Skip to Content

Landhelgismál

„Gunboats fight frigates. Naval forces in the Anglo-Icelandic cod wars, 1958-76”. Fyrirlestur 3. okt. 2003.

„Gunboats fight frigates. Naval forces in the Anglo-Icelandic cod wars, 1958-76”. The 7th North Atlantic Fishing History Association Conference, „Fish, War and Politics, 1300-2003”, Amsterdam og Middelburg, Hollandi, 30.9.-4.10.2003.

Í þessu erindi lagði ég áherslu á það að þorskastríðin voru fyrst og fremst pólitísk og diplómatísk átök, þótt vissulega megi ekki gera lítið úr atganginum á hafi úti sem hafði mikil áhrif á gang mála í landi. Í "abstract" erindisins sagði:

This paper will discuss the naval correlation of forces in the Anglo-Icelandic “cod wars” – the disputes which arose when Iceland extended its fishing limits after the Second World War. The first conflict began in 1958, when the limit was moved from four miles to 12, and ended in 1961. In 1972-73, a similar dispute occurred over Iceland’s extension to 50 miles and, finally, in 1975-76 the two countries clashed over an extension to 200 miles.

 

On each occasion, Britain sent Royal Navy warships to protect British trawlers from harassment by Icelandic coast guard vessels. But in spite of absolute superiority on the seas, Britain had to back down and accept the Icelandic “encroachment” on the oceans. All things considered, Iceland was stronger than Britain. The law of the sea was developing in favour of coastal states; the strategic importance of Iceland during the Cold War meant that the Icelanders could threaten that if Britain did not give in, they might leave NATO or order the closure of the US military base on the island; they benefited from world sympathy for the small side fighting a “big bully”; and the risk of overfishing aided the Icelandic cause.

 

In other words, the “cod wars” were primarily political conflicts. Even so, the situation at sea was of course important as well. In the paper, the naval aspect will be discussed in detail, for instance by examining the following questions:

-          size, number and fighting power of the vessels on each side

-          instructions to the naval commanders on each side

-          the course of the conflicts if naval strength had been allowed to take precedence over other considerations

Photographs will be used to show how British and Icelandic vessels clashed with each other in the disputed waters. Recently declassified sources in Britain will also be used, as well as interviews with naval commanders on each side. These sources will support the conclusion that, as one of the Royal Navy captains put it, “we were fighting with our hands tied behind our backs, and if we had been allowed to, we could have sunk the Icelandic “fleet” in a matter of days”.

"Goðsagnir þorskastríðanna", Fréttablaðið 16. febrúar 2011

Í þessari grein er áfram glímt við goðsagnir þorskastríðanna. Óhætt er að segja að hún hafi vakið mikla athygli og viðbrögð, a.m.k. í þeim skammtímaleik sem dægarmálaumræðan getur verið og er því vísað hér til endursagnar Egils Helgasonar. Við hana voru gerðar ýmsar athugasemdir með og á móti en því miður (eða sem betur fer) hafa þær ekki lifað af endurskipulagningu á vef Eyjunnar.

""Við semjum ekki við Breta, við sigrum þá"", Stríðið um miðin 4. sept. 2008

Grein þessi birtist í sérblaðinu "Stríðið um miðin" sem fylgdi Morgunblaðinu 4. sept. 2008, í tilefni þess að þá var hálf öld liðin síðan vinstri stjórn Hermanns Jónassonar, með Lúðvík Jósepsson í stóli sjávarútvegsráðherra, færði fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur. Greinina og kálfinn allan má lesa hér. Einnig má benda á fyrri kálf, þegar þess var minnst árið 2006 að 30 ár voru liðin frá lokum síðasta þorskastríðsins, og allar þær deilur sem hann olli. Þær er að finna hér.

Þorskastríðið sumarið 2006

Hinn 31. mars 2006 hófst dálítið "sögustríð" á Íslandi. Kom þá út sérstakur blaðauki Morgunblaðsins í tilefni þess að sumarið 2006 voru 30 ár voru liðin frá lokum síðasta þorskastríðsins. Sitt sýndist hverjum um þann kálf þar sem ég skrifaði stutta yfirlitsgrein um gang alls landhelgismálsins. Einnig flutti ég erindi á málþingi um efnið og má finna frásögn af því hér.

Út af þessu spannst ritdeila milli mín og Hreggviðs Jónssonar, sem kjörinn var á þing fyrir Borgaraflokkinn árið 1987. Deildum við um landhelgismál, þorskastríð og söguskoðun. Fyrst er hér grein mín, svo grein Hreggviðs og loks svar mitt. Þegar þetta er lesið mætti halda að ég hafi horn í síðu Hreggviðs Jónssonar. Svo er alls ekki "en það var hann sem byrjaði".

Til frekari fróðleiks vek ég líka athygli hér á grein Jóhanns Ársælssonar sem fjallar um svipað efni og er manni bæði ljúft og skylt (!) að vekja sérstaka athygli á þessum orðum Jóhanns: "Til að fá raunsanna mynd af málinu verða lesendur að lesa grein Guðna Th. Jóhannessonar sem ég vona að sem flestir hafi gert. Þar lýsir Guðni af fullri hlutlægni baráttu sem þjóðin háði af einurð undir forystu stjórnmálamanna sem þorðu að taka djarfar ákvarðanir." Loks verður einnig að geta greinar Jóns vinar míns Baldvins Hannibalssonar um "sögufölsunarfélagið". Og þá verður að hafa með svar Staksteina.

Hélt einhver að kalda stríðinu væri lokið 2006? Nú eða þá þorskastríðunum?

