Skip to Content

Blaða- og tímaritsgreinar

"Misskilningur Ellemanns-Jensens", Morgunblaðið 6. mars 1997

Þessa grein skrifaði ég í framhaldi af MA-ritgerð minni um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Þá ritgerð má finna á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni og vonandi tekst manni einhvern tímann að gefa hana út. Örlítillar þjóðernishyggju gætir í greininni, enda er hún skrifað til að hnekkja þeim misskilningi Uffe Ellemanns að Danir hafi komið fyrstir í mark í "Eystrasaltshlaupinu" mikla árið 1991. Í greininni segir m.a. að Lettar hafi fengið slíkt dálæti á danska utanríkisráðherranum að margir foreldrar hafi skírt dætur sínar nýfæddar lettneska kvenmannsnafninu Uffe. Þetta er saga sem ég heyrði eða las einhvers staðar og slysaðist til að leggja trúnað á en er alls ekki viss um að sé sönn.

"Rússarnir koma", Morgunblaðið 16. jan. 2007.

Grein þessi var andsvar við gagnrýni Björns Bjarnasonar á ritdóm Jóns Ólafssonar um Óvini ríkisins. Allt vafði þetta upp á sig og varð eflaust lítill skemmtilestur lesendum Morgunblaðsins. Þess verður að geta í framhjáhlaupi að bíómyndin Rússarnir koma er ein af mínum uppáhaldsmyndum og kveikjan að titli greinarinnar (og hafði jafnvel einhver áhrif á innihaldið, og alla mína skoðun á kalda stríðinu). Björn Bjarnason svaraði þessari grein með annarri á síðum Morgunblaðsins. Lét ég þar við sitja, hef aldrei verið þeirrar gerðar að vilja alltaf eiga síðasta orðið.

"Völundarhús fortíðarinnar", Morgunblaðið 6 des. 2005.

Í þessari grein leitaðist ég við að svara álitamálum sem nefnd höfðu verið í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins eftir útkomu Völundarhúss valdsins, eins og rakið er í ummælum um þá bók [LINKUR]. Reyndar höfðu synir Gunnars Thoroddsens, þeir Ásgeir og Sigurður, þá þegar lagt í orð í belg. Að vissu leyti var Völundarhúsið eins konar forleikur að ævisögu Gunnars - og öllum þeim hasar sem henni fylgdi.

"Veit einhver allt?" Morgunblaðið 28. okt. 2006

Haustið 2006 var enn deilt um símahleranir og innra öryggi ríkisins, eftir erindi mitt um hleranirnar á Söguþingi um vorið og svo grein Þórs Whiteheads um öryggismál í tímaritinu Þjóðmálum. Í tveimur greinum í Morgunblaðinu tókumst við Þór aðeins á, meistarinn og lærisveinninn ef svo má segja... Grein Þórs má lesa hér og mína hér.

"Uppljóstrarinn fundinn", Sagan öll 7 (2007)

Í þessari grein er að finna mikilvægar upplýsingar um ástæður þess að ákveðið var að hlera ákveðin símanúmer sumarið 1968. Um leið sannar hún mikilvægi þess að birta rannsóknir helst þar sem eftir þeim er tekið, annars hafa þær lítil sem engin áhrif.

"Siðferði og sérhagsmunir í utanríkisstefnu Íslands", Morgunblaðið 15. okt. 1997

Það kom mér ánægjulega á óvart á sínum tíma að sjá miðopnu Morgunblaðsins lagða undir þessa grein. Réð því Styrmir. Í ritstjóratíð sinni reyndist hann mér ávallt vel. Mér finnst greinin ágæt yfirlit um þá spennu sem hlýtur að gæta milli siðferðis og sérhagsmuna hjá lýðræðislegu örríki í hörðum heimi.

""Með því að óttast má"" (2008)

„Með því að óttast má...“ Ástæður símhlerana í kalda stríðinu.

Fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands, 30. sept. 2008

„Með því að óttast má...“ Í heiti þessa erindis er vitnað í upphaf setningar í beiðni dómsmálaráðuneytis til sakadóma um símhleranir á árum kalda stríðsins. Þær aðgerðir komust fyrst í hámæli fyrir rúmum tveimur árum. Síðan þá hafa margir deilt um þær. Þeir sem réttlæta þær hafa gjarnan spyrt þær allar saman og séð sömu, stóru rökin fyrir þeim. „Sósíalistaflokkurinn, og fyrirrennari hans, kommúnistaflokkurinn,“ skrifaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor til dæmis, „hikuðu ekki við að beita ofbeldi, þegar þeir töldu þess þurfa, enda höfðu þeir það beinlínis á stefnuskrá sinni. Forystumenn þeirra lutu fyrirmælum frá stærsta einræðisríki heims og þáðu þaðan stórfé til baráttu sinnar...“[1]

