill vera um menn sem hafa ákveðnar skoðanir og fylgja þeim fast eftir,“ sagði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra.[1] „Ég undraðist það og undrast enn að slíkur maður skuli ekki hafa verið settur á fremsta bekk í sínum eigin stjórnmálaflokki,“ sagði Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins. Geir Hallgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, komst svo að orði: „Því er jafnan svo farið um alla menn, sem hefjast til jafnmikillar mannvirðingar og ábyrgðar og Gunnar Thoroddsen gerði, að skoðanir eru skiptar um þá og menn ekki ávallt á einu máli um orð þeirra og gerðir. En enginn dregur það í efa að við fráfall Gunnars Thoroddsens hverfur einn af svipmestu einstaklingum síðustu áratuga af sviði íslenskra stjórnmála.“[2]
***
Í þessari bók hefur viðburðarík ævi verið rakin. Drengurinn Gunnar var námfús og gáfaður enda stóðu sterkir stofnar að honum og hann naut ástríkis og aga í æsku. Feimni háði honum en þegar hann vann bug á henni í menntaskóla steig fram á sjónarsviðið efnilegur piltur, fullur metnaðar til að láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Hann fann síðan að draumar rættust einn af öðrum; frami og árangur í stjórnmálum og fræðum, hamingja í einkalífi. Á miðjum aldri skiptust á skin og skúrir. Í forsetakjöri árið 1952 reyndust fjölskyldubönd sterkari en flokksbönd. Með sanngirni er vart hægt að halda því fram að Gunnari hafi borið að lúta kröfum flokksforystunnar. Æ síðan átti hann hins vegar undir högg að sækja í Sjálfstæðisflokknum þótt hann ætti þar sveit harðra stuðningsmanna.
Vilji Gunnars stóð til æðstu metorða. Ósigurinn mikli árið 1968 máðist aldrei úr minni hans. Við fráfall Bjarna Benediktssonar tveimur árum síðar fannst Gunnari liggja beint við að hann veldist til forystustarfa fyrir flokk sinn. Fjölmargir voru sama sinnis, aðrir ekki. Hörð barátta tók við og ýmsum vopnum var beitt, bæði í herbúðum Gunnars og andstæðinga hans. Orð og hugtök úr hernaði eiga vel við þegar þeim átökum er lýst.
Andstæðingar Gunnars Thoroddsens vændu hann lengi um að ala á sundrungu innan Sjálfstæðisflokksins. Þegar hann myndaði stjórn sína árið 1980 sögðu þeir að „svikin“ og metorðagirndin hefði keyrt um þverbak. Sú söguskoðun stenst þó ekki að vanda Sjálfstæðisflokksins um margra ára skeið megi rekja til bresta í fari hans. Ástæðurnar má frekar finna í breytingum sem ollu því að fámenn forystusveit gat ekki ráðið hinum stóra flokki á sama hátt og áður tíðkaðist. Opin prófkjör komu til sögunnar, sjálfstæðismenn kröfðust minni miðstýringar og bylting varð í fjölmiðlun. Afdrifarík mistök voru líka gerð án þess að Gunnar Thoroddsen hefði nokkuð um það að segja, ekki síst sólstöðusamningar árið 1977 og fálmkennt undanhald frá þeim; leiftursókn gegn verðbólgu og óraunsæjar hugmyndur um þjóðstjórn í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar árið 1979. Þannig hvatti veik forysta Sjálfstæðisflokksins Gunnar til dáða þegar hann braust á ný til valda í flokknum. Jóhann Hafstein og Geir Hallgrímsson voru ekki nógu sterkir leiðtogar. Jóhann ætlaði sér aldrei að sitja á formannsstóli og þótt Geir hafi haft margt til brunns að bera átti hann ekki í nægum mæli þann baráttuanda, dirfsku og kjörþokka sem forystumaður í stærsta stjórnmálaflokki landsins þurfti að búa yfir.[3]
Árið 1980 rættist lífsdraumur Gunnars Thoroddsens. Ríkisstjórn hans mistókst hins vegar að ná tökum á efnahagsmálum. Verðbólga geisaði og mældist yfir 100% um skamma hríð. Engu að síður er ósanngjarnt að bendla stjórn Gunnars eina við verðbólgufárið sem var landlægt á þessum árum. Stjórnmálamenn og leiðtogar launþegasamtaka höfðu lengi slegið á frest að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að takast á við þann vanda. Í raun má segja að hin illvíga víxlverkun hækkandi launa og verðlags hafi fyrst þurft að leiða til mikilla vandræða áður en valdhafar treystu sér til að taka á henni fyrir alvöru.
Þá hafa stuðningsmenn stjórnarinnar haldið því fram að hún hafi látið gott af sér leiða í ýmsum efnum. Snemma í september 1983, um hálfum mánuði áður en Gunnar Thoroddsen lést, skrifaði framsóknarmaðurinn Ingvar Gíslason honum stutt bréf. Ingvar, sem verið hafði menntamálaráðherra í stjórn Gunnars, vakti máls á því að bók yrði rituð um afrek hennar sem hefðu verið umtalsverð.[4] Árið 1996 var Svavar Gestsson sama sinnis og taldi miður að verk ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens hyrfu í skuggann af hinni miklu verðbólgu sem setti mark á valdaskeið hennar: „Eiginlega öll félagsmálalöggjöf Íslands í dag varð til í tíð þeirrar stjórnar: Málefni fatlaðra. Málefni aldraðra. Fæðingarorlof. Lög um starfskjör launafólks. Lög um lífeyrissjóð sjómanna.“[5]Einnig má minnast stjórnarskrárfrumvarps Gunnars Thoroddsens, viðamestu tilraunar til að endurskoða stjórnarskrána sem þá hafði farið fram. Þar var vakið máls á breytingum sem síðar urðu að veruleika: skipan Alþingis í eina málstofu, stofnun umboðsmanns Alþingis og ítarleg mannréttindaákvæði.
Að sama skapi vörðu gamlir Gunnarsmenn orðstír síns manns. Sunnudaginn 29. desember 1985, þegar 75 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars Thoroddsens, stofnuðu hjónin Valgarð og Benta Briem minningarsjóð í nafni hans. Styrkjum hefur verið úthlutað til einstaklinga og félaga á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála og menningarmála. Árið 1986 birtist í tímaritinu Andvara grein um Gunnar þar sem höfundurinn, Gunnar G. Schram, sá söguhetjuna í miklum ljóma.[6] Og árið 2004 skrifaði Jón Ormur Halldórsson ágrip af ævi Gunnars Thoroddsens í bók um ráðherra Íslands og forsætisráðherra sem þá kom út. Kaflahöfundum var uppálagt að fjalla meðal annars um hugsjónir viðkomandi ráðherra og pólitíska arfleifð.[7] Síðustu æviár Gunnars hafði Jón Ormur verið honum handgenginn. Þeir ræddust við nær dag hvern og oft bar fyrri tíð á góma. Lýsingu sína á hugsjónum Gunnars Thoroddsens byggði Jón Ormur á þessum kynnum:
Í stjórnmálum var Gunnari oft lýst sem manni gagnsemishyggju og raunsæis og manni sem stundaði stjórnmálin sem list hins mögulega. Þetta voru ríkir þættir í fari Gunnars sem stjórnmálamanns og augljós einkenni á framgöngu hans í embætti forsætisráðherra. Gunnar var hins vegar einnig maður mikilla og einlægra hugsjóna sem breyttust lítið á löngum ferli hans í stjórnmálum.