"Sjálfstæðisbarátta til sjávar", fylgirit Morgunblaðsins 31. maí 2006

Grein þessi birtist í blaðauka Morgunblaðsins, "Átökin um auðlindina" sem góðir vinir og kunningjar hjá KOM unnu í samvinnu við Guðmnd H. Garðarsson, þann mikla baráttumann þess að sögu landhelgismálsins sé haldið á loft - og þá auðvitað einkum afreka hans eigin flokks! Guðmundur er ennþá stjórnmálamaður fram í fingurgóma þó að hann skrifi alls ekki upp á allt sem gert hefur verið í nafni flokks hans - nú eða þá að hann sé sáttur við alla framkomu í hans garð. Hún getur verið grimm þessi pólitík.

Ekki er loku fyrir skotið að greinin hafi breyst örlítið í meðföröum prófarkalesara og yfirlesara en svona fór hún frá mér á sínum tíma.

Sjálfstæðisbarátta til sjávar

Yfirlit um sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna, 1948-1976

 

Landgrunnslög og löndunarbann, 1948-56

Hinn 5. apríl 1948 samþykkti Alþingi einum rómi landgrunnslögin svokölluðu. Í lögunum var lýst yfir rétti Íslands til þess að stýra fiskveiðum yfir landgrunninu. Aðalhöfundur laganna var Hans G. Andersen, ungur þjóðréttarfræðingur sem hafði verið ráðinn til utanríkisráðuneytisins tveimur árum fyrr og var allar götur síðan einn helsti ráðgjafi og sérfræðingur íslenskra stjórnvalda í hafréttarmálum.

            Bretar brugðust ókvæða við fregnum af þessum nýju lögum á Íslandi. Breskir togarar höfðu leitað á Íslandsmið frá lokum nítjándu aldar og árin eftir seinna stríð sótti úthafsveiðiflottinn um fjórðung alls afla á hinar gjöfulu veiðislóðir hér við land. Útgerðarkóngarnir í Hull og Grimsby – stærstu fiskveiðihöfnum heimsins á þessum árum – vildu alls ekki verða af þeim og létu stjórnvöld í London vita að berjast yrði við Íslendingana með öllum tiltækum ráðum.

Átök voru í vændum. Í október 1949 tilkynntu íslensk stjórnvöld með tilskildum tveggja ára fyrirvara um uppsögn landhelgissamningsins frá 1901 sem kvað á um þriggja sjómílna landhelgi umhverfis Ísland. Vorið 1950 var landhelgin svo færð út í fjórar sjómílur undan Norðurlandi, frá Horni að Langanesi. Nýja línan var ekki mæld frá hlykkjóttri strandlengjunni eins og áður hafði verið heldur voru svokallaðar beinar grunnlínur dregnar milli ystu annesja og skerja, og jafnframt yfir mynni flóa og fjarða. Allar togveiðar og dragnótaveiðar voru bannaðar innan nýju fiskveiðimarkanna, og átti það einnig við um Íslendinga sjálfa. Stjórnvöld tóku þó fram að þau giltu ekki gagnvart Bretum fyrr en samningurinn frá 1901 væri úr gildi fallinn.

            Í árslok 1951 urðu þau tímamót að Alþjóðadómstóllinn í Haag kvað upp þann úrskurð í landhelgisdeilu Noregs og Bretlands að Norðmenn mættu nota beinar grunnlínur við afmörkun fjögurra mílna landhelgi sinnar undan Norður-Noregi. Þessum tíðindum var auðvitað vel tekið á Íslandi og beinast lá við að fylgja í kjölfarið.

Hinn 19. mars 1952 var stórt skref stigið í landhelgissögu Íslands: Ólafur Thors, atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, gaf þá út reglugerð um fjögurra sjómílna lögsögu umhverfis allt landið, mælda frá beinum grunnlínum. Reglugerðin skyldi taka gildi 15. maí sama ár og þegar sá dagur rann upp var víða fagnað á Íslandi. Hins vegar mun hafa verið flaggað í hálfa stöng í Hull og Grimsby. Þar voru menn þó ekki á því að láta í minni pokann fyrir Íslendingum og nutu stuðnings breskra stjórnvalda.„Dálitlar hefndaraðgerðir af hálfu togaraeigenda virðast vera besta leiðin til þess að fá [þá] til að taka sönsum,“ skrifaði einn embættismaðurinn í London.

Síðla árs 1952 hófst valdníðslan í verki. Útgerðarmenn neituðu íslenskum togurum um afnot af löndunartækjum og neyddu fiskkaupmenn til að sniðganga íslenskan afla. Þetta var þungt högg því breski ísfiskmarkaðurinn var okkur afar mikilvægur. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Í ágúst 1953 gerðu Ísland og Sovétríkin viðamikinn viðskiptasamning: Ísland seldi einkum síld og frystan fisk og fékk mestmegnis olíu í staðinn en þó einnig alls kyns vörur. Fisksala jókst einnig til Bandaríkjanna og fleiri landa en það voru Sovétviðskiptin sem skiptu sköpum.

 Valdhafar í Moskvu sáu fyrir sér að viðskiptin myndu auka veg þeirra og sósíalista á Íslandi. Það var því ekki furða að þau ollu talsverðum áhyggjum í Washington og víðar á Vesturlöndum og þrýst var á Breta að aflétta löndunarbanninu. Ísland var mikilvægt bandalagsríki í Atlantshafsbandalaginu og hér hafði bandarískt herlið verið frá árinu 1951 þegar varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var undirritaður. Mörgum landsmönnum var þó í nöp við það og hlutleysi átti alltaf nokkru fylgi að fagna í landinu.

 Fyrir Breta bætti ekki úr skák að sumarið 1956 lét Alþjóðalaganefndin, sem vann á vegum Sameinuðu þjóðanna, í það skína að ríki heims mættu taka sér 12 mílna landhelgi þótt margir vildu að vísu hafa hana þrengri. Í nóvember þetta ár afléttu bresku útgerðarmennirnir löndunarbanninu, nánast að skipun stjórnvalda sem viðurkenndu í verki fjögurra mílna lögsöguna frá 1952 umhverfis Ísland. Loks var sigur í höfn, eftir áralanga baráttu. En ekki var setið auðum höndum; þá þegar lá ný víglína fram undan.

