Skip to Content

Ummæli

Der Untergang...

Már Wolfgang Mixa, doktorsnemi í viðskiptafræði við HR, skrifaði langa bloggfærslu og lærða um Hrunið. Á einum stað skrifaði Már að við lestur bókarinnar hefði sér verið "hugsað til bókarinnar Frásögn um margboðað morð eftir Gabriel García Márquez.  Þrátt fyrir að maður viti hvernig sagan endar, og reyndar í þessu tilviki m.a.s. flest atriðin, þá er lestur bókarinnar spennuþrunginn." Stuttu síðar bætti hann við: "Það sem sló mig mest við lestur bókarinnar er hversu mikið af ákvörðunum voru teknar á hlaupum, og voru aðallega teknar til að bregðast við stöðugt nýjum aðstæðum (ad hoc) í stað þess að vinna eftir ákveðinni stefnu.  Það er e.t.v. kaldhæðið en lesturinn minnti á myndina Der Untergang þar sem að allar áætlanir voru brostnar, samskipti voru í lamasessi og óstjórnin nánast algjör.  Í ljósi þess að skipbrot af einhverju tagi væri líklegt er í raun ótrúlegt að ekki hafi verið búið að undirbúa aðgerðaráætlanir m.v. mismunandi sviðsmyndir.  Þótt að aldrei verði hægt að slá því á föstu þá er hugsanlegt að hægt hefði verið að lágmarka tapið og jafnvel koma í veg fyrir allsherjar hruni banka hefði stefna stjórnvalda verið skýrari (skilaboð voru á tíðum misvísandi) og samskiptin betri við Breta."

Skemmtileg bók en ekki gallalaus

Ingi Freyr Vilhjálmsson skrifaði ritdóm í DV sem var jákvæður á heildina litið. Ýmsar aðfinnslur mátti þó finna þar og var þar m.a. sleginn tónn sem átti eftir að heyrast oftar, að greiningu á orsökum og ábyrgð vantaði í verkið. Inga reynist einnig auðvelt að benda á Akkilesarhæl höfundarins, "að stundum hefur hann ekki mjög mikið vit eða mikla innsýn inn í sum þeirra viðfangsefna sem hann tekur fyrir í bókinni". Því verður þó að halda til haga að á heildina litið var þessi hvassi rýnir sáttur: "Bókar Guðna hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu þar sem líklegt var að hann myndi reyna að leita heimilda víða, vera ítarlegur og reyna að setja niðurstöður sínar fram á skemmtilegan og læsilegan hátt líkt og honum hefur verið lagið í fyrri bókum sínum. Guðni stendur fyllilega undir þessum væntingum í þessari nýju bók því hún er skemmtileg og fróðleg aflestrar."

Undirstöðurit til framtíðar

Í Fréttablaðinu birtist 6. júní 2009 úttekt Páls Baldvins Baldvinssonar á þremur "hrunsbókum", mínu Hruni, riti Ólafs Arnarsonar og bók Þorkels Sigurlaugssonar, kollega í HR, Ný framtíðarsýn. Um Hrunið sagði PBB m.a.: "Verk [Guðna] er þaulhugsað í byggingu og nýtur hann þar reynslu sinnar frá fyrri verkum við að koma flókinni og snúinni atburðarás til skila á greinargóðan hátt. Hrunið hans er inngangsrit um þessa atburðarás alla, frábærlega niður skipað, sanngjarnt í athugasemdum sem hann lætur falla og ber þannig kurteislega íroníska hneigð. Það er nákvæmt í niðurröðun og skýrt í öllum atriðum þótt á köflum verði textinn nokkuð upptalningasamur. Guðna virðist hafa verið það metnaðarmál að skila sem nákvæmustu yfirliti um þessa atburðarás þótt hann verði að þjappa og hafi örugglega klæjað í fingurna oft og mörgum sinnum til að taka útúrdúr og staldra við. Svo ítarlegt sem rit hans er verður það nú grundvallarrit öllum almenningi um þessa mánuði til að geta fyllt í göt og bætt við nánari skýringum."

Þó að Rannsóknarskýrsla Alþingis hafi svo orðið undirstöðurit hrunsins er ég þess handviss að þeir sem vilja fræðast um hvað gerðist hvenær hin afdrifuríka daga haustið 2008 geti helst hafið þann leik á lestri Hrunsins. Til þess var ritið sett saman.