            Hinir, sem telja að hleranirnar hafi verið óþarfar með ölllu, segja aftur á móti – eins og Vigfús Geirdal sagnfræðingur svo dæmi sé tekið, „að íslenskir ráðamenn höfðu aldrei raunverulega ástæðu til að óttast sovéskt hernám Íslands né heldur valdatöku fámenns hóps íslenskra kommúnista. Vera má að ótti þeirra hafi verið einlægur. Hafi svo verið er ekki þar með sagt að sá ótti sé afsakanlegur, enn síður að hann réttlæti umfangsmiklar, ólöglegar njósnir um pólitíska andstæðinga og saklausan almenning.“[2]

            Þetta eru hinir stóru dómar um hleranir í kalda stríðinu. Þeir sýna vel sjónarmið stríðandi fylkinga en þeir duga alls ekki, sé ætlunin að útskýra þessar aðgerðir hverju sinni. Til þess þarf að þrengja sjónarhornið; hverfa frá hinu almenna að hinu sérstaka, frá Sósíalistaflokki og stjórnvöldum til fólks af holdi og blóði; frá tuttugustu öldinni til einstakra atburða.

            Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, stóð einmitt upp í þessum sal fyrir hálfum mánuði og spurði fyrirlesarann í það sinn, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra: „Var nauðsynlegt að hlera síma Ragnars Arnalds? Var Ragnar ógn við öryggi ríkisins?“[3] Ráðherra svaraði því ekki beint en hann hefur sagt, við annað tilefni, að menn geti „deilt um það hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt“.[4]

Aðrir sem verja hleranirnar að öllu jöfnu hafa líka viðurkennt að aðgerðir hverju sinni megi vissulega vega og meta, „að þessi viðbrögð megi með réttu gagnrýna í einstökum atriðum“, eins og Þór Whitehead prófessor komst að orði;[5] að það megi „endalaust“ deila um rökstuðning lögreglunnar og auðvitað hafi saklausir menn dregist inn í málið.[6] Og hverfum þá að því sögðu til þeirra sex atvika um símhleranir í kalda stríðinu sem kunn eru.

 

Aðild að Atlantshafsbandalaginu

 

Á lýðveldistíma hafa pólitísk átök aldrei orðið eins hörð og 30. mars 1949, þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Dagana á undan hafði Þjóðviljinn barist af hörku gegn því og sagði meðal annars „að þegar Bandaríkjalepparnir leggja hinn nýja landráðasamning fyrir Alþingi, munu Reykvíkingar tugþúsundum saman koma og mótmæla, til að hindra að hann verði gerður af þingmönnum – sem þjóðin mun sparka...“[7] Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra lét að bragði semja bréf í ráðuneyti sínu til sakadóma þar sem sagði að af þessum ummælum virtist mega ráða „að tilætlunin sé sú að hindra Alþingi í störfum sínum“. Var því leitað eftir heimild til þess að hlera síma „forráðamanna Þjóðviljans og annarra þeirra er líklegt má telja að standi að þessum hótunum“.[8]

            Heimildin fékkst og hleranir hófust, en voru þær réttlætanlegar? Voru Þjóðviljamenn kannski aðeins að sveifla orðsins brandi? Víst er að þeir sósíalistar voru til, einkum í röðum Æskulýðsfylkingarinnar, sem vildu beita ofbeldi, „stofna sveitir og útvega sér barefli“, eins og einn þeirra sagði. Annar ræddi um að skipa nokkra 25 manna flokka sem réðust á Alþingi og tækju það með valdi, og enn annar að gestur á þingpöllum skyldi hella salmíaksspíritus yfir þingsalinn.[9]

            Örlagadaginn 30. mars sást líka hvað sumum var heitt í hamsi, þó fjöldanum hafi ekki dottið í hug að ráðast inn í þinghúsið eða misþyrma þingmönnum. Nú deila þeir sem voru beggja vegna víglínunnar auðvitað um það sem gerðist. Tveir andstæðingar bandalagsaðildar rifjuðu það upp í sumar að „Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu.“ Síðan hefðu „hvítliðar“ ráðist á almenning og þá hefði verið barist og grjóti kastað uns gasinu var beitt.[10]

            Þessari frásögn mótmælti annar sjónarvottur, þingskrifari þennan dag sem mundi það í sumar, eins og það hefði gerst í gær, „að áður en atkvæðagreiðslu og þingfundi var lokið, barst stærðar hraunhnullungur með miklu brothljóði gegnum rúðu að baki forsetastóls, flaug yfir stól forseta, en Guðs mildi að hann hæfði ekki forseta í höfuðið...“[11]

            Til þessara misvísandi frásagna er vitnað hér vegna þess að úr báðum áttum var biðlað til okkar sagnfræðinganna að reyna að segja satt og rétt frá. Ættum við aðeins að hlusta á vitnisburð þeirra sem voru á vetttvangi yrðum við greinilega að trúa einum og segja annan ljúga, en sem betur fer eru til fleiri heimildir. Ríkisútvarpið greindi þannig skilmerkilega frá atburðarásinni 30. mars 1949 og að sögn þess hófst rúðubrotið löngu áður en stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar réðust úr þinghúsinu; það var ekki aðeins ein rúða sem brotnaði „líklega“ áður en þeir létu til skarar skríða.