„Við semjum ekki við Breta, við sigrum þá.“ Fyrsta þorskastríðið, 1958-61.

Árið 1956 komst til valda á Íslandi stjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og hins nýstofnaða Alþýðubandalags, í raun arftaka Sósíalistaflokksins. Í stjórnarsáttmála var kveðið á um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur. Sósíalistar vildu helst láta til skarar skríða strax árið 1957 en féllust með semingi á að bíða og sjá hvernig málum yndi fram á fyrstu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var snemma árs 1958. Ekki náðist þar samkomulag um víðáttu landhelgi en öllum mátti vera ljóst að þriggja mílna reglan liði senn undir lok.

            Á Íslandi kröfðust sósíalistar nú einhliða aðgerða, með Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar. Hermann Jónasson forsætisráðherra og Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra töldu á hinn bóginn réttara að ræða við bandamenn í Atlantshafsbandalaginu, enda einsýnt að Bretar myndu mótmæla útfærslu harðlega. Í leynilegum samningaviðræðum á vegum bandalagsins buðu Hermann og Guðmundur Bretum veiðiréttindi innan nýju lögsögunnar næstu þrjú árin gegn viðurkenningu þeirra á henni. Sósíalistum var haldið utan viðræðnanna en þeir komust á snoðir um þær og hótuðu öllu illu. Svo fór að Bretar féllust ekki á þá eftirgjöf sem var í boði og hér á Íslandi náðist sátt um þá málamiðlun að Lúðvík Jósepsson undirritaði reglugerð þess efnis að 12 mílna fiskveiðilögsaga tæki ekki gildi fyrr en 1. september 1958.

            Þangað til átti að reyna vinna aðrar þjóðir, einkum Breta, til skilnings á því að Íslendingar yrðu að öðlast aukin yfirráð yfir fiskimiðunum. Til mikils var að vinna í þeim efnum því varðskipafloti Íslendinga virtist í fljótu bragði allsendis ófær um að hafa hendur í hári breskra landhelgisbrjóta ef þeir nytu verndar breska flotans eins og útlit var fyrir. Pétur Sigurðsson, hinn vel metni en varkári forstjóri Landhelgisgæslunnar, óttaðist að varðskipunum yrði alger ofraun að stugga við um hundrað togurum þegar þeir sigldu hingað undir vernd breska sjóhersins. Einungis flaggskipið Þór var nógu öflugt til þess að færa togara til hafnar ef skipstjóri og áhöfn streittust á móti. Þór var nær 700 tonn og átti að geta náð um 18 hnúta hraða (um 33 kílómetra ferð á klukkustund). Vopnabúnaðurinn var 57 mm fallbyssa og sama gilti um gamla Ægi. Hann var rúm 500 tonn en mun hæggengari en Þór, og síðan voru í gæsluflotanum bátar innan við 200 tonn með 47mm eða 37mm byssu; Albert og gamli Óðinn, María Júlía og Sæbjörg, og svo vitaskipið Hermóður. Áhöfn Þórs taldi 22 manns og færri voru á hinum skipunum.

Þegar 1. september rann upp höfðu allar samningaviðræður farið út um þúfur og ljóst að í odda myndi skerast. Bresku togaranir hópuðust saman í þremur hólfum innan nýju lögsögunnar undir vernd fjögurra freigáta sem voru mun stærri og öflugri en íslenski „flotinn“. Fyrsta daginn bar í sjálfu sér fátt til tíðinda en að morgni 2. september lá Austfjarðaþokan yfir verndarhólfi undan Austurlandi. Allt var með friði og spekt en skyndilega læddust María Júlía og Þór upp að togaranum Northern Foam. Níu manna sveit var send um borð í hann áður en nokkrum vörnum yrði við komið en til að gera langa sögu stutta öslaði freigátan Eastbourne á vettvang á augabragði, kom hópi sjóliða yfir í togarann og skipaði Íslendingunum að fara um borð í Þór. Þeir voru komnir í skipsbátinn þegar Eiríkur Kristófersson skipherra sigldi í burtu á fullri ferð og Bretar urðu að taka þá yfir í Eastbourne.

Fregnir af þessum darraðardansi úti fyrir Austfjörðum bárust fljótt til Reykjavíkur. Um kvöldið söfnuðust mörg hundruð manns saman við sendiherrabústað Breta á Laufásvegi og voru með háreysti, hrópandi að víkingar gæfust aldrei upp og annað eftir því. Fimmtudaginn 4. september komu þúsundir manna svo saman á fjöldafundi á Lækjartorgi þar sem Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, mælti hin eftirminnilegu orð sem urðu um leið að herópi í landhelgisbaráttunni: „Við semjum ekki við Breta, við sigrum þá.“

Fyrsta þorskastríðið var hafið. Orðið var uppfinning breskra blaðamanna og næstu daga kepptust þeir við að segja hasarsögur af þessu „stríði“ sem þeim fannst flestum grátbroslegt í aðra röndina. Eftir hasarinn fyrstu dagana lægði öldurnar að mestu. Að morgni 13. september fengu Íslendingarnir um borð í Eastbourne að róa til lands á skipsbáti freigátunnar eftir að hún hafði læðst inn á Faxaflóa í skjóli nætur. Smám saman skapaðist svo nokkurs konar „ógnarjafnvægi“ á miðunum: Varðskipin gerðu ekki sitt ýtrasta til að taka togara og þeir héldu hópinn undir herskipavernd í hólfunum. Í þessari pattstöðu hlaut tíminn þó að vinna með Íslendingum. Togarasjómönnunum líkaði ekki að veiða saman á þröngum blettum og þeim kom illa að geta ekki leitað vars, sjúkraþjónustu eða viðgerða í landi nema eiga á hættu að vera teknir og sektaðir fyrir landhelgisbrot. Sum herskipin létu á sjá eftir verstu vetrarveðrin og yfirmenn flotans sögðust ekki geta haldið úti til frambúðar þessari fiskiskipavernd; hún væri bæði of fjárfrek og byndi of mörg skip. Á stjórnmálasviðinu létu Bandaríkjamenn öðru hvoru í ljós þann ótta að þorskastríðið leiddi til þess að Ísland segði sig úr Atlantshafsbandalaginu og breskir embættismenn tóku eftir því að furðu margir Bretar höfðu samúð með lítilmagnanum eða „aumingja litla Íslandi“. Og aldrei var að sjá að Íslendingar væru að bugast.

