Skip to Content

Búsáhaldabylting? Hvaða búsáhaldabylting? (2010)

Búsáhaldabylting? Hvaða búsáhaldabylting?

Erindi á ráðstefnu Háskólans á Bifröst, "Hverju hefur búsáhaldabyltingin skilað?" Iðnó, 12. febr. 2010. Hlusta má á það og horfa hér. Að neðan er erindið skriflegt.

Um miðja síðustu öld var kínverski kommúnistinn Sjá en Læ eitt sinn spurður að því hvaða áhrif franska byltingin árið 1789 hefði haft á gang sögunnar. Hann hugsaði sig um í örlitla stund en sagði svo: „Það er allt of snemmt að segja til um það.“ Og við erum saman komin hér í dag til að fjalla um áhrif atburðarásar sem náði hámarki fyrir rúmu ári. Er það ekki dálítið djarft? Hvernig hefði einhverjum til dæmis gengið að meta áhrif frönsku byltingarinnar árið 1790? Og ætli það hafi ekki verið eitthvað annað að meta mikilvægi febrúarbyltingarinnar í Rússlandi sumarið 1917 eða sumarið 1918? Erum við ekki of nálægt atburðum síðasta vetrar í tíma til þess að geta vegið þá og metið af einhverju viti, ekki síst þegar talið snýst um langtímaáhrif þeirra?

Þetta er ein meginspurningin sem ég ætla að takast á við hér í dag. Aðrar spurningar sem ég mun nefna eru þessar: Hvað var þessi búsáhaldabylting eiginlega? Hvernig skilgreinum við fyrirbærið? Er það hægt? Og skipti þessi svokallaða bylting sköpum um rás viðburðanna á sínum tíma? Hver voru annars markmið hennar? Var einhugur um þau? Náðust þau? Svo lokast hringurinn einmitt með hugleiðingum um það hvort það sé yfirleitt hægt að svara þeirri lokaspurningu, hvort markmiðin hafi náðst.

Leggjumst fyrst í dálitla orðsifjafræði og skilgreiningu. Eftir því sem ég kemst næst heyrðist orðið búsáhaldabylting fyrst á opinberum vettvangi miðvikudaginn 21. janúar 2009, degi eftir mótmælin miklu við setningu Alþingis. Orðið er það óvenjulegt að mig langar næstum því til að slá því föstu að enginn hafi nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni tekið sér það í munn. Á hinn bóginn voru keimlík orð komin á kreik aðeins fyrr. Í lok október 2008 notaði Jón Ólafsson hugtakið „flísbyltingu“, kannski fyrstur manna, til að lýsa þeim þjóðfélagsbreytingum sem almenningur þyrfti líklega að berja í gegn á Íslandi því stjórnmálamennirnir væru þess ekki megnugir.[1] Næstu vikur og mánuði heyrðist þetta orð öðru hvoru, og eftir hasarinn við þinghúsið 20. janúar skrifaði einn bloggarinn og fleiri tóku undir: „Flísbyltingin er hafin“.[2] Einhverjum fannst það ekki nógu gott, eða íslenskt, svo stungið var upp á orðinu „lopabylting“ í staðinn. En því var hafnað á netinu: „Hún er þegar fyrir löngu búin að fá nafnið flísbyltingin. Fullseint að breyta því núna,“ kommentaði einn bloggarinn og þar við sat.

Daginn eftir kom hins vegar annað hljóð í strokkinn. Jón Ólafsson skrifaði að vísu aftur um „flísbyltinguna“ – grein hans með því heiti birtist á netinu klukkan 20:21 - en laust fyrir frægan fund Samfylkingarinnar í Þjóðleikhúskjallaranum þetta sama kvöld heyrðist nýtt byltingarorð, „búsáhaldabylting“. Athugunum mínum í þessum efnum er ekki að fullu lokið en eins og staðan er núna er rannsóknarkenningin sú að orðið hafi fyrst komið fyrir í samræðum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur við annan Samfylkingarfélaga á leið á fundinn. Nákvæm tímasetning liggur þó ekki fyrir eins og sakir standa.

Þarna urðu kaflaskil. Á Wikipediu hafði verið samin grein um „flísbyltinguna“ en nú þótti hún úrelt. „Menn eru alveg hættir að kalla þetta flísbyltingu,“ sagði einn á spjallhluta síðunnar 25. janúar, „Nú tala allir um búsáhaldabyltinguna.“[3] Ekki varð aftur snúið og orðið búsáhaldabylting festist í sessi sem heiti og lýsing á hinum sögulegu atburðum fyrir rúmu ári: „mótmæli gegn sitjandi ríkisstjórn í janúar 2009 þar sem fólk sló takt með pottum, pönnum og sleifum“, eins orðið er skýrt í slangurorðabókinni nýju. Orðið nær þannig yfir mótmælin sem urðu í miðbæ Reykjavíkur frá þriðjudeginum 20. janúar 2009, þegar Alþingi var sett og átök hófust við þinghúsið, til mánudagsins 26. janúar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar baðst lausnar.

Hins vegar má vera að þessi tímarammi sé fullþröngur. Mótmæli gegn valdhöfum hófust strax í október 2008 og þeim lauk ekki að fullu í janúar næsta ár. Þannig mætti segja að búsáhaldabyltingin hin stærri nái allt frá hruni bankanna til þess að ný ríkisstjórn tók við völdum í febrúar 2009, skipti um yfirstjórn Seðlabanka og boðaði til kosninga. Í þeim mánuði var einnig tilkynnt um framboð nýs stjórnmálaafls, Borgarahreyfingarinnar, í væntanlegum þingkosningum og á þeim tíma gátu það jafnvel talist merk tímamót; endalok búsáhaldabyltingar en upphaf Nýs Íslands.

Tímarammann má þannig hafa víðan eða þröngan þótt janúarmótmælin hljóti að vera í brennidepli. En er orðið sjálft heppilegt? Ég ætla ekki að dvelja mikið lengur við orðsifjafræðina en þeir voru auðvitað til sem fannst orðið búsáhaldabylting óþjált