            Hér er ekki rúm til að rekja þessa sögu til hlítar en ég stend við þá niðurstöðu sem er í bók minni, Óvinir ríkisins, að hafi einhvern tímann verið rík ástæða fyrir lögreglu og stjórnvöld að hlera síma, hafi það verið við inngönguna í Atlantshafsbandalagið. Heiftin var það mikil.

            Hitt er annað mál að hleranirnar geta talist frekar fálmkenndar. Ekki var hlustað hjá þeim áköfustu í Fylkingunni heldur hjá starfsmönnum Þjóðviljans og forystumönnum Sósíalistaflokksins, mönnum eins og Einari Olgeirssyni og Brynjólfi Bjarnasyni. Það lá vitaskuld beint við að hlera hjá þeim síðarnefndu en um leið mátti vera nokkuð ljóst að þeir myndu aldrei tala af sér í símanum. Reyndar eru fyrir því alltraustar heimildir að Einar hafi hringt í harðdræga flokksmenn fyrir hasarinn 30. mars og lagt að þeim að hafa hægt um sig, sem sannar þá bæði að flokkurinn vildi ekki stjórnlaust ofbeldi við þinghúsið, en hitt líka að þeir róttækustu voru svo sannarlega til í tuskið.

 

Hleranir 1951

 

Atburðirnir við Alþingishúsið 30. mars 1949 festust í minni þeirra sem þá fóru með völd í landinu. Þeir óttuðust að eitthvað svipað gæti gerst aftur og þeir þóttust sjá að þeir yrðu að vera búnir betur undir það sem verða vildi. „Öryggisþjónustu“ var formlega, en leynilega og án beinnar lagastoðar, komið á laggirnar innan lögreglunnar. Hlerunarbúnaði var einnig komið fyrir í lögreglustöðinni við Pósthússtræti.

Forstöðumaður öryggisþjónustunnar og örfáir menn til viðbótar höfðu meðal annars það hlutverk að fylgjast með íslenskum sósíalistum þannig að til varð spjaldskrá með upplýsingum um nöfn, heimilisföng, símanúmer, þátttöku í félagsstörfum og væntanlega fyrri mótmælum. Mikið af þessum upplýsingum fékkst einfaldlega með lestri Þjóðviljans og annarra blaða. Merkt var við nöfn og annað áhugavert efni að mati öryggisþjónustunnar – með rauðu – og eitthvað af þessum rauðmerktu úrklippum er víst ennþá til.

            Upplýsingar fengust einnig eftir öðrum leiðum og lögreglan stóð ekki ein í aðgerðum af þessu tagi. Ungur sjálfstæðismaður, sem síðar reis til nokkurra metorða í flokki sínum, hefur lýst því í skjóli trúnaðar að hann „sat við að skrá nöfn allra meintra kommúnista ... með því að liggja yfir blöðum, tímaritum, bæklingum, fundarboðunum og tilkynningum. Í gegnum milligöngumann en vissi ekki í fyrstu fyrir hverja var unnið en taldi sig síðan sjá af spurningum og óskum í gegnum þennan milligöngumann að þarna myndu bandarísk stjórnvöld vera á bak við, CIA eins og [hann] sagði sjálfur.“[12]

            Eftirlit og öflun upplýsinga hafði því aukist þegar komið var fram á árið 1951, en þá fengu lögregla og dómsmálaráðuneyti í tvígang heimild dómara til hlerana, í fyrra skiptið vegna heimsóknar Dwights D. Eisenhowers, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins, og í það seinna út af undirritun varnarsamnings við Bandaríkin og endurkomu Bandaríkjahers til landsins. Í bæði skiptin óttuðust yfirvöldin óeirðir og sá ótti var ekki út í bláinn. Eisenhower kom hingað eftir Evrópureisu þar sem komu hans hafði víða verið mótmælt, til dæmis í Danmörku, og dvöl herliðs í landinu markaði í raun meiri tímamót en aðildin að NATO 1949.

