Skip to Content

Fræðigreinar og fyrirlestrar

"En fælles konflikt?" (2003)

„En fælles konflikt? Kampen om fiskerigrænser i Nordatlanten fra middelalder til nutid”, í Daniel Thorleifsen (ritstj.), De vestnordiske landes fælleshistorie. Udvalg af indledende betragninger over dele af den vestnordiske fælleshistorie (Nuuk: KIIP, 2003), bls. 63-72.

"Tíu spurningar. Hugleiðingar um þorskastríðin" (2002)

„Tíu spurningar. Hugleiðingar um þorskastríðin”. 2. íslenska söguþingið. Ráðstefnurit II (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag, 2002), bls. 436-51.

Tíu spurningar. Hugleiðingar um þorskastríðin

Inngangur

Frá lýðveldisstofnun til endaloka kalda stríðsins snerist utanríkissaga Íslands einkum um tvo þætti; varnarmál og landhelgismál. Þessi grein er um seinna efnið, og þá first og fremst þorskastríðin. Þótt margir hafi skrifað um þau er margt enn ósagt og kannski hefur ekki verið tímabært að líta á atburðarásina í sögulegu ljósi.[1]Meginmarkmiðið er ekki að komast að niðurstöðum, heldur að vekja athygli á spurningum sem má spyrja í sambandi við þorskastríðin og kenningum sem unnt er að nota við leit að svörum. Þær spurningar, sem hér verður minnst á, eru þessar:

1.      Hvað voru þorskastríðin mörg?

2.      Er orðið þorskastríð heppilegt hugtak?

3.      Á hvaða heimildum þarf að byggja sögu þorskastríðanna?

4.      Hverjir eiga að skrifa sögu þorskastríðanna?

5.      Voru þorskastríðin óhjákvæmileg?

6.      Var rétturinn alltaf Íslands megin í þorskastríðunum?

7.      Var þjóðareining í þorskastríðunum?

8.      Hvað réð úrslitum um lyktir þorskastríðanna?

9.      Hvað réð ákvörðunum ráðamanna í þorskastríðunum?

10.  Er þorskastríðunum lokið?

Helstu atriði í sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna eftir seinni heimsstyrjöld eru þessi: Árið 1948 setti Alþingi Landgrunnslögin sem kváðu á um rétt Íslendinga til að vernda fiskstofna við Íslandsstrendur. Árið eftir sögðu íslensk stjórnvöld upp samningi Breta og Dana frá 1901 um þriggja sjómílna landhelgi umhverfis Ísland, með tilskyldum tveggja ára fyrirvara. Árin 1950 og 1952 var fiskveiðilögsagan, eða landhelgin eins og sagt var í daglegu tali, færð í fjórar mílur út frá ystu annesjum og skerjum og þvert fyrir mynni flóa og fjarða, fyrst undan Norðurlandi og svo umhverfis allt landið. Breskir útgerðarmenn og sjómenn settu í staðinn (með þegjandi velþóknun stjórnvalda í London) löndunarbann á ísfisk ytra sem stóð til 1956. Árið 1958 var landhelgin svo færð út í 12 mílur og Bretar sendu herskip á Íslandsmið en létu undan þremur árum síðar. Svipuð var sagan árin 1972-73 og aftur 1975-76 þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 50 og síðan 200 mílur. Í bæði þessi skipti beittu íslensk varðskip togvíraklippum með ágætum árangri en harkalegir árekstrar urðu milli þeirra og breskra verndarskipa og árið 1976 slitu Íslendingar stjórnmálasambandi við Breta.

Þrjú, níu eða tíu? Hvað voru þorskastríðin mörg?

Hugtakið þorskastríð var fyrst notað haustið 1958 þegar breski sjóherinn hélt á Íslandsmið að verja breska togara fyrir íslenskum varðskipum. Næstu tvö þorskastríð voru svo háð á fyrri hluta áttunda áratugarins. Íslensk stjórnvöld gáfu til dæmis út bækling árið 1975 sem hét Cod War III Between Iceland and Great Britain.[2]Fyrir jól næsta ár gerðist það hins vegar að Björn Þorsteinsson skrifaði stutt yfirlitsrit, Tíu þorskastríð, og taldi fiskveiðideilur fyrr á öldum til þorskastríða.[3]Nokkru síðar fækkaði Björn stríðunum um eitt með því að fella út löndunarbannið og mótmæli Breta við fjögurra mílna útfærslunni árið 1952.[4]Áður hafði Gísli Ágúst Gunnlaugsson dregið í efa að önnur átök, sem Björn taldi til þorskastríða, stæðu undir því nafni og þeir voru líka til sem héldu sig áfram við þrjú þorskastríð.[5]

Birni Þorsteinssyni var í sjálfu sér ekki fast í hendi að þorskastríðin teldust níu eða tíu.[6]Á hinn bóginn er augljóst að þær erjur aftur til fimmtándu aldar, sem hann taldi til þorskastríða, eru gerólíkar þeim átökum sem geisuðu eftir seinni heimsstyrjöld. Þorskastríðin voru tuttugustu aldar fyrirbæri og þau voru aðeins þrjú. Þó verður einnig að viðurkennast að þótt því sé haldið fram hér að raunveruleg þorskastríð hafi aðeins verið þrjú er líka fjallað um fjögurra mílna útfærsluna 1950-52 og eftirköst hennar. Einu málsbæturnar eru þær að þá var minnst á „fiskistríð” eða jafnvel „kalt stríð” milli Íslendinga og Breta.[7]

Voru stríðin stríð? Er orðið þorskastríð heppilegt hugtak?

Þorskastríð er eftirtektarvert orð en er það misvísandi? Getur verið að hugtakið sjálft geri mönnum erfitt að átta sig á eðli átakanna? Nafngiftir í sögunni geta vissulega verið til trafala. Edward Said hefur bent á þetta í skrifum sínum um orientalisma þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að það heiti yfir Miðausturlandafræði sé slæmt því það feli í sér drauga nýlendustefnu og undirokunar.[8]

Þorskastríðin voru ekki alvörustríð. Enginn lést af skotsárum og engu skipi var sökkt. Það var meira gaman en alvara í „fiskistríðinu” 1958 að mati bresks blaðamanns á miðunum og þegar styrrinn var hvað stríðastur í ársbyrjun 1976 sögðu Bretar að þótt menn töluðu um þorskastríð yrði dómur sögunnar ugglaust sá að þetta hefði verið skondið og einstakt afbrigði átaka.[9]Albert Jónsson skrifaði einnig að „átök sem þessi kallist vart „stríð”, a.m.k. ekki meðal meiri styrjaldarþjóða en Íslendingar eru”.[10]Íslendingum var þó vitaskuld heitt í hamsi og fannst aðgerðir Breta hernaði líkastar. En nú ætti hitinn að vera horfinn úr mönnum. Er þá ráð að hætta að tala um þorskastríð? Orðræða breytist sífellt í áranna rás en það væri kjánalegt að glata þessu orði. Á hinn bóginn ættu menn ætíð að hafa í huga að alvörustríð voru ekki háð. Hefðu Bretar til dæmis litið svo á að þeir stæðu í slíkum átökum hefðu þeir verið miklu harðari í horn að taka.

 Segir hver! Á hvaða heimildum þarf að byggja sögu þorskastríðanna?

Helstu heimildum um sögu þorskastríðanna má skipta í fimm flokka:

1)      Frumheimildir.

2)      Fjölmiðlar.

3)      Fyrri rannsóknir.

4)      Endurminningar.

5)      Viðtöl.

Frumheimildir er helst að finna á þjóðskjalasöfnum, fyrst og fremst hér á Íslandi og í Bretlandi, en einnig í Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar. Helsti vandinn við þessi gögn er sá að vegna skjalaleyndar eru þau ekki öll aðgengileg. Einkum er slæmt að þrjátíu ára leynd hvílir yfir breskum og þýskum heimildum.

Þá má minna á þann almenna vanda að menn þurfa ekki aðeins að lesa frumheimildirnar heldur líka lesa í þær. Það er til dæmis fróðlegt að bera saman skýrslur Andrews Gilchrists og Kristins Guðmundssonar frá fundi þeirra í London í október 1958 þegar þeir voru sendiherrar ríkja sinna, annar á Íslandi og hinn í Bretlandi. Gilchrist varð „all æstur”, skrifaði Kristinn og minntist ekki á sig sjálfan en Gilchrist sagði að það hefði verið Kristinn sem varð „all æstur” án þess að geta eigin hugarástands.[11]Það væri ekki góð sagnfræði að trúa aðeins öðrum hvorum og láta þar við sitja.

Fyrir kom að erlendir sendimenn misskildu íslenska ráðamenn og ástand mála hér á landi. Því hefur þess vegna verið haldið fram að þessar heimildir séu ekki áreiðanlegar.[12]Misskilningur þeirra er þó alltaf hluti af sögunni og oft eru skýrslur sendimannanna ómetanleg heimild um íslensk stjórnmál og skoðanir valdhafa því þeir hafa sjaldnast skráð þær annars staðar. Það er rétt, sem forseti Íslands sagði við setningu annars Söguþings, að heimildir úti í heimi hjálpa okkar að „líta með raunsæi í eigin barm”.

Ítarlega var fjallað um þorskastríðin í fjölmiðlum. Þessi gögn sýna vel tíðarandann og flokksblöðin á Íslandi eru góð heimild um stjórnmálabaráttuna og óeininguna sem oft ríkti hér heima fyrir. Frásagnir blaða af ásiglingum í seinni þorskastríðunum eru líka athyglisverðar. Í bresku blöðunum bera Íslendingar einatt ábyrgð á árekstrunum en því er auðvitað þveröfugt farið í þeim íslensku.[13]Hér duga þessar heimildir ekki nema menn ákveði bara að trúa einum frekar en öðrum.

Fyrri rannsóknir fræðimanna á þorskastríðunum eru vitaskuld góðra gjalda verðar. Það einkennir sum þessara rita, til dæmis verk Hannesar Jónssonar og Davíðs Ólafssonar, að höfundarnir voru sjálfir í eldlínunni.[14]Ævisögur og endurminningar eru líka því marki brenndar að söguhetjan segir söguna frá eigin sjónarhóli—eða stjórnpalli. Þá er gott að muna, eins og Lúðvík Jósepsson bendir á í formála sinnar landhelgisbókar, að frásögnin þyki eflaust jafn umdeild og skrásetjarinn var sjálfur.[15]Sama má segja um viðtöl. Á hinn bóginn geta þau verið mjög gagnleg vegna þess að menn í lykilstöðu treysti sér til að segja frá ýmsu sem ekki þótti ráðlegt fyrr en öldurnar hafði lægt.

Hvað þykist þú vita! Hverjir eiga að segja sögu þorskastríðanna?

Hvor er hæfari til að segja frá því sem gerðist í þorskastríðunum; sá sem var á staðnum eða sá eða sú sem á eftir kemur? „Efniviðurinn er ekki árennilegur fyrir þá sem koma að honum með litla reynslu aðra en felst í fræðilegri þjálfun”, skrifaði Björn Bjarnason alþingismaður til að mynda um landhelgismálið í heild sinni.[16]En getur ekki líka verið að það sé illmögulegt að átta sig á gangi þorskastríðanna ef menn voru í hita leiksins og minni manna og skilningur markist af því?