Þetta voru hugsjónir sem stundum hafa beint mönnum í hinar ólíkustu áttir í þjóðmálabaráttu en í huga Gunnars runnu þær saman í eina órofna heild. Ein, og sú dýrasta að sögn Gunnars, var hugsjón um frelsi mannsins, önnur um réttarríki til varnar frelsi og reisn einstaklingsins, sú þriðja um frjálst og sjálfstætt Ísland og sú fjórða um ábyrgð þeirra sem nokkurrar gæfu njóta í lífinu gagnvart þeim sem lífið leikur harðar. Skoðun Gunnars á frelsinu einkenndist annars vegar af sterkri virðingu fyrir rétti einstaklingsins til að móta skoðanir sínar og eigið líf og hins vegar af þeirri trú að frelsi grundvallast ekki aðeins á rétti hvers manns til að lifa í friði fyrir afskiptum heldur ekki síður á möguleikum mannsins til að njóta frelsisins. Þetta kallaði stundum, að mati Gunnars, á annað en fáskipti samfélagsins.
Með þetta að leiðarljósi var lagður grunnur að pólitískum skoðunum sem einkenndust af frjálslyndi, virðingu fyrir einstaklingsfrelsi og tilfinningu um félagslega ábyrgð í bland við íhaldssama tilfinningu fyrir ábyrgð hvers manns gagnvart samfélagi sínu og menningu. Þetta voru hugsjónir Gunnars sem ríflega tvítugs alþingismanns og hugsjónir hans hálfri öld seinna sem forsætisráðherra á áttræðisaldri.[8]
Við höfum séð hvernig hugur Gunnars mótaðist frá unga aldri. Í menntaskóla skrifaði hann um nauðsyn þess að einstaklingar fengju að ráða eigin högum og á námsárum í Berlín hneykslaðist hann á því hvernig nasistar hunsuðu reglur réttarríkisins. Síðar á ævinni talaði hann um „frelsi með skipulagi“ og þegar hann var orðinn forsætisráðherra kvaðst hann telja að stefna sín í stjórnmálum hefði verið „eins konar sambland af skoðunum“ frænda sinna tveggja, Skúla Thoroddsens og Hannesar Hafsteins.[9] Þannig hefðu náð saman annars vegar róttækni Skúla og barátta fyrir bættum kjörum þeirra sem minna máttu sín, og hins vegar viðleitni hins ráðsetta Hannesar til að miðla málum og sæta lagi. Loks má nefna síðustu orð Gunnars á opinberum vettvangi, að hið „mannlega sjónarmið“ fengi að njóta sín í þjóðfélagsmálum.
Gagnsemishyggja eða raunsæi Gunnars Thoroddsens birtist í ýmsum myndum. Hann bjó sig á alla lund undir að ná árangri í stjórnmálum. Hann varð einn mesti ræðumaður síns tíma, sannfærandi í öllum málflutningi og sannkallað prúðmenni á vettvangi stjórnmálanna. En Gunnar sýndi líka hörku þegar svo bar undir. Og hvort sem hann var alþingismaður, borgarstjóri eða ráðherra var beinlínis til þess ætlast að hann hyglaði flokksbræðrum og öðrum sem leituðu á náðir hans eins og verða vildi. Beiðnir um fyrirgreiðslu, sem Gunnari bárust og hér hafa verið birtar, segja þó meira um þjóðfélagið og „kerfið“ sem hann lifði og hrærðist í en hann sjálfan. Um það hafa verið kveðnir upp harðir dómar, einkum eftir bankahrunið mikla árið 2008.[10]
Gunnar Thoroddsen þekkti gangverk stjórnkerfisins og vissi að landsmálabaráttan gat verið óvægin – það hafði hann ekki síst fundið í forsetakjörinu 1968. Engu að síður trúði hann yfirleitt á hið góða í mönnum. „Miklir listrænir hæfileikar Gunnars,“ skrifaði Jón Ormur Halldórsson, „og víðtæk þekking hans á tungu, bókmenntum, sögu og listum þjóðarinnar var ekki aðeins hluti af stórri persónu hans heldur var þessi þekking og áhugi honum ákveðinn sjónarhóll á íslensk stjórnmál. Þaðan sá hann yfir víðara svið og lengri tíma en títt var um aðra menn.“[11]
Þetta eru orð aðdáanda. Eftir andlát Gunnars hafa margir þeirra sjálfstæðismanna, sem voru honum mótdrægir í stjórnmálabaráttunni, haldið fast við þá skoðun að Gunnar Thoroddsen hafi verið valdagírugur eiginhagsmunaseggur. Hans skyldi minnst sem „trúvillingsins“, sjálfstæðismannsins sem „sveik“ leiðtoga sína. Barátta minninganna hélt því áfram og þess sáust merki víða, einkum þó í Morgunblaðinu. Afstaða blaðsins var skýr: Frá því að Gunnar Thoroddsen sneri á ný til leiks í íslensk stjórnmál árið 1970 hefði hann reynst friðarspillir innan Sjálfstæðisflokksins og verst hefði framganga hans verið við stjórnarmyndunina 1980; þá hefði hann með undirferli spillt fyrir Geir Hallgrímssyni og svikið félaga sína.[12] Á þann veg skyldi Gunnar dæmdur. „Býsnaveturinn“ mætti engum gleymast og skyldi vera víti til varnaðar.
Samtímis var orðstír Geirs Hallgrímssonar haldið á loft. Á síðum Morgunblaðsins var hann settur á stall með öðrum foringjum flokksins í seinni tíð, „hinn pólitíski arftaki Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins“. Engu hefði Geir Hallgrímsson valdið um það ósætti sem ríkti í flokknum og eftir ófarirnar í kosningunum 1978 hefði hann áttað sig á að Gunnar Thoroddsen hygðist ráðast til atlögu gegn honum, og reyndar Albert Guðmundsson sömuleiðis:
Frá þeirri stundu leit [Geir] á það sem höfuðskyldu sína að halda Sjálfstæðisflokknum saman en ekki hugsa um eigin hag. Það gerði hann með þeim glæsibrag að fela sameinaðan og samhentan Sjálfstæðisflokk í hendur nýrri kynslóð á landsfundi 1983 en hann hafði tryggt flokki sínum aðild að ríkisstjórn á ný þá um vorið. Á þessum fimm árum frá 1978 til 1983 ríkti stríðsástand innan Sjálfstæðisflokksins. Sá sem uppi stóð að lokum sem pólitískur og siðferðilegur sigurvegari í þeim átökum var Geir Hallgrímsson.[13]
***
Í raun varð Sjálfstæðisflokkurinn ekki sameinaður og samhentur árið 1983. Á landsfundi í nóvember lét Geir Hallgrímsson af formennsku í flokknum. Við tók Þorsteinn Pálsson en þá vaknaði sá vandi að formaðurinn var utan ríkisstjórnar. Þótt Þorsteinn mætti ætla að Geir léti senn af ráðherradómi varð bið á því og árið 1985 sauð nánast upp úr. Á sameiginlegum fundi þingflokks og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Stykkishólmi í lok september töldu margir ólíðandi að flokksformaðurinn gegndi ekki ráðherraembætti. Einn sagði berum orðum að Geir Hallgrímsson yrði að víkja fyrir Þorsteini, aðrir nefndu engin nöfn en tóku undir að forysta flokksins í ríkisstjórninni væri veik og eitthvað yrði til bragðs að taka. Sjálfur lýsti Þorsteinn Pálsson yfir, eins og rakið var í fundargerð, að árið 1983 hefði Geir verið valinn oddviti sjálfstæðismanna innan ríkisstjórnarinnar, „og voru ekki gerðar athugasemdir við það og það talið eðlilegt. En sé þetta komið í slíkt óefni að ekki verður lengur fram haldið verður að bregðast við því. Það verður að vera forysta í þessari ríkisstjórn og undan þeirri ábyrgð mun formaður Sjálfstæðisflokksins ekki víkjast.“[14]
Geir Hallgrímsson var ekki á fundinum og fannst hann illa svikinn. Undir það tóku vinir hans.[15] Hann lét hins vegar undan. Um miðjan október þetta ár varð Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra í stað Alberts Guðmundssonar sem varð iðnaðarráðherra og aðrir ráðherrar flokksins færðust einnig milli ráðuneyta. Matthías Á. Mathiesen hvarf um stundarsakir úr stjórn en í janúar 1986 tók hann við embætti utanríkisráðherra af Geir Hallgrímssyni. Geir var skipaður seðlabankastjóri í september það ár. Urðu þau stólaskipti „síðasta stóra fórn hans fyrir flokkinn“, skrifaði Davíð Oddsson.[16]
Geir fór í friði í Seðlabanka Íslands þótt sár væri. Aðrir hættu með látum. Í ársbyrjun 1987 komst skattrannsóknastjóri að þeirri niðurstöðu að þegar Albert Guðmundsson var fjármálaráðherra hefði hann svikið undan skatti. Þorsteinn Pálsson lagði að Albert að segja af sér ráðherradómi og lýsti yfir að hann yrði ekki ráðherraefni þótt hann gæti áfram leitt lista Sjálfstæðisflokksins við alþingiskosningar um vorið.[17] Seint í mars 1987 lét Albert Guðmundsson af ráðherraembætti en stofnaði um leið nýtt stjórnmálaafl, Borgaraflokkinn. Í kosningunum vann Albert einstæðan sigur; flokkur hans hlaut tæp 11% atkvæða og sjö þingsæti. Sjálfstæðismenn guldu aftur á móti afhroð, fengu aðeins 27,2% atkvæða og 18 þingmenn. Voru það verstu úrslit í sögu flokksins. Eftir þau bar Þorsteinn Pálsson ekki sitt barr á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins.