            Sjálfsagt var því að auka öryggisæslu. Á hinn bóginn gáfu forsvarsmenn Þjóðviljans engan höggstað á sér með heitingum eins og þeim sem höfðu flogið rétt fyrir 30. mars ‘49. Auk þess eru engar upplýsingar um það að forystusveit Sósíalistaflokks hafi hvatt til óeirða út af heimsókn Eisenhowers, heldur eru teikn þvert á móti um það að hún hafi skipað mönnum að sýna stillingu.

            Engu að síður voru hleranirnar víðtækari í þetta sinn en 1949. Nú var hlustað hjá óbreyttum og róttækum sósíalistum, hjá sumum vegna þess að þeir höfðu látið mikið að sér kveða 30. mars, og einn virðist hafa komist á hleranalistann vegna þess – meðal annars eða eingöngu – að hann hafði verið í hópi þeirra sem gerðu aðsúg að leiðtogum Sjálfstæðisflokksins út af deilum um Keflavíkursamninginn 1946. Annar sýnist hafa orðið fyrir valinu vegna hreinna mistaka. Þetta var verkamaður sem var vissulega sósíalisti og Dagsbrúnarmaður en á honum bar ekkert fram yfir aðra slíka. Hann var hins vegar alnafni ungs manns sem verið hafði í forystu Æskulýðsfylkingarinnar árið 1949 og það átti því væntanlega frekar að hlera hjá honum.

Það vekur líka sérstaka athygli að þegar von var á Bandaríkjaher var ákveðið að hlera einn símann enn, heima hjá Finnboga Rút Valdimarssyni. Hvers konar vitneskju gat lögregla hafa haft um það, þegar nær dró og hleranir voru hafnar, að Finnbogi Rútur væri með í einhverjum ráðum um óeirðir og ofbeldi? Hann hafði verið í Alþýðuflokknum en sat á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn, var þó ekki félagi í þeim flokki og taldi sig fyrst og fremst eiga samleið með honum í utanríkismálum. Hann sat enda í utanríkismálanefnd fyrir sósíalista og er hugsanlegt að það hafi skipt einhverju máli þegar ákveðið var að hlera hjá honum? Að þessu má spyrja vegna þess að Finnbogi Rútur var alls ekki líklegur til að skipuleggja uppþot, og vegna þess að öllum gögnum sem öryggisþjónusta lögreglunnar aflaði við hleranir og annað eftirlit mun hafa verið eytt. Rökstuddar getgátur verða því stundum að duga þar sem staðreyndir hefðu annars talað sínu máli.

Kalda stríðið var í algleymingi á þessum árum. Það útskýrir hvers vegna yfirvöld töldu nauðsynlegt að hlera tiltekna síma; þau sáu ástæðu til að óttast óeirðir. En það þýðir ekki sjálfkrafa að rétt hafi verið að hlera síma árið 1951 hjá manni sem hafði verið með óspektir fimm árum fyrr, verkamanni sem var alnafni ungs róttæklings, eða þingmanni sem kom ekki nærri ofbeldi en lagði línur í málflutningi sósíalista á Alþingi.

 

Landhelgissamningurinn við Breta 1961

 

Símar voru ekki hleraðir með leyfi dómstóla í áratug eftir aðgerðirnar árið 1951. En svo dró aftur til tíðinda. Sumarið 1960 ákvað Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks að hefja samninga við Breta um lausn fyrsta þorskastríðsins sem þá hafði geisað í tvö ár. Um svipað leyti voru Samtök hernámsandstæðinga stofnuð og þau börðust strax af kappi gegn öllum undanslætti og „makki“ við Breta. Mótmælafundir voru skipulagðir, meðal annars við þingsetningu í október, og var tveimur eggjum þá kastað þingmönnum, og ráðamenn tóku að óttast að málamiðlun við Breta yrði svarað á svipaðan hátt og varð í mars 1949, með fjöldafundi sem gæti leitt til uppþots þannig að störfum Alþingis yrði ógnað. Um þetta sagði í Reykjavíkurbréfi fyrir um tveimur árum:

„Atburðirnir á Austurvelli 30. marz 1949 höfðu varanleg áhrif á þá, sem þar komu við sögu. Það var ofarlega í huga þeirra eftir það að slíkir atburðir gætu endurtekið sig. Upp úr 1960 var lögð mikil vinna í það í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins ... að koma á fót nýju varaliði á borð við það, sem kallað var út til þess að verja Alþingishúsið í lok marz 1949. ... forystumenn ríkisstjórnarinnar [höfðu líklega] áhyggjur af því, að samningar við Breta um 12 mílna lögsöguna, sem voru í aðsigi gætu framkallað svipuð átök og 1949 enda landhelgismálið mikið tilfinningamál. Þessar varúðarráðstafanir urðu aldrei annað en nöfn á blaði ...“[13]