Vorið 1960 var önnur hafréttarráðstefna haldin og í þetta sinn munaði aðeins einu atkvæði að tillaga um 12 mílna fiskveiðilögsögu þar sem „sögulegur réttur“ yrði virtur í ytri sex mílunum í áratug fengi tilskilda tvo þriðju hluta atkvæða. Bretar höfðu dregið herskip sín af Íslandsmiðum fyrir ráðstefnuna og eftir hana héldu þeir þeim áfram utan 12 mílnanna í þeirri von að íslensk stjórnvöld vildu ganga til samninga um lausn þorskastríðsins.

Viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, var komin til valda þegar hér var komið sögu, undir forsæti Ólafs Thors. Ráðherrar vildu semja við Breta en óttuðust að því yrði illa tekið, jafnvel í röðum eigin flokka. Eftir fund Ólafs Thors með Harold Macmillan, forsætisráðherra Bretlands, í lok september 1960 kom þó loks að því að samningaviðræður hófust. Þær reyndust langar og strangar. Erfiðasti ásteytingarsteinninn lá ekki innan 12 mílnanna heldur utan þeirra. Bresk stjórnvöld stóðu fast á því að þau yrðu að fá einhvers konar tryggingu fyrir því að Íslendingar færðu lögsöguna ekki aftur út einhliða. Erfitt er að meta með fullri vissu hvort menn hafi að lokum mæst á miðri leið. Að því kom þó að ráðamenn beggja landa höfðu gefið það mikið eftir að samkomulag var í höfn. Hinn 11. mars 1961 gekk það í gildi. Bretar féllust á nokkrar nýjar beinar grunnlínur sem juku allmiklu við fiskveiðilögsöguna og þeir fengu takmörkuð veiðiréttindi innan hennar næstu þrjú árin. Breskir ráðamenn hugguðu sig hins vegar við það að íslensk stjórnvöld höfðu fallist á þá kröfu þeirra að skjóta mætti ágreiningi um frekari útfærslu fiskveiðimarkanna umhverfis Ísland til Alþjóðadómstólsins í Haag. Síðar um árið var samið á sömu nótum við Vestur-Þýskaland, við litla hrifningu stjórnarandstæðinga sem höfðu risið upp til handa og fóta þegar samkomulagið við Breta var kynnt. Þeir fordæmdu einum rómi ákvæðið um málskot til Haag og líktu því jafnvel við landráð. En fyrsta þorskastríðinu var lokið.

„Leynivopnið“. Annað þorskastríðið, 1972-73

Í næsta áratug eða svo var allt með kyrrum kjörum í landhelgismálum Íslendinga. Lengst af stóð síldarævintýrið á Íslandi sem hæst og þar voru uppgripin. Hefði eitthvað verið til í svartagallsrausi bresku togaraeigendanna og sjómannanna fyrir fyrsta þorskastríðið hefði 12 mílna lögsagan umhverfis Ísland gert út af við útgerðina. En sú varð alls ekki raunin. Áfram sóttu þeir á Íslandsmið þótt menn yrðu reyndar að leita nýrra veiðislóða.

Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar vonuðust Bretar til þess að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna myndi loks nást sátt um víðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu. Um þessar mundir ákváðu Bandaríkin og Sovétríkin líka að vinna að því að Sameinuðu þjóðirnar efndu til hafréttarráðstefnu í þriðja sinn og þar skyldi stefnt að því að ríki gætu ekki tekið sér víðari lögsögu en 12 mílur. Næstu ár unnu stórveldin að því að afla fylgis við þessa hugmynd og varð nokkuð ágengt þótt þau sæju fljótt að almennt samkomulag næðist aldrei nema strandríkið nyti einhverra sérréttinda utan lögsögunnar. Í Reykjavík fóru fulltrúar þeirra þó bónleiðir til búðar þegar þeir leituðu stuðnings við áform sín hjá Bjarna Benediktssyni sem varð forsætisráðherra viðreisnarstjórnarinnar árið 1963.

            Hörð barátta var fram undan. Í útvarpserindi í desember 1970 sagði Hans G. Andersen að þótt við Íslendingar yrðum að vinna að því áfram að öðlast yfirráð yfir fiskimiðunum umhverfis landið yrðum við að virða lög og rétt. Ekki yrði framhjá því litið að þjóðaréttur leyfði ekki víðari lögsögu en 12 mílur. Leiðtogar viðreisnarflokkanna ítrekuðu sömuleiðis að auðvitað myndu Íslendingar virða landhelgissamningana frá 1961. Annað væri „siðlaus ævintýrapólitík“, sagði Emil Jónsson, formaður Alþýðuflokksins, og sjálfstæðismaðurinn Jóhann Hafstein, sem varð forsætisráðherra eftir andlát Bjarna Benediktssonar í bruna á Þingvöllum sumarið 1970, var sama sinnis; það væri ekki háttur siðaðra þjóða að svíkja orð sín.

            Stjórnarsinnar töldu alls ekki að Íslendingar yrðu bara að bíða með hendur í skauti. Sífellt fleiri skuttogarar og verksmiðjutogarar sigldu um heimsins höf svo vel mætti vera að innan fárra ára þyrftu Íslendingar að deila Íslandsmiðum með úthafsveiðiflota fjölda ríkja ef ekkert yrði að gert. En einhliða útfærsla gegn gerðum samningum væri engu að síður óráð.