Langt símtal

Eftir allar hinu jákvæðu undirtektir hlaut að koma að hvassari gagnrýni. Auðvitað birtist sitthvað á netinu og man ég t.d. eftir harðorðum skrifum Hilmars Hafsteinssonar, sem var framarlega í flokki "Radda fólksins" mótmælaveturin mikla 2008-2009. Í fjölmiðlum kom harða krítíkin frá Þorvaldi Gylfasyni, í dómi hans í Fréttablaðinu um fjórar hrunsbækur, hinar sömu sem Páll Baldvin hafði tekið til kostanna auk bókar Jóns F. Thoroddsens, Íslenska efnahagsundrið. Leist Þorvaldi best á hana en fann Hruninu ýmislegt til foráttu og sagði m.a.: "Hún er eins og langt símtal, og þau eru misjöfn að gæðum: bók Guðna rekur atburðarásina og ýmis ummæli um hana í belg og biðu, án þess að séð verði, að höfundurinn hafi myndað sér skýra skoðun á viðfangsefninu eða hafi löngun til að draga lærdóma af því. Í bókinni örlar varla á greiningu á orsökum og afleiðingum hrunsins og ekki heldur á sögulegri sýn á innviði og umhverfi bankanna, og er höfundurinn þó mikils metinn sagnfræðingur, rithöfundur og háskólakennari."

Um leið og maður verður að varast að taka gagnrýni óstinnt upp hlýt ég að mótmæla því að uppbyggingu verksins sé ábótavant. Þvert á móti stend ég á því fastar en fótunum að uppbyggingin sé einmitt aðal bókarinnar. Auðvitað er þó undir hverjum og einum lesanda komið að leggja mat á það. Hitt má vera að Þorvaldi hafi sárnað að ég komst svo að orði í verkinu að hann hefði ekki séð bankahrunið fyrir frekar en aðrir. Í dómi sínum sagði Þorvaldur (sem ég hef annars ekkert upp á að klaga, by the way) að minnsta kosti: "Guðni segir: "Háskólasamfélagið á Íslandi reyndist litlu skárra en mestu oflátungar útrásarinnar" (bls. 99) án þess að víkja í því viðfangi að þeim háskólamönnum, sem árum saman vöruðu við ofvexti bankanna og líklegum afleiðingum hans."

Ekki var að undra að andstæðingar Þorvaldar Gylfasonar í pólitík og samtímaumræðu mótmæltu hörðum orðum hans um mitt verk og önnur. Vísast þá ananrs vegar til skrifa á vefnum AMX og skrifa Stefáns Einars Stefánssonar í Þjóðmálum.

Hvar er greiningin?

Með ritdómi sínum í Lesbók Morgunblaðsins 4. júlí 2009 vakti Jón Ólafsson heimspekingur máls á helsta annmarka bókarinnar að margra mati, skorti á greiningu og ályktunum, eins og ég hef áður minnst á. Þetta er eins og rauður þráður í ritdóminum og kemur skýrast fram í lokaorðunum: "Í formála Hrunsins leggur Guðni áherslu á yfirsýnina en telur að greiningin verði að bíða. Það er óþarft að gera lítið úr mikilvægi yfirsýnarinnar, en ég held að það séu mistök að líta svo á að greining þurfi að bíða einhvers tiltekins tíma þegar „rykið er sest“ eða eitthvað slíkt. Fullkominn einhugur verður aldrei um túlkun sögulegra atburða og þótt hrunið og kreppan verði mönnum fjarlægari eftir 100 ár en í dag er ekki þar með sagt að menn muni skilja betur það sem gerðist. Það er líka viss misskilningur fólginn í því að halda að frásögnin sjálf feli ekki í sér ákvarðanir um hvernig eigi að túlka atburðina. Yfirlitsáhersla er því alls ekki sjálfsögð. Og það sem verra er, með  henni víkur Guðni sér markvisst undan mikilvægustu spurningum augnabliksins á þeim forsendum að ekki sé hægt að fá nógu góð svör við þeim nú. Hversvegna ekki? Munu svörin koma af sjálfu sér í fyllingu tímans? Þau koma tæplega nema skarpir greinendur leggi sig fram nú og síðar um að finna orsakirnar og skýra þær."

Vanþekking á fjármálum og rangar lýsingar

Örvitinn tók saman fróðlega umsögn um bókina og tek ég undir margt þar, einkum orð hans um fulllitla þekkingu mína á fjármálaheiminum og vandann við að nota lýsingar sjónarvotta sem stangast gjarnan á. Örvitinn skrifaði m.a.: 

 

Mér fróðari menn segja að einn helsti galli bókarinnar sé að höfundur hafi í raun ekki nægilegan skilning á umfjöllunarefninu, þ.e.a.s. fjármála- og bankaheiminum. Ég veit ekkert um það. Aftur á móti finnst mér afskaplega forvitnilega að rifja upp þessa atburðarás og fá innsýn í hasarinn kringum hrun þegar menn voru að reyna að bjarga einhverju.

Þó verð ég að segja fyrirvara við það sem ég þó þekki. Ég var t.d. staddur við Alþingishúsið við þingsetningu 20. Janúar og mér finnst frásögn af aðgerðum lögreglu ekki í takt við það sem ég sá.Drupal vefsíða: Emstrur