Þannig var óttinn en ekki verður sagt að athafnir eða skrif sósíalista og annarra hafi staðfest að loft væri eða yrði eins lævi blandið og það var árið 1949. Samt sem áður fór svo að lögregla og dómsmálaráðuneyti fengu heimild til hlerana þegar leggja átti samning við Breta um lausn landhelgisdeilunnar fyrir Alþingi – með þeim rökum að óttast megi tilraunir „til að trufla starfsfrið Alþingis á næstu dögum“, enda hefðu deilur um landhelgismál þegar „valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir.“

Þær hótanir voru ekki týndar til eða rökstuddar frekar, nema þá að gögnum um það hafi verið eytt. Einn forystumanna sósíalista var síður spurður hvort þeir hefðu getað séð sér hag í því að tufla störf þingsins. Svarið var þetta: „Nei, nei, nei, það er að segja að það hefur áreiðanlega engum – og þegar ég segi engum þá á ég við þá sem mátti flokka undir einhvers konar forystumenn; ég get auðvitað enga ábyrgð tekið á einhverjum einstökum extremistum – en það hefði engum dottið í hug að það væri hægt, eða væri nokkuð vit í því að að gera tilraun til að hindra afgreiðslu málsins á Alþingi.“[14]

Til eru heimildir sem benda til þess að ungir og róttækir sósíalistar hafi viljað blása til kröftugra mótmæla þegar Alþingi fjallaði um samninginn við Breta, og verið reiðir yfir linkind flokksforystunnar. En þó úrskurðað hafi verið um hleranir hjá Æskulýðsfylkingunni var ekki hlustað heima hjá kappsömum ungmennum þar að auki, heldur Alþýðusambandinu, til dæmis, og nokkrum forystumönnum sósíalista, þeirra á meðal fjórum þingmönnum. Og var það virkilega nauðsynlegt? Þeir sem hafa varið hleranirnar að öllu jöfn hafa til dæmis bent á að varla hafi verið ástæða til að hlusta í síma Hannibals Valdimarssonar, eins þingmannanna. „[Ó]sk um að hlera síma Hannibals [er] dálítið sérkennileg“, skrifaði Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur, „þar sem allir vissu að hann var ekki ofbeldissinni og lögreglunni átti að vera ljóst að kommúnistar myndu vart sýna honum trúnað varðandi fyrirætlanir sínar“.[15]

Vel má reyndar vera að lögreglan hafi helst viljað hlusta á samtöl Jóns Baldvins, sonar Hannibals, sem þá bjó í foreldrahúsum og vann af kappi fyrir Samtök hernámsandstæðinga. Það breytir því þó ekki að ákveðið var að hlera heima hjá alþingismanni, og „sonarástæða“ af þessu tagi er ekki til staðar í sambandi við Lúðvík Jósepsson, annan þingmann sósíalista sem úrskurðað var um hlerun hjá. Lögregla, dómsmálaráðuneyti og sakadómari fóru svo sannarlega út á hálan ís þegar hleranir voru leyfðar árið 1961. Ástæður til hlerana voru hvergi nærri eins ríkar og 1949 eða ’51.

 

Heimsókn Lyndons B. Johnsons

 

Svipað má segja um þær hleranir sem dómari heimilaði árið 1963. Þá var von á Lyndon B. Johnson, varaforseta Bandaríkjanna, í heimsókn til landsins, og Samtök hernámsandstæðinga tilkynntu lögreglu að þau hygðust standa að mótmælum við Háskólabíó þar sem gesturinn átti að halda hátíðarræðu. Samtökin ítrekuðu að fundurinn færi fram með friði og spekt en yfirmenn lögreglu og dómsmála voru ekki sannfærðir og báðu um hleranir því „fyrirhugað kunni að vera að stofna til óspekta í sambandi við opinbera heimsókn varaforsetans“. Í þetta sinn var aðeins beðið um að hlera sex símanúmer og varð dómari við því, líkt og fyrri daginn.

            Enn má spyrja hvers vegna ákveðið var að hlera hjá einum en ekki öðrum. Þannig sluppu allir forystumenn Samtaka hernámsandstæðinga, sem þó hlutu að liggja undir grun, en ekki tveir „góðkunningjar lögreglunnar“ í þessum efnum, Einar Olgeirsson og Magnús Kjartansson. Valið er undarlegt, og eftir á að hyggja hljóta ástæður til hlerana í þetta sinn að teljast veikar; aðeins tortryggni að því er virðist, án veigamikils rökstuðnings. Vissulega verður að hafa í huga hvað lögreglan var fámenn og að henni var ekki kleift að kalla á opinberan liðsafla. Sú skylda hvíldi á stjórnvöldum að tryggja öryggi erlendra gesta í landinu og þess vegna má skilja að yfirmenn löggæslumála hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig. Lögum samkvæmt máttu þeir þó ekki stunda „forvirkar“ aðgerðir til þess að kanna hvort menn hefðu eitthvað illt í hyggju; þeir urðu að hafa rökstuddan grun um það að öryggi ríkisins væri ógnað, og þó sósíalistar allra landa hafi haft umbyltingu þjóðskipulagsins á stefnuskrá sinni – með ofbeldi ef í nauðir ræki – og þó óeirðir hafi blossað upp í mars 1949, þá geta það ekki talist skýr rök fyrir sérstökum aðgerðum í september 1963.