Sumarið 1971 var kosið til Alþingis og í kosningabaráttunni reyndist landhelgismálið eitt helsta bitbein stjórnmálaflokkanna. Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkur sneru bökum saman í þeim slag, auk Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, nýs flokks undir formennsku kempunnar Hannibals Valdimarssonar sem hafði sagt skilið við „allaballa“ og bauð sig fram á heimaslóð á Vestfjörðum. Þessir flokkar lýstu því yfir að þeir hygðust færa lögsöguna út í 50 mílur árið 1972, fengju þeir brautargengi.

Sú varð raunin. Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Samtakanna tók við völdum, undir forsæti framsóknarmannsins Ólafs Jóhannessonar. Stjórnin hugðist segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin og vísa herliðinu úr landi en fyrst yrði landhelgismálið leitt til lykta; fært skyldi út í 50 mílur. Bretar og Vestur-Þjóðverjar héldu auðvitað á lofti landhelgissamningunum frá 1961. Ríkisstjórnin nýja neitaði hins vegar með öllu að viðurkenna að þeir hefðu eitthvert vægi en bauð að þeir sem hingað hefðu sótt um árabil mættu gera það áfram á vissum slóðum um stundarsakir – ef samningar næðust um heildarafla, svæðalokanir og einhvers konar viðurkenningu á 50 mílna lögsögunni. Viðræður fóru fram og breskir og vestur-þýskir embættismenn minntu á að Ísland myndi ekki njóta tollafríðinda hjá Efnahagsbandalagi Evrópu ef ósætti ríkti í landhelgismálum. Ekkert miðaði þó í samkomulagsátt og 15. febrúar 1972 ályktaði Alþingi einum rómi að fiskveiðilögsaga Íslands yrði færð út í 50 sjómílur 1. september og samningarnir við Breta og Vestur-Þjóðverja „teldust ekki lengur bindandi“ fyrir Ísland. Þeim var ekki sagt upp eins og stjórnarflokkarnir höfðu ætlað sér og samstaðan á þingi risti greinilega grunnt. Bretar og Vestur-Þjóðverjar skutu svo ágreiningi sínum við Íslendinga til Alþjóðadómstólsins eins og við mátti búast.

Samningaviðræður héldu þó áfram og litlu munaði að bráðabirgðasamkomulag næðist við Breta sumarið 1972. Þá var „lafhægt að semja“ eins og Pétur J. Thorsteinsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, komst að orði. En Lúðvík Jósepsson var helsta ljónið í veginum; hann vildi ekki ganga jafnlangt til móts við óskir Breta og sumir aðrir í ríkisstjórninni, einkum utanríkisráðherrann Einar Ágústsson. Um miðjan ágúst úrskurðaði Alþjóðadómstóllinn svo að breskir togarar skyldu takmarka ársafla sinn við 170.000 tonn og þeir vestur-þýsku við 119.000 tonn uns dómur í deilumálinu lægi fyrir. En áfram neituðu íslensk stjórnvöld að viðurkenna lögsögu dómstólsins og 1. september 1972 gekk í gildi 50 mílna fiskveiðilögsaga umhverfis Ísland. Það er í raun túlkunaratriði hvort annað þorskastríðið hafi þá hafist því Bretar sendu ekki herskip á miðin heldur aðeins óvopnuð og hægfara hjálparskip sem áttu að veita togurunum sjúkra- og viðgerðarþjónustu.

Þótt Gæsluflotinn væri enn agnarsmár í samanburði við sjóheri stærri ríkja höfðu öflug skip bæst í hópinn frá upphafi síðasta þorskastríðs. Árið 1960 kom nýi Óðinn til landsins, 910 tonn með rúmlega 18 hnúta ganghraða. Gamla Óðni var þá gefið nafnið Gautur, eitt dulnefna Óðins. Átta árum síðar fengum við nýjan Ægi, um 1.130 tonna skip sem gat náð tæplega 20 hnúta hraða. Þór og litli Albert voru áfram til taks og og öll stærri varðskipin höfðu tvær fallbyssur, aðra með 57mm hlaupvídd og hina 47mm. Auk þess yrði hægt að hafa not af vitaskipinu Árvakri en það var smíðað í stað Hermóðs sem fórst með allri áhöfn árið 1959. Stjórnvöld reyndu líka að semja við Hval hf. um leigu á einum hvalbáta fyrirtækisins en samkomulag náðist ekki um kjör svo ríkið tók hann leigunámi. Fékk Hvalur 9 þá nafnið Týr en var oftast nefndur „Hval-Týr“.

Flotinn var smár en vígstaðan hafði þó breyst, okkur í hag. Þegar varðskipin lögðu til hafs var sakleysislegt en bráðöflugt „leynivopn“ um borð. Hinn 5. september reyndi fyrst á það: Norðaustur af Hornbanka sigldi Ægir í kjölfar eins landhelgisbrjótsins. Hann var að toga í mestu makindum þegar þessu vopni – klippum sínum sem svipaði helst til járnkarls með teinum á – var slakað út. Áfram sigldi Ægir og örskömmu síðar námu klippurnar við strengda togvíra togarans. Þeir hrukku í sundur og þannig fór um sjóferð þá hjá Bretanum! Varpan sökk til botns og í forundran spurðu togaramenn sig hvað í fjandanum hefði gerst.

            Togvíraklippurnar réðu því að varðskipsmenn þurftu ekki lengur reyna að ráðast til uppgöngu í togara eða skjóta að þeim til þess að stöðva veiðar þeirra. Trollið tapaðist fyrir fullt og allt ef okkar mönnum tókst að skera á báða togvírana og þótt aðeins annar þeirra skærist í sundur fór það þá í hönk og dýrmætur tími tapaðist við að greiða úr því á ný. Nú þurftu togaraskipstjórarnir auk þess alltaf að vera á verði og hífa ef varðskip kom aðvífandi. Í stuttu máli var vígstaðan gerbreytt, okkur í hag.