„Albertsmálið“ skipti sköpum. Albert Guðmundsson var svipmikill stjórnmálamaður með mikið persónufylgi. Mörgum þótti hann órétti beittur. En meira kom til. Sjálfstæðismennirnir sem stofnuðu Borgaraflokkinn með Albert sögðu að hinn gamli flokkur þeirra hefði breyst til hins verra undanfarin ár. „Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn hrímaður af kaldri ný-frjálshyggju Miltons Friedman,“ sagði Albert sjálfur og Hreggviður Jónsson, einn þeirra frambjóðenda sem náði kjöri á Alþingi, hélt því fram að eftir andlát Bjarna Benediktssonar hefði farist fyrir að viðhalda réttu jafnvægi í flokknum: „Þröngur hópur ræður öllu og flokksræðið er sívaxandi.“[18] Þótt Gunnar Thoroddsen hafi aldrei hugsað sér að stofna nýjan stjórnmálaflokk endurómaði þarna málflutningur hans enda voru margir gamlir Gunnarsmenn í stuðningsliði Borgaraflokksins. Til dæmis skipaði Sveinn Björnsson skókaupmaður heiðurssæti á lista flokksins í Reykjavík og á Vesturlandi skipaði þann sess Skarphéðinn Össurarson bóndi; hans „pólitíska hetja“ var alla tíð Gunnar Thoroddsen.[19]
Útlistun borgaraflokksmanna á þróun Sjálfstæðisflokksins verður vitaskuld að taka með nokkrum fyrirvara. Hún styrkist þó þegar hliðsjón er höfð af þeim skoðunum sem heyrðust innan úr Valhöll. Eftir hrakfarirnar í kosningunum 1987 var skipuð nefnd til að kanna ástæður þeirra, rétt eins gert hafði verið níu árum fyrr. Formaður var Friðrik Sophusson en aðrir í nefndinni voru Inga Jóna Þórðardóttir, Jón Magnússon, Magnús Gunnarsson og Víglundur Þorsteinsson. Hvert þeirra stýrði starfshópi og meginniðurstöðurnar virtust þær að síðastliðin ár hefði yfirbragð Sjálfstæðisflokksins verið „að harðna og þrengjast“, eins og lýst var í áliti þess starfshóps sem Inga Jóna Þórðardóttir stýrði. Víðsýni og umburðarlyndi vantaði og í starfshópi Magnúsar Gunnarssonar kvað við sama tón: „Á seinni árum hefur hugmyndafræðileg umræða aukist innan flokksins og krafan um skýrt afmarkaða stefnu orðið tíðari. Með aukinni kennisetningu hefur málflutningurinn orðið kaldari og meira fráhrindandi. Hugmyndafræðin er orðin að aðalatriði, ekki hvernig ná eigi markmiðunum. Það er oft hægt að ná meiri árangri með því að fara lengri leiðina.“[20] Gunnar Thoroddsen hefði tekið undir hvert orð.
Geir Hallgrímsson lést úr krabbameini í september 1990. Nokkrum mánuðum síðar urðu býsn í Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson, sem var kjörinn varaformaður flokksins á landsfundi árið 1989, tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram gegn Þorsteini Pálssyni. Flestum stuðningsmönnum Þorsteins fannst þessi ákvörðun forkastanleg, að spjótum væri beint að formanni sem vildi sitja áfram. Á þessari skoðun var til að mynda Pétur Kr. Hafstein, sonur Jóhanns Hafsteins og sýslumaður á Ísafirði. Harða gagnrýni á Davíð hóf Pétur með því að vitna í „Býsnavetur“ Matthíasar Johannessens, „einhverja snjöllustu grein um stjórnmál á Íslandi á síðustu árum“. Vítið frá 1980 skyldi vissulega vera til varnaðar:
Nú hefur það enn gerst að pólitískar freistingar bjóða heim nýjum býsnavetri í Sjálfstæðisflokknum og raunar íslenskri pólitík. ... Enn er þar varaformaður flokksins á ferð sem nú heitir ekki Gunnar Thoroddsen heldur Davíð Oddsson. ... Nú fær Þorsteinn Pálsson að vita að Davíð Oddsson kom ekki í stól varaformanns fyrir tveimur árum til þess að efla einingu Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst eða vera formanni sínum bakhjarl, eins og Ólafur Thors gat treyst um Bjarna Benediktsson og Bjarni um Jóhann Hafstein. Þannig gerast kaupin á eyrinni, þegar fallið er fyrir „þessum eilífa egóisma og afdrifaríka, en þó drepleiðinlega metnaði og sjálfsánægju“.[21]
Í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 1991 bar Davíð Oddsson naumlega sigurorð af Þorsteini Pálssyni. Nokkru máli skipti að gamlir Gunnarsmenn munu frekar hafa kosið Davíð en Þorstein.[22] „Bylting er lögleg ef hún lukkast,“ hafði Jón Þorlálsson, hinn „pólitíski fóstri“ Gunnars Thoroddsens, eitt sinn sagt.[23] Fljótlega varð Davíð Oddsson óskoraður leiðtogi flokksins og sjálfstæðismenn komust margir á þá skoðun að óróa- og upplausnarskeiði, sem hófst við fráfall Bjarna Benediktssonar árið 1970, væri loksins lokið.[24]
***
Árið 2005 lést Vala Ásgeirsdóttir Thoroddsen. Síðustu árin hafði hún búið í íbúð sinni við Efstaleiti í Reykjavík og lengst af verið við góða heilsu. Hún vann fyrir kvennadeild Rauða krossins, sinnti öðrum góðgerðastörfum og naut návista við ættingja og vini. Til þess var tekið hve vel fór á með Völu og Ernu Finnsdóttur, ekkju Geirs Hallgrímssonar. Þær komu saman á mannamót og sást glögglega að langvinnar deilur Gunnars og Geirs höfðu ekki spillt vinarþeli milli þeirra.