 

Ráðherrafundur NATO 1968

 

Víkur þá sögunni að lokum til ársins 1968. Seint í maí komu nokkur NATO-herskip í heimsókn til Reykjavíkur og allmargir félagar í Fylkingunni mótmæltu því, meðal annars með því að spreyja slagorð á þau og kom til ryskinga í kjölfarið. Að mati lögregluyfirvalda vissu þessir atburðir ekki á gott því í vændum var utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík, stór samkoma sem gæfi andstæðingum þess á Íslandi gott færi á að láta afstöðu sína í ljós.

            Undir lok mánaðarins virtist svo enn syrta í álinn. Maður nokkur fór þá til lögreglunar og skýrði frá því sem hann hafði heyrt undan mann tala um, í hópi verkamanna, í Múlahverfinu. Gestur lögreglunnar nafngreindi manninn og sagði að hann hefði meðal annars greint frá því, eins og segir í skýrslu lögreglu sem nýlega var gerð aðgengileg á Þjóðskjalasafni, með vissum takmörkunum, „að væntanlegir væru til Íslands um 50 útlægir Grikkir og fjöldi stúdenta úr Evrópu, og mundu þessir menn eiga að hafa frumkvæði um mótmælin og vinna skemmdarverk, enda vanir slíku, m.a. væri áætlað að kveikja í bandaríska sendiráðinu, eyðileggja bíla þess og annað í líkum dúr.“

            Þessi frásögn var ekki eina ástæða þess að lögregla og dómsmálaráðuneyti leituðu leyfis til hlerana, en hún vó greinilega þungt í huga manna; það sýnir rökstuðningur í hleranabeiðni ráðuneytisins til yfirsakadómara en þar sagði að lögreglu hefðu borist „ákveðnar fregnir af því að hafinn sé undirbúningur að því að stofnað verði til óeirða vegna fundahaldanna e.t.v. með þátttöku sérþjálfaðra, erlendra aðila“. 

            Yfirsakadómari heimilaði hleranir í 17 símum og spyrja verður hvort frásögnin, sem kom greinilega talsverðu róti á hug yfirmanna lögreglu- og dómsmála, hafi verið trúverðug. Maðurinn sem hafði talað digurbarkalega um skemmdarverk hafði verið í atinu niðri við höfn og gat því hæglega talist líklegur til þess að láta aftur til sín taka. Sá sem sagði lögreglu frá tali hans var ekki þekktur að ósannindum en hafa má í huga að hann var flokksbundinn sjálfstæðismaður, ötull í ungliðahreyfingunni í sinni heimabyggð og á öðrum vettvangi. Er hugsanlegt að hann hafi fært frásögnina í stílinn?

            Svo þarf ekki endilega að vera. Uppreisnarbylgjan, sem skók Evrópu árið 1968, barst vissulega til Íslands og einn þeirra, sem réttlætt hefur hleranirnar þetta ár, sagði að byltingarsinnaðir sósíalistar hér hefðu í engu verið betri en félagar þeirra ytra: „Þetta unga fólk var hluti af evrópskri róttæklingaöldu sem meðal gat af sér Baader-Meinhof samtökin og Rauðu herdeildina á Ítalíu. Hér á landi voru sömu straumar að verki…“[16] Staðreyndin er hins vegar sú ungir róttæklingar voru ekki uppistaðan í þeim hópi sem ákveðið var að hlera hjá 1968. Með góðum vilja – eða illum – má segja að fjórir hafi fallið í þann flokk, þeirra á meðal sá sem hafði lýst þeirri eyðileggingu sem útlendingar hygðuust vinna á Íslandi, en þá er þess að geta að hann var ekki heima hjá sér þegar leyft var að hlera síma hans; hann var í vinnu úti á landi.

