Skip to Content

Ummæli

Mikið af lofi á einum stað

Þótt manni sjálfum þyki hólið gott glöddust þeir eflaust enn meira, ráðamenn Forlagsins með þá feðga, Jóhann Pál og Egil Örn í broddi fylkingar, að lesa þá góðu dóma sem ævisaga Gunnars Thoroddsens fékk í fjölmiðlum, á bloggsíðum og manna á meðal. Ég stóðst þá freistingu að birta það allt saman hér - en ekki þá að vísa á samantekt Forlagsins... (og munið að ýta líka á "meira"). Einnig er hægt að horfa á sjónvarpsauglýsingu um bókina hér. Þá má minna á að bóksalar töldu hana bestu ævisögu ársins 2010.

Afrek ...

Svavar Gestsson sendiherra kynntist Gunnari vel á sínum tíma, auðvitað mest og best þegar þeir sátu saman í ríkisstjórn 1980-1983. Svavar sagði mér margt fróðlegt um kynni sín af Gunnari og hefur ætíð reynst mér vel þegar ég hef leitað upplýsinga hjá honum. Hann skrifaði lofsamlegan ritdóm um bókina á heimasíðu sinni.

Davíð um Gunnar

Hinn 29. desember 2010, þegar rétt öld var liðin frá fæðingu Gunnars Thoroddsens, skrifaði Davíð Oddsson forystugrein í Morgunblaðið um feril Gunnars og afrek. Þeim tveimur var vel til vina þó að kastast hafi í kekki í slag Gunnars við "Morgunblaðsmafíuna" snemma á áttunda áratugnum þegar Davíð var þar blaðamaður. Í forystugreininni skrifaði Davíð af vinsemd og virðingu um Gunnar Thoroddsen, m.a. þetta: "Nýleg ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Jóhannesson er athyglisverð, ekki einvörðungu vegna þess hlutverks sem Gunnar hafði í íslenskum stjórnmálum, heldur vegna þess að Gunnar leggur til sögunnar minnisbrot og dagbókarfærslur sem varpa ljósi á sögu, sem var önnur en ætlað var. Þau skrif staðfesta margt af því sem menn höfðu gefið sér um tilgang Gunnars og metnað. En metnaðurinn hefur frá fyrstu tíð verið afl hans og drifkraftur. Sá metnaður uppfylltist um margt vegna gáfna Gunnars og hæfileika, en einnig vegna staðfestu. Hann missti aldrei sjónar á markmiðum sínum. En aldrei verður vitað til fulls hvað hefði orðið hefði þjóðin fengið að njóta hæfileika Gunnars við bestu skilyrði."

Sjálfum þykir mér höfundinum orðið "athyglisverð" athyglisvert í öllu þessu samhengi. Ber að leggja jákvætt eða neikvætt mat á það? Vera má að höfundi forystugreinarinnar hafi þótt ævisagan of opinská. En hvað veit maður um það?

Ómar: Gunnar vex en minnkar ekki

Ómar Ragnarsson virti og dáði Gunnar Thoroddsen. Gunnar var í miklum metum á æskuheimili Ómars, sagði hann mér eftir útkomu bókarinnar. Ómar bloggaði nokkrum sinnum um bókina, meðal annars á aldarafmælinu 29. desember 2010. Vænt þótti mér um þau orð því þau renna stoðum undir það sem ég lagði áherslu á í samtölum við ættingja og vini Gunnars: "Í nýrri bók Guðna Th. Jóhannessonar koma fram á einstæðan hátt kostir og gallar Gunnars, algerar andstæður eins og viljafesta og breyskleiki, iðni og leti, en umfram allt heillandi hæfileikar á mörgum sviðum.Vegna nokkuð náins kunningsskapar hans við mitt fólk allt frá æskuárum mínum vissi ég svosem um þann djöful sem hann þurfti að draga varðandi Bakkus konung, en þessi nýja bók staðfestir það frá fyrstu hendi ... Þegar Gunnar síðan vann bug á þessu böli upp á eigin spýtur, sem var mikið afrek, fékk hann ekki að njóta þess fyrr en það var um seinan. En þessir dragbítar Gunnars stækka hann í mínum huga en minnka ekki, gera manninn enn meira heillandi en einhver glansmynd hefði gert. Mér þykir því vænna um minningu hans nú en áður."