Í eftirmælum um Völu rifjaði Davíð Oddsson upp þau átök sem hún tók þátt í við hlið manns síns, fyrst árið 1952 þegar faðir hennar var kjörinn forseti. „Sveið lengi í sárum,“ sagði Davíð um þá rimmu og ekki síður þegar Gunnar myndaði stjórn sína árið 1980, „og fór þá gegn formanni flokksins og öllum ályktunum stofnana hans.“ Gunnar hefði hins vegar talið aðra kosti fullreynda og heiður Alþingis hefði verið í húfi. Var það rétt metið? Formaður Sjálfstæðisflokksins kvað ekki upp dóm yfir Gunnari Thoroddsen en boðaði sanngjarnari umræðu þegar fram liðu stundir: „Aldarfjórðungur er frá þessum atburðum og senn kemur að því að hægt verði að fjalla um þá af ró og yfirvegun.“[25] Vonandi eru þeir dagar runnir upp.
„Dómur sögunnar“
Árið 2004, nær aldarfjórðungi eftir hina umdeildu stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens, réð bókaútgáfan Edda mig til að skrifa ævisögu hans. Áður hafði fjölskylda Gunnars lagt til að í verkið yrði ráðist. Ég hef unnið að því síðan, að vísu með hléum og ásamt öðrum störfum. Sagnfræðingur, sem hefur mestan áhuga á stjórnmálasögu síðustu aldar, hefði vart getað fengið fróðlegra viðfangsefni. Við skrifin hef ég oft leitt hugann að álitamálum sem hljóta að vakna við gerð ævisögu; afstöðu eða óskum söguhetjunnar, meðferð heimilda, væntingum ættingja, hefðum í ævisagnaritun, hvort stundum megi satt kyrrt liggja, mikilvægi tilviljana í sögulegri þróun og tengslum söguhetju og sagnaritara. Og síðast en ekki síst hef ég velt fyrir mér „dómi sögunnar“ um Gunnar Thoroddsen.
Söguhetjan. Hvernig ævisögu hefði Gunnar kosið sér? Ekki naut ég sömu forréttinda og Elisabeth Young-Bruehl undir lok síðustu aldar. Þegar hún vann að ævisögu Önnu Freud (1895–1982), dóttur Sigmunds Freud, vitjaði Anna hennar í draumum og hjálpaði til við gerð bókarinnar.[26] Aftur á móti sá ég af samtölum Gunnars við Ólaf Ragnarsson sumarið 1983 og þeim drögum, sem þá urðu til, hvers konar verk þeir höfðu í smíðum; ítarlegt framhald fyrri bókar. Samtalsbækur eða sjálfsævisögur af því tagi hafa kosti og galla. Sjónarmið söguhetjunnar birtist en tæplega gagnrýni á gerðir hennar.[27] Sjálfsagt er að þess háttar rit séu samin og ég hefði getað reynt að búa þau drög sem fyrir lágu til prentunar. En ég taldi meiri feng í annars konar verki. Í ritdómi um hina vinsælu bók Gunnars og Ólafs hafði Sólrún B. Jensdóttir sagnfræðingur minnst á spurningar sem enn væri ósvarað:
Hver er Gunnar Thoroddsen? Hver er persóna þessa manns, sem gegnt hefur flestum æðstu embættum þjóðarinnar í tæplega hálfa öld? Hann var yngstur þingmanna en er nú þeirra elstur og hefur kórónað feril sinn með óvæntri stjórnarmyndun. Hann er vel að sér um íslensk fræði og semur sönglög í tómstundum. Hvert er stolt hans og efasemdir, á hann sér engin áhyggjuefni, hverjar eru tilfinningar hans og hver er trú hans?[28]
Heimildir. Þessum spurningum og mörgum fleiri vildi ég svara. En hvernig yrði það gert þegar maðurinn var allur? Ég studdist mikið við dagblöð og aðrar ritaðar heimildir. Þær eru mistraustar og flokksblöðin geta verið sérlega varasöm. Fyrri rit voru nytsamleg að mörgu leyti, einkum viðtalsbók þeirra Gunnars og Ólafs Ragnarssonar, ævisaga Ólafs Thors og Valdatafl í Valhöll. Dagbækur Kristjáns Eldjárns og Matthíasar Johannessens reyndust líka notadrjúgar.
Ég leitaði fanga í skjalasöfnum heima og erlendis. Skýrslur erlendra sendimanna geta veitt mikilvæga innsýn í stjórnmál á Íslandi. Hér þarf þó einnig að hafa varann á. Stundum sést að útlendingarnir þekktu umfjöllunarefni sitt ekki til hlítar og einatt reiddu þeir sig á heimildarmenn sem sögðust hlutlægir en voru það tæpast.[29] „Kommúnistavitleysan, til dæmis í bandaríska sendiráðinu, var alveg skelfileg, menn sáu kommúnista í hverju horni,“ sagði Baldvin Tryggvason síðar um ástandið í kalda stríðinu.[30] Áður höfðu þeir séð nasista víða eins og Gunnar fékk að kenna á.
Síðastliðin ár hef ég rætt við tugi manna um kynniþeirra af Gunnari Thoroddsen; í neðanmálsgreinum er vísað til frásagna nær hundrað nafngreindra einstaklinga og nokkurra annarra sem ekki vildu láta nafns síns getið. Þannig fengust oft ómetanlegar upplýsingar um óumdeilanlegar staðreyndir. En fólk lét einnig í ljós sterkar skoðanir sem varð að vega og meta. Þar að auki er minni manna brigðult.[31] Hér var aðgát því líka brýn þótt ég hafi ekki viljað ganga eins langt og breski fræðimaðurinn George Painter sem skrifaði eina bestu ævisögu seinni tíma að margra mati um franska rithöfundinn Marcel Proust (1871–1922). Painter reiddi sig nær aldrei á viðtöl og kvaðst hafa verið afvegaleiddur þá sjaldan að hann leyfði sér það. Bréf væru betri en minningar manna, þau breyttust ekki í tímans rás.[32]
Skrifleg gögn Gunnars Thoroddsens eru þungamiðja þessarar bókar. Fljótt komst ég að því að í skjalasafni hans lágu einstæðar heimildir; aragrúi bréfa, minnisblokka og blaðaúrklippa. Dýrmætastar voru dagbækurnar, skráðar frá barnsaldri og fram á seinustu ævidaga. Í þeim var ekki aðeins að finna ítarlegar heimildir frá löngum stjórnmálaferli heldur einnig einlægar lýsingar á vonum, áformum og vanda Gunnars hverju sinni. Að vísu voru dagbækurnar gloppóttar og stundum erfitt að ráða í þær. Skriftin gat reynst illlæsileg eða þá að setningar vöktu fleiri spurningar en svör. „Magnús Óskarsson, um tiltekin djúp ráð,“ skrifaði Gunnar til dæmis vorið 1977.[33] Og þótt Gunnar væri einatt einlægur í dagbókarfærslum sínum gerði hann ráð fyrir að þær kæmu að gagni þegar saga hans yrði skráð. Þetta þóttist ég vita en þeir sem ég ráðfærði mig við í skrifunum hvöttu mig til að vera ætíð á verði:
Þú mátt ekki sjá atburðina með augum GTh, og þú mátt ekki treysta því sem hann skrifar í dagbók sína eða minnisblöð. Þau eru aðeins vitnisburður um hugarheim hans sjálfs; sannleikurinn (ef hann er til; allavega er hagkvæmt að reikna með honum) er einhvers staðar annars staðar oft og tíðum. Og þú skapar mikið sympatí með GTh með tilvitnunum í dagbók hans o.fl. Mér hefur stundum komið í hug að kannski sé dagbókin færð í vissu skyni; til að skrá sérstakan sannleika, ætlaðan honum sjálfum eða öðrum sem vildu gera lífi hans skil; þ.e. að hún sé ekki genúín, heldur meðvitað tæki. Rétt eins og hann (alveg frá æskudögum) stillir sér sérstaklega upp í öllum myndatökum: svona skal ég líta út; og þá: svona skal um mig skrifað![34]
Greinilegt er þó að margt skráði Gunnar ekki í dagbók sína í því skyni að það birtist síðar á prenti. Þetta er mála sannast um áfengisbindindi og brostin fyrirheit. Og vart ætlaðist hann til að upplýsingar um atkvæðakaup og ýmiss konar fyrirgreiðslu kæmu fyrir almennings sjónir. Ekki verður séð að Gunnar hafi reynt að ritstýra ævisögu sinni með því að eyða gögnum eins og dæmi eru um. Eitt sinn velti hann þó fyrir sér – eftir að hafa fellt palladóma um menn og málefni í dagbók sinni – að það allt væri „kannski ekki birtingarhæft fyrr en fimmtíu árum eftir að ég er allur“.[35]
Ættingjar. Þegar vinir mínir og kunningjar fréttu af bókarrituninni spurðu sumir helst hvort ég myndi skrifa um „drykkju“ Gunnars, eða hvort ég „fengi“ að skrifa um hana. Svar við því fékk ég fljótlega. „Þú ætlar að skrifa um áfengismálin?“ sagði Dóra Thoroddsen við mig þegar ég bar mig eftir heimildum í hennar vörslu um afa hennar, Sigurð Thoroddsen.[36] Síðan afhenti hún mér blað úr fórum sínum með vísum eftir Gunnar:
Geng ég nú til glímu við
gróinn fjandmann liðins tíma,
voldugt er mitt vina lið,
vinnast mun sú harða glíma.