Til samanburðar má nefna afstöðu breskra fræðimanna til friðþægingar Neville Chamberlains, forsætisráðherra Breta, gagnvart Hitler árin fyrir seinni heimsstyrjöld og gagnrýni Winston Churchills á þá stefnu. Í dag hafa margir sagnfræðingar mun meiri skilning á ákvörðunum Chamberlains en áður tíðkaðist enda eru þeir ekki „fangar minninganna frá 1938-40”, eins og einn þeirra komst að orði.[17]Eldri spekingar kvarta hins vegar sumir yfir þessum galgopum og segja þá líða fyrir það að hafa aldrei tekið þátt í stjórnmálum sjálfir og hvað þá að þeir hafi verið á staðnum fyrir stríð. Þeir geti því ekki dæmt jafnvel um það sem gerðist og þeir sem upplifðu atburðina.[18]Auðvitað ætti niðurstaðan að vera sú að hvorir tveggja geta bætt miklu við þekkingu okkar á þorskastríðunum, þeir sem voru í átökunum miðjum á sínum tíma og þeir sem líta á þau síðar meir frá víðara sjónarhorni þegar ró hefur færst yfir sviðið.

Enginn má sköpum renna. Voru þorskastríðin óhjákvæmileg?

Þeir, sem líta yfir liðna tíð, freistast gjarnan til að álíta að það sem gerðist hlyti að hafa gerst.[19]Þeir, sem hafa skrifað um þorskastríðin hér á landi, hafa flestir komist að þeirri niðurstöðu að andstæðingarnir hafi einir getað tekið annan pól í hæðina. Íslensk stjórnvöld hafi hins vegar orðið að færa út landhelgina hverju sinni. Raunin var þó sú að ráðamenn í Reykjavík gátu reynt að afstýra illdeilum meir en þeir gerðu.

Árið 1952 var Bretum mest í nöp við grunnlínuna sem lokaði Faxaflóa, frá Malarrifi að Geirfugladrangi [Aths.: Þetta er rangt, á að vera: Eldeyjardrangi, sjá t.d. hér]. Hugsanlegt er að samkomulag hefði náðst um útfærsluna þetta ár ef íslensk stjórnvöld hefðu fallist á að láta línuna aðeins ná að Garðskaga.[20]Auðvitað er engu hægt að slá föstu um það en svona sagnfræði í viðtengingarhætti varnar því að allt líti út fyrir að hafa verið óhjákvæmilegt. Sama má segja um þorskastríðið sem hófst 1958. Svipaður árangur hefði getað náðst, til lengri tíma litið, ef útfærslan hefði verið skemmri í fyrstu eða henni slegið á frest í örfá ár. Þá hefði ekkert þorskastríð orðið og þótt síaukin sókn hafi ógnað fiskstofnum við landið er fráleitt að fullyrða að þeir hefðu ekki þolað frestun á tólf mílna lögsögu um stundarsakir.

Öðru þorskastríðinu 1972-73 var líka hægt að varna. Embættismenn í utanríkisráðuneytinu voru margir óánægðir með stífni vinstri stjórnarinnar sem þá var við völd. Í allri þorskastríðssögunni gilti það hins vegar í íslenskri innanlandspólitík að þrjóska taldist til kosta en ekki lasta. Það hefur til dæmis verið sagt að sigra í landhelgismálinu megi þakka hinni „óbilgjörnu stefnufestu” Lúðvíks Jósepssonar.[21]Í fjögurra og tólf mílna átökunum gáfu útlendingar mönnum eins og Ólafi Thors og Pétri Benediktssyni svipaða dóma. Þeir voru sagðir þverari en Molotov í Moskvu og viðurkenndu fúslega að þeir stefndu að „skilyrðislausri uppgjöf” andstæðingsins.[22]Það er auðvitað gott í stríðum en ekki í samningum.

Óbilgirni íslenskra ráðamanna réð líka miklu um að svo fór sem fór í 200 mílna deilunni þegar stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var við völd. Andstæðingar sjálfstæðismanna hafa til dæmis haldið því fram að þeir hafi viljað eigna sér eina útfærslu í landhelgismálinu, enda voru þeir sakaðir um linkind í 12 og 50 mílna átökunum. Og spenna innan stjórnarinnar kristallaðist í frægri togvíraklippingu snemma árs 1976 þegar Geir Hallgrímsson forætisráðherra var í London að ræða við breska ráðamenn sem gerðu ráð fyrir að friður héldist á miðunum á meðan. Ólafur Jóhannesson, dómsmálaráðherra og yfirmaður Landhelgisgæslunnar, leyfði hins vegar klippingar löngu eftir að Geir var farinn út. Eftir á hefur sjálfstæðismenn, sem til þekktu, grunað að Ólafur hafi gert þetta til að torvelda Geir að finna lausn á deilunni. Framsóknarmenn telja hins vegar að sjálfstæðismenn hafi öfundað Ólaf vegna þess að hann var álitinn „harði maðurinn” í ríkisstjórninni sem var auðvitað meira lof en að þykja sáttfús eins og Geir.[23]

Forsætisráðherra var friðarins maður og vildi koma meir til móts við Breta í síðasta þorskastríðinu en raun var á. Innanlandspólitík og almenningsálitið í landinu leyfði það hins vegar ekki. Þrjóskan og þrákelknin gat þannig verið Íslendingum til tjóns því þótt verndun fiskimiðanna hafi verið nauðsynleg er ekki þar með sagt að útfærslurnar og þorskastríðin hafi verið það hverju sinni. Of mikil nauðhyggja hefur einkennt íslensk skrif um þessi átök.

„Rétt eða rangt, mitt land”. Var rétturinn alltaf Íslands megin?

Þorskastríðin tengjast þróun hafréttar. Þau snerust öðrum þræði um túlkun á alþjóðalögum og venju. Íslenskir ráðamenn héldu auðvitað fram lagalegum rétti Íslands til að vernda fiskimiðin umhverfis landið. Sjónarmiðið var í raun á þann veg að það sem væri gott fyrir Ísland væri rétt, svipað og orðtak Englendinga frá heimsvaldaskeiði þeirra, „rétt eða rangt; mitt land”—right or wrong, my country.

Útfærslan í fjórar mílur 1952 var nær algerlega í samræmi við alþjóðalög á þeim tíma. Mestu máli skipti úrskurður Alþjóðadómstólsins í Haag í deilumáli Norðmanna og Breta í desember 1951. Bretar höfðu kært grunnlínur Norðmanna fyrir Norður-Noregi til dómstólsins sem ákvað að þær stæðust lög. Þótt embættismenn og lögfræðilegir ráðunautar í breska utanríkisráðuneytinu viðurkenndu það ekki opinberlega voru þeir sammála um að dómurinn þýddi að Íslendingar mættu sigla í kjölfar Norðmanna.[24]Faxaflóalínan þótti þó „djörf” að mati sérfróðra manna sem íslensk stjórnvöld ráðfærðu sig við og Ólafur Thors atvinnumálaráðherra viðurkenndi að Alþjóðadómstóllinn gæti hæglega talið hana í bága við alþjóðalög.[25]Á það reyndi þó ekki því bresk stjórnvöld vonuðust í fyrstu til að löndunarbannið beygði Íslendinga og þau vildu líka forðast málskot til Haag og nær öruggan ósigur þar í meginatriðum.[26]

Réttur Íslendinga til aðgerða var ekki jafn augljós árið 1958 og í þorskastríðinu sem fylgdi skiptu lagaleg rök svo ekki höfuðmáli. Lyktir þess árið 1961 eru hins vegar fróðlegar því ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks, viðreisnarstjórnin, samdi við Breta um að kæmi til frekari útfærslu gegn vilja þeirra mætti skjóta málinu til Alþjóðadómstólsins. Vinstri stjórnin, sem komst til valda árið 1971, var staðráðin í að færa út landhelgina hvað sem liði samningnum við Breta. Var hún í rétti til þess? Bretar, og reyndar Vestur-Þjóðverjar líka sem höfðu samið á svipaðan hátt við Íslendinga, sökuðu þá um svik og vísuðu deilunni til Alþjóðadómstólsins sem ákvað að hann hefði lögsögu í málinu.

Stjórnin ákvað að sniðganga dómstólinn. Sagt hefur verið að það megi færa „góð og gild rök, bæði lögfræði- og stjórnmálalegs eðlis, að hvorri leiðinni sem er, þ.e. að mæta fyrir dómstólnum eða mæta ekki”.[27]Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn, sem sátu í stjórnarandstöðu, voru í fyrstu eindregið á móti stefnu ríkisstjórnarinnar og sú ákvörðun þeirra að samþykkja einhliða útfærslu í 50 mílur réðst fyrst og fremst af innanlandspólitík, ekki innri sannfæringu um lagaleg rök. Einnig má álykta að hefði Bjarna Benediktssonar enn notið við hefði Sjálfstæðisflokkurinn tæplega fallist á að samningurinn frá 1961 ætti ekki lengur við.[28]

Loks má íhuga það sjónarmið að verndun fiskimiða og útfærsla fiskveiðilögsögunnar hafi verið lífshagsmunamál þjóðarinnar. Þetta er rétt en þýðir ekki að allar ákvarðanir íslenskra ráðamanna verði um leið réttlætanlegar í nafni þjóðfrelsis og brýnna þjóðarhagsmuna. Þessi siðferðis-, efnahags- og þjóðlegu rök má ekki nota eins og óútfyllta ávísun sem dugi til að verja allt sem var gert til að öðlast einkarétt á fiskimiðunum umhverfis landið.

 „Allir sem einn”. Var þjóðareining í þorskastríðunum?

Goðsögnin um þjóðareiningu í þorskastríðunum lifir góðu lífi. Sagan er sögð þannig að Íslendingar hafi staðið saman „allir sem einn”.[29]Þjóðin var sannarlega sameinuð í andúð á andstæðingnum um leið og herskipin komu á vettvang. Jafnframt var hún sameinuð um það lokamarkmið að öðlast ein yfirráð yfir auðlindunum í hafinu umhverfis landið. Það er því gjarnan sagt að þótt einhugur hafi ríkt um takmarkið hafi verið ágreiningur um leiðir eins og vera vill og skiljanlegt sé í svo veigamiklu máli.

Þessi söguskoðun er óheppileg. Einingin er ýkt og ágreiningurinn vanmetinn. Til samanburðar má nefna að sama gilti lengi um sögu sjálfstæðisbaráttunnar sjálfrar og gildir jafnvel enn að einhverju leyti. Tvískiptinguna meingölluðu í einingu um markmið en ágreining um leiðir má líka bera saman við stjórnmálabaráttuna eftir lýðveldisstofnun. Hvað myndi það segja að lýsa henni á þann veg að þótt hina ýmsu flokka hafi greint á um leiðir hafi þeir allir haft það sama markmið að bæta velsæld þjóðarinnar? Slík lýsing útskýrir auðvitað ekki neitt.