            Maður sem kom að hlerunum í þetta sinn hefur sagt frá því að við þær hafi fengist upplýsingar um ferðir og áform þeirra sem ætluðu að hafa uppi mótmæli í tengslum við NATO-fundinn. Að því leyti má réttlæta hlustanirnar í það skipti, en þó tæplega í öll þau númer sem leyft var að hlera, því sumir hinna hleruðu gátu ekki talist líklegir til óspekta, menn eins og Lúðvík Jósepsson alþingismaður eða Ragnar Arnalds, forystumaður í Alþýðubandalaginu og Samtökum hernámsandstæðinga. Þeir höfðu ekki verið niðri á höfn með úðabrúsa, þeir ætluðu ekki að kveikja í sendiráðsbílum, ungir róttæklingar voru engir trúnaðarvinir þeirra, og ólíklegt er að yfirmenn lögreglu og dómsmála hafi ekki gert sér grein fyrir því. En hvers vegna voru þeir þá hleraðir? Höfundur „Reykjavíkurbréfs“ Morgunblaðsins gaf eitt svar við því fyrir tæpum tveimur árum: „Það er ósköp skiljanlegt að Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra, eigi erfitt með að skilja að sími hans var hleraður. Í augum þeirra, sem óskuðu eftir hlerun á síma hans á þessum árum, var hann einn helzti forystumaður nýrrar kynslóðar, sem barðist gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Og þeir spurðu sig alltaf, hvort hann og skoðanabræður hans myndu grípa til sömu aðgerða og skoðanabræður hans höfðu gert áratug áður [á að vera tæpum tveimur áratugum áður, þ.e. 1949].“[17]

            En var nóg að spyrja? Var nóg að óttast? Þurfti ekki ríkari rök? Eitthvað meira en atburðina 1949, notaða eins og óútyllta ávísun? Að síðustu þarf svo að víkja að einum heimasíma sem ákveðið var að hlera sumarið 1968. Þegar ég var í hittifyrra að tengja þau símanúmer sem voru í þessum síðasta dómsúrskurði um hleranir í kalda stríðinu lenti ég í vandræðum með tvö til þrjú númer; ég áttaði mig alls ekki á því hvernig þau höfðu komist á listann. Um eitt þeirra er það að segja að fyrir tæpu ári tilkynnti Þjóðskjalasafn Íslands manni nokkrum að í ljós hefði komið að í júní 1968 var veitt heimild til að hlera símanúmer hans og konu hans heitinnar. Þau hjónin voru þá á fertugsaldri og tengdust Alþýðubandalaginu og Samtökum hernámsandstæðinga ekki á nokkurn hátt. „Við töluðum aldrei um pólitík og ég kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn,“ segir maðurinn núna. Hvað réð því þá að hlerað var? Hann vann hjá fyrirtæki sem flutti inn einhverjar vörur frá Rússlandi. Kona hans heitin vann hjá símanum og sá meðal annars um talsamband við útlönd. En dugar þetta? Kemur þetta málinu eitthvað við? Getur verið að gerð hafi verið slæm mistök? Og hvað ber þá að gera?

 

Dómur sögunnar

 

Þeir sem hafa varið hleranir að beiðni lögreglu og dómsmálaráðuneytis í kalda stríðinu hafa stundum fundið að þeirri tálsýn, að þeirra mati, að íslenskir sósíalistar og kommúnistar hafi á einhvern hátt verið betri en félagar þeirra í einræðisríkjum um heim allan; „að hér hafi áhangendurnir heittrúuðu ætíð verið bæði marklausir og meinlausir“.[18] Þeir voru það auðvitað ekki og þeir sósíalistar sem vörðu í blindni ógnarstjórnina í Sovétríkjunum hefðu svo sannarlega átt að vita betur. En hverjir voru þó þessir „þeir“? Aftur má rifja upp skoðanaskipti í þessum sal fyrir hálfum mánuði. Hannes Hólmsteinn Gissurarson vitnaði þá í þau orð Áka Jakobssonar, sem var reyndar úrskurðað um hlerun hjá árin 1949 og 1951, að þjóðernishyggja sósíalista hefði aðeins verið yfirvarp og þeir verið handbendi Moskvu. Undir þetta tók fyrirlesarinn, Björn Bjarnason: „Þeir hlýddu bara kallinu frá Moskvu,“ sagði hann.

            Enn þarf þó að þrengja sjónarhornið og hverfa frá áliti um heildina að mati á einstökum mönnum. Þá getur það gerst að dómur sögunnar verði á annan veg. Áðan var minnst á þá bræður, Finnboga Rút og Hannibal Valdimarssyni. Um kynni sín af þeim og fleiri sósíalistum, til að mynda Birni Jónssyni, skrifaði Styrmir Gunnarsson ritstjóri síðar: „Það var ómetanlegt fyrir Heimdelling og blaðamann á Morgunblaðinu að kynnast þessum mönnum, lífsviðhorfum þeirra og skoðunum á dægurpólitíkinni. Ég gerði mér smátt og smátt grein fyrir því að þessir menn voru ekki „kommúnistar“, eins og bæði ég og aðrir vorum aldir upp við að trúa, heldur róttækir jafnaðarmenn. Fyrir þá Hannibal, Björn og Rút var baráttan fyrir bættum kjörum verkalýðsins hugsjón sem þeir höfðu tileinkað sér í æsku, meðal annars vegna þess úr hvaða jarðvegi þeir voru sprottnir.“

