Skip to Content

Ummæli

Vönduð bók um símahleranir

Fyrstu viðbrögð við bókinni voru Guðmundar Magnússonar sagnfræðings. Hann skrifaði á bloggsíðu sína 30. nóvember 2006: "Ég mæli hiklaust með hinni nýju bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi sem kom út á forlagi Máls og menningar í dag. Þetta er vel unnið rit þar sem fjölmargar nýjar og áhugaverðar staðreyndir um efnið eru dregnar fram. Umfjöllun höfundar er hófstillt og rökföst. Slík vinnubrögð eru sérstaklega mikilvæg þegar haft er í huga að efnið er orðið eitt af hitamálum þjóðfélagsumræðunnar og margir eru tilbúnir að fella stóra dóma um það án ígrundunar og án þess að skeyta alltaf um rök og staðreyndir."

Skyldulesning

Ólafur Þ. Stephensen birti fyrsta ritdóminn í fræðilegu riti, Stjórnmálum og stjórnsýslu. Hann má nálgast hér en lokaorðin eru þessi: "Skyldulesning. Guðni Th. Jóhannesson skrifar lipran stíl og bók hans er því auðveld og skemmtileg aflestrar. Hann er sömuleiðis fundvís á skoplegar hliðar á annars grafalvarlegu umfjöllunarefni, sem telst honum til tekna. Fáar villur eru í bókinni – samt nokkrar – en hún hefur ljóslega verið unnin hratt; síðasta viðtalið vegna bókarinnar var tekið um miðjan nóvember. Verk Guðna eru komin í flokk með bókum sagnfræðinga á borð við Þór Whitehead og Val Ingimundarson sem skyldulesning fyrir áhugamenn um stjórnmálasögu Íslands, og þá ekki sízt öryggis- og utanríkismál."

Bomba inn í þjóðfélagsumræðu

"Kosturinn við sagnfræðina er að hún kemur stundum á óvart. Guðni Th. Jóhannesson varpar í riti sinu um svokallaða óvini ríkisins bombu inn í íslenska stjórnmálaumræðu. Þar rekur hann skilvíslega hvernig ríkisstarfsmenn fengu leyfi dómara, möglunarlaust, til að hlera síma. Nú liggur hún ósprungin í garði þjóðarinnar." Þannig hefst ritdómur Páls Baldvins Baldvinssonar sem birtist í Fréttablaðinu 16. desember 2006.

Hægri vinstri snú...

Kristján B. Jónasson, sá mikilvirki forleggjari og bókaunnandi, skrifaði um Óvini ríkisins á blogg sitt 27. desember 2006. Minntist hann þar á þau viðbrögð sem bókin hefði vakið hjá lesendum yfir hátíðirnar og lagði áherslu á kosti bókarinnar (með stóru béi) sem fréttamiðils. Bækur lifa sem frábær leið til að segja sögur, veita upplýsingar, gagnrýna og ögra.

Vönduð sagnfræðirannsókn og nauðsynleg lesning

Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur skrifaði ritdóm sem birtist í vorhefti Sögu 2007. Hann má lesa hér.Drupal vefsíða: Emstrur