Njósnir og nöldur

Í ævisögu Gunnars er vikið að hinni miklu kosningamaskínu Sjálfstæðisflokksins, ítarlegri skráningu á stjórnmálaskoðunum fólks og samanburði við kjörskrár á kosningadag svo unnt væri að ýta við traustu stuðningsfólki ef þurfa þætti. Allir sem til þekkja vita að aðrir flokkar studdust við svipað kerfi, það var bara ekki eins gott og hjá "sjöllunum". Í bókinni er einnig greint frá því að þegar sjálfstæðismenn réðu ríkjum í Reykjavíkurborg gátu flokksbundnir notið góðs af, við lóðaúthlutanir, atvinnu og annað. En heldur fólk virkilega að aðrir flokkar hafi verið sem hreinir englar í samanburði? Í bókinni er minnst á valdastöðu Framsóknarflokksins til sveita og hefði verið ætlunin að skrifa um fyrirgreiðslu og spillingu á Íslandi á 20. öld hefði líka verið hægt að benda á að í kratabæ eins og Hafnarfirði eða Ísafirði gat fólk vart fengið vinnu sem sturtuvörður, hvað þá meira, nema vera í "réttum" flokki.

Þetta fór fyrir ofan garð og neðan hjá eldheitum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins og eldheitir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins kenndu sendiboðanum um. Það myndi æra óstöðugan að halda því öllu til haga - ég hætti því - en hér eru dæmi um hvort tveggja, fyrst frétt Smugunnar: ,,Hreyfingin eða þingmenn hennar aldrei verið grunaðir um njósnir eða njósnatengda starfsemi,” segir Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar í nýjum pistli á heimasíðu sinni. ,,Annað má segja um þann flokk sem deilir með okkur húsnæði í Austurstrætinu og er nærtækast að vísa til nýrrar ævisögu um Gunnar Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson."

Og svo kom svar á vefnum AMX þar sem sagði m.a.: "Í öðru lagi sýnir tilraun Margrétar til að klína þessu máli á Sjálfstæðisflokkinn hve óvönduð og villandi frásögn Guðna Th. Jóhannessonar er af kosningastarfi sjálfstæðismanna á þeim tíma sem um er að ræða. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem Guðni heldur þannig á penna sínum að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins telja sig komast í feitt. Hvað veldur? Hvernig væri að einhver fræðingurinn tæki sér fyrir hendur að greina efnistök og aðferðafræði Guðna?"

Björn Bjarnason Benediktssonar

Ekki kom á óvart að Björn Bjarnason hafði sitthvað við ævisögu Gunnars Thoroddsens að athuga. Þó að þeir Gunnar og Bjarni Benediktsson, faðir Björns, hafi lengi verið samherjar í sama flokki voru þeir um leið keppinautar lengi vel og kannski mátti litlu muna að ágreiningur þeirra kæmi alveg upp á yfirborðið undir lok sjöunda áratugarins þegar Gunnar sakaði Bjarna í hljóði um ofríki og Bjarni bjó sig undir að þurfa að svara honum fullum hálsi. Pistil Björns Bjarnasonar um bókina má finna hér.

Eitt vil ég gera að sérstöku umtalsefni. Í pistil sínum segir Björn: "Samkvæmt bók Guðna tóku stuðningsmenn Gunnars að velta því fyrir sér að loknum kosningunum hvernig heimtur hefðu verið fyrir hann á kjördag. Er meðal annars látið í veðri vaka í bókinni á við Sigríður, móðir mín, höfum ekki kosið Gunnar. Ef Guðni Th. hefði haft fyrir því að spyrja mig,  hefði ég sagt honum, að frá því að ég fékk kosningarétt í forsetakosningum hefur sá sem ég veitti stuðning aldrei náð kjöri.  Að geta sér þess til að móðir mín hafi ekki kosið Gunnar þykir mér mikil bíræfni." Hér má vissulega taka undir að ég hefði hæglega getað spurt Björn um þetta þó að hafa verði í huga að ekki er unnt að bera allt í 652 bls. bók undir alla sem á einhvern hátt koma við sögu. Þar að auki er aðalatriði frásagnarinnar hvað Gunnar grunaði, ekki hvað gerðist í raun í kjörklefanum.

Einnig verður að halda því til haga að Birni þótti bókin góð á heildina litið, eins og lesa má í lokaorðunum sem segja einnig sitt um afstöðu Björns til Ólafs Ragnars Grímssonar og forsetaembættisins þó að það verði að lesa á milli línanna. Segið svo að Björn Bjarnason hafi ekki húmor: "Fengur er af ævisögu Gunnars Thoroddsens. Hún bregður upp nærmynd af söguhetjunni og innri átökum hennar og lýsir einstökum ferli manns sem gegndi öllum æðstu embættum þjóðarinnar þótt hann kæmist aldrei á Bessastaði."