Víst ég tel það vera minn
vesaldóm á lægsta stigi
að gefast upp í sérhvert sinn
er syngur Bacchus tál og lygi.[37]
Afstaða barna Gunnars til ritunar þessarar ævisögu hefur verið aðdáunarverð. Þau reyndu engin áhrif að hafa á efnistök og ætluðust síst af öllu til að samin yrði lofgjörð um föður þeirra. Um það var eingöngu rætt að sagan skyldi sögð af sanngirni og nærgætni en einnig hreinskilni og hispursleysi.[38] Í því gat reyndar falist áhætta fyrir mig. Þess eru dæmi að fallið hafi verið frá ritun ævisagna og sjálfsævisagna þegar söguhetju eða ættingjum hennar þótti ljóst að stefndi í óefni.[39] Áhættan var þó frekar í huga barna Gunnars. Hver yrði niðurstaða sagnfræðingsins? Þekktir menn hafa löngum brugðið á það ráð skrifa sjálfsævisögu sína svo sagnaritararnir freistist ekki til að fara sínum ómjúku höndum um þá.[40] Minnumst þess einmitt aftur að síðustu mánuði fyrir andlát sitt vann Gunnar Thoroddsen að endurminningum sínum eins og kraftar hans leyfðu. Í samtali við Matthías Johannessen sagði Bjarni Benediktsson líka eitt sinn: „Við eigum að skrifa söguna sjálfir, hinum er ekki treystandi til þess!“[41] Börn Gunnars Thoroddsens sýndu mér mikið traust.
Hefðir. Traustið var ekki sjálfsagt. Á Íslandi hefur lengi tíðkast að ævisögur séu eins og eftirmæli þar sem í engu er hallað á hinn látna. Þeim hefur einnig verið líkt við biskupasögur til forna eða bautasteina og varnarskjöl. Gagnrýni á söguhetjuna hefur lítt gætt eða ekki, hún er frekar hafin upp til skýjanna.[42] Öðru máli hefur gegnt víða erlendis. Bók James Boswell (1740–1795) um rithöfundinn Samuel Johnson (1709–1784) hefur verið kölluð fyrsta nútíma ævisagan. Miklu skipti að Boswell sagði bæði kost og löst á söguhetjunni og smám skapaðist hefð fyrir slíkum efnistökum á Vesturlöndum, í það minnsta í hinum enskumælandi heimi.[43]
Um svipað leyti og ég hóf mín bókarskrif var því reyndar haldið fram að ævisagnaritun hér á landi hefði loksins tekið stakkaskiptum. Í erindi í ReykjavíkurAkademíunni árið 2003 sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands: „Sá lofsöngur um æviverkið sem áður var aðal slíkra verka hefur vikið fyrir markvissri skoðun þar sem mistök, breyskleiki, ósigrar og áföll fá þann sess í túlkun sem nauðsynlegt er svo hægt sé að veita raunsanna heildarmynd.“ Fimm árum síðar birtist bók Guðjóns Friðrikssonar rithöfundar um forsetatíð Ólafs Ragnars. Guðjón var þá vændur um að sjá söguhetjuna í miklum ljóma. Sér til málsbóta sagðist hann ekki hafa ætlað sér að skrifa ævisögu eða „mjög gagnrýna bók um forsetann“. Hefði hann haft það í huga hefði hann „hvorki fengið samvinnu og viðtöl við forsetann né heldur aðgang að skjölum hans með sama hætti og ég gerði. Ég hefði einfaldlega ekki haft trúnað hans.“[44]
Sjálfur sætti ég engum hömlum. Kannski þykir það ennþá óvenjulegt á Íslandi en auðvitað hafa skilyrði af þessu tagi ekki aðeins þekkst hérlendis. Ytra eru oft skrifaðar „samþykktar“ – authorized – ævisögur þar sem höfundur fær aðgang að gögnum með skýrum fyrirvara um efnistök. Yfirleitt þykja þær ekki eins trúverðugar fyrir vikið.
„Oft má satt kyrrt liggja.“ Hreinskilni og hispursleysi hljóta að öllu jöfnu að teljast til kosta í ævisögum. Engu að síður er lítill sómi í að segja frá mistökum og brestum í fari manna nema það skipti greinilega máli; að einungis þannig verði skýru ljósi varpað á lunderni og lífshlaup þeirra. Á þennan hátt má réttlæta að sagt sé frá „viðkvæmum“ þáttum í ævi fólks sem það sjálft hefði kosið að þagað yrði um.[45] Aldrei ræddi Gunnar Thoroddsen opinskátt um áfengisvandamál sitt. Dagbækur hans sýna hins vegar hve þungt það lá á sálu hans. Viljastyrkurinn, sem var annars svo mikill, dugði skammt.
Tilviljanir. Síðustu áratugi hefur svonefnd einsaga, microhistory, fengið aukið vægi í heimi sagnfræðinnar. Sjónum er þá beint að hinu sérstaka frekar en hinu almenna.[46] Þótt sagnfræðingar verði að geta horft yfir allan völlinn – séð skóginn fyrir trjánum – ætti rannsókn á einstöku lífshlaupi að hjálpa þeim til að átta sig á hvað framvinda sögunnar er óendanlega flókin, margslungin og miklum tilviljunum háð.[47] Lítum hér á nokkur lykilatvik í ævi Gunnars Thoroddsens:
Kynni af Völu Ásgeirsdóttur laust fyrir seinni heimsstyrjöld. Örlögin hefðu hæglega getað hagað því þannig að Gunnar, sem nálgaðist fertugsaldur, hefði verið trúlofaður eða kvæntur þegar hann kynntist Völu. Þá hefðu þau ekki fellt hugi saman og hann hefði ekki orðið einn helsti bandamaður Ásgeirs Ásgeirssonar nokkrum árum síðar.
