Skip to Content

"Síldarævintýrið mikla. Dæmisaga um íslenskar öfgar?" Erindi á málþingi á Síldarminjasafni Íslands 23. júní 2012.

Laugardaginn 23. júní var haldin árleg Jónsmessuhátíð Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði. Hátíðin var tileinkuð 100 ára sögu fiskimjöls- og lýsisiðnaðar í landinu. Ég flutti þar erindi sem nefnist "Síldarævintýrið mikla. Dæmisaga um íslenskar öfgar?" Erindið hefur einnig verið birt í Hellunni, bæjarritinu góða nyrðra.

Auk mín fluttu á málþinginu erindi Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur og Jón Reynir Magnússon, fyrrverandi forstjóri S.R., þess risa í síldarsögunni. Bæði voru þau fróðleg og skemmtileg. Safnstjórinn Örlygur Kristfinnsson og Aníta Elefsen, rekstrarstjóri þess (og nýútskrifaður sagnfræðingur) báru hitann og þungann af undirbúningi málþingsins. Nánari fregnir af því má sjá hér og hér. Að þingi loknu var slegið á léttari strengi og sáu um það tvíeykið frábæra Hundur í óskilum. Frábærast í þeim hluta þingsins þótti mér lag þeirra um 26. grein stjórnarskrárinnar. Ekki hef ég fundið það á youtube en læt fylgja hér slóð til eins nýjasta lags þeirra.

Síldarminjasafnið á Siglufirði er einstaklega skemmtilegt safn. Metnaðurinn sem Örlygur og hans fólk hefur lagt í safnið er til háborinnar fyrirmyndar eins og karlinn sagði. Sama má segja um bók Örlygs, Svipmyndir úr síldarbæ, þar sem margur kynlegur kvistur kemur við sögu og sagður kostur og löstur, en af næmni, skilningi og auðvitað kímni þegar við á.

Sjálfur kom ég fyrst til Siglufjarðar snemma á síðasta áratug síðustu aldar. Þetta er ekki sami staður og þá. Læt fylgja hér mynd af eldri sonunum í hinum fallega bæ Siglufirði.Drupal vefsíða: Emstrur