Hér er ekki rúm til að rekja allan þann ágreining sem einkennir sögu þorskastríðanna. Stjórnmálamenn deildu sín á milli, embættismenn deildu við ráðherra, varðskipsmenn deildu á ráðamenn og þar fram eftir götunum. Óeining var eðlilegt ástand í landhelgismálinu; samstaðan var óeðlileg og viðkvæm og Bretar bjuggu hana einir til, tímabundið, með því að halda að þeir gætu náð því fram með notkun herskipa sem þeim tókst ekki með viðræðum og veigaminni þrýstingi. Í stað skiptingarinnar í samstöðu um markmið og ágreining um aðferðir væri betra að tala um þvingaða einingu út á við og sífelldar deilur innan eigin raða.

„Vald hinna veiku”. Hvað réð úrslitum um lyktir þorskastríðanna?

Hvernig stendur á því að herlaus smáþjóð á hjara veraldar hafði betur í harðvítugri milliríkjadeilu við öflugt stórveldi sem taldi sig hafa brýna hagsmuni að verja? Margar skýringar koma til greina og hér koma kenningar fræðanna að miklu gagni, einkum þær sem snúast um vald og mátt í alþjóðasamskiptum. Þorskastríðin sýna vel hve vald er margþætt á alþjóðavettvangi og stjórnmálafræðingar hafa einmitt margir bent á þau til að styðja kenningar um þetta efni. Samkvæmt raunhyggju, realisma, liggur valdið hjá hinum sterku og hinir veikari verða að sætta sig við vilja þeirra. Hugtök eins og hervald og efnahagsmáttur skipta því meginmáli í útreikningum raunsæissinna á valdi í deilum ríkja.

Stíf raunhyggja er greinilega á skjön við staðreyndir þorskastríðanna.[30]Hefði hernaðaðarmáttur skipt meginmáli hefðu Bretar getað sökkt varðskipaflota Íslendinga á nokkrum dögum. Slíkur yfirgangur hefði hins vegar verið fordæmdur á seinni hluta tuttugustu aldar. Raunveruleiki þorskastríðannavirðist því samræmast betur hugsjónastefnu, ídealisma eða líberalisma, og kenningum um síaukin tengsl ríkja á öllum sviðum, eða samþættingu (interdependenceá ensku). Hagsmunir Breta og hagsmunir Íslendinga voru orðnir mun samofnari en þeir höfðu áður verið. Aukin viðskipti og samskipti lýðræðisríkja útilokuðu að eitt ríki beitti annað hervaldi til að ná sínu fram í deilum. Eftirtaldir þættir útskýra því hvers vegna Íslendingar höfðu betur í þorskastríðunum:

1)      Skuldbinding.

2)      Þróun hafréttar.

3)      Vígstaðan á miðunum.

4)      Smæð Íslands.

5)      Hernaðarmikilvægi Íslands.

1) Skuldbinding (commitment á ensku) er þekkt hugtak í alþjóðasamskiptum. Þeir, sem telja sig eiga meira undir því að hafa sigur í milliríkjadeilu eða stríði, eru þrautseigari í átökum. Í þorskastríðunum jók þjóðareiningin út á við styrk Íslendinga gagnvart Bretum og öðrum útlendingum. Deilurnar heima fyrir og á bak við tjöldin juku jafnvel styrk íslenskra ráðamanna því þeir gátu sagt að því miður gætu þeir ekki sýnt sáttahug vegna þess að þá yrði fjandinn laus á Íslandi. Augljós hætta á ofveiði jók einnig þann sannfæringarkraft sem Íslendingar höfðu í átökunum.

2) Þróun hafréttar kom Íslandi líka til góða. Snemma á áttunda áratugnum var augljóst að 12 mílna landhelgi hlyti ekki náð alþjóðasamfélagsins og samkomulag gæti aðeins náðst um víðari lögsögu. Það voru einkum ríki í Suður-Ameríku og þriðja heiminum sem börðust fyrir breytingum og þau hefðu haft sitt fram, hvað sem Íslendingar gerðu á heimaslóðum. Atbeini Íslands og aðgerðir skiptu vissulega máli en 200 mílna efnahagslögsaga væri við lýði um víða veröld þótt engin þorskastríð hefðu verið háð.

3) Vígstaðan á miðunum réð miklu um sigur Íslendinga. Í fyrsta lagi gátu veiðar undir vernd í sérstökum hólfum, eins og Bretar stunduðu í þorskastríðunum, aldrei gengið til lengdar. Í fyrsta þorskastríðinu gekk herskipaverndin þó vel að því leyti að íslensku varðskipin náðu ekki að koma í veg fyrir veiðar togaranna. Í átökunum á áttunda áratugnum komu togvíraklippurnar aftur á móti til sögunnar. Í herfræðum eru það algild sannindi að ný tækni getur gerbreytt valdajafnvægi stríðandi fylkinga og klippurnar gerðu það svo sannarlega. Skipakostur var Íslendingum líka að ýmsu leyti til góða og starfsreynsla varðskipsmanna gerði þá betur í stakk búna að berjast á Íslandsmiðum. Áhafnir bresku herskipanna voru hins vegar ekki þjálfaðar í þeirri list að bægja varðskipi frá togara án þess að beita byssum.

Dugnaður og afrek varðskipsmanna gat þó jafnvel torveldað leiðina að samningum. Rétt fyrir útfærsluna í 12 mílur 1. september 1958 ítrekuðu Hermann Jónasson forsætis- og dómsmálaráðherra og Pétur Sigurðsson gæsluforstjóri að fyrst um sinn myndu Íslendingar láta nægja að skrá nafn og númer breskra togara innan nýju landhelginnar. Þeir tóku skýrt fram að ekki yrði reynt að færa togara til hafnar. Eiríkur Kristófersson, skipherra á flaggskipinu Þór, hafði hins vegar ímugust á Pétri og þeir embættismenn voru til sem óttuðust baráttuhug Eiríks.[31]Skemmst er frá því að segja að Þór reyndi að taka togara strax að morgni 2. september, í bága við áform stjórnvalda. Mikil harka hljóp því strax í stöðuna á miðunum og vonir um málamiðlun hurfu á svipstundu. Á áttunda áratugnum kom líka fyrir að íslenskir ráðamenn kvörtuðu yfir kappi varðskipsmanna.

4) Smæð Íslands kom að gagni í landhelgismálinu. Á alþjóðavettvangi áttu Íslendingar samúð þeirra sem sáu Davíð berjast við Golíat úti á Atlantshafi. Jafnvel í Bretlandi sjálfu gætti þessarar samúðar í garð lítilmagnans. Þetta sást til dæmis vel í upphafi landhelgissögunnar eftir seinni heimsstyrjöld, árið 1948 eða þar um bil. Ísland var þá því sem næst gjaldþrota eftir gósentíð stríðsáranna. Ísland var í raun Nýfundnaland norðursins, efnahagsleg nýlenda sem átti allt sitt undir velvilja efnaðri þjóða. Bandaríkjamenn björguðu Íslendingum með Marshall-aðstoð og annarri fyrirgreiðslu og Bretar veittu líka lán til togarasmíða í Bretlandi. En hefðu Bretar—og Bandaríkjamenn sem voru alla tíð andsnúnir landhelgisstefnu Íslendinga—séð fyrir þróun mála hefði þeim verið í lófa lagið að skilyrða stuðninginn við hófsemi í landhelgismálinu.[32]Þetta gerðist ekki, að hluta til vegna þess að vestrænir valdhafar vissu vel að sjávarútvegur var um þessar mundir eina bjargráð Íslendinga og „það er ómögulegt að láta 130 þúsund manna þjóð svelta í hel”, eins og breskur embættismaður komst að orði undir lok fimmta áratugarins.[33]Meginástæðan var hins vegar sú að vesturveldin þurftu líka á Íslandi að halda.

5) Hernaðarmikilvægi Íslands skipti sköpum í landhelgisbaráttunni Strax í fjögurra mílna deilunni sást að Bretar, og Bandaríkjamenn að baki þeirra, höfðu áhyggjur af því að andstaða við áform Íslendinga yki fylgi við vinstri öfl á Íslandi og gæti jafnvel ógnað þátttöku landsins í varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Þörf þeirra fyrir hernaðaraðstöðu hérlendis gerði að verkum að vald eða styrkur íslenskra ráðamanna í landhelgisdeilunum öllum stórjókst. Raunsæissinnar, realistar, viðurkenna að smáríki geti búið yfir kostum af þessu tagi og einn helsti postuli þeirra á seinni hluta síðustu aldar, Hans J. Morgenthau, nefndi Ísland sérstaklega í því sambandi.[34]

Íslendingar vissu auðvitað af þessum styrk. „Við notuðum NATO, alveg undir drep”, sagði Matthías Johannessen síðar: „[Henry] Kissinger, hann rekur upp ramakvein í minningum sínum út af Íslandi og minnist á Ísland sem dæmi um það hvernig lítil þjóð gat kúgað stórveldi eins og Bandaríkin. Ég vona bara að það sé rétt!”[35](Kissinger hafði minnst á orð Bismarcks Þýskalandskanslara um „vald hinna veiku” í alþjóðamálum því þeir gætu leyft sér ýmislegt sem voldugri ríki teldu ekki við hæfi)[36]. Andstæðingar Íslendinga voru, eins og gefur að skilja, lítt hrifnir af hinni kaldrifjuðu reikningslist þeirra. Breskur diplómat, sem átti í höggi við íslenska ráðamenn í 50 mílna deilunni, sagði síðar að frá upphafi hefði verið erfitt að semja við þá sem sviku gilda samninga og gengu óhikað eins langt og þeir frekast gætu, án nokkurs tillits til hins aðilans:

Ég man að ég sagði að kæmi ég einhvern tímann aftur til annarrar jarðvistar myndi ég óska mér að verða forsætisráðherra í litlu eyríki eins og Íslandi ... því þá gæti ég vafið öllum stórveldunum um fingur mér. Ég þyrfti enga ábyrgð að sýna; ég gæti kúgað þau út í ystu æsar og barið í gegn hreint fáránlega samninga.[37]

Smáþjóð í hörðum heimi þurfti auðvitað fyrst og fremst að hugsa um og verja eigin hagsmuni. Köld raunsæishyggja réð miklu um úrslit þorskastríðanna. Fyrir kom að breskir embættismenn spurðu sig hvort Íslendingar mættu ekki sigla sinn sjó; hvort þeir mættu ekki reka Bandaríkjaher úr landi og segja sig úr Atlantshafsbandalaginu eins og þeir hótuðu eða vöruðu við í þorskastríðunum. En svo sterk var staða Íslands í eldlínu kalda stríðsins að Bretar gátu aldrei litið framhjá hernaðarmikilvægi landsins og beitt öllu afli til að hafa sigur í fiskveiðideilunum. Kalda stríðið kom Íslendingum því mjög vel í þorskastríðunum og í raun má segja að „kommagrýlan” hafi verið sérstaklega góður liðsmaður í þeim öllum.

Innanlandspólitík í utanríkismálum. Hvað réð ákvörðunum valdhafa í þorskastríðunum?

Ákvarðanataka í stjórnkerfum er allviðamikið viðfangsefni í stjórnmálafræði og sagnfræðingar geta haft mikið gagn af þeim kenningum og rannsóknum sem fjalla um það. Í stuttu máli eru fræðimenn sammála um að valdhafar eru ekki rökfastar reikningsvélar sem finna út kost og löst á hverri ákvörðun. Menn eru fordómafullir, þeir hafa sérhagsmuni og geta ekki vitað allt sem þarf að vita til að komast að rökréttri niðurstöðu. Menn hafa rangar forsendur og taka því rangar ákvarðanir.