"Heillandi skyldulesning"

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skrifaði ritdóm í Stjórnmál og stjórnsýslu. Ekkert var undan því að kvarta, enda sagði Ólafur að bókin væri "heillandi skyldulesning fyrir stjórnmálafræðinga, stjórnmálafræðinema og raunar alla sem vilja fjalla um eða skilja íslensk stjórnmál síðustu hundrað árin". Í fræðilegu samhengi þótti mér mestur fengur í hugleiðingum Ólafs um tengsl sagnfræðinnar/ævisögunnar og stjórnmálafræðinnar:

Sumir stjórnmálafræðingar telja ævisögur stjórnmálamanna næsta gagnslitlar fyrir fræðin; þær séu fróðleiksmolar og persónulýsingar sem komi almennri greiningu og fræðilegum kenningum lítið við. Stundum er það raunin (og á við um margar ævisögur íslenskra stjórnmálamanna), en vandaðar ævisögur gera a.m.k. tvennt fyrir fræðilegan skilning á stjórnmálum. Í fyrra lagi gæða þær greiningar og kenningar lífi: lesandinn skilur betur formgerðir stjórnmálakerfisins og tengslin milli parta þess (t.d. eðli stjórnmálaflokka á mismunandi tímum og í ólíkum kerfum – eða tengsl þings og ríkisstjórnar) þegar hann sér hvernig einstaklingar af holdi og blóði vinna innan formgerðanna – hvað þeir geta gert, hvað þeir geta ekki gert og í hvaða áttir kerfið beinir lífi þeirra og starfi. Í öðru lagi eru vandaðar ævisögur ómetanleg gagnasöfn: í þær geta fræðimenn sótt dæmi til þess að prófa tilgátur sínar og kenningar. Ævisaga Gunnars uppfyllir þetta tvennt með mikilli prýði. Raunar minnir ýmislegt úr dagbókum og plöggum Gunnars á upplýsingarnar sem koma fram í orðréttum viðtölum við ráðamenn í nýlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis; í báðum tilvikum er margt sagt tæpitungulaust og af meiri hreinskilni en við eigum að venjast þegar stjórnmálamenn tjá sig opinberlega.


"Tár, bros og töfraskór"

Í hausthefti Tímarits Máls og menningar (3/2011) birtist ritdómur Stefáns Pálssonar sagnfræðings með þessu heiti. Stefán var í hópi þeirra sagnfræðinemenda sem ég kenndi fyrst við HÍ haustið 1996, í stað Þórs Whiteheads sem þá fór í rannsóknarleyfi. Það var mikil reynsla - erfiður starfi og stressandi en skemmtilegur og varð auðveldari þegar leið á. Þar réð nokkru að í hópnum voru nemar sem höfðu greinilega áhuga og þekkingu á efninu - námskeiðið var Mannkynssaga IV, einkum heimsstyrjöldin og kalda stríðið. Auk Stefáns minnist ég Rósu Magnúsdóttur sagnfræðings, Eggerts Þórs Aðalsteinssonar, Péturs H. Árnasonar Þórarinssonar, Kolbeins Ó. Proppé, Björns Inga Hrafnssonar og fleiri - afsakið þeir sem maður gleymir að telja upp en eiga það skilið.

Dómur Stefáns um ævisögu Gunnars Thoroddsens var fínn og marga áhugaverða punkta að finna í honum. Eftir lestur hans nóteraði ég hjá mér þessa punkta:

„Það merkilega er hversu meðvitaður Gunnar Thoroddsen er um eigin hégómleika og getur jafnvel gantast með hann sjálfur. ... Sá Gunnar sem þar birtist [í dagbókum hans og minnisblöðumm] er ekki á stalli, heldur persónulegur og sjálfsgagnrýninn. Þessi hlið gerir það líka að verkum að aðalpersónan öðlast samúð lesandans í stað þess að vera gjörsamlega óþolandi.“

„Frá sjónarhóli marxistans, sem vill leita stórra efnahagslegra skýringa á framrás sögunnar í stóru jafnt sem smáu, er það nánast óþolandi að þurfa að skýra flokkadrætti sem mótuðu íslenska pólitík um áratugi með særðu stolti og illskiljanlegri kergju milli manna. Undan því verður þó ekki komist.“

"Afbragðsvel unnið verk"

Gauti Kristmanns flutti fróðlegan og jákvæðan dóm um verkið í Víðsjá Ríkisútvarpsins 21. des. 2010. Á dóminn má hlusta hér.

"Sannfærður klækjarefur"

Í júníhefti hinnar sósíaldemókratísku Herðubreiðar skrifar Haukur Már Haraldsson jákvæðan ritdóm um ævisögu Gunnars. Enn þykja mér sumir þó gera of mikið úr söfnun sjálfstæðismanna á upplýsingum um pólitískar skoðanir kjósenda. Þar að auki þarf að setja gagnrýni á þá háttsemi í samhengi; hinir flokkarnir gerðu þetta líka og þar sem þeir réðu gátu flokksskírteini líka skipt sköpum um það að fá atvinnu eða greiða af ýmsu tagi. Um það vitnar ástandið í "rauðu bæjunum" svonefndu eða til sveita þar sem Framsókn og kaupfélögin réðu gjarnan lögum og lofum. Ég leyfi mér að birta ritdóminn í heild hér.Drupal vefsíða: Emstrur