Úrslit forsetakosninganna 1952. Mjótt var á munum þegar upp var staðið. Hefði séra Bjarni Jónsson borið sigur úr býtum hefði staða Gunnars í Sjálfstæðisflokknum orðið önnur, líkast til mun verri.
Andlát Dóru Þórhallsdóttur 1964. Hefði forsetafrúin látist snemma árs 1964 en ekki að hausti hefði Ásgeir Ásgeirsson tæplega boðið sig fram til endurkjörs um sumarið. Gunnari hefði verið í lófa lagið að sækjast eftir kosningu. Staða hans hefði væntanlega verið betri en raun var á fjórum árum síðar. Gunnar hefði mögulega getað setið á forsetastóli í 16 ár, farsæll og vinsæll. Í ársbyrjun 1980 hefði hann þá tilkynnt (í stað þess að undirbúa á laun myndun ríkisstjórnar) að nú liði að því að hann settist í helgan stein.
Borgarstjórnarkosningar 1970. Sigur sjálfstæðismanna það ár stóð tæpt. Hefði Geir Hallgrímsson „misst borgina“ hefði hann staðið illa að vígi í baráttu við Gunnar um embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins árið eftir. Hefði Gunnar þá haft sigur hefði leið hans í formannsstól jafnvel verið greið. Í óformlegum samtölum við mig hafa allmargir sjálfstæðismenn – meira að segja þeir sem töldu Gunnar „óhæfan til forystu“ – velt því fyrir sér hvort það hefði í raun orðið Sjálfstæðisflokknum fyrir bestu (og að þeirra mati þjóðinni um leið) að Gunnar Thoroddsen hefði orðið formaður flokksins og væntanlega forsætisráðherra. Geir Hallgrímsson hefði öðlast reynslu á Alþingi og í fagráðuneyti og tekið við formennsku af Gunnari eftir um áratug. „Óróaskeiðinu“ hefði verið afstýrt.
Fráfall Bjarna Benediktssonar 1970. Sviplegt andlát leiðtoga hefur einatt mikil áhrif á framvindu sögunnar. Hefði bruninn á Þingvöllum ekki orðið hefði Gunnari reynst illmögulegt að ná þeim metorðum sem hann aflaði sér næstu ár. Bjarni Benediktsson hefði áfram staðið í vegi hans. Jafnframt má minna á að hefði Gunnar ekki sagt af sér embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins og gerst sendiherra árið 1965 hefði hann tekið við formennsku í flokknum við fráfall Bjarna.
Prófkjör 1979. Ekki virtist líklegt að Gunnar héldi öruggu sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri fyrir alþingiskosningar 1979. Hefði hann fallið af þingi hefði stjórnmálaferli hans verið lokið. Stjórnarmyndun hans hefði aldrei átt sér stað.
Veikindi 1982. Örlögin höguðu því svo að Gunnar varð helsjúkur árið 1982 en ekki nokkrum árum síðar (eða fyrr). Hefði Gunnar áfram verið í fullu fjöri hefði brotthvarf hans úr íslenskum stjórnmálum trúlega borið að með öðrum hætti. Hver veit nema hann hefði áfram látið að sér kveða á þeim vettvangi.
Samkomulag um ævisögu 2004. Napóleon Bonaparte sagði eitt sinn að engir gætu breytt gangi sögunnar eins mikið og sagnfræðingarnir. Röð tilviljana olli því að ég tókst þetta verk á hendur. Ævisaga Gunnars Thoroddsens hefði litið allt öðruvísi út ef einhver annar hefði skrifað hana. Eflaust hefði hún orðið betri að margra mati (og hún hefði væntanlega orðið styttri).
Sagnaritarinn og söguhetjan. Ég var fjögurra daga gamall þegar Gunnar Thoroddsen beið sinn mikla ósigur 30. júní 1968. Ég var ekki fermdur þegar hann myndaði ríkisstjórn sína í febrúar 1980. Ég hitti Gunnar Thoroddsen aldrei, man óljóst eftir myndum af honum í sjónvarpi.
Færa má rök fyrir því að þeir, sem voru ekki á vettvangi eða nærri honum, eigi erfitt með að lýsa því sem gerðist hverju sinni enda verða þeir að reiða sig á frásagnir annarra.[48] Á sínum tíma var James Boswell löngum stundum með Samuel Johnson sem sagði sjálfur að hefðu menn ekki etið og drukkið og spjallað með söguhetju sinni væri þeim vita ómögulegt að skrifa um hana.[49]
Á hinn bóginn getur nálægðin líka blindað. Ólafur Ragnarsson var einlægur aðdáandi Gunnars Thoroddsens, Matthíasi Johannessen sýndist sem Ólafur Thors hefði vart stigið feilspor á sinni löngu ævi. Höfundarnir stóðu of nærri söguhetjum sínum. Fullkomin fjarlægð er þó tæpast eftirsóknarverð. Ævisagnaritari þarf að reyna að skilja orð og gerðir þess sem skrifað er um. Og þá er samúð ekki langt undan. Snemma á síðustu öld ruddi Lytton Strachey (1880–1932) nýjar brautir í ævisagnagerð á Vesturlöndum. Hann lifði sig inn í hugarheim þeirra sem hann skrifaði um en einsetti sér um leið að gæta ýtrustu hlutlægni. Í frægri bók hans um Viktoríu drottningu fannst sumum þó engu líkara en hann hefði orðið ástfanginn af henni.[50] Þá lýsti sagnaritari Bjargar C. Þorláksson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, því eitt sinn að hún hefði ætlað sér að hrekja þau „ósannindi“ að Björg, sú merka kona, hefði verið trufluð á geði. Einn gráan haustmorgun stóð hún hins vegar fyrir utan sjúkrahús í Frakklandi sem söguhetja hennar hafði dvalist á og sá að það var gamalt geðveikrahæli. „Þá varð ég ... að horfast í augu við gildishlaðnar hugmyndir mínar um hvernig hlutirnir væru eða hvernig ég vildi að þeir væru,“ skrifaði Sigríður Dúna.[51]
Þessar lýsingar las ég þegar ég vann að þessari bók um Gunnar Thoroddsen. Ég hugsaði að bragði með mér: Er ég orðinn of hugfanginn? Sé ég ekki hinu augljósu lesti í fari Gunnars? Verður dómur minn um Gunnar of hliðhollur honum? Mun hann ekki samræmast hinum miskunnarlausa dómi sögunnar?
„Dómur sögunnar.“ Í upphafi bókarinnar birtist lýsing Gunnars Thoroddsens á eigin hvötum og sjónarmiðum. Þau hefðu alltaf verið heiðarleg, að vilja vel og verða öðrum að liði. „Þessi er dómur minn um mig,“ sagði Gunnar og var í mun að hans yrði minnst að verðleikum.[52]
Misjafnir dómar féllu um Gunnar í lifanda lífi. Andstæðingar hans brugðu honum einkum um að stjórnast af taumlausri metorðagirnd eins og fram hefur komið. Sú var áfram raunin eftir andlát hans og kannski verður engin breyting á því í framtíðinni. Þegar Anders Hansen, annar höfunda Valdatafls í Valhöll, hafði lesið handrit að þessari ævisögu ályktaði hann að hún yrði „aðeins sorglegur vitnisburður um óvenjulega grímulausan valda- og metorðaþorsta“.[53] En breytir tíminn þá engu? Færist ró aldrei yfir sviðið?
Árið 2004 sagði Hreinn Loftsson, meðhöfundur Andersar, að ef hann myndi skrifa um efni Valdataflsins á ný yrðu efnistökin önnur og niðurstöðurnar sömuleiðis. Hann hafði þá sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og leit fortíðina öðrum augum en áður. „Mér fannst hann hafa brugðist flokknum,“ sagði Hreinn um Gunnar, „og það má vera að það hafi litað frásögnina.“[54] Nokkru áður hafði Matthías Johannessen líka rifjað upp hinar miklu skærur innan flokksins í formannstíð Geirs Hallgrímssonar. „En allt er þetta fróðlegt íhugunarefni,“ sagði skáldið í dagbók sinni, „og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að maður hefur ekki endilega skilið alla hluti rétt. Þetta er afstæður leikur og fer eftir því hvaðan maður fylgist með. Við Styrmir fylgdumst með úr herbúðum Geirs.“[55]
Þetta er hverju orði sannara og síðastliðna áratugi hefur afstæðis- og efahyggja aukist í rannsóknum á liðinni tíð.[56] Þeir eru vart til lengur sem halda því fram að unnt sé að finna hinn eina rétta sannleik. Reyndar eru þetta ekki ný sannindi þegar vel er að gáð. Þannig sagði hinn vinsæli breski sagnfræðingur, George Macauley Trevelyan (1876–1962), að í hvert skipti sem hann heyrði einhvern tala fjálglega um „dóm sögunnar“ vissi hann að sá maður væri aðeins að reyna að klæða eigin skoðanir í virðulegri búning.[57]
Gunnar Thoroddsen hefði því getað andað léttar. „Dómur sögunnar“ er ekki til. Á hinn bóginn eru „dómar sögunnar“ til; ályktanir hvers og eins um fortíðina, því sennilegri sem rökin og heimildirnar að baki virðast traustari. Efahyggjan má nefnilega ekki hlaupa í öfgar. Þótt sannleikurinn eini finnist aldrei felst góð sagnfræði í að leita hans.
Þegar ég hóf þetta verk hafði ég engar mótaðar hugmyndir um Gunnar Thoroddsen. Smám saman kynntist ég geðþekkum, gáfuðum og einbeittum manni, fullum vona og metnaðar. Gunnar var mörgum kostum búinn; fágaður, viðkunnanlegur, víðlesinn og vel gefinn. Hann kom mörgu í verk í embættum sínum. Síðustu áratugi hafa fáir forsætisráðherrar notið eins mikilla vinsælda meðal almennings og Gunnar Thoroddsen. Sannfærandi eru líka orð hans um gildi eigin sannfæringar og flokkshollustu sem geti gengið of langt. Þá finnst mér barátta hans og sigur á eigin breyskleika sýna betur en flest annað hve viljasterkur og agaður hann var.
Vissulega tók Gunnar þátt í vafasamri fyrirgreiðslu innan stjórnkerfisins og hann gat sýnt klæki á vettvangi stjórnmálanna. Metnaður Gunnars varð mér jafnframt umhugsunarefni og sömuleiðis meðulin sem hann beitti stundum. En metnaður hans var hvorki taumlaus né einstakur. Kapplausir ráðamenn fyrirfinnast vart og Gunnar Thoroddsen sóttist ekki eftir veraldlegum auði eins og margir sem komast til áhrifa. Ekki þráði hann heldur völd valdanna vegna. Hann vildi sæmd og hann vildi vel. Orð Jóns Thoroddsens um Finn Magnússon, prófessor og fornfræðing, eiga við um dr. Gunnar Thoroddsen:
Þá var hans hugur í heimi,
og hvatur til starfa,
skylduverk skyldi hann vinna
að skipan góðs hjarta;
góðverk hans gjörð voru eigi
á gángstígum hræsnis,
gladdist hans geð, er þau urðu
til góðs, þeim er nutu.[58]
[1]„Litróf samtíðarinnar“ og „Einn áhrifamesti og merkasti stjórnmálamaður þessa lands“, Morgunblaðið 27. sept. 1983.
[2]„Dr. Gunnar Thoroddsen“, Þjóðviljinn 30. sept. 1983 (minningarorð Svavars Gestssonar). „Gunnar Thoroddsen“, Morgunblaðið 30. sept. 1983 (minningarorð Geirs Hallgrímssonar).
[3]Fyrir yfirlit um ævi og störf Geirs Hallgrímssonar þar sem kostum hans er einkum lýst, sjá: Jónína Michaelsdóttir, „Geir Hallgrímsson“. Forsætisráðherrar Íslands, 351–371. Fyrir lýsingar á kostum og göllum Geirs, sjá einnig: Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Þrír sjálfstæðismenn segja frá“, Morgunblaðið 22. jan. 1983 (ritfregn). Davíð Oddsson, „Geir Hallgrímsson“, 59. Pálmi Jónasson, Sverrir – skuldaskil, 87–88. MJ. Dagbók 7. sept. 1990.
[4]GTh. Ingvar Gíslason til Gunnars, 9. sept. 1983.
[5]„A-flokkarnir eiga að vera burðarásinn“, Alþýðublaðið 28. mars 1996 (viðtal við Svavar Gestsson).
[6]Gunnar G. Schram, „Gunnar Thoroddsen“, Andvari 111 (1986) 5–49.
[7]„Formáli“. Forsætisráðherrar Íslands, 7–8.
[8]Jón Ormur Halldórsson, „Gunnar Thoroddsen“. Forsætisráðherrar Íslands,395–396.
[9]Ólafur Ragnarsson, Gunnar Thoroddsen, 57.
[10]Sjá: Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir, „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“. Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir VIII (Reykjavík 2010), einkum 179.
[11]Jón Ormur Halldórsson, „Gunnar Thoroddsen“, 397.
[12]Sjá t.d.: „Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið 21. nóv. 1999 og 14. des. 2003.
[13]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið 14. des. 2003.
[14]Sjstfl. 15. Fundargerð fundar þingflokks og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Hótel Stykkishólmi 28.–29. sept. 1985. Sjá einnig: Örnólfur Árnason, Járnkarlinn, 229–230.
[15]MJ. Dagbók 26. apríl og 13. júlí 1996. GJ. Frásögn Þorvalds Garðars Kristjánssonar. Davíð Oddsson, „Geir Hallgrímsson“, 56.
[16]Sama heimild.
[17]Sjstfl. „Nokkrar staðreyndir á máli Alberts Guðmundssonar“. Greinargerð án dags. en frá vori 1987. Sjá einnig: Steinar J. Lúðvíksson, „Þorsteinn Pálsson“. Forsætisráðherrar Íslands, 442–443.
[18]„Borgaraflokkurinn sækir styrk sinn í vinnandi fólkið í landinu“,og „Aflið sem laðaði til sín fylkingu fólks“, Borgaraflokkurinn 1, apríl 1987, 3 og 7.
[19]„Skarphéðinn Össurarson“, Morgunblaðið 14. apríl 2004 (minningarorð Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur).
[20]Sjstfl. 10.13.2. Skýrslur nefndar til að kanna orsakir kosningaúrslitanna 1987.
[21]Pétur Kr. Hafstein, „Freistingar“, Morgunblaðið 28. febr. 1991.
[22]GJ. Frásögn heimildarmanns.
[23]Gunnar Thoroddsen, „Aldarminning Jóns Þorlákssonar“ (fjölritað æviágrip), 11.
[24]Sjá t.d.: Hafsteinn Þór Hauksson og Jóhann Pétur Harðarson, „Maðurinn sem færði miðjuna til hægri!“, Stefnir 54 (2004), 13.