Þorskastríðin eru kjörið dæmi. Hefðu breskir ráðamenn vegið og metið vígstöðuna frá öllum hliðum hefðu þeir komist að raun um að flotavernd á Íslandsmiðum skilaði örugglega ekki tilætluðum árangri. Þeir létu hins vegar stjórnast um of af röngu mati á styrk þeirra sjálfra og Íslendinga, þeir voru of stoltir og þeir gengu of langt í að gera togaraeigendum og sjómönnum til geðs. Áhrif innanlandsmála á utanríkisstefnu eru einmitt sérrannsóknarefni í ákvarðanafræðum. „Innenpolitik er inni”, segja menn og vísa á bug þeim frægu orðum þýska sagnfræðingsins Leopolds von Ranke að utanríkisstefna eigi að vera í fyrirrúmi og innanlandspólitík skipti litlu máli í samskiptum ríkja.[38]Í þorskastríðunum skipti innanlandspólitík sköpum við mörkun utanríkisstefnunnar, bæði í London og Reykjavík. Skýrt skilgreindur „þjóðarhagur” réð ekki ákvörðunum þar. Íslenskir valdhafar höfðu flokkspólitík til dæmis alltaf í huga. Að mati þeirra var aðalóvininn ekki endilega að finna handan við hafið heldur í öðrum flokkum innanlands. Saga þorskastríðanna verður ekki jafn glæst fyrir vikið en hún verður þó réttari.

Sjálfstæðisbarátta til sjávar. Er þorskastríðunum lokið?   

Menn segja gjarnan að þorskastríðin hafi verið framhald sjálfstæðisbaráttunnar.[39]Því má spyrja hvort þeim sé lokið. Í fyrsta lagi má segja að fyrst þorskastríðin snerust um yfirráð yfir Íslandsmiðum geti Íslendingar glatað þeim sigrum sem þeir unnu á seinni hluta síðustu aldar með því að hleypa erlendum þjóðum aftur inn í auðlindina. Þessi rök eru til dæmis rík í huga þeirra sem berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og þegar Davíð Oddsson forsætisráðherra beitti þeim í erindi í sendiráði Íslands í London árið 2001 var við hæfi að á veggnum fyrir aftan hann héngu fjölmargar skopteikningar frá átökunum við Breta.[40]Að þessu leyti má því segja að þorskastríðunum ljúki aldrei. Á sama hátt má segja að þorskastríðunum sé ekki endilega lokið því Íslendingar stefna að auknum réttindum utan tvö hundrað mílna lögsögunnar.

Önnur leið til að nálgast spurninguna um lok þorskastríðanna liggur hins vegar í viðmóti Íslendinga til átakanna, aldarfjórðungi eftir endalok þeirra. Hefur það langur tími liðið frá lokum þorskastríðanna að Íslendingar geti vegið þau og metið á sama hátt og menn hafa til dæmis verið að endurskoða sjálfstæðisbaráttuna? „[B]aráttunni fyrir sjálfstæði Íslands er lokið”, sagði Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðiprófessor til dæmis um miðjan síðasta áratug.[41]Hetjuljóminn, sem einkenndi sjálfstæðissöguna, á ekki lengur við, enda má líka vitna í þau orð Guðmundar að frekari skrif um sjálfstæðisbaráttuna á næstu árum muni „að öllum líkindum reka síðasta naglann í líkkistu einingarsögunnar”.[42]Saga þorskastríðanna þarf á svipaðri endurskoðun að halda. Þetta greinarkorn er að því leyti einn lítill nagli í líkkistuna fyrir einingar- og hetjusögu þeirra. Þorskastríðunum er lokið.


[1]Eina fræðiritið á íslensku um öll þorskastríðin er Björn Þorsteinsson, Tíu þorskastríð 1415-1976 (Reykjavík, 1976).

[2]Cod War III Between Iceland and Great Britain (Reykjavík, 1975).

[3]Björn Þorsteinsson, Tíu þorskastríð. Sjá einnig Albert Jónsson, „Tíunda þorskastríðið”, Saga XIX (1981), bls. 5-106. Sumir útlendingar hafa fylgt fordæmi Björns. Sjá t.d. Jan P. Jansen og Per Chr. Blichfeldt, Havets voktere. Historien om Kystvakten (Osló, 1998), bls. 12.

[4]Björn Þorsteinsson, „Þorskastríð og fjöldi þeirra”, Saga XXI (1983), bls. 236-244.

[5]Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Fiskveiðideila Íslendinga og Breta 1896 og 1897. Bresk flotadeild vitjar Íslands”, Saga XVIII (1980), bls. 77-114. Gylfi Þ. Gíslason, Viðreisnarárin (Reykjavík, 1993), bls. 155.

[6]Björn Þorsteinsson, Tíu þorskastríð, 239.

[7]Public Record Office, London[hér eftir PRO]. MAF209/1476, minnisblað S.W., 14. sept. 1953, og FO371/106344, Ólafur Thors til Anthony Nuttings, 14. jan. 1953.

[8]Edward Said, Orientalism (New York, 1979). Sjá einnig Andrew J. Rotter, „Saidism without Said: Orientalism and U.S. Diplomatic History” (ritdómagrein), American Historical Review, 105 árg., nr. 4, 2000, bls. 1205-1217, og Ngaire Woods, „The Uses of Theory in the Study of International Relations”. Explaining International Relations Since 1945. Ngaire Woods ritstjóri (Oxford, 1996), bls. 24-25.

[9]Frank Goldsworthy, „More Fun Than Fury in the Fish War”, United States Naval Institute Proceedings, 87. árg., nr. 2, 1961, bls. 58-67. „Front line in Arctic”, Navy News, janúar 1976, bls. 1.

[10]Albert Jónsson, „Tíunda þorskastríðið”, bls. 9.

[11]Þjóðskjalasafn Íslands [hér eftir ÞÍ]. Sögusafn utanríkisráðuneytis, 1993-3-1, Kristinn Guðmundsson til utanríkisráðuneytis, 8.10.1958. PRO. FO371/134993, minnisblað Gilchrists, 8.10.1958. „[Q]uite worked up”, var lýsing Gilchrists á Kristni.

[12]Sjá t.d. umfjöllun Matthíasar Johannessens um skýrslur erlendra sendimanna á Íslandi fyrstu árin eftir seinni heimsstyrjöld. Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf II (Reykjavík, 1981), bls. 7-37, 352-355.

[13]Sjá t.d. Albert Jónsson, „Tíunda þorskastríðið”, bls 40 (neðanmálsgrein), og Gunnar Karlsson, Iceland’s 1100 Years. The History of a Marginal Society (London, 2000), bls. 346.

[14]Hannes Jónsson, Friends in Conflict:The Anglo-Icelandic Cod War and the Law of the Sea (London, 1982), og Davíð Ólafsson, Saga landhelgismálsins. Baráttan fyrir stækkun fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur (Reykjavík, 1999).

[15]Lúðvík Jósepsson, Landhelgismálið. Það sem gerðist bak við tjöldin (Reykjavík, 1989).

[16]Björn Bjarnason, „Forsendur sigra í landhelgismálinu”, Morgunblaðið, 3. des. 1999.

[17]John Ramsden, „Ending in Failure” (ritdómur um David Dutton, Neville Chamberlain, og Robert Self (ritstj.), The Neville Chamberlain Diary Letters), Times Literary Supplement, 17.8.2001, bls. 25.

[18]Graham Stewart, „Churchill without the rhetoric” (ritdómagrein), The Historical Journal, 43. árg., nr. 1, 2000, bls. 303-307.

[19]Sjá t.d. Richard K. Herrman og Richard Ned Lebow, „Policymakers and the Cold War’s End: Micro and Macro Assessments of Contingency”, Cold War International History Project Bulletin, nr. 12-13, 2001, bls. 337-340, og Philip E. Tetlock og Richard Ned Lebow, „Poking Counterfactual Holes in Covering Laws: Cognitive Styles and Historical Reasoning”, American Political Science Review, 95. árg, nr. 4, 2001, bls. 829-843.

[20]Sját.d. PRO. FO371/100631, Greenway til Edens, 6. maí 1952. Einnig FO371/111534, minnisblað Wards, 17. nóv.1954.

[21]Gunnar Karlsson, „Stjórnmálamaður 20. aldar”, DV, 4. jan. 2001.

[22]PRO. FO371/111534, minnisblað Hohlers, 15. nóv. 1954, og FO371/116438, minnisblað Harphams, 21. jan. 1955.

[23]Sjá t.d. Örnólfur Árnason, Járnkarlinn. Matthías Bjarnason ræðir um ævi sína og viðhorf (Reykjavík, 1993), bls. 181-182, og Dagur B. Eggertsson, Steingrímur Hermannsson. Ævisaga II (Reykjavík, 1999), bls. 163.

[24]PRO. FO371/100628, minnisblöð Whitwells og Johnsons, 21. jan. 1952.

[25]Bókasafn Seðlabanka Íslands. Gögn Davíðs Ólafssonar. Pétur Sigurðsson, „Skýrsla um sendiför 12.-27. febrúar 1952”. Matthías Johannessen, Ólafur Thors II, bls. 206.

[26]T.d. PRO. MAF209/1478, Wall til Hohlers, 6. sept. 1954. Það er því rangt sem Andrew Gilchrist hélt fram að Íslendingar hefðu einir staðið í vegi fyrir því að deilunni yrði skotið til Alþjóðadómstólsins. Sjá Andrew Gilchrist (Jón O. Edwald íslenskaði), Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim (Reykjavík, 1977), bls. 94-95.

[27]Guðmundur Alfreðsson, „Útfærsla íslensku fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur og dómsaga Alþjóðadómstólsins”. Ólafsbók. Afmælisrit helgað Ólafi Jóhannessyni sjötugum. Steingrímur Jónsson ritstjóri (Reykjavík, 1983), bls. 355.

[28]Sjá t.d. John Griffiths, Modern Iceland, (London, án útgáfuárs), bls. 144, og ÞÍ. Skjalasafn forsætisráðuneytis. 1989-B/555-1 L-1-II. Gunnar G. Schram og Már Elísson, „Greinargerð um leiðir til forgangsréttar Íslendinga á fiskimiðum landgrunnsins”, júní 1969.

[29]Kynningartexti á hulstri fyrir myndbandsþættina Síðasti valsinn. Margrét Jónasdóttir handritshöfundur.

[30]Hannes Jónsson hefur bent á þetta. Sjá t.d. Friends in Conflict, bls. 205.

[31]Gunnar M. Magnúss, Eiríkur skipherra (Reykjavík, 1967), 121-122, 126-127, 131-133, 164-165. Bréf Birgis Thorlacius til höfundar, 31. ágúst 2001.

[32]Á sjöunda áratugnum hvöttu bandarískir þingmenn t.d. til þess að fjárstuðningur við ríki Suður-Ameríku yrði ekki veittur nema þau fylgdu Bandaríkjunum í landhelgismálum. PRO. MT59/2981, Hutchinson, sendiráði Bretlands í Perú, til breska utanríkisráðuneytisins, 28. júní 1965.

[33]PRO. T236/2040, minnisblað í breska fjármálaráðuneytinu, 7. ágúst 1948.

