Skip to Content

"Þorskastríðin: Barátta við erlenda fjandmenn og innlendar goðsagnir" (2008)

„Þorskastríðin: Barátta við erlenda fjandmenn og innlendar goðsagnir“. Skírnir, 182. árg. nr. 2, 2008, 456-471.

Í þessari grein er tekist á við þær goðsagnir um þorskastríðin og landhelgismál sem myndast hafa hér á Íslandi, einkum misskilninginn um órofa einhug þjóðarinnar í smáu sem stóru og ýkjur um áhrif Íslendinga á þróun hafréttar í heiminum. Veit ég fyrir víst að mörgum sem muna söguna öðruvísi þykir lítið til koma. Hér eru lokaorð greinarinnar:

Heildarniðurstaða þessarar stuttu úttektar á goðsögnum þorskastríðanna er sú að endurskoða þurfi sögu þessara átaka, rétt eins og saga sjálfstæðisbaráttunnar og sögualdarinnar (svo nærtæk dæmi séu tekin) hefur verið endurskoðuð, gagnrýnd og afbyggð.

Endurskoðunin er reyndar þegar hafin[1] en betur má ef duga skal. Vandinn er sá að meirihluti þjóðarinnar og opinberra málsvara hennar kýs líklega gömlu goðsagnirnar frekar en nýjar niðurstöður fræðimanna, hversu sannfærandi sem þær kunna að vera í huga þeirra sjálfra. Þetta kom ágætlega í ljós fyrri hluta árs 2008 þegar nefnd, sem forsætisráðuneytið skipaði „til að gera tillögur um hvernig megi styrkja ímynd Íslands“, kynnti skýrslu sína, „Ímynd Íslands. Styrkur, staða og stefna.“[2] Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands gagnrýndi skýrsluna og sagði hana m.a. mótast af „söguskoðun sem er á skjön við sagnfræðirannsóknir síðustu 30-35 ára“. Auk þess væri hún frekar í ætt við „þá söguskoðun sem mótuð var í sjálfstæðisbaráttunni í pólitískum tilgangi“.[3]

„Ímyndarnefndin“ svokallaða benti aftur á móti á að hún hefði aðeins endurspeglað viðhorf um sögu Íslands sem fram komu í rýnihópum og hringborðsumræðum.[4] Væru þau viðhorf úrelt væri því frekar við fólkið í landinu að sakast en nefndina. Aðrir hafa líka minnst á þá tilhneigingu Íslendinga að færa útlendingum goðsagnir frekar en raunsærri sannindi: „[A]lþýðleg sögusýn [er] í andstöðu við iðkun fræða sem alltaf ganga út frá spurningu og efasemd og kerfisbundinni leit að nýju svari,“ segir Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir sagnfræðingur til dæmis í úttekt á viðhorfi almennings og stjórnvalda til hins íslenska „menningararfs“.[5] Og þess vegna hljómar saga hinnar einhuga þjóðar, sem átti í höggi við ofbeldisfulla óvini en hafði heilagan rétt sín megin og mótaði alþjóða hafrétt, örugglega betur í eyrum Íslendinga heldur en sannari frásagnir af tiltölulega litlum áhrifum, innbyrðis deilum, vægum andstæðingi, óljósri réttarstöðu og stöðugri tvöfeldni í fiskverndarmálum.

Hvað er þá til ráða? Goðsagnir verða helst gagnrýndar og eyðilagðar með sannfærandi rökum og rannsóknum (þótt stundum þurfi reyndar ekki annað en opna augun eins og drengirnir í ævintýrinu um nýju fötin keisarans). En þetta er þolinmæðisverk; þeir sem leggja til atlögu við goðsagnir sögunnar ættu ekki að búast við því að almenningur og ráðamenn meðtaki möglunarlaust hinn nýja sannleik um flóknari fortíð. Þar að auki stoðar lítt að stunda aðeins fræðarannsóknir og sinna engu um miðlun þeirra. Sagnfræðingar ættu ekki að fussa og sveia yfir þeirri tilhneigingu stjórnvalda að minnast liðinna leiðtoga og merkisatburða heldur taka þátt í leiknum og koma þannig sínum sjónarmiðum að. Þó menn friði kannski eigin samvisku og þóknist fræðasamfélaginu með því að skrifa fyrir sjálfan sig og þann þrönga hóp dugar það skammt, standi viljinn til þess að hafa virkilega áhrif á söguskoðun almennings í landinu.


[1]Sjá t.d. Guðmundur J. Guðmundsson, Síðasta þorskastríðið, Guðmundur Hörður Guðmundsson, „Fiskverndarrök Íslendinga í landhelgisdeilunum“ og rit greinarhöfundar um þorskastríðin og landhelgismál: Sympathy and Self-Interest; Þorskastríðin þrjú. Saga landhelgismálsins 1948-1976 (Reykjavík, 2006) og Troubled Waters. Cod War, Fishing Disputes and Britain’s Fight for the Freedom of the High Seas, 1948-1964 (Reykjavík, 2007).

[2]Skýrslan er á vef forsætisráðuneytis, [http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/Forsaetisr_arsskyrsla_END2.pdf].

[3]„Ímynd Íslands – bréf til forsætisráðherra“. Frétt á vef Sagnfræðingafélags Íslands, 12. júní 2008, [http://www.sagnfraedingafelag.net/2008/06/12/11.34.26/].

[4]„Sjálfsmynd Íslands úrelt?“, mbl.is, 16. júní 2008, [http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/06/16/sjalfsmynd_islands_urelt/].

[5]Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, „Menningararfur með strípur: Varðveisla eða miðlun?“ Ritið 1/8 (2008), bls. 7-32, hér bls. 9. Sjá einnig Valdimar Tr. Hafstein, „Menningararfur. Sagan í neytendaumbúðum.“ Í Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon (ritstj.), Frá endurskoðun til upplausnar (Reykjavík, 2006), bls. 313-328, og Guðbrandur Benediktson og Guðni Th. Jóhannesson (ritstj.), Hvað er sagnfræði? Rannsóknir og miðlun (Reykjavík, 2008).Drupal vefsíða: Emstrur