Næstu vikur og mánuði tókst öðru hvoru að klippa á togvíra togarana – halaklippa þá eins og menn sögðu gjarnan. Togarajaxlarnir reiddust auðvitað við og heimtuðu flotavernd. Slíkt kom kom vissulega til álita í London. Reynslan sýndi aftur á móti að vonir um viðræður hyrfu út í veður og vind ef herskip sigldu á vettvang. Embættismenn í Washington nefndu líka að fyrra bragði við kollega sína í London að vonandi gerðu þeir sér alltaf grein fyrir samhenginu milli fiskveiðideilunnar og framtíðar herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Bretar samsinntu því og segja má að þeir hafi hugsað með sér, frekar gramir í bragði: „Við sigrum ekki Íslendinga, við semjum við þá.“

Enn varð bið á því að freigátur hennar hátignar Bretadrottningar skriðu norður á Íslandsmið. Um miðjan janúar 1973 voru bresku togaraskipstjórarnir hins vegar orðnir svo langþreyttir á togvíraklippingum og áreiti varðskipanna að þeir hótuðu að hætta veiðum fyrir fullt og allt nema þeir fengju meiri vernd. Nú brugðu bresk stjórnvöld á það ráð að senda dráttarbáta til verndar, fyrst einn og síðan fjóra til viðbótar. Þetta voru sterkbyggðir kubbar, snarir í snúningum en ekki nógu ganghraðir nema ferlíkið Lloydsman sem varðskipsmönnum stóð mest ógn af.

Í lok janúar urðu þau stórtíðindi að eldgos hófst á Heimaey og næstu vikur voru varðskipin upptekin við björgunaraðgerðir. Í byrjun mars gátu þau þó hafist handa þar sem frá var horfið og klipptu á fjölda togara uns að því kom að togaraskipstjórar hótuðu aftur að hverfa af Íslandsmiðum. Annaðhvort yrðu herskipin yrðu að skakka leikinn eða Bretar að gefast algerlega upp. Ráðamenn í London vildu ekki láta í minni pokann, allra síst forsætisráðherrann Edward Heath. Hinn 19. maí 1973 hófst flotavernd á ný á Íslandsmiðum.

Íslensk stjórnvöld mótmæltu „innrás“ breska flotans harðlega og létu í það skína að Íslendingar gætu tæpast verið í varnarbandalagi þar sem eitt „vinaríkið“ hagaði sér svona. Þannig var „NATO-vopninu“ veifað, ef svo má að orði komast. Það virkaði ágætlega að því leyti að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins lýstu stöðugt áhyggjum sínum af stöðu mála. Einkum voru Norðmenn uggandi um hag sinn og Joseph Luns, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, reyndi sem hann gat að koma á sáttum. Hitt er annað mál að Bandaríkjamenn sýndu því furðu lítinn áhuga að þrýsta á Breta til eftirgjafar.

Á sama tíma harðnaði baráttan á miðunum. Sumarið 1973 kom nokkrum sinnum til árekstra milli varðskipa og herskipa eða dráttarbáta. Í ágústlok varð það hörmulega slys um borð í Ægi stuttu eftir árekstur við freigátu að skipverji, sem hafði verið að gera við skemmdir á skipinu og hélt á rafsuðutæki, fékk raflost og lést þegar alda kom yfir borðstokkinn og lenti á honum. Hótanir um slit stjórnmálasambands við Bretland heyrðust í landi og í lok september tilkynnti ríkisstjórn Íslands að hefðu herskipin og dráttarbátarnir ekki haldið á brott innan viku yrði gripið til þess ráðs. Valdhafar í Washington komu þeim skilaboðum strax til London að þótt þeir vildu ekki segja Bretum fyrir verkum bæðu þeir þá lengstra orða að hafa mikilvægi Keflavíkurstöðvarinnar fyrst og fremst í huga.

Í byrjun október gáfu Bretar eftir. Herskipin sigldu út fyrir 50 mílurnar og um miðjan mánuðinn hélt Ólafur Jóhannesson á fund Edwards Heath í London. Þar urðu til drög að tveggja ára samkomulagi um 130.000 tonna ársafla, hámarksfjölda togara hverju sinni, útilokun frysti- og verksmiðjutogara, tímabundnar svæðalokanir og rétt Íslendinga til eftirlits og löggæslu. Formleg viðurkenning Breta á 50 mílunum fylgdi þó ekki með í kaupunum og alþýðubandalagsmenn fundu þessu „makki“ allt til foráttu. Sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn voru hins vegar reiðubúnir að styðja Ólaf og þegar á reyndi gerðu alþýðubandalagsmenn það líka, enda lifðu þeir í þeirri von að stjórnin myndi standa við stóru orðin um brottför Bandaríkjahers. Hinn 13. nóvember samþykkti Alþingi þá lausn á deilunni sem náðst hafði í London. Öðru þorskastríðinu var lokið.

Það segir sína sögu um vanmátt Alþjóðadómstólsins í Haag að lokadómur hans verður aðeins útúrdúr í þessari sögu. Dómurinn féll ekki fyrr en í júlí 1974 og kvað á um að Íslendingum hefði verið óheimilt að banna með öllu veiðar Breta og Vestur-Þjóðverja milli 12 og 50 sjómílna undan Íslandsströndum. Dómstóllinn sagði þó ekki skýrum orðum að 50 mílna lögsaga gengi í berhögg við gildandi þjóðarétt, enda hafði hann áfram þróast okkur í vil. En úrslitaorrustan var enn eftir.

 

Orrustan um Atlantshafið. Þriðja þorskastríðið, 1975-76

 

Þótt sátt hefði náðst við Breta í nóvember 1973 var enn ósamið við Vestur-Þjóðverja. Næstu misseri einbeittu varðskipsmenn sér að veiðum þeirra, klipptu nokkrum sinnum á togvíra, meira að segja utan 50 mílnanna og færðu einn togara til hafnar síðla árs 1974.