            Mér detta einnig í hug óbirt eftirmæli Andrews Gilchrist, sendiherra Breta á Íslandi á sínum tíma, um Bjarna Benediktsson. Vera má að Gilchrist hafi eitthvað fært í stílinn en hann rifjaði upp að Bjarni hefði farið fögrum orðum um Halldór Laxness – og líklega fór þetta samtal fram einhvern tímann á sjöunda áratugnum. „Hvað, þann bölvaða kommúnista?“ sagði Gilchrist stríðnislega en Bjarni svaraði: „Ég veit ekki hvort hann er kommúnisti í dag og ég hef ekki spurt hann. Og sumir kommúnistar eru skárri en aðrir. Einhverjir okkar kommúnista eru Íslendingar fyrst og svo kommúnistar og það er ekki svo slæmt.“

            Samtalinu lauk svo með þessum orðaskiptum, að sögn Gilchrists: „Ég spurði [Bjarna] hvort hann ætti við að kommúnistarnir hefðu breyst. „Já, þeir hafa breyst aðeins.“ Og svo bætti hann við, með þeirri sanngirni sem einkenndi Bjarna: „Eða kannski er ástæðan sú að ég er farinn að skilja þá betur.““[19]

            Hvort sem Gilchrist segist satt frá eða ekki, er hinn almenni dómur sögunnar sá að með auknum skilningi minnkar óttinn, minnkar hræðslan. Sé niðurstaðan sú að mistök hafi verið gerð, að það hafi að minnsta kosti stundum verið gengið of langt í hlerunum og öðru eftirliti, þá ættum við þó að forðast að fordæma það sem merki um ofsóknir og ofstæki. Það var miklu frekar ótti sem lá að baki, og líkt og einn þeirra, sem barðist hvað harðast gegn aðild að Atlantshafsbandalaginu 1949, sagði um það leyti, „er vissulega margt uggvænlegt í samtíðinni. En eitt er ég hræddastur við, og það er hræðslan. Hræðslan hefur valdið meiri óhöppum en vísvitandi hatur eða grimmd.“[20] „Með því að óttast má“ var ástæða hlerana í kalda stríðinu en að mega er ekki alltaf það sama og að verða.[1]Hannes H. Gissurarson, „Hverjir biðjist afsökunar“, Fréttablaðið, 30. maí 2008 (einnig á http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/554895/).

[2]Vigfús Geirdal, „Eitt er að vilja og annað að geta“, Morgunblaðið 12. febr. 2007 [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1129284].

[3]soundtrack SFÍ, og mínir punktar

[4]http://bjorn.is/greinar/2008/05/28/nr/4486

[5]Þór Whitehead, „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá,“ Lesbók Morgunblaðsins, 20. jan. 2007 [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1125293].

[6]Viðtal við Þór Whitehead. „Reykjavík síðdegis“, útvarpsstöðinni Bylgjunni 28. maí 2008 (minnispunktar höfundar við hlustun).

[7]??, Þjóðviljinn 25. mars 1949.

[8]ÞÍ. Sak.R. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómara, 26. mars 1949.

[9]Ómar Valdimarsson, Jakinn í blíðu og stríðu, bls. 91-92.

[10]Jón Böðvarsson og Þorvaldur Helgason mbl júní 2008

[11]Sveinn Snorrason, „30. mars 1949“, Morgunblaðið 1. júlí 2008.

[12]Minnisblað í vörslu höfundar. Frásögn ónefnds heimildarmanns, 5. nóv. 1998.

[13]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið 17. des. 2006, [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1120032].

[14]Frásögn Kjartans Ólafssonar, 25. ágúst 2006.

[15]Jakob F. Ásgeirsson, „Ritstjóraspjall“, Þjóðmál 4/2 (2006), bls. 3-6 (hér bls. 4).

[16]Jakob F. Ásgeirsson, „Ritstjóraspjall“, Þjóðmál 4/2 (2006), bls. 3-6 (hér bls. 5).

[17]„Reykjavíkurbréf“, Morgunblaðið 17. des. 2006, [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1120032].

[18]Þór Whitehead, „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá,“ Lesbók Morgunblaðsins, 20. jan. 2007 [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1125293].

[19]Skjalasafn Andrews Gilchrist, Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni“. Ódagsett handrit.

[20]SAM í Herðubreið, bls. 73.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur