Skip to Content

Leiðréttingar

Jón Þorláksson allur

Leitt var að gerast sekur um ónákvæmni í sambandi við andlát Jóns Þorlákssonar, vildarvinar og venslamanns Gunnars. Í stuttu skrifi um bókina benti Hannes Hólmsteinn Gissurarson á þetta og sagði réttilega: "Ég hnaut um það, að Guðni kveður (160. bls.) Jón Þorláksson hafa látið af embætti borgarstjóra 1935. Jón lést, á meðan hann gegndi embættinu, en lét ekki af því. Þetta er óeðlilegt orðalag, þótt smáatriði sé." Hinu má líka halda til haga að Hannesi leist vel á bókina og sagði: "Ég er að lesa hina miklu ævisögu Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Hefur Guðni haft aðgang að frábærum heimildum, ekki aðeins dagbók Gunnars, heldur einnig drögum að sjálfsævisögu og margvíslegum öðrum gögnum, og unnið vel og samviskusamlega úr þeim, að því er ég fæ best séð."

Gunnar ekki við brúðkaup

Á bls. 160 segir ranglega að árið 1956 hafi Gunnar flutt vinafólki sínu, Sigurði Bjarnasyni frá Vigur og Ólöfu Pálsdóttur, vísu við brúðkaup þeirra. Þetta er rangt, Gunnar var hvergi nærri. Hins vegar sendi hann brúðhjónunum boðskapinn og réttilega er sagt frá því í bókinni að vísan var birt í Mánudagsblaðinu, Gunnari til nokkurrar armæðu að eigin sögn, þó að mig gruni að hann hafi nú í aðra röndina haft gaman af því að kveðskapurinn komst á þrykk. Á missögnina var bent í sandkorni á vef DV og gekkst ég þar fúslega við mistökunum - en hélt reyndar ennþá þeim sannleik á loft að vísan umrædda hefði víst birst í Mánudagsblaðinu þó að Sigurður og fjölskylda hans hefðu borið brigður á það.

Fleiri en einn refur í pólitík

Versta villan í bókinni er klaufaleg, meinleg og svo vitlaus vegna þess að hefði maður hugsað rökrétt hefði hún ekki ratað á prent og valdið manni meira hugarangri en hún ætti að gera. Á bls. 244-245 er rakin grein "Lúpusar" í Þjóðviljanum 22. júní 1952 um Gunnar Thoroddsen, frábær skrif og hæðin. Ég mundi vel - of vel - að Helgi Sæmundsson skrifaði fræga palladóma um menn undir þessu dulnefni. Undrun yfir því að kratinn Helgi skrifaði í kommablaðið vék fyrir þeirri kolröngu ályktun að einungis einn maður notaði þetta heiti við skrif sín. Hið sanna er að sá "Lúpus" sem þarna hélt á penna var hinn ritsnjalli Sverrir Kristjánsson, og er greinin endurprentuð í ritsafni hans, Ræður og riss.

Gunnar Hall var ekki íhald

Á bls. 242 er Gunnar Hall stórkaupmaður talinn til sjálfstæðismanna sem unnu að kjöri Ásgeirs Ásgeirssonar 1952. Það mun vera rangt að Gunnar hafi stutt Sjálfstæðisflokkinn. Aftur hrapar maður að ályktunum. Maðurinn er stórkaupmaður, hann er í harðsnúnu liði Gunnars Thor. í baráttunni fyrir Ásgeir. Ergo: Hann hlýtur að vera íhald.

Fleiri en Hermann og Ólafur

Á bls. 245-246 er frásögn af útvarpsumræðum vegna forsetakjörsins 1952. Hún er ónákvæm. Þá töluðu ekki aðeins Ólafur Thors og Hermann Jónasson fyrir sína flokka, eins og segir í ritinu, heldur einnig Steingrímur Steinþórsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.

Rangur dagur

Á bls. 247 segir ranglega að úrslit í forsetakjöri hafi verið ljós að kvöldi 30. júní, á að vera 1. júlí. Ekki er til sóma hvað margar klaufavillur hafa slæðst inn í þennan kafla í sögunni, lykilár í stjórnmálasögu Gunnars.



Drupal vefsíða: Emstrur