            Um sumarið það ár kom ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til valda á Íslandi, undir forystu Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Þessi stjórn ákvað að fiskveiðilögsagan yrði færð út í 200 mílur ári síðar. Segja mátti að slíkt skref væri að mestu í samræmi við þróun hafréttar. Um sömu mundir hafði þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafist í Caracas, höfuðborg Venesúela, eftir undirbúningsfundi í New York. Greinilegt var að 200 mílna efnahagslögsaga átti sífellt meira fylgi að fagna. Bretar viðurkenndu það vel en vildu halda í „sögulegan rétt“ til fiskveiða á fjarlægum slóðum, að minnsta kosti til nokkurra ára.

            Við vorum í meðbyr. Sumarið 1975 virtist auk þess koma á daginn að við mættum engan tíma missa. Þá birti Hafrannsóknastofnunin „svörtu skýrsluna“ svokölluðu, ískyggilega úttekt á áralangri ofveiði botnfisktegunda við Ísland. Þorskurinn skipti meginmáli og sagði í skýrslunni að sókn í hann þyrfti að minnka um helming. Það þýddi það eitt að útlendingarnir yrðu að víkja og 15. júlí 1975 var stóra skrefið stigið: Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra undirritaði reglugerð um 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. Hún skyldi taka gildi þremur mánuðum síðar en þó ekki gagnvart Bretum fyrr en um miðja nóvember vegna samningsins við þá við lok 50 mílna deilunnar.

Bretar sögðust fúsir til samninga og ríkisstjórnin var ekki afhuga því. Geir Hallgrímsson, sá gætni maður málamiðlana, sagði ekki að við myndum aldrei semja við Breta heldur sigra þá heldur urðu hans einkunnarorð þessi: „Semjum til sigurs – eða berjumst til sigurs.“ Því miður tókst ekki að brúa bilið milli krafna Breta og þess sem íslensk stjórnvöld töldu sig geta boðið enda voru kröfurnar ytra í fyrstu mjög óraunhæfar; 130.000 tonn á ári næsta áratuginn og hefðu menn eins getað stungið upp á því að þriggja mílna samningurinn frá 1901 yrði endurnýjaður!

Bót var í máli að í nóvember náðist tveggja ára samkomulag við Vestur-Þjóðverja sem fól í sér að þeir mættu ekki veiða meira en 60.000 tonn á ári næstu tvö árin (þar af aðeins 5.000 tonn af þorski).

Hinn 14. nóvember 1975 rann samkomulagið við Breta frá 1973 út og íslensk varðskip tilkynntu breskum togurum, nærri 50 talsins, að þeir væru að ólöglegum veiðum innan 200 mílna lögsögu Íslands. Í varðskipaflotann höfðu bæst tvö ný skip, Týr sem var systurskip Ægis og skuttogarinn Baldur. Strax 15. nóvember kom á daginn að Íslendingar ætluðu sér ekki að gefa nein grið í deilunni; Þór og Týr skáru á togvírana hjá sínum togaranum hvor. Tónninn var gefinn og nú liðu aðeins tíu dagar uns herskipin komu á miðin.

Dráttarbátar voru einnig til taks og komu þeir mikið við sögu snemma í desember. Tveir þeirra höfðu þá leitað vars nálægt Seyðisfirði og stuttu síðar kom sá þriðji á sömu slóðir. Þeir voru allir innan þriggja mílna landhelginnar þegar Þór sigldi í hasti út Seyðisfjörð í átt til þeirra. Er skemmst frá því að segja að með skömmu millibili lenti varðskipið í tveimur árekstrum við einn dráttarbátinn og Lloydsman sigldi af krafti á það. Þeir á Þór skutu nokkrum viðvörunarskotum en gátu ekki komið í veg fyrir undanhaldið og urðu um síðir að láta gott heita.

Íslendingar reyndu aftur á móti að sækja sigur í þessum bardaga annars staðar. Í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel endurtók Einar Ágústsson (sem enn var utanríkisráðherra) þau orð úr fyrri átökum að sífellt færri Íslendingar styddu vestrænt varnarsamstarf út af ofbeldi Breta og nú bar meira að segja svo við að kæra Íslands gegn Bretlandi var borin upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðannna í New York. Atburðunum út af Seyðisfirði og veru breskra herskipa á Íslandsmiðum var harðlega mótmælt og þess vænst að ráðið léti sig málið varða.

Öryggisráðið leiddi það þó hjá sér og næstu vikur urðu áfram harðir árekstrar á miðunum. Að því kom að í landi var ekki aðeins brugðist við með því að beita orðsins brandi í Brussel og New York. Hornfirðingar hindruðu umferð að ratsjárstöðinni á Stokksnesi og útgerðarmenn og sjómenn á Suðurnesjum lokuðu um stund vegum að fjarskiptastöð varnarliðsins við Grindavík og ratsjárstöðinni í Rockville. Viðvaranir um slit stjórnmálasambands heyrðust í Reykjavík og Joseph Luns leitaði lausnar, líkt og fyrri daginn. Áeggjanir hans stuðluðu að því að upp úr miðjum janúar drógu Bretar herskip sín út fyrir 200 mílna mörkin og afráðið var að Geir Hallgrímsson héldi til London til viðræðna við Harold Wilson forsætisráðherra og James Callaghan utanríkisráðherra.

            Breskir ráðamenn komu þeim óskum til skipstjóranna á miðunum að reyna ekki að toga með varðskip í grenndinni og treystu því að friður yrði á miðunum rétt á meðan forsætisráðherra Íslands væri í London. En var vilji til þess í Reykjavík og hver tæki ákvörðun um slíkt vopnahlé? Ólafur Jóhannesson var dómsmálaráðherra og þar með æðsti yfirmaður Landhelgisgæslunnar. Hann gaf ekki skýr fyrirmæli um að togvíraklippingar væru bannaðar á meðan Geir Hallgrímsson væri ytra fyrr en um seinan: Klippt var á víra eins togarans sem hafði ekki virt óskir um að hætta veiðum – um leið og Geir sat á fundum með Wilson og Callaghan.