[34]Hans J. Morgenthau, „Alliances in Theory and Practice”. Alliance Policy in the Cold War. Arnold Wolfers ritstjóri (Baltimore, 1959), bls. 190.

[35]Kalda stríðið(sjónvarpsþáttur í Ríkissjónvarpi, 15. maí 2000). Árni Snævarr og Valur Ingimundarson handritshöfundar.

[36]Henry Kissinger, Years of Upheaval (London, 1982), bls. 172.

[37]Viðtal höfundar við breskan diplómat, 18. jan. 2001.

[38]Fareed Zakaria, „Realism and Domestic Politics. A Review Essay”, International Security, 17. árg., nr. 1, 1992, bls. 177 og 198.

[39]Sveinn Sæmundsson, Guðmundur skipherra Kjærnested II (Reykjavík, 1985), bls. 115. Gunnar Karlsson, Iceland’s 1100 Years, bls. 2 og 347.

[40]Erindi Davíðs var á vegum Bresk-íslensku verslunarnefndarinnar (British Icelandic Chamber of Commerce), og var haldið 6. nóvember 2001.

[41]„Sagan og samtíminn. Ráðstefna um söguskoðun Íslendinga”, Saga XXXIII (1995), bls. 67.

[42]Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk (Reykjavík, 2001), bls. 41-42, 185.

"Síldarævintýrið í Hvalfirði" (1995)

 „Síldarævintýrið í Hvalfirði”, Ný saga, 7. árg. 1995, bls. 1-29.

Þessarar greinar er getið hér því að hún varð mér mikil hvatning í fræðunum. Sögufélag, Sagnfræðingafélag Íslands og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands efndu til ritgerðarsamkeppni út af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins og varð þessi ritsmíð hlutskörpust, ásamt ritgerð Vals Ingimundarsonar um áhrif bandarísks lánsfjár á stefnu vinstri stjórnarinnar 1956.

"Síldarbræðsla" og "Síldarleit úr lofti" (2007)

„Síldarbræðsla“, og  „Síldarleit úr lofti“. Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslands III (Reykjavík: Nesútgáfan 2007), bls. 65-174 og 217-230.

Sumarið 1992 þegar ég kom heim úr BA-námi í sagnfræði og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla í Bretlandi - og endasleppt framhaldsnám í Þýskalandi - fann ég í fyrstu ekkert að vinna við heima á Íslandi. Sem betur fer sá Steinar J. Lúðvíksson, aðalritstjóri Fróða og eiginmaður föðursystur minnar Gullveigar, aumur á mér og bauð mér að þýða skáldsögur Stephens Kings. Það var mjög gaman og sömuleiðis fékk ég vinnu við sumarafleysingar á fréttastofu Bylgjunnar. Mestu skipti þó að Benedikt Sveinsson, sem ég þekkti gegnum Stjörnuna í Garðabæ, bað mig að taka saman efni í ævisögu föður hans, Sveins Benediktssonar útgerðarmanns og stjórnarformanns Síldarverksmiðja ríkisins um árabil. TIl urðu drög að ævisögu en þegar ég lít á þau löngu síðar þakka ég mínum sæla að verkið var ekki gefið út. Verði að því þarf það mikillar endurskoðunar og slípunar við.

En þannig orsakaðist það að ég, sem hef aldrei stigið fæti inn í síldarverksmiðju, fór síðar að skrifa um síldarbræðslu og ýmislegt tengt silfri hafsins í hina miklu síldarsögu sem kom að lokum út árið 2007.

"Hefurðu heimild? Skráð og óskráð lög um ævisagnaritun" (2011)

„Hefurðu heimild? Skráð og óskráð lög um ævisagnaritun“. Tímarit Máls og menningar 1/2011, bls. 40–50.

Í þessari grein er stiklað á stóru um hefðir og æskileg vinnubrögð við ævisagnaritun, að mínu mati. Lokaorðin eru þessi:

Orðið heimild er skemmtilega margrætt í íslenskri tungu. Það getur þýtt leyfi að lögum til að gera eitthvað. Þannig hafa landsmenn heimild til að skrifa það sem þeir vita sannast og réttast en um leið hefur fólk heimild til að verja mannorð sitt og æru og fá ummælum hnekkt með dómi. Jafnframt er hægt að veita heimild: Einstaklingar eða aðstandendur þeirra geta gefið sagnaritara heimild til að skrá ævisögu og að sama skapi getur fólk skrifað ævisögu í heimildarleysi, „í óþökk“. En þá verður helsti vandinn gjarnan sá að heimildir vantar í öðrum skilningi því orðið heimild er einnig notað yfir upplýsingar um eitthvað; í gömlu skjali eða nýju viðtali getur falist heimild. Viðurkennt er að sagnfræðingar skulu að öllu jöfnu byggja verk sín á heimildum af þessu tagi. Það er þeim kennt og það segja siðareglur þeirra. En þeir skulu líka stefna að því að hafa það sem sannara reynist. Og þá mega heimildirnar ekki ráða öllu, í hvaða skilningi sem er. Stundum þurfum við að ímynda okkur hvað hefði getað gerst og hvernig fólki leið, án þess að fyrir því sé bein heimild.

"Bjarni Benediktsson" (2004)

„Bjarni Benediktsson,” í Ólafur Teitur Guðnason (ritstj.), Forsætisráðherrar Íslands – Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar Íslands í 100 ár (Akureyri: Bókaútgáfan Hólar, 2004), bls. 295-314.

Snemma árs 2004 bauðst mér að skrifa um Bjarna Benediktsson í væntanlegri bók um forsætisráðherra Íslands og ráðherra frá upphafi heimastjórnar til okkar daga. Ég tók því fagnandi, sá tækifæri til að koma á framfæri ýmsu sem ég hafði fundið á skjalasöfnum heima og erlendis. Lítt leiddi maður hugann að pólitísku yfirbragði verksins sem var gagnrýnt mjög um leið og það fréttist að til stæði að skrifa bók af þessu tagi. Dálítið um það má lesa hér.

Í inngangsorðum og lokakafla kaflans hér að neðan má greina afstöðu mína til mikilvægis einstaklinga og tilviljana í sögulegri þróun. Er þetta ekki bara eintómt kaos?

Í lokakaflanum leiðrétti ég líka slæma innsláttarvillu; orðið "ófyllt" misritaðist sem "ófullt" í bókinni og er við mig einan að sakast þar.

Inngangur

Einstaklingar skapa sögu liðinnar tíðar. Þeir eru þá á vettvangi sem forverar þeirra höfðu áður búið til og samtímamenn og náttúruöflin eru sífellt að breyta. Þótt eitt leiði af öðru í allri þeirri atburðarás, og oft sé líklegast að eitt gerist frekar en annað, er sagan að öðru leyti samansafn óteljandi ákvarðana og atburða þar sem allt hefði getað farið allt öðruvísi en það í rauninni fór. Saga Bjarna Benediktssonar sýnir mjög vel þetta tvennt, möguleg völd einstaklinga og vanmátt þeirra í rás viðburðanna. Á sinni tíð var Bjarni einn tilþrifamesti stjórnmálamaður Íslendinga en örlögin réðu því að krafta hans naut mun skemur en nokkurn hafði grunað.

Hér verður fjallað um þá þætti í sögu Bjarna Benediktssonar þar sem hann hafði mest áhrif á samtíð sína; þar sem hann skipti kannski sköpum.[1]  Annars vegar er valdaskeið Bjarna í embætti forsætisráðherra þá veigamest og hins vegar atbeini hans í utanríkismálum. En þrátt fyrir þetta þrönga sjónarhorn er nauðsynlegt að líta aðeins víðar yfir sviðið, þó ekki væri nema vegna þess að við getum ekki öðlast skilning á afstöðu Bjarna Benediktssonar þegar hún skipti hvað mestu máli nema við kynnum okkur einnig hvað hafði áður mótað manninn og skoðanir hans.

Fyrst er þess einnig að geta að tilviljanir (eða örlög) hefðu hæglega getað verið álíka afdrifarík við upphaf æviferils Bjarna og endalok. Bjarni Benediktsson var fæddur í Reykjavík árið 1908, sonur Benedikts Sveinssonar, síðar Alþingisforseta, og Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey. Í ársbyrjun 1905 varð Benedikt ritstjóri Ingólfs, málgagns hinnu róttæku Landvarnarmanna. Stjórnmála- og sjálfstæðisbarátta voru bæði honum og Guðrúnu í blóð borin en brauðstritið var erfitt. Í árslok viðurkenndi Benedikt í einkabréfi að þeim Guðrúnu væri nær ómögulegt að lifa af hinum óvissu ritstjórnartekjum: „Ég býst við að offra mér fyrir Ingólf enn, eitthvað fram eftir árinu. Verð svo kannske að flýja til Ameríku um mitt sumar sakir peningaleysis.”[2]

Víst er að Íslandssagan og saga Bjarna Benediktssonar hefði orðið allt önnur, hefði hann komið í heiminn vestur í Ameríku. Nú má vel vera að Benedikt hafi ekki verið full alvara með orðum sínum og ekki verður um það deilt að þau Guðrún ólu eldheita ættjarðarást með Bjarna og hinum barna sinna; þeim Sveini og Pétri sem eldri voru og yngri systrunum Kristjönu, Ragnhildi og tvíburunum yngstu, Ólöfu og Guðrúnu. Skapstórt fólk og dugmikið var að finna bæði í móður- og föðurætt Bjarna, og kippti honum í kynið. Hann var „einþykkastur” barnanna og „heldur skapstór,” sagði Benedikt Sveinsson árið 1916.[3] Tveimur árum síðar skrifaði Benedikt aftur um Bjarna sem þá var á tíunda ári: „Hann er lang-duglegastur við nám þeirra bræðra, og les mikið, t.d. Íslendingasögur og Noregskonunga, Tyrkja-ránið o.s.frv. jafnvel alþingistíðindi og mjög fljótur að lesa, athugull og skarp-greindur, heldur bráð-geður.”[4]

Bjarni fór í Menntaskólann í Reykjavík og skaraði þar fram úr. Áhuga hans á stjórnmálum tók þá einnig að gæta. „Bolschevikkastefnuna kvað hann óalandi og óferjandi,” kom fram á málfundi í skólanum síðla árs 1923, og mætti segja að snemma beygðist krókurinn. Seinna um veturinn bætti Bjarni þó við, sem ekki fór jafnvel við skoðanir hans þegar hann var kominn til vits og ára, að hann væri á móti „almennum kosningarjetti, yfirleitt.”[5] Bjarni lauk prófi í lögum árið 1930 með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin. Hann hélt til framhaldsnáms í Berlín en árið 1932 varð hann lagaprófessor við Háskólann, aðeins 24 ára gamall. Næstu ár samdi hann hið mikla stjórnlagarit sitt, Deildir Alþingis, og ýmsar aðrar fræðiritgerðir. Bjarni þótti góður kennari, en nokkuð kröfuharður.[6] Hann gekk í Sjálfstæðisflokkinn árið 1933 og árið eftir varð hann bæjarfulltrúi flokksins í Reykjavík. „Hann var bæði bráðþroska og brekkusækinn,” hefur hinum unga Bjarna verið lýst, „fullorðinslegur snemma og veitti sér ekki þann munað að sóa æskuárunum með þeirri bruðlunarsemi sem ungum mönnum er eiginleg.”[7]

Haustið 1935 gekk Bjarni Benediktsson að eiga Valgerði Tómasdóttur en hún lést af barnsfararsótt aðeins tæpu hálfu áru síðar. Ekki þarf að eyða orðum að því hve Bjarna var sá missir sár. Þótt hann bæri harm sinn í hljóði duldi hann vinum sínum þó ekki sorgarinnar; „viðkvæmnin kom til dyranna, eins og hún var klædd,” skrifaði Jóhann Hafstein síðar.[8] Á stríðsárunum urðu næstu tímamót í lífi Bjarna. Árið 1943 gekk hann að eiga Sigríði Björnsdóttur (og eignuðust þau fjögur börn; Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu). Árið 1940 skipti Bjarni einnig um starfsvettvang og gerðist borgarstjóri. Þá voru viðsjár í heiminum og æ síðan var Bjarni Benediktsson í forystusveit þeirra sem mótuðu sjálfstæðis- og utanríkisstefnu Íslands. Andstæðingar hans, bæði á þeim vettvangi og víðar, komust að því á þessum árum að illt var að egna óbilgjarnan. Bjarni var „stórgáfaður og stórlærður maður í sínu fagi,” sagði Lárus Jóhannesson síðar um eðliskosti síns nána vinar um þessar mundir, „en hann var þó ekki búinn að öðlast þá skapstillingu og sanngirni sem hann með sínum mikla viljakrafti og sjálfsafneitun tamdi sér eftir því sem árin liðu, né ná þeirri yfirsýn sem gerði hann að afburðamanni. Hann var baráttumaður að eðlisfari og gat verið harðskeyttur, ef svo bar undir...”[9]

...

