Skip to Content

Þingsetningarræðan

Ræða forseta við setningu Alþingis vakti athygli. Hún gefur m.a. tilefni til að minnast langs ferils Ólafs Ragnars Grímssonar á vettvangi stjórnmálanna. Eins og staðan er í dag er hann einn þeirra stóru sem settu svip sinn á pólitíkina síðustu áratugi síðustu aldar og fram á þessa. Þar er hann í hópi með Davíð Oddssyni, Jóni Baldvin, Steingrími Hermanns, Ingibjörgu Sólrúnu, Jóhönnu Sig. og eflaust mætti bæta aðeins í þennan hóp. Í ræðu sinni leit Ólafur Ragnar um öxl og ræðu hans mátti vissulega lesa þannig að senn kæmi að kveðjustund. En svo mátti lesa hana öðruvísi líka, að ekki væri endilega komið að þeim skilaboðum. Þetta hefur verið haft til marks um kænsku Ólafs, jafnvel klæki, að halda leiðum opnum, útiloka ekkert. Í aðra röndina má dást að þessari pólitísku snilli. Hitt gæti þó líka talist virðingarvert að mæla þannig að ekki fari á milli mála hvað maður á við. 

Í þessum fjölmiðlum hef ég tjáð mig um þessi efni, með einum eða öðrum hætti. Fyrst smá athugasemd á facebook sem rataði í fréttir RÚV, svo viðtal í Morgunblaðinu, undir þeirri ágætu fyrirsögn "Fræðimenn ósammála forseta". Að síðustu spjall á Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar. Þar nefndi ég m.a. að það að "fræðimenn" væru ósammála þyrfti nú ekkert endilega að hryggja Ólaf Ragnar, ekki síst ef hann hygðist nú eftir allt saman sitja áfram á forsetastóli. Svoleiðis afstaða "fræðasamfélagsins" gæti orðið fyrirmyndarupplegg í kosningabaráttu forseta fólksins. Með annað augað á þessu benti ég t.d. á að eftir þingsetningarræðu forseta fékk hann yfirburðafylgi í skoðanakönnun Útvarps Sögu, þótt óvísindaleg sé, og hver einasti maður sem hringdi inn í símatíma hjá Reykjavík síðdegis, kvaðst myndu styðja Ólaf, byði hann sig fram á ný. Í útvarpinu lagði ég líka áherslu á þessa kenningu hér: "Sitjandi forseti sigrar alltaf". Hún er í grófum dráttum sú að kjósi forseti að bjóða sig fram sé langlíklegast að hann hafi sigur, muni njóta þess að vera á embættisstóli og fólki þyki ekki við hæfi að velta honum úr sessi, að hann geti dregið víglínurnar dálítið sjálfur, valið hvað kosningarnar snúist um og þar fram eftir götum. Um þetta hafa tveir nemendur skrifað námskeiðsritgerðir hjá mér, Markús Þórhallsson (að vísu ekki alveg um þetta en "ósvífnu framboðin" svonefndu fyrr á tíð) og Finnbjörn Benónýsson. Skrifi maður meira um forsetaembættið, eins og vonir standa til, fer maður dýpra í þetta allt saman.

Share this


Drupal vefsíða: Emstrur