[25]„Vala Ásgeirsdóttir Thoroddsen“, Morgunblaðið 21. mars 2005 (minningarorð Davíðs Oddssonar).
48. kafli. „Dómur sögunnar“
[26]Elisabeth Young–Bruehl, Subject to Biography. Psychoanalysis, Feminism, and Writing Women’s Lives (Cambridge, Massachusetts 1998), 3.
[27]Fyrir umfjöllun í þessa veru um sjálfsævisögur, sjá: Janina Bauman, „Memory and Imagination: Truth in Autobiography“, Thesis Eleven 70 (ág. 2002), 26–35. Jude Sharkey, „Lives Stories Don’t Tell: Exploring the Untold in Autobiographies“, Curriculum Inquiry 34/4 (2004), 495–512. Sigurður Gylfi Magnússon, Sjálfssögur. Minni, minningar og saga (Reykjavík 2005), 97–178.
[28]Sólrún B. Jensdóttir, „Hver er maðurinn að baki stjórnmálamannsins?“, Helgarpósturinn 23. des. 1981 (ritdómur).
[29]Fyrir umfjöllun um þennan vanda, sjá: John Lewis Gaddis, „On Starting All Over Again: A Naïve Approach to the Study of the Cold War“. Odd Arne Westad (ritstj.), Reviewing the Cold War. Approaches, Interpretations, Theory (Lundúnum 2000), 38.Jonathan Haslam, „Collecting and Assembling Pieces of the Jigsaw: Coping with Cold War Archives“, Cold War History, 4/3 (2004), 150–151.
[30]GJ. Frásögn Baldvins Tryggvasonar.
[31]Um brigðult minni og kosti og galla munnlegra heimilda, sjá t.d.: Carsten Tage Nielsen og Mads Mordhorst (ritstj.), Fortidens spor, nutidens øjne – kildebegrebet til debat (Kaupmannahöfn 2001). Sigurður Gylfi Magnússon, Sjálfssögur, 101–103.
[32]Sjá: Jeffrey Meyers, „George Painter’s Marcel Proust“. Jeffrey Meyers (ritstj.), The Biographer’s Art. New Essays (Basingstoke 1989), 132–133.
[33]GTh. Dagbók 13. maí 1977.
[34]GJ. Frásögn heimildarmanns.
[35]GTh. Dagbók 10. sept. 1961.
[36]GJ. Minnisblað 22. nóv. 2005.
[37]DTh. Minnisblað án dags.
[38]GJ. Greinargerð 21. jan. 2005. Um samband sagnaritara og ættingja söguhetju, sjá einnig: Rosemary Sullivan, „Writing Lives“. Constance Rooke (ritstj.), Writing Life. Celebrated Canadian and International Authors on Writing and life (Toronto 2006), 367–380. James L. Clifford (ritstj.), Biography as an Art. Selected Criticism 1560–1960 (Lundúnum 1962), 113–115.
[39]Sjá t.d.: Erling Bjøl, Hvem bestemmer? Studier i den udenrigspolitiske beslutningsprocess (Kaupmannahöfn 1983), 8–9. Þar lýsir Bjøl því að þeir Jens Otto Krag, forsætisráðherra Danmerkur, hefðu unnið að sjálfsævisögu Krags en orðið ósammála um efnistök og ekkert orðið úr. Sjá einnig lýsingar á ágreiningi um efnistök við ritun endurminninga Maríu Guðmundsdóttur. Ingólfur Margeirsson, María. Konan bak við goðsögnina (Reykjavík 1995), 290–291.
[40]Sjá t.d.: Justin Kaplan, „The „Real Life““. Stephen B. Oates (ritstj.), Biography as High Adventure. Life-Writers Speak on Their Art (Amherst, Massachusetts 1986), 72.
[41]MJ. Dagbók 1998. Færsla án dags.
[42]Guðmundur Hálfdanarson, „Biskupasögur hinar nýju. Um ævisögur fjögurra stjórnmálamanna“, Saga 31 (1993), 169–190. Guðmundur Andri Thorsson, „Leyfum honum að göslast,“ Fréttablaðið 13. okt. 2003. Sjá einnig: Sigurður Gylfi Magnússon, Sjálfssögur, 97–178.
[43]Sjá: Christopher Hibbet, „Introduction“. James Boswell, The Life of Samuel Johnson (Harmondsworth 1979 (upphafl. útg. 1791)), 7–28.
[44]Vef. „Ávarp forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar í ReykjavíkurAkademíunni 27. nóvember 2003“. www.forseti.is → Ræður og kveðjur → Ræður 2003. Guðjón Friðriksson, „Um „lofræðu“ mína“, Morgunblaðið 22. des. 2008.
[45]Fyrir umfjöllun um þetta, sjá t.d.: Barbara Tuchman, „Biography as a Prism of History“. Oates (ritstj.), Biography as High Adventure, 102–103. Eugene Goodheart, „Leon Edel’s Henry James“. Jeffrey Meyers (ritstj.), The Biographer’s Art, 153.
[46]Fyrir yfirlit um efnistök einsögunnar, sjá t.d.: Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon (ritstj.), Einsagan – ólíkar leiðir. Átta ritgerðir og eitt myndlistarverk (Reykjavík 1998). Georg Iggers (Eiríkur K. Björnsson, Ólafur Rastrick og Páll Björnsson þýddu), Sagnfræði á 20. öld: Frá vísindalegri hlutlægni til póstmódernískrar gagnrýni (Reykjavík 2004), 117–134.
[47]Á seinni árum hafa skrif fræðimannsins og rithöfundarins Nassims Nicholas Taleb um þessi sannindi vakið mikla athygli. Sjá einkum: Nassim Nicholas Taleb, Fooled by Randomness. The Hidden Role of Chance in Life and the Markets (New York 2. útg. 2005). The Black Swan. The Impact of the Highly Improbable (New York 2007).
[48]Fyrir nánari umfjöllun mína um þetta, sjá: Guðni Th. Jóhannesson, „Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?“, Ritið 4/1 (2004), 181–188.
[49]Sjá: John A. Vance, Samuel Johnson and the Sense of History (Athens, Georgíu 1984), 154.
[50]Catherine Drinker Bowen, „The Biographer’s Relationship with His Hero“. Stephen B. Oates (ritstj.), Biography as High Adventure, 68. Sjá einnig: Jill Lepore, „Historians Who Love Too Much: Reflections on Microhistory and Biography“, The Journal of American History 88/1 (2001), 129–144.
[51]Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „„Styttu nú stundir konúngi þínum…“. Um mannfræði og ævisögurannsóknir“. Irma Erlingsdóttir (ritstj.), Fléttur II. Kynjafræði – kortlagningar (Reykjavík 2004), 84. Sjá einnig: Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Björg. Ævisaga Bjargar C. Þorláksson (Reykjavík 2001), 283–304.
[52]Sjá bls. XX.
[53]GJ. Anders Hansen, „30 ára afmæli Valdatafls í Valhöll“. Greinargerð 26. ág. 2010.
[54]„Forsætisráðherra er í slæmum félagsskap“ DV 1. maí 2004 (viðtal við Hrein Loftsson).
[55]MJ. Dagbók 15. okt. 1998.
[56]Fyrir yfirlit um það, sjá t.d.: Iggers, Sagnfræði á 20. öld, 113–159.
[57]Sjá: Fritz Stern (ritstj.), The Varieties of History. From Voltaire to the Present (New York 2. útg. 1972), 243.
[58]Jón Thoroddsen, Kvæði (Kaupmannahöfn, 2. útg. 1919), 173.