Landsfaðir og flokksforingi

Landsfaðirinn Bjarni var allt annar maður en eldhuginn sem hafði engu eirt í átökum við óvini sína áður fyrr. Þá hefði Bjarni ekki viðurkennt það sem hann lét í ljós á stóli forsætisráðherra, að „[s]koðanamunur stafar sjaldnast af illvilja hvað þá samsærishug heldur ólíkum sjónarmiðum. Aukið víðsýni og umburðarlyndi létta lausn margs vanda.”[10] Trúnaðarvinir Bjarna sáu viðbrigðin kannski helst í mati hans á íslenskum „kommúnistum”. Andrew Gilchrist, sendiherra Breta í fyrsta þorskastríðinu, hafði eftir honum undir lok æviferilsins að sumir þeirra væru „fyrst Íslendingar og síðan kommúnistar, og það er ekki svo slæmt.” Gilchrist spurði hvort þetta þýddi að þeir hefðu breyst? „Já, þeir hafa breyst svolítið,” svaraði Bjarni og bætti svo við, sem sendiherrann tók til marks um sanngirni hans og víðsýni: „En kannski hef ég líka lært að skilja þá betur.”[11] Vitað er að Bjarni vildi athuga hvort verkalýðsforingjarnir Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson, sem höfðu klofið sig úr Alþýðubandalaginu og stofnað Samtök frjálslyndra og vinstri manna, gætu gengið til liðs við Viðreisnarstjórnina eftir kosningar 1971. Hann var því ekki heldur afhuga að fá Alþýðubandalagið með í það samstarf.[12]

Hið landsföðurlega yfirbragð breytti því ekki að Bjarna Benediktssyni gat enn orðið heitt í hamsi. „Bjarni var járnkarl en mildaðist mjög með árunum,” sagði einn samstarfsmanna hans, „og þá kom í ljós að hann var góð sál sem ekkert aumt mátti sjá, eins og sagt er. Þá lét hann líka bera meira á sínum sérstaka húmoríska sans, sem hann átti ógrynni af...”[13] Hannibal Valdimarsson sagði sömuleiðis að þótt Bjarni „mildaðist og kyrrðist” með árum og aldri hefði áfram verið „stutt ofan í eldlega glóð skapmunanna…”[14]Flokksmenn Bjarna fundu þetta og minntust þess ýmsir að hafa verið teknir á beinið fyrir eitthvað sem leiðtoganum mislíkaði.[15]„Hann þorði ekki síst að vera heilsteyptur og misjafnlega vinsæll formaður og varaformaður flokks síns,” skrifaði Matthías Johannessen síðar.[16]

Enginn ógnaði Bjarna þó á valdastóli í Sjálfstæðisflokknum. Hefði honum enst aldur hefði hann eflaust verið þar í forystu nokkur ár til viðbótar í það minnsta. Heldur er þá ólíklegt að þau átök, sem urðu milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens, hefðu magnast með þeim hætti sem raun varð á. Einnig hefðu landhelgismál þróast á annan veg eins og áður hefur verið minnst á og hver veit nema varnarmál hefðu ekki komist í uppnám á fyrri hluta áttunda áratugarins. Íslandssagan gerbreyttist þegar Bjarni Benediktsson lét lífið í bruna á Þingvöllum í júlí 1970 ásamt Sigríði Björnsdóttur og dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Líf okkar hinna hélt þó áfram, hvert með sínum hætti. Kristján Eldjárn forseti skrifaði hjá sér um hinn fallna leiðtoga: „Veit ég að það skarð er mikið, sem nú stendur opið og ófyllt, en líf þjóðarinnar er þó meira en eins manns líf, og einhver mun berast í fylkingarbrjóst, hver sem það verður. Það er alveg satt að allir sakna Bjarna og finna hvílíkt traust var í honum … en böls mun alls batna, nú eins og ætíð.”[17]

 [1]Nokkur yfirlit eru til um ævi Bjarna Benediktssonar. Sjá: Ólafur Egilsson (ritstjóri), Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1983). Jóhannes Nordal, „Bjarni Benediktsson.” Sigurður A. Magnússon (ritstjóri), Þeir settu svip á öldina. Íslenskir stjórnmálamenn (Reykjavík: Iðunn, 1983, bls. 255-270. Jóhann Hafstein, „Bjarni Benediktsson,” Andvari (nýr flokkur, XVI, 1974), bls. 3-47.

[2]Þjóðskjalasafn Íslands [hér eftir ÞÍ]. Bréfasafn Þórðar Sveinssonar yfirlæknis. Benedikt Sveinsson til Þórðar Sveinssonar, þriðja í jólum 1905.

[3]Skjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar [hér eftir SSÞH]. Bréfasafn Björns Þórarinssonar frá Víkingavatni, E 38. Benedikt Sveinsson til Björns Þórarinssonar, 2. janúar 1916.

[4]Sama heimild. Benedikt Sveinsson til Björns Þórarinssonar, 25. febrúar 1918.

[5]Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabóksafns [hér eftir Lbs-Hbs]. Fundargerðabók Framtíðarinnar,  676, fol. 14. aukafundur, 26. október 1923, bls. 142, og 3. fundur, 2. febrúar 1924, bls. 189.

[6]Sjá: Baldur Möller, „Lagakennsla og dómsmálastjórn.” Ólafur Egilsson (ritstjóri), Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna, bls. 29-43.

[7]Sverrir Kristjánsson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Þjóðviljinn, 16. júlí 1970.

[8]Jóhann Hafstein, „Bjarni Benediktsson,” bls. 8.

[9]Lárus Jóhannesson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið, 16. júlí 1970.

[10]„Aukið vinfengi og bætt sambúð. Áramótaræða dr. Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.” Morgunblaðið, 3. janúar 1964.

[11]Skjalasafn Sir Andrews Gilchrists. Churchill College, Cambridge. GILC 12/D „Remembering Bjarni.” ódagsett uppkast.

[12]„Reykjavíkurbréf”, Morgunblaðið, 5. desember 1994.

[13]„Slapp lifandi frá skemmtilegum þjóðflokki.” Viðtal við Knút Hallsson ráðuneytisstjóra, Morgunblaðið, 12. október 2003.

[14]Hannibal Valdimarsson, minningarorð um Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið, 16. júlí 1970.

[15]Anders Hansen og Hreinn Loftsson, Valdatafl í Valhöll, bls. 67.

[16]Matthías Johannessen, „Býsnavetur í íslenzkri pólitík,” Morgunblaðið, 23. febrúar 1980.

[17]Lbs-Hbs. Dagbók Kristjáns Eldjárns, 17. júlí 1970.

"Country Report: Iceland". EUDO Citizenship Observatory (2010)

„Country Report: Iceland“. EUDO Citizenship Obeservatory, 2010.

Þessa skýrslu um ríkisborgararétt á Íslandi í samtímanum og sögulegu ljósi vann ég með Gunnari Þór Péturssyni, kollega þegar ég við lagadeild HR. Vart þarf að taka fram að það var ég sem vann mest í sögulega hlutanum og kom lítt að samtíðinni þar sem Gunnar var á heimavelli.

"Þorskastríð í sjónvarpi. Frásagnir, sagnfræði og (hálf)sannleikur" (2003)

„Þorskastríð í sjónvarpi. Frásagnir, sagnfræði og (hálf)sannleikur”. Saga, 41. árg., nr. 1, 2003, bls. 185-198.

Í þessari grein velti ég vöngum yfir þeim heimildum sem hægt er að nota við að segja sögu þorskastríðanna, og geri það út frá sjónvarpsþáttaröðinni Síðasti valsinn sem Margrét Jónasdóttir var höfundur að og Stöð tvö sýndi í febrúar 2000. Lokaorðin voru þessi:

Samantekt: Síðasti valsinn er vandað verk og vel unnið. Í þáttaröðinni er að finna fjörlegar og fróðlegar frásagnir sem eru mikilvægar heimildir um sögu þorskastríðanna. Eflaust hefðu margar þeirra glatast ef sögumennirnir hefðu ekki verið beðnir um að segja sögu sína í þáttunum. Sú aðferð að styðjast nær eingöngu við frásagnir söguhetjanna án þess að leggja mikið mat á þær eða bera þær saman við aðrar heimildir vekur upp spurningar um það hversu áreiðanlegar þær eru. Þessi aðferð dugir ekki heldur vel við að útskýra stjórnmálahlið þorskastríðanna og ástæður þess að Íslendingar höfðu betur í þeim öllum. Þetta breytir því ekki að frásagnirnar eru prýðileg heimild um átökin á Íslandsmiðum eins og þau eru í minningu söguhetjanna. Frásagnir þeirra Breta, sem fram koma í þáttunum, lýsa því einnig vel um hvað þorskastríðin snerust frá þeirra bæjardyrum séð.

"Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?" (2004)

Þessa grein má finna í Ritinu árið 2004 en ég leyfi mér að birta hana hér líka, þ.e. word-skjalið sem ég sendi til birtingar (og má vera að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á seinni stigum).

Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?