Með sökkvandi vörpu hins breska togara hvarf ekki aðeins aflinn úr síðasta togi heldur einnig allar vonir um sættir í London. Geir Hallgrímsson fór vonsvikinn heim á leið og kenndi Ólafi Jóhannessyni um að hafa ekki viljað segja skipherrum varðskipanna að sýna stillingu.

Í febrúar urðu áfram harðir árekstrar á miðunum og nú var svo komið að slitum á stjórnmálasambandi varð ekki forðað. Það skref var stigið 19. febrúar 1976 og var auðvitað sögulegt. Aldrei hafði komið til slíkra aðgerða í deilum tveggja aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og hefur það ekki heldur gerst síðar. Allar samningaþreifingar urðu mun erfiðari þegar málum var svona komið. Það varð hins vegar bæði Bretum og Íslendingum til happs að Knut Frydenlund, utanríkisráðherra Noregs, reyndist óþreytandi í leit að málamiðlun sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Frydenlund hafði auðvitað áhyggjur af því að þorskastríðin gæti leitt til þess að Íslendingar segðu sig úr Atlantshafsbandalaginu og rækju Bandaríkjaher úr landi, því það hefði slæm áhrif á varnarhagsmuni Norðmanna. En þar að auki vildi Frydenlund í einlægni finna lausn.

Það tókst að lokum en áður sló heldur betur í brýnu á miðunum. Í febrúar og mars 1976 var Baldur sérlega aðgangsharður. Réð þar miklu að hvössum skut hans var hægt að beita nánast eins og dósahníf á þunnan byrðing freigátanna ef þær voguðu sér of nærri. Á tímabili ákváðu Bretar að reyna að forðast tjón frekar en ganga svo langt í togaraverndinni að ásiglingar ættu sér stað. Okkar menn áttuðu sig hins vegar fljótt á þessu og gengu á lagið. Í byrjun maí hótuðu togaraskipstjórar enn að halda heim á leið ef ekkert yrði að gert. Hömlum á herskipin var þá aflétt í London og að kvöldi 6. maí urðu nokkrir afar harðar árekstrar á hafi úti. Minnstu mátti muna að Týr sykki eftir tvær ásiglingar breskrar freigátu. Svo mikill hiti var í freigátukapteinum þetta kvöld að þeir sóttu um leyfi til London að mega beita fallbyssum sínum og sprengjum.

Það leyfi fékkst ekki. Í raun má segja að „NATO-vopn“ okkar hafi verið fallbyssum freigátanna yfirsterkara. Hefði Týr sokkið eða Bretar skotið á varðskip geta menn rétt ímyndað sér hvort reiði í garð þeirra hefði ekki magnast um allan helming hér á landi. Kröfur um úrsögn úr NATO eða brottför Bandaríkjahers hefðu aukist um leið.

Um þetta leyti var líka orðið ljóst að innan árs myndu fjölmörg ríki vera búin að taka sér 200 mílna efnahagslögsögu, þeirra á meðal Bandaríkin og aðildarríki Efnahagsbandalagsins. Og í þeim hópi var Bretland sjálft! Eftir afsögn Harolds Wilson í mars hafði James Callaghan orðið forsætisráðherra og Anthony Crosland, þingmaður Grimsby, varð utanríkisráðherra. Hann gerði sér vel grein fyrir því að slagurinn var tapaður og um miðjan maí kom hann þeim skilaboðum til íslenskra stjórnvalda, með milligöngu hins norska Frydenlund, að Bretar myndu sætta sig við nánast hvaða lausn á deilunni sem Íslendingar byðu.

Þriðjudaginn 1. júní 1976 var undirritað í Osló samkomulag Íslands og Bretlands um lok fiskveiðideilu þessara tveggja ríkja. Stjórnmálasambandi ríkjanna var að bragði komið á. Bretar viðurkenndu 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland og lofuðu að virða öll friðunarsvæði innan hennar. Gegn því fengu þeir heimild til afar takmarkaðra veiða næstu sex mánuði. Þriðja og síðasta þorskastríðinu við Breta var lokið.

"Okkar bestu óvinir", Morgunblaðið 7. mars 2004

Í þessari grein fjalla ég um viðbrögð breskra stjórnvalda við því þegar Guðmundur frændi minn Kjærnested skaut ítrekað á breska togarann Everton í lok maí 1973 svo við lá að hann sykki (Margrét, móðir Guðmundar, og Sigurveig, föðuramma mín, voru systur og minnist ég með hlýhug margra heimsókna á heimili Guðmundar og Margrétar konu hans. Skeggræddum við þá um landhelgismál og er óhætt að segja að hann hefði seint orðið sammála mér og öllum mínum túlkunum. Sjónarhólinn var allur annar).

Myndin sem fylgir er af mér og George "Cockle" Mussell, skipstjóranum á Everton. Hann heimsótti ég í Cleethorpes, byggðarlagi  fyrir utan Grimsby. Hann var höfðingi heim að sækja og hafði sérlega gaman af því að rifja upp þorskastríðin, ekki síst hasarinn þegar Captain Kjærnested hafði nærri sökkt skipi hans. Engan kala bar hann þó til frænda eða nokkurs Íslendings. "Þið voruð bara að gera það sem þið urðuð að gera", sagði hann, hafi ég skilið hnausþykka Humber-mállýsku hans.

"Þorskastríð og hvernig á að vinna þau", Morgunblaðið 30. mars 2003

Í þessari grein eru raktar þær áætlanir breska sjóhersins að fara í hart við Íslendinga í þorskastríðunum á áttunda áratugnum, fengist til þess pólitískt leyfi. Vissulega létu Bretar vel finna fyrir sér, bæði á herskipum og dráttarbátum, en staðreyndin er þó sú að hefði valdið og mátturinn fengið að ráða, án þess að hömlur hefðu nokuð að segja, hefðu breski sjóherinn gert út af við varðskipaflotann íslenska á nokkrum dögum.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur