Skip to Content

Ummæli

Reykjavíkurbréf um sagnfræðinginn unga sem áttaði sig ekki á öllu

Sunnudaginn 27. nóvember 2005 var „Reykjavíkurbréf“ Morgunblaðsins lagt undir bókina sem þá var nýkomin út. Þótti mér þetta í einlægni mikill heiður, og þykir enn. Styrmir Gunnarsson skrifaði bréfið örugglega. Þó að ég sé og hafi verið honum ósammála um margt (ekki síst Gunnar Thoroddsen og sess hans í sögunni) hefur Styrmir ætíð verið mér vingjarnlegur. „Reykjavíkurbréfið“ má finna hér.

Margt fróðlegt og skemmtilegt má lesa í þessari umfjöllun, sem er jákvæð að flestu leyti. Stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens hlaut að vera höfundi bréfsins ofarlega í huga og ég birti hér bút úr því þar sem á hana er minnst:

Hér er það upplýst, að hugmyndir Gunnars heitins Thoroddsens, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að mynda ríkisstjórn undir sínu forsæti fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins hafi ekki orðið til í byrjun árs 1980 og heldur ekki í í nóvember 1979 eins og Morgunblaðið hefur talið hin síðari ár heldur sumarið 1974!

Sú skýring, að Geir Hallgrímsson hafi ekki notið trausts innan Sjálfstæðisflokksins til stjórnarmyndunar á þessum tíma er fjarstæðukennd. Geir var nýkominn út úr kosningabaráttu á þessum tíma, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði unnið einn mesta sigur sögu sinnar. Framsóknarflokkurinn var í sárum og þungt í Ólafi Jóhannessyni, formanni hans, sem lagði áherzlu á að gera Geir eins erfitt fyrir um stjórnarmyndun og hann mögulega gat. Það var einfaldlega óhugsandi að Geir gæti myndað ríkisstjórn í fyrstu umferð vegna þess, að Framsóknarmenn vildu ná Sjálfstæðisflokknum niður úr sigurvímunni áður en til þess kæmi. Það lá illa á Ólafi Jóhannessyni á þessum tíma og raunar var þungt í honum þau ár, sem hann sat í ríkisstjórn Geirs og hann reyndi hvað eftir annað að gera þáverandi forsætisráðherra eins erfitt fyrir og nokkur kostur var, sem kom mjög skýrt fram í landhelgisdeilunni 1976.

Sú röksemd Gunnars Thoroddsens í samtalinu við Jóhannes Elíasson, sem Jóhannes segir Kristjáni Eldjárn svo frá, að Geir nyti ekki trausts innan Sjálfstæðisflokksins er hreinn tilbúningur. En þessi tilvitnun sýnir, að hugmyndir Gunnars um stjórnarmyndun undir sínu forsæti hafa orðið snemma til. Og þá er hægt að skoða alla atburðarásina í Sjálfstæðisflokknum næstu árin á eftir í allt öðru ljósi.

Þetta eru merkilegustu sögulegar upplýsingar, sem fram koma í bók Guðna Th. Jóhannessonar um stjórnarmyndanir í tíð Kristjáns Eldjárns en sagnfræðingurinn ungi virðist ekki átta sig á því, kannski vegna þess, að hann hafi ekki nægilega skýra mynd af því hvers konar mál stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í ársbyrjun 1980 er í sögu Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur Ragnar Grímsson: „Tímamótaverk“

Í upphafspistli um Völundarhús valdsins rakti ég hve miklu máli hefði skipt fyrir kynningu á bókinni að Ólafur Ragnar Grímsson hældi henni í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Kynning á bókum í fjölmiðlum er mikil list og getur þar skilið á milli feigs og ófeigs í jólabókaflóðinu. Nú var forsetinn auðvitað ekki óumdeildur, tiltölulega nýbúinn að synja lögum staðfestingar í fyrsta sinn (fjölmiðlalögin 2004). En ummæli hans og önnur kynning bjuggu til „buzz“ eins og sagt er á ensku, einhverja spennu og eftirvæntingu, löngun í að lesa gripinn. Í ljósi þess hvað Ólafur Ragnar taldi verkið mikilvægt kom mérreyndar á óvart að til þess skyldi ekkert vitnað í sögu Guðjóns Friðrikssonar af forsetatíð Ólafs sem kom út árið 2008. En það er önnur saga og kannski frekar til marks um sjálfhverfu manns... En forsetinn sagði sum sé svo alþjóð heyrði:

Mér finnst þessi bók fyrst og fremst vera mjög merkilegt verk - og í raun og veru vera tímamótaverk á margan hátt. Hún er tvímælalaust tímamótaverk hvað snertir forsetaembættið en hún er líka tímamótaverk í stjórnmálasögu landsins því aldrei fyrr hefur þjóðin fengið að lesa samtöl ráðamanna þjóðarinnar, forystumanna flokkanna og forsetans um jafnafgerandi hluti eins og ríkisstjórnarmyndanir, trúnaðasamtöl, byggðar á heimildum sem forsetinn hefur látið þjóðinni í té. Þannig fáum við nýja sýn, ekki bara á forsetaembættið og Kristján Eldjárn heldur líka á marga af stjórnmálaforingjum síðustu áratuga. Og þess vegna held ég að bókin muni hafa veruleg áhrif á skoðun okkar á sögu þessa tímabils og líka að veita mönnum - mörgum - nýja sýn á forsetaembættið. Vegna þess að það er stundum talað um forsetaembættið eins og það komi hvergi nálægt þjóðmálunum og hvergi nálægt eldi stjórnmálanna en Kristján sat við það eldstæði og kynti, og varð að kynda til þess að ná einhverjum árangri fram. Þannig að ég held að umræðan um forsetaembættið og nútímasögu okkar Íslendinga verði ekki söm eftir þessa bók.

Egill Helgason: „Mjög fróðleg lesning“

Hinn 29. nóvember birtist dómur Egils Helgasonar, sem þá var löngu orðinn mikilvægur álitsgjafi, um bókina. Var það mikil skemmtilesning fyrir höfundinn því Egill hældi verkinu:

Völundarhús valdsins, bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, er mjög fróðleg lesning fyrir áhugamenn um pólitík, heimild um umbrotatíma þegar stjórnarskipti voru tíð á Íslandi. Bókin er byggð á minnisgreinum Kristjáns Eldjárns forseta og er fyrst og fremst einblínt á stjórnarmyndanir í tíð hans. Þetta voru tímar ringulreiðar í stjórnmálunum; það má segja að árin 1978 til ársbyrjunar 1980 hafi verið hér samfelld stjórnarkreppa.

...

Reykjavíkurbréfið endurspeglar hversu viðkvæmur Styrmir er fyrir orðspori Geirs Hallgrímssonar. Sá Geir sem birtist í bókinni er ágætur maður, en hann er klaufskur og svifaseinn; eftir á að hyggja er furðulegt að sjá svona stóran stjórnmálaflokk halda svo lengi hlífiskildi yfir svo veikum formanni. Kóa með honum, svo notað sé nútímalegt orðalag.

...

Annað sem stendur upp úr í bók Guðna er hversu ævintýralega óklókir forystumenn A-flokkanna voru. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn unnu feikilega kosningasigra í þingkosningunum í júní 1978. Í raun hefði eðlilegasta niðurstaðan verið minnihlutastjórn þessara flokka. En milli þeirra var mikil tortryggni, að maður segi ekki hatur; eftir mikið þóf tók loks við ný stjórn 1. september. Þá voru A-flokkarnir búnir að glutra öllu niður, lágu í stöðugu rifrildi í skammlífri stjórn. Hún var undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins, sem þó hafði beðið afhroð í kosningunum. Af minnisblöðum Kristjáns má ráða að Ólafur var klókastur allra stjórnmálamanna á þessum árum.

Össur Skarphéðinsson: „Besta bók um pólitíska samtímasögu sem ég hef lesið“

Á þessum árum bloggaði Össur Skarphéðinsson af miklum dugnaði, dag sem nótt eins og andstæðingar hans í stjórnmálum bentu gjarnan á! Mánudaginn 5. desember birti hann á síðu sinni mikið lof um bókina og hlýnaði manni þá um hjartarætur. Mér hefur alltaf þótt Össur skemmtilegur. Líklega háði það honum í pólitík (og háir enn?) að hann er prakkari og grínisti í sér. Sumir geta bara ekki tekið hann alvarlega. Blogg Össurar er ekki lengur aðgengilegt á netinu nema eftir krókaleiðum en slóðin var þessi. Ég birti hér upphaf og niðurlag lofræðunnar miklu:

Óhikað get ég sagt eftir að hafa lesið bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins, að hún er besta bók um pólitíska samtímasögu sem ég hef lesið. Bókin er í reynd stjórnmálasaga hins róstusama skeiðs í stjórnmálum, þegar Kristján Eldjárn var forseti. Hún er skrifuð af einstökum sjónarhóli dagbóka Kristjáns, sem Guðni hafði fyrstur manna aðgang að.

Ég hafði unun af því að lesa bókina. Hún er á köflum einsog pólitískur reyfari, svo spennuþrungin og vel skrifuð er hún. Það eykur gildi hennar að víða dregur höfundurinn ályktanir í örstuttu máli af atburðarrásinni og setur fram eigin skoðun – og efalítið styggir það fleiri en ritstjóra Morgunblaðsins. Þetta er semsagt engin loðmullusagnfræði. Efnið er líka einstakt frá sjónarhóli stjórnmálamanns og allra sem áhuga hafa á pólitík.

...

Í bók Guðna er fjölmargt annað sem er mjög athyglisvert frá almennu sögulegu sjónarmiði – og pólitísku. Þar má nefna málskotsréttinn, sem samantekt Guðna bendir til að hafi verið á mun meira lífi en mætti ætla af umræðu síðustu missera einsog ég benti hér fyrr á. Sömuleiðis bregða upplýsingar úr dagbóknum Kristjáns nýju ljósi á menn einsog Jóhann Hafstein við stjórnarmyndunina 1971 sem gætu bent til að hann hafi haldið dauflega á hlut Sjálfstæðisflokksins – og Morgunblaðið hefur þegar mótmælt ályktunum sem draga mætti af umfjöllun um heiðursmanninn Geir Hallgrímsson.

Ég hafði líka einstaklega gaman af umfjöllun um aðdragandann að  umdeildu umboði Lúðvíks Jósepssonar til stjórnarmyndunar 1978. Af bók Guðna virðist það hafa haft miklu almennara samþykki í stjórnmálaheiminum en Mogginn hefur klifað á gegnum tíðina. Frásagnirnar af árásum Morgunblaðsins á Kristján Eldjárn fyrir það  –  sem fóru nokkuð framhjá mér enda búsettur Moggalaus í útlöndum á þeim tíma – sýna að síðari tíma árásir blaðsins á Ólaf Ragnar Grímsson riðu ekki stakar í sögunni heldur er einfaldlega hefð fyrir fyrir því að Morgunblaðið haldi uppi árásum á forsetaembættið.

Fín bók – sem allir pólitískir áhugamenn verða að lesa. Oftar en einu sinni.

Jón Þ. Þór: Ný mynd dregin upp af Kristjáni Eldjárn

Jóni Þ. Þór kynntist ég þegar hann bauð mér að vera með í a) hópi sagnfræðinga og annarra sem unnu að sameiginlegri sögu vestnorrænu landanna a) hópi fræðafólks innan vébanda NAFHA, North Atlantic Fisheries History Association. Síðan höfum við verið ágætir kunningjar, fáum okkur öðru hvoru snarl á Kaffivagninum og spjöllum um sögu og samtíð. Jón er klassískur sagnfræðingur af gamla skólanum, vill lítið með póstmódernisma og slíkt að gera.

Ritdómur Jóns um Völundarhús valdsins birtist í Morgunblaðinu 6. des. 2005. Jón skrifaði m.a. að lesendur fengju nýja mynd af Kristjáni Eldjárn og ég held að það megi til sanns vegar færa. Þó að Kristján hafi alls ekki viljað láta til sín taka við stjórnarmyndanir og annars staðar á hinum pólitíska vettvangi neyddist hann til þess, einkum þegar leið á embættistíð hans. Hann var með öðrum orðum ópólitískur maður í pólitísku embætti. Um þetta skrifaði Jón Þ. Þór:

Myndin sem hér er dregin upp af forsetanum Kristjáni Eldjárn er að ýmsu leyti önnur en sú sem áður hefur blasað við. Okkur hefur alltof lengi hætt til að líta á hann sem hinn samviskusama embættismann, sem hélt sig utan við dægurþras, hafði helst áhuga á íslenskri menningu, minjum og sögu og var að líkindum ástsælasti forseti sem hér hefur setið. Þessi mynd var vissulega rétt, en hér eru dregnir fleiri drættir og Kristján birtist lesendum sem öflugur og ákveðinn þjóðhöfðingi. Hann átti sér góða og trausta ráðgjafa og hikaði ekki við að taka sjálfstæðar ákvarðanir um stjórnarmyndanir þegar allt virtist komið í hnút. Þar ber helst að nefna að tvívegis var hann kominn á fremsta hlunn með að skipa utanþingsstjórn og í annað skiptið munaði ekki nema hársbreidd að hann gerði það.

Reykjavíkurbréf á ný: Heldur höfundurinn með einhverjum?

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 27. nóvember um Völundarhúsið varð mér tilefni til að skrifa nokkurs konar svar eða hugleiðingu sem birtist í blaðinu 7. desember og nefndist „Völundarhús fortíðarinnar“. Þarna nefndi ég m.a. að mér þætti það ekki eins mikil stórfrétt og höfundi Reykjavíkurbréfsins að Gunnar Thoroddsen hefði viljað verða forsætisráðherra 1974; taldi að þetta hefðu menn mátt vita og frá þessu greint í Valdatafli í Valhöll, sögulegri bók þeirra Andersar Hansens og Hreins Loftssonar. Þessum hugleiðingum var svarað í Reykjavíkurbréfi 11. desember 2005. Lokaorðin gefa auðvitað til kynna að Styrmi Gunnarssyni þyki ég draga taum Gunnars Thoroddsens:

Samstaða í stjórnmálaflokki skiptir miklu máli. Ummæli Gunnars Thoroddsens sumarið 1974 sýna að engin slík samstaða var innan Sjálfstæðisflokksins þegar á þeim tíma. Þær röksemdir, sem Gunnar Thoroddsen notaði í ársbyrjun 1980 til þess að réttlæta stjórnarmyndun sína standast ekki. Hann hafði stefnt að því í nokkur ár að grípa slíkt tækifæri ef það gæfist og stuðlaði að því að það gæfist með því að gefa andstæðingum til kynna hvað hann hefði í huga. Það er með þessum rökum, sem því var haldið fram í Reykjavíkurbréfi fyrir tveimur vikum, að um sögulega uppljóstrun væri að ræða í bók Guðna Th. Jóhannessonar og illskiljanlegt hvers vegna sagnfræðingurinn ungi er ekki ánægður með að athygli skuli vakin á því að slíkar upplýsingar skuli vera að finna í bók hans. Getur verið að hann hafi "haldið með" einhverjum söguhetjum, sem hafi truflað dómgreind hans?!

Ágúst Borgþór Sverrisson: „Spennusaga ársins?“

Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur skrifaði lítinn ritdóm um bókina í Blaðið, 15. desember 2005, undir heitinu „Spennusaga ársins?“. Blaðið kemur ekki lengur út og ekki hefur mér tekist að finna þennan dóm á netinu, ekki einu sinni á www.timarit.is (það er önnur saga en sá vefur hefur líklega valdið meiri byltingu í nútímasagnfræði en flest annað). Ágúst hafði áður bloggað lofsamlega á síðu sinni um bókina og þarna kvað áfram við sama tón, blessunarlega: „Annaðhvort er ég svona sérkennilegur,“ skrifaði hann, „eða höfundur bókarinnar er óvenjulipur penni því lesningin er æsispennandi.“ Eigum við ekki bara að vona að Ágúst Borgþór (sem ég þekki ekki en heyri að sé fínasti höfundur) sé alls ekkert sérkennilegur.

Þorsteinn Pálsson: Sigurvegarar sögunnar

Í 2. hefti Þjóðmála árið 2005, tímariti Jakobs F. Ásgeirssonar, birtist ritdómur Þorsteins Pálssonar. Hann var hófstilltur, sanngjarn og gagnrýninn, eins og Þorsteins var von og vísa. Eins og vikið er að í ævisögu Gunnars Thoroddsens kom þeim Þorsteini ekki saman í stjórnmálum. Í dómi sínum vék Þorsteinn nokkuð að átökum Gunnars og Geirs Hallgrímssonar og sagði m.a.: „Stjórnmál snúast vissulega um völd en þau ganga líka út á að móta þjóðfélagsþróunina. Það sem vantar í þetta hefðbundna sagnfræðilega mat eru spurningar eins og þessar: Hver hafði í þessum átökum mest langtímaáhrif á gang mála? Hver vann þjóðinni mest gagn þegar öllu er á botninn hvolft?“

Í „Staksteinum“ Morgunblaðsins 22. desember 2005 var dómur Þorsteins rakinn. Lokaorðin þar voru þessi: „Þegar spurt er hver hafi verið sigurvegari sögunnar liggur auðvitað í augum uppi að flest af því, sem lagt var upp með undir forystu Geirs Hallgrímssonar fyrir kosningarnar 1979, er ekki einu sinni umdeilt í pólitík lengur.“

Björn Bjarnason: „Málfrelsi forseta“ og fleira

Sunnudaginn 20. nóvember 2005 skrifaði Björn Bjarnason ráðherra stuttlega um bókina á vef sínum sem hann hafði þá haldið úti af mikilli elju í nokkur ár. Birni var málskotsréttur forseta þá efst í hugsa og skrifaði m.a.: „Í forsetatíð Ólafs Ragnar Grímssonar, sem ekki hefur komið að neinni stjórnarmyndun, hefur verið látið eins og án synjunarvaldsins væri forsetaembættið einskis virði. Þetta er reginfirra og í 60 ár gátu forsetar setið og notið virðingar þjóðarinnar, án þess að ganga gegn vilja alþingis og í berhögg við þingræðisregluna.“

Sagan af því hvernig viðhorf manna til málskotsákvæðisins í 26. grein lýðveldisstjórnarskrárinnar breyttist frá árinu 2004 til áranna 2010‒2011 er mjög merk ef út í það er farið.

Hinn 17. desember 2005 skrifaði Björn lengri pistil um bókina og ýmis álitamál. Af mörgu er að taka þar en ég nefni hér sértstaklega hugleiðingar Björns um „málfrelsi“ forseta og annarra ráðamanna, og hvenær megi greina frá trúnaðarviðræðum. Áður en að því kemur þarf þó að geta þess að 14. desember efndu Landssamband sjálfstæðiskvenna og vefritið Tikin.is til umræðufundar á Sólon um bókina. Þar ræddu þeir Þorsteinn Pálsson og Björn um bókina, undir stjórn Ástu Möller, og var það hinn skemmtilegasti fundur. Einna minnisstæðast er mér það sem Kjartan Gunnarsson, sem þá var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sagði í almennum umræðum að erindum loknum. Hann nefndi nefnilega það sem kom svo vel í ljós í umfjöllun um bókina, að þótt Ólafur Ragnar Grímsson og aðrir, sem sögðu forsetann hafa málskotsrétt og mikil pólitísk völd, segðu hana sanna þá skoðun sína teldu aðrir (t.d. Björn Bjarnason) að hún sýndi þvert á móti að Kristján Eldjárn hefði aldrei viljað beita málskotsréttinum og dregist nauðugur inn í stjórnarmyndanir. Spurði Kjartan því, og uppskar hlátur eins og við mátti búast, hvort í umferð væri tvær útgáfur af bókinni.

Ef ég man rétt svaraði ég Kjartani að svo væri nú ekki en minnti á orð úr formála hennar: „Síðan kemur alltaf að því að texta höfundar sleppir og lestur annarra tekur við. Þá missir maður vald yfir verki sínu og getur aðeins vonað að lesendur meðtaki textann eins og ætlast var til, eða óttast að það verði einhvern veginn allt öðruvísi. Mun fólk lesa eitthvað óvænt á milli línanna eða hampa einu frekar en öðru, sér og sínum í hag? Þótt maður reyni að hafa mál sitt eins skýrt og mögulegt er verður því ekki ráðið hvernig aðrir skilja textann og túlka, eða misskilja og mistúlka.“

En aftur að orðum Björns um bókina. Hann sagði m.a. þetta:

Ég sagði frá því á Sólon-fundinum, að mér hefði komið í opna skjöldu, að til væru skráðar frásagnir um samtöl Kristjáns við menn á þessum viðkvæmu tímum. Hafði ég orð á því við Guðna Th. Jóhannesson við gerð bókarinnar, að þessar heimildir hans væru svo óvenjulegar, að huga yrði sérstaklega vel að notkun þeirra, ef þær yrðu á annað borð notaðar. Mér finnst Guðni fara vel með þann trúnað, sem fjölskylda Kristjáns sýndi honum með því að heimila aðgang að þessum heimildum. Ég tek hins vegar undir þau orð Þorsteins Pálssonar á Sólon-fundinum að bókin geti haft áhrif á það, hvernig menn ræða við forseta Íslands í stjórnarkreppum framtíðarinnar.

Mánudagsmeðal Guðjóns Ólafs

Ég stenst ekki mátið að láta hér fljóta með ummæli Guðjóns Ólafs Jónssonar sem var varaþingmaður Framsóknarflokksins og áhrifamaður innan hans þegar bókin kom út. Við Guðjón vorum bekkjarbræður í MR og höfum verið vinir síðan. Hann gerði mér þann vinargreiða að tala hinn 19. desember 2005 fallega um bókina í „Mánudagsmeðalinu“, vikulegum pistlum sem hann hélt út þegar hann var á fullu í pólitík og ætlaði að „meikaða“ á þeim vettvangi. Guðjón var auðvitað umdeildur en fyrir mér er hann f.o.f. góður vinur. Tvennt finnst mér einna minnisstæðast af stuttum stjórnmálaferli hans; a) orðahnippingar hans og Steinríms Joð á Alþingi og b) þau ódauðlegu ummæli Gutta að hann hafi vaknað upp við vondan draum einn daginn, „með heilt hnífasett í bakinu“.

Guðjón skrifaði m.a. þetta um Völundarhúsið: „Margt er ritinu æði fróðlegt. Fyrir framsóknarmenn er skemmtilegt að lesa um hversu klókur stjórnmálaforingi Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, var á sínum tíma. Veikleikar Geirs heitins Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, verða líka nokkuð augljósir, en segja má að prúðmennskan og kurteisin hafi gert honum erfitt fyrir.“

Sverrir Jakobsson: „Fyrirmyndarforseti?“

Sverrir Jakobsson er góður kollegi í sagnfræðingastétt. Ekki get ég sagt að við höfum þekkst að ráði nema þá frá árinu 2010. Þá fóru sonur minn Donald og dóttir hans Jakobína í dagvist hjá sömu dagmömmu í Vesturbænum. Hinn 19. desember 2005 birti Sverrir dóm um bókina á vefnum www.kistan.is sem Matthías Viðar Sæmundsson stofnaði á sínum tíma. Því miður hefur vefurinn lengi verið í lægð þegar þetta er skrifað (ágúst 2011). Erfitt er að finna fyrri skrif á honum en hér má finna dóm Sverris, m.a. þessa skoðun:

Önnur forsenda verksins er sú að þessar heimildir varpi ljósi á „forsetaembættið sjálft og má ýmsan lærdóm draga af þeim, einkum um þessar mundir þegar mikið er rætt um stöðu forsetans í stjórnskipun landsins“ (bls. 7). Að þessu leyti er bókin innlegg í samtímaumræðu. Þar er niðurstaða höfundar skýr, fyrir honum er forsetatíð Kristjáns Eldjárns jákvæð fyrirmynd þar sem eða þrátt fyrir að Kristján „taldi ætíð rétt að verða við vilja ráðherra“ (bls. 318). Naumast er þó þessi niðurstaða róttæk eða afgerandi, höfundur „stendur með sínum manni“, telur hann hafa staðið sig vel í embætti, en óvíst hver reynslan verði af öðrum starfsháttum. Að hluta til má svo halda því fram að Kristján Eldjárn hafi verið heppinn að því leyti, að fá mál komu þar sem almenn krafa var gerð um að hann beitti sér gegn vilja ríkisstjórnar eða þingmeirihluta.

Meiri tíðindum sætir e.t.v. að afskipti Kristjáns Eldjárns af stjórnarmyndunum eru endurmetin og slegin af sú lífseiga goðsögn að hann dregið stjórnarmyndanir á langinn með hlutleysi eða afskiptaleysi. Þvert á móti er niðurstaðan sú að Kristján hafi ekki alltaf verið „sá fjarlægi og ópólitíski „leikstjóri“ sem hann vildi vera og er yfirleitt í minningu manna“ (bls. 301). Í fyrsta lagi tóku stjórnarmyndanir ekki að meðaltali lengri tíma í embættistíð hans en sumra annarra forseta og lengstu stjórnarkreppurnar voru 1946-1947 og vorið 1987. Í öðru lagi er niðurstaða höfundar sú að það hafi verið framganga stjórnmálaleiðtoga fremur en aðferðir Kristjáns sem drógu stjórnarmyndanir á langinn 1978-1980. Eru þær niðurstöður bæði traustar og vel rökstuddar.

Andríki ánægt

Vefurinn www.andriki.is er meðal þeirra sem ég reyni að lesa reglulega. FImmtudaginn 29. desember 2005 birtist þar dómur um bókina og var komist fallega að orði: „Að öllu saman lögðu er bókin þess vegna stórfróðleg, en auki skemmtileg aflestrar, sem er kostur - nema að vísu þegar komið er langt fram yfir æskilegan háttatíma.“

Líkt og aðrir sem teljast til hægri á hinum hefðbundna skala stjórnmálanna töldu liðsmenn Andríkis bókina sýna að forseti lýðveldisins ætti að halda sig til hlés í stjórnmálabaráttunni, nema í algerum undantekningartilfellum, og alls ekki að beita meintum málskotsrétti sínum:

Hugmyndir Kristjáns Eldjárns um stöðu forsetans koma skýrt fram í bókinni. Kristján lagði alla áherslu á þingræðið og að völdin væru í höndum þingsins. Fram kemur að Kristján hafi verið beðinn að skrifa undir lög sem honum þótti slæmt að þurfa að staðfesta, en að honum hafi aldrei komið „til hugar að rökræða um setningu laganna við ríkisstjórn og ráðherra ... Vilji framkvæmdarvaldsins var lög,“ eins og Guðni orðar það. Þetta er fróðlegt í ljósi ákvörðunar sem Ólafur Ragnar Grímsson tók í fyrra um að undirrita ekki fjölmiðlalög sem samþykkt höfðu verið á Alþingi. Miðað við afstöðu Kristjáns má fullyrða að  hann hefði aldrei látið sér koma til hugar að til greina kæmi að hann undirritaði ekki þau lög, hversu andsnúinn þeim sem hann hefði hugsanlega verið.

Guðni vitnar einnig til orða Kristjáns við embættistöku árið 1976, en þá sagði Kristján: „Öllum er kunnugt, sem lesið hafa stjórnarskrána, að í fljótu bragði mætti svo virðast sem vald forseta væri talsvert en í ljós kemur að það er meira í orði en verki þar sem forseti felur ráðherrum að fara með vald sitt og stjórnarathafnir hans eru á þeirra ábyrgð.“ Kristján hafði engan áhuga á að sölsa undir sig meiri völd en honum voru ætluð samkvæmt stjórnarskránni. Hann gegndi embættinu af skynsamlegri hógværð og af virðingu fyrir þingræðinu og lögunum, sem og þeim venjum sem skapast höfðu um embættið.

Svanur, forsetinn og völdin

Í vorhefti Sögu árið 2006 birtist ritdómur Svans Kristjánssonar prófessors. Dómar í fræðiritum eiga að öllu jöfnu að hafa meira vægi en styttri dómar í blöðum og ljósvakamiðlum, sem eru unnir hraðar og veita ekki tækifæri til að kafa djúpt í efnið. Dómur Svans reyndist mér gagnlegur og hér teki ég aðeins upp álitamálið um völd eða valdaleysi forsetans. Um þetta segir Svanur:

Kenningagrunnur bókarinnar (t.d. bls. 26-27) byggir á þeirri túlkun á stofnun lýðveldis árið 1944 að Alþingi hafi þá ákveðið að forsetinn fengi lítið vald og yrði haldið utan við pólitískar deilur. Þingræðisreglan sé grundvöllur stjórnskipunar landsins og henni hafi verið komið á skömmu eftir aldamótin 1900: „Hlutverk þjóðhöfðingjans við stjórnarmyndanir hér á landi er jafngamalt þingræðisreglunni sem komst á með Heimastjórn árið 1904.“ (bls. 27). Þessi kenning sætir engum tíðindum. Hún er þvert á móti merkileg fyrir þá sök að vera sett svo afdráttarlaust fram en hvíla á svo veikum grunni. Hið sanna í málinu er að meirihluti Alþingis ætlaði að hafa valdalítinn þjóðkjörinn forseta en þjóðin knúði þingið til að skipta um skoðun og gera tillögu um þjóðkjörinn og valdamikinn forseta.

Hallgrímur Guðmundsson í Stjórnmálum og stjórnsýslu

Hallgrímur Guðmundsson stjórnmálafræðingur skrifaði ritdóm í annað fræðirit, Stjórnmál og stjórnsýslu, (1. hefti 2005). Honum leist að mestu vel á bókina og sagði m.a. þetta um hlutverk forseta:

Það kemur skýrt fram í bókinni að Kristján hefur litið á hlutverk forseta í stjórnarmyndunarviðræðum að velta upp helstu kostum til myndunar starfhæfra ríkisstjórna með leiðtogum flokkanna. Kristján virtist staðráðinn að blanda sér ekki í það valdatafl að öðru leyti en að ákveða eftir atvikum hver fengi hvítt. Kristján var hvorki bráður né óþolinmóður en röggsamur þegar því var að skipta. Hann gaf stjórnmálamönnum góðan tíma til að hugsa sinn gang og það var ekki fyrr en flestir leikir í stöðunni höfðu verið fullreyndir að Kristján hóf undirbúning utanþingsstjórna. Í bókinni kemur ágætlega fram hversu langt Kristján var reiðubúinn að ganga til að skapa þingkjörnum leiðtogum nægjanlegt svigrúm til að mynda starfhæfa ríkisstjórn, - jafnvel þegar utanþingsstjórn var nánast tilbúin, var enn um sinn haldið áfram að reyna myndun þinglegrar stjórnar. Kristján sætti nokkurri gagnrýni fyrir seinagang og m.a. sakaður um dómgreindarleysi í stjórnarmyndunarviðræðunum 1978. Höfundur sýnir einnig ágætlega fram á að hvert skref Kristjáns var vandlega hugsað og ekkert hefur komið fram sem leiðir líkur að því að önnur afstaða forseta eða aðrar ákvarðanir en teknar voru á sínum tíma hefðu leitt til skjótari stjórnamyndana. Þvert á móti virðist það vera rökrétt afstaða forseta að setja leiðtoga stjórnmálaflokkanna á þingi undir mikinn þrýsting til að mynda ríkisstjórn. Allt skal reynt áður en myndun utanþingsstjórnar kemur til álita. Það var rökrétt afstaða forseta að taka alls ekki þennan kaleik frá leiðtogum stjórnmálaflokkanna á þingi því að eins og kom á daginn var eitrið í "eigin beinum" en ekki í kaleiknum. Það er því ein megin niðurstaða þessarar bókar að ofvirkur eða örgeðja forseti hefði ekki átt betri samleið með þjóðinni og gott veganesti fyrir þá sem sjá atvinnutækifæri í þessu embætti.

Gunnar Helgi og Indriði: Fyrsta alvöru gagnrýnin?