Inngangur

Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið rætt um pólitískt hlutverk forseta Íslands. Sjónarmið fyrri forseta hafa verið rifjuð upp og þá meðal annars sú ákvörðun Kristjáns Eldjárns að veita Lúðvík Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, umboð til stjórnarmyndunar sumarið 1978, eftir að tveimur öðrum stjórnmálaleiðtogum hafði mistekist að mynda ríkisstjórn. Í dagbókum Kristjáns og minnisblöðum kemur fram að Baldur Möller og Jóhannes Nordal, nánustu ráðgjafar hans, viðurkenndu að hann ætti engra annarra kosta völ en að snúa sér til Lúðvíks. Tók Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, einnig undir það að sögn forsetans.[1]

Á sínum tíma gagnrýndi Morgunblaðið þó ráðstöfun Kristjáns harðlega.[2] Blaðið varði þá afstöðu sína líka í sumar þegar sá, sem þetta skrifar, rifjaði upp stjórnarmyndunarviðræður Lúðvíks Jósepssonar og benti á þann stuðning sem Kristján Eldjárn hafði við ákvörðun sína. Í forystugrein Morgunblaðsins sagði að Alþýðubandalagið hefði verið arftaki Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins og báðir flokkar hefðu verið á móti grundvallaratriðum íslenskrar utanríkis- og öryggismálastefnu, og notið til þess beins og óbeins stuðnings frá Sovétríkjunum. Af þeim sökum hefði skoðun Morgunblaðsins verið rétt og ákvörðun Kristjáns röng: „Lúðvík Jósepsson sem formaður Alþýðubandalagsins gat ekki notið trausts mikils meirihluta þjóðarinnar til þess að mynda ríkisstjórn á Íslandi á þeim tíma, sem hann fékk umboð til þess.”[3]

Hér er ekki ætlunin að rekja til hlítar rök með og móti ákvörðun Kristjáns. Það bíður betri tíma.[4] En Morgunblaðið sagði áfram: „Það getur verið erfitt fyrir unga sagnfræðinga nútímans að setja sig inn í andrúm kalda stríðsins. Það verða þeir þó að gera til þess að geta lagt hlutlægt mat á mál eins og þetta.”[5] Morgunblaðið tók þetta „föðurlega fram,” benti Egill Helgason blaðamaður á.[6] Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, komst einnig svo að orði, með vísan til þessarar forystugreinar: „Mér hefur alltaf fundist nokkuð sjarmerandi hvernig Styrmir [Gunnarsson ritstjóri] lítur á sig sem yfirdómara yfir forsetaembættinu.”[7]

Ábending Morgunblaðsins, „föðurleg” og „sjarmerandi”, gefur tilefni til frekari vangaveltna. Hún er í sjálfu sér skiljanleg, vel meint og ekkert nýmæli. Þeir, sem tóku þátt í átökum liðinnar tíðar, hafa gjarnan aðra skoðun á þeim heldur en þeir sem á eftir koma og voru hvergi nærri. Jafnvel mætti halda því fram að annað væri undarlegt.

Fangar fjarverunnar?

Fyrir rúmum 20 árum komu ýmsir virtustu sérfræðingar Vesturlanda í sögu kalda stríðsins saman og ræddu um upphaf þess.  Einn þeirra, Lawrence Kaplan, skar sig úr að því leyti að hann hafði barist í seinni heimsstyrjöldinni. Hann sagði:

Ég finn hjá mér þörf til þess að halda fram óskynsamlegri skoðun sem ég veit að ég ætti að vera gagnrýndur fyrir; sem sagt, hvernig geta menn í þessum hópi  (og í þeim eru auðvitað færustu fræðimenn í faginu í dag) í raun og veru áttað sig á aðdraganda kalda stríðsins nema þeir séu nógu gamlir til að hafa upplifað seinni heimsstyrjöldina og fyrstu árin eftir hana. ... Þetta er þessi fáránlega skoðun að ef þú varst ekki með mér á Filippseyjum að fagna því að Sovétríkin höfðu lýst yfir stríði á hendur Japönum sumarið 1945, eða þú hafir ekki bundið vonir við það – eins og öll mín kynslóð – að heimurinn og Bandaríkin myndu breytast með hinum nýju samtökum [Sameinuðu þjóðunum], þá getirðu ekki skilið hvernig kalda stríðið hófst.[8]

Kaplan bætti svo við að kannski ættu sagnfræðingar þess vegna aðeins að láta aðra um að skrifa sögu nýliðinnar tíðar, til dæmis stjórnmálafræðinga og blaðamenn, „sem láta sig litlu varða heimildir og hlutlægni. Sagnfræðingar ættu að einbeita sér að þeirri fortíð þar sem skrifleg gögn eru fyrir hendi og tilfinningahiti hefur kulnað.”[9]Þetta var bæði sagt í gamni og alvöru en aðrir hafa tekið í sama streng. Lester Pearson, kanadíski stjórnmálamaðurinn sem lét mikið til sín taka á alþjóðavettvangi, hafðilítið álit á fræðimönnum sem gagnrýndu vestræna valdhafa við upphaf kalda stríðsins. Hann fullyrti að slíkir endurskoðunarsinnar gætu ekki skilið þá sem tóku örlagaríkar ákvarðanir á þeim tíma af því að gætu ekki sett sig í spor þeirra.[10] Þeir væru með öðrum orðum fangar eigin fjarveru.

Fleiri dæmi mætti nefna. Á síðustu árum hafa ungir sagnfræðingar séð ævi og afrek Winstons Churchills í nýju ljósi. Eldri mönnum hefur þá jafnvel þótt sem rýrð væri varpað á arfleifð hans, og hvað vissu þessir stráklingar svo sem um Churchill? Sir Robert Rhodes James, sem skrifaði mikið um þann mikla leiðtoga, sagði til dæmis að stóran hluta þessarar endurskoðunarsagnfræði mætti rekja til „ungra manna með frekar takmarkaðan sjóndeildarhring og enga reynslu af stjórnmálum. Þar að auki hefur enginn þeirra séð Churchill í lifanda lífi, hvað þá hitt hann.”[11]

Sömu sögu er að segja af nýlegum rannsóknum á andspyrnuhreyfingunni í Danmörku. Ekki er skrifað jafnmikið um neitt annað tímabil í danskri sögu og ungir sagnfræðingar telja flestir að of mikið hafi verið gert úr baráttu Dana við hernámslið Þjóðverja.[12] Segja má að þessi endurskoðun hafi hafist fyrir alllöngu, árið 1971, þegar Aage Trommer komst að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni um skemmdarverk á járnbrautarteinum á stríðsárunum að þau hefðu litlu sem engu breytt um stríðsrekstur Þjóðverja. Um þúsund manns voru við doktorsvörn Trommers, þar á meðal margir sem börðust gegn Þjóðverjum og var þeim heitt í hamsi. Einn þeirra skrifaði síðar:

Jafn lærður og hann er ætti hann að beina sínum kalda hug að einhverju öðru. Hann var að minnsta kosti ekki með þessar myrku nætur, sá ekki járnbrautarlestir sem hvergi komust eða stritið sem þurfti til að bæta skaðann. Svo maður tali nú ekki um sorgina vegna þeirra félaga sem féllu.[13]

Að lokum má nefna að þessarar tilhneigingar til að halda því fram að þeir þekki ekki jafn vel söguna, sem reyndu hana ekki á sjálfum sér, hefur einnig gætt á Íslandi. „Sagan er mikilvæg, svo mikilvæg að sagnfræðingarnir, þótt góðir séu, mega ekki vera einir um hituna,” sagði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í erindi um stjórnmálasögu síðustu áratuga.[14] Flokksbróðir hans Björn Bjarnason hefur einnig sagt um sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna: „Efniviðurinn er ekki árennilegur fyrir þá sem koma að honum með litla reynslu aðra en felst í fræðilegri þjálfun”[15] Fróðlegt verður að sjá hvernig því verður tekið þegar ungir sagnfræðingar á Íslandi fara að skrifa bækur um þorskastríðin.

Fangar fortíðarinnar?

Og vita þeir endilega betur sem voru á staðnum? Færa má gild rök fyrir því að svo sé alls ekki. Þvert á móti má vel vera að mönnum sé illmögulegt að átta sig á gangi sögunnar ef menn voru í hita leiksins. „Við þurfum að varast þá sagnfræði,” sagði hinn franski Fernard Braudel eitt sinn, „sem er enn þrungin tilfinningum þeirra sem upplifðu atburðina. ... Hún ber með sér reiði þeirra, drauma og glámskyggni.”[16]

Þetta eru vitaskuld ekki ný sannindi og margir þeirra, sem voru í eldlínunni hverju sinni, hafa gert sér grein fyrir þessu. Framsóknarmaðurinn Bernharð Stefánsson var framarlega í sínum flokki um miðja síðustu öld og sagði í ævisögu sinni að þegar „[s]agnfræðingar framtíðarinnar” færu að skrifa sögu þess tíma ættu þeir ekki að byggja á „minningum manna sem sjálfir hafa tekið þátt í bardaganum. Af þeim er varla að vænta óhlutdrægna frásagna. ... Hinsvegar munu þó ekki slíkar minningar þýðingarlausar með öllu, þegar sagan verður skrifuð.”[17] Í endurminningum sínum sagði útgerðarmaðurinn Þórarinn Olgeirsson, sem stóð í ströngu þegar löndunarbann var sett á íslenskan fisk í Bretlandi vegna landhelgisdeilu við Íslendinga, einnig að það yrði

... hlutverk seinni tíma sagnfræðinga að vega og meta hvaða öfl hafi mistökum ráðið, hvað hafi verið hið rétta og hvað rangt í öllum þessum málum. Um það verða síðari tíma kynslóðir ef til vill dómbærari en þeir nútímamenn, sem í eldinum stóðu og línurnar lögðu að lausn vandasamra viðfangsefna.[18]

Loks má geta þess um stjórnarmyndunarumboð Lúðvíks Jósepssonar og gagnrýni Morgunblaðsins, uppsprettu þessarar greinar, að Matthías Johannessen ritstjóri viðurkenndi þegar fram liðu stundir að blaðið hefði gengið of langt í aðfinnslum sínum við Kristján Eldjárn: „Ég get vel fallist á að leiðarinn um forsetann hafi verið óþarflega ögrandi af okkar hendi og ástæðulaus áminning í krossferðinni gegn þessum alþjóðlega kommúnisma, sem við erum sýknt og heilagt að lumbra á.”[19] Bretinn Selwyn Lloyd, sem reis til áhrifa skömmu eftir seinni heimsstyrjöld, skrifaði eitt sinn um þann kost við að eldast að þá geti menn skrifað með „meiri stillingu” um liðna tíð og séð báðar hliðar á hverju máli.[20] Það sýndi Matthías Johannessen í verki í sambandi við hina „óþarflega ögrandi” ádeilu á Kristján Eldjárn.

