Skip to Content

Gagnrýni á gagnrýni gagnrýnd

Forseti Íslands flutti sitt hefðbundna nýársárvarp í dag. Linda Blöndal á Stöð tvö bað mig um að kommentera á það, sem maður auðvitað gerði með glöðu geði eins og sjá má hér. Í ávarpi sínu sagði Ólafur Ragnar Grímsson meðal annars: "Um hríð hefur lítt verið tíðkað að halda til haga því sem þjóðin hefur áorkað og sumir bregðast jafnvel illa við þegar slíku er hampað; telja gort og vart við hæfi; kaldhæðni gagnrýnandans einatt vinsælli en lofsamleg ummæli þeirra sem vekja athygli á því sem vel er gert."

Í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu á gamlársdag kvað við svipað tón hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra: "Stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa eiga það sameiginlegt að við þá talar mikill fjöldi fólks, oft með góðar ábendingar og athugasemdir um það sem má betur fara. Á göngu upp Laugaveg á Þorláksmessu vatt ókunnug kona sér að fjölskyldunni og sagðist vilja þakka fyrir það sem áunnist hefði við landsstjórnina. Hún bætti við að það væri verst hvað hinn þögli meirihluti væri óduglegur að láta í sér heyra meðan „háværum nöldurseggjum“, eins og hún orðaði það, væri að takast að ræna þjóðina gleðinni. Við eigum það flest sameiginlegt að geta glaðst á góðri stundu og líða betur innan um þá sem búa yfir gleði og lífshamingju frekar en nöldri og úrtölum. Víst er að lífið er of dýrmætt til að eyða því í formælingar og illmælgi. Gleði í samskiptum fólks bætir andrúmsloft og gerir lífið skemmtilegra."

Að síðustu má líka benda á orð Agnesar Sigurðardóttur, biskups flestra Íslendinga, nú um áramótin, um þá óheillaþróun að hennar mati að fólk efist æ meir um ýmis grunngildi samfélagsins: "Það virðist á stundum sem við sem þetta land byggjum nú um stundir höfum ekki sameiginlegan grundvöll til að standa á. Það er sama hvað sagt er og gert er. Það er allt dregið í efa og stutt er í hugsanir um annarlegan tilgang eða hagsmunapot."

Ábendingar leiðtoga ríkis og kirkju eru umhugsunarefni. Káinn kvað á sínum tíma: "Haltu kjafti, hlýddu og vertu góður. Heiðra skaltu föður þinn og móður."

 
Share this


Drupal vefsíða: Emstrur