Í Stjórnmálum og stjórnsýslu (2/3 2007) birtist fyrsta alvöru gagnrýnin á kenningalegan ramma bókarinnar, eða í raun skort á kenningum. Gunnar Helgi Kristinsson og Indriði H. Indriðason skrifuðu þá grein um „stjórnsækni og stjórnfestu“. Þótt manni þyki lofið alltaf gott og ég telji mig hafa haft mikið gagn af umræðum um ýmsa þætti bókarinnar við seinni skrif og rannsóknir (einkum hvað varðar a) völd forseta og b) Gunnar Thoroddsen) má segja að í „fræðilegu“ tilliti hafi þessi skrif ýtt mest við mér. Gunnar Helgi og Indriði skrifuðu m.a.:

Guðni Th. Jóhannesson (2005, 2006, 2007) hefur rannsakað íslenskar stjórnarmyndanir allmikið síðustu árin og birt ýmislegt um þau efni. Nálgun Guðna er sagnfræðileg frekar en félagsvísindaleg en þó má greina drög að almennri kenningu um stjórnsækni í verkum hans (Guðni Th. Jóhannesson 2005, bls. 303-304, og 2007, bls. 39 og víðar). Kenningin gengur út á að einn helsti áhrifaþátturinn á það hversu vel eða illa gekk að mynda stjórn á Íslandi hafi verið persónuleg einkenni flokksleiðtoganna; nánar tiltekið „viljinn til valda“. Þannig hafi suma flokksleiðtoga skort vilja til valda (t.d. Geir Hallgrímsson og Benedikt Gröndal) en aðrir hafi haft hann (t.d. Steingrímur Hermannsson og Davíð Oddsson). Guðni gengur svo langt (2007) að kalla viðræður flokkanna á tímabilinu 1978-1980 „stjórnarandstöðumyndunarviðræður“, sem hann segir að stangist á við fræðikenningar um stjórnsækni stjórnmálamanna (bls. 14). Guðni gerir ekki tilraun til að prófa kenningu sína kerfisbundið. Af henni leiðir reyndar að stjórnsækni flokka ætti að vera miklum tilviljunum háð, eftir því hvers konar fólk veldist þar til áhrifa. Svo dæmi sé tekið væri ekki eðlilegt að búast við mismunandi stjórnsækni flokka í ólíkum löndum nema þá að jafnframt væri sett fram kenning um mismunandi valdsækni þjóða. Þetta skapar ákveðinn vanda fyrir persónuleikakenninguna því í sumum ríkjum – þar á meðal nágrannaríkjum okkar í Skandinavíu – eru minnihlutastjórnir taldar merki um að stjórnsækni sé víkjandi fyrir stefnusækni flokka (sbr. Strøm 1986). Til að skýra þann mun sem er á Íslandi og Skandinavíu hvað þetta varðar þyrfti persónuleikakenningin annaðhvort að gera ráð fyrir að hann stafaði af tilviljun (viljinn til valdsins hafi fyrir tilviljun verið minni meðal þeirra einstaklinga sem völdust til forystu í Skandinavíu en á Íslandi) eða að viljinn til valda einkenni Íslendinga almennt í ríkari mæli en Skandinava – sem hefði að vísu skemmtigildi sem kenning en byggist ekki á neinu.

...

Niðurstaða. Gögnin sem hér hafa verið skoðuð benda til þess að íslenskir stjórnmálaflokkar einkennist af tiltölulega mikilli stjórnsækni en minna af stefnusækni samanborið við önnur lönd. Skýringar á íslenskum samsteypustjórnmálum sem leggja áherslu á stefnu flokkanna og jafnvel skort á „vilja til valda“ varpa samkvæmt því takmörkuðu ljósi á íslensk stjórnmál.

Nú verður fyrst að hafa í huga að í bókinni langaði mig helst til að segja sögu, byggða á frábærum heimildum. Kenningasmíð var ekki markmiðið. En þar fyrir utan er ég ósammála því að skorturinn á „vilja til valda“ í huga ýmissa leiðtoga hafi litlu sem engu ráðið. Um þetta hef ég lengi ætlað að skrifa frekar en minntist aðeins á í ævisögu Gunnars Thoroddens. Þar skrifaði ég (bls. 493‒494) um eðliskosti leiðtoga og mikilvægi þess í stjórnmálasögunni: „rás viðburða verður aldrei útskýrð til hlítar nema skapgerð fólks sé tekin með í reikninginn – metnaður, gáfur, grandaleysi, hentistefna, hégómagirnd, feimni, hik, stífni, sáttfýsi, kapp og ótalmargt fleira í mannlegu eðli. „Stjórnsækni“ stjórnmálaflokka verður þess vegna oft undir því komin hvers konar fólk velst þar til áhrifa.“

Í raun snýst þetta um vægi einstaklinga og tilviljana í sögunni, og reyndar einnig ólíkar starfsaðferðir og áherslur sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga. Um þetta mun ég skrifa grein þegar tími vinnst til og titillinn er tilbúinn: Sagnfræðingar eru frá Mars og stjórnmálafræðingar frá Venus. Mín megintilfinning fyrir liðinni tíð er annars sú að tilviljanir og einstaklingar ráði svo miklu að kenningar og lögmál hafi mjög takmarkað gildi.

 Drupal vefsíða: Emstrur