Sama gildir auðvitað um þá þætti í sögu annarra þjóða sem hér hefur verið minnst á. Sir Robert Rhodes viðurkenndi fúslega að skoðanir hans og annarra, sem kynntust Churchill persónulega, hlytu að draga dám af því „óafmáanlega þakklæti og virðingu” sem þeir hefðu sýnt honum. „Einmitt!” hefðu hinir ungu sagnfræðingar eflaust hrópað ef Sir Robert Rhodes hefði haldið þessu fram í þeirra hljóði.[21] Og hinir kappsömu ungu sagnfræðingar hafa alls ekki það eitt að markmiði að gagnrýna allt og alla. Þannig hafa margir þeirra skilning á friðþægingarstefnu Neville Chamberlains, forsætisráðherra Breta, gagnvart Hitler árin fyrir seinni heimsstyrjöld, enda eru þeir ekki „fangar minninganna frá 1938-40”, eins og sagt hefur verið.[22]

Á sama hátt er það alls ekki kappsmál ungra danskra sagnfræðinga að gera lítið úr þeim sem lögðu líf sitt að veði í baráttunni við nasista í seinni heimsstyrjöld. En þeir vilja samt reyna að hafa það sem sannara reynist. Þeir benda til dæmis á að í könnun frá 1948 sagðist nær fimmti hver fullorðinn Dani hafa verið í andspyrnuhreyfingunni þótta alkunna hafi verið að í raun voru þeir miklu færri. Sagnfræðingarnir vilja með öðrum orðum andmæla þeirri goðsögn sem segir að „Jensen og Olsen hafi ætt út á strætin með vopn í hendi strax [hernámsdaginn] 10. apríl [1940]!”[23]

Oft er það því svo að söguhetjur geta sagt sína eigin sögu betur en aðrir. En þær eru jafnvel verr settar en þeir, sem á eftir koma, til þess að sjá rás viðburðanna frá mörgum sjónarhornum og setja hana í samhengi. Bein reynsla þeirra verður þeim þá trafala og hið fornkveðna gildir gjarnan að enginn er góður dómari í eigin sök. „Minni okkar flestra er ósjálfrátt hallandi okkur til heilla,” sagði Davíð Oddsson í erindi sínu.[24] „Þegar stjórnmálamenn horfa um öxl,” sagði Matthías Johannessen sömuleiðis, „hættir þeim til að segja söguna eins og þeir vilja, að hún hafi verið, en ekki eins og hún var. Asklok verður himinn.”[25]

Fangar samtímans?

Að sjálfsögðu er ekki þar með sagt að ungir sagnfræðingar samtímans geti tekið sér sæti ofar þeim sem á undan fóru, og sjái þar yfir allt sjónarsviðið. Sagnfræðingar eru jafn mikið börn síns tíma og aðrir. Þeir geta alls ekki sett sig á háan hest, haldið því fram að þeir, sem tóku beinan þátt í sögulegum atburðum, þekki ekki allar kringumstæður og viti ekki nóg því þeir hafi ekki stundað rannsóknir árum saman í skjalasöfnum og háskólum.

Auk þess má vera að ungum sagnfræðingum hætti til að vera of djarfir í túlkunum sínum og ályktunum því þeir telji sig þurfa að gera eitthvað „nýtt” í fræðunum. „Bestu sagnfræðingarnir og ævisöguritarnir eru í raun líkastir bardagamönnum,” var skrifað í Bretlandi fyrir skemmstu, „því þeir einbeita sér að því að slátra þeim dreka sem kallast „Viðtekin skoðun”.”[26] Aðrir hafa einnig rætt um þann „vanda” sagnfræðinga að vita „hvað gerist næst,” ólíkt þeim sem voru á vettvangi og vissu ekki hvað morgundagurinn bæri í skauti sér.[27] Sú hætta er því alltaf fyrir hendi að ungir sagnfræðingar gangi of langt í ályktunargleði sinni og viðurkenni ekki nægilega vel við hvaða kringumstæður söguhetjur tóku ákvarðanir sínar. Hans Kirchhoff, sem hefur manna mest rannsakað sögu andspyrnunnar í Danmörku, hefur til dæmis varað við því að í stað gömlu goðsagnarinnar um hetjuskap heillar þjóðar verði Danir gerðir að sjálfselskum gungum sem nutu lífsins á meðan veröldin í kringum þá lék á reiðiskjálfi.[28] Einnig hefur verið sagt um ævi áhrifamikilla manna að það sé ekki fyrr en með þriðju kynslóð að „jafnvægi” náist; „ævistarf þeirra sé þá metið af hlutlægni, án þeirrar andúðar eða dýrkunar sem einkenndi viðhorf fyrri kynslóða.”[29]

En sagnfræðingar ættu þó alls ekki að gera of lítið úr eigin getu til að segja satt frá liðinni tíð. Fyrir nokkrum árum hélt Morgunblaðið því fram að frásagnir og rannsóknir á fortíðinni væru ekkert annað en ófullkomin endursögn samtímamanna:

Sagnfræðingar sem og aðrir sem leggja stund á húmanísk fræði eru að átta sig á því að fátt verður sagt með fullri vissu um liðinn tíma, ekki einu sinni með fulltingi tölfræðilegra gagna; hver ný túlkun er einungis innlegg í samræðu sem hefur sannleikann að yfirskini en snýst í raun aðeins um sjálfa sig.[30]

Ef eitthvað er hafið yfir allan vafa í sagnfræði þá er það vissulega sú staðreynd að menn geta ekki búið til óumdeilanlega og hlutlæga úttekt á fortíðinni. En það breytir því ekki að sagnfræðingar ættu að reyna að stefna að því að segja eins satt og rétt frá staðreyndum og skoðunum og þeir geta; safna til þess eins mörgum heimildum og unnt er, leggja mat á þær og reyna að skilja hvernig menn hugsuðu á þeim tíma sem verið er að rannsaka. Slík fræðimennska snýst ekki „í raun aðeins um sjálfa sig” og kemst nær því að útskýra hvað gerðist heldur en minningar einstakra manna sem voru á vettvangi. Sjónarmið slíkra söguhetja getur verið fróðlegt en alls ekki nær sannleikanum á grundvelli þess að þær hafi verið á vettvangi og viti betur. Það getur til dæmis verið erfitt fyrir þá, sem voru í eldlínunni á sínum tíma, að losna úr andrúmi kalda stríðsins. Það verða þeir þó að gera til þess að geta lagt hlutlægt mat á málin.[1]Guðni Th. Jóhannesson, „„Að gera ekki illt verra.” Hugmyndir Kristjáns Eldjárns um pólitískt hlutverk forseta Íslands.” Erindi á málþingi Sagnfræðingafélags Íslands og Félags stjórnmálafræðinga, „Forsetinn og stjórnmálin að fornu og nýju,” ReykjavíkurAkademíunni, 9. júní 2004. Sjá einnig Morgunblaðið, 12. júní 2004.

[2]Morgunblaðið, 16. og 17. ágúst 1978 (forystugreinar).

[3]Morgunblaðið, 13. júní 2004 (forystugrein).

[4]Sjá væntanlegt rit höfundar um stjórnarmyndanir og stjórnarslit í forsetatíð Kristjáns Eldjárns.

[5]Morgunblaðið, 13. júní 2004 (forystugrein).

[6]Egill Helgason, „Geimverur og einsetukarlar,” 14. júní 2004. http://www.strik.is/frettir/pistlar_egils.ehtm?id=1744, skoðað 17. júní 2004.

[7]Fréttablaðið, 19. júní 2004.

[8]Umfjöllun Lawrence Kaplans um John Lewis Gaddis, „The Emerging Post-Revisionist Synthesis on the Origins of the Cold War”, Diplomatic History, 7. árg., nr. 3, 1983, bls. 194.

[9]Sama heimild, bls. 195.

[10]Peyton V. Lyon og Bruce Thordarson, „Professor Pearson: A Sketch.” Michael G. Fry (ritstj.), „Freedom and Change”. Essays in Honour of Lester B. Pearson (Toronto: McClelland and Stewart, 1975), bls. 4.

[11]Sjá Graham Stewart, „Churchill without the rhetoric,” The Historical Journal, 43. árg., nr. 1, 2000, bls. 306.

[12]Sjá t.d. Claus Bryld og Anette Warring, Besættelsestiden som kollektiv erindring. Historie- og traditionsforvaltning af krig og besættelse 1945-1997 (Frederiksberg: Roskilde Universitetsforlag, 1998), Hans Kirchhoff, Samarbejde og modstand under besættelsen. En politisk historie (Óðinsvé: Odense Universitetsforlag, 2001), Claus Bryld, Kampen om historien. Brug og misbrug af historien siden Murens fald (Frederiksberg: Roskilde Universitetsforlag, 2001), bls. 220-223, Henrik Lundbak, Staten stærk og folket frit. Dansk Samling mellem fascisme og modstandskamp 1936-47 (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, 2001), og John T. Lauridsen, Samarbejde og modstand. Danmark under den tyske besættelse 1940-45. En bibliografi (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, 2002), bls. 15-21.

[13]Sjá Lauridsen, Samarbejde og modstand, bls. 23.

[14]Davíð Oddsson, „Hvað er stjórnmálasaga?” Erindi í samnefndri fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands 31. október 2000. http://www.hi.is/~mattsam/Kistan/k00/davidodds.htm, skoðað 8. nóvember 2000.

[15]Björn Bjarnason, „Forsendur sigra í landhelgismálinu”, Morgunblaðið, 3. desember 1999. Sjá einnig Guðna Th. Jóhannesson, „Tíu spurningar. Hugleiðingar um þorskastríðin.” 2. íslenska söguþingið. Ráðstefnurit II (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag, 2002), bls. 439-441.

[16]Sjá Roberto Franzosi, „A Sociologist Meets History. Critical Reflections upon Practice,” Journal of Historical Sociology, 9. árg., nr. 3, 1996, bls. 385.

[17]Bernharð Stefánsson, Endurminningar, ritaðar af honum sjálfum II (Akureyri: Kvöldvökuútgáfan, 1964), bls. 6.

[18]Sveinn Sigurðsson, Sókn á sæ og storð. Æviminningar Þórarins Olgeirssonar skipstjóra (Reykjavík: Bókastöð Eimreiðarinnar, 1960), bls. 260.

[19]Matthías Johannessen, „Bréf til Herdísar. Valdir kaflar úr bréfum.,” Heimsmynd, 1. árg., 6. tbl., 1986, bls. 54.

[20]Selwyn Lloyd, Suez 1956. A Personal Account (London: Book Club Associates, 1978), bls. 262.

[21]Stewart, „Churchill without the rhetoric,” bls. 306.

[22]John Ramsden, „Ending in Failure” (ritdómur um David Dutton, Neville Chamberlain, og Robert Self (ritstj.), The Neville Chamberlain Diary Letters), Times Literary Supplement, 17. ágúst 2001, bls. 25.

[23]Sjá Lauridsen, Samarbejde og modstand, bls. 19-21.

[24]Davíð Oddsson, „Hvað er stjórnmálasaga?”

[25]Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf II (1981). Reykjavík: Almenna bókafélagið, bls. 374.

[26]Ian McIntyre, „Dragon-slayers lay to rest some monstrous historical tales,” Times, 7. desember 2002.

[27]Sjá t.d. Dean Acheson, Present at the Creation. My Years in the State Department (New York: Norton, 1969), bls. xvii.

[28]Kirchhoff, Samarbejde og modstand, bls. 342.

[29]Gunnar Stefánsson, „Frá ritstjóra,” Andvari, nýr flokkur XLIV, 127. árg., 2002, bls. 5.

[30]Morgunblaðið, 6. júní 1998 (forystugrein).

"Leikstjóri, leikari eða áhorfandi? Forsetinn og stjórnarmyndanir" (2006)

„Leikstjóri, leikari eða áhorfandi? Forsetinn og stjórnarmyndanir“, Stjórnmál og stjórnsýsla – veftímarit, 1. tbl. 2. árg. (maí 2006).

Í greininni er rakin afstaða forsetanna fimm við stjórnarmyndanir, eitt mikilvægasta og í raun eina pólitíska hlutverk þeirra lengi vel. Að ýmsu leyti kallast hún á við Völundarhús valdsins.

Syndicate content


Drupal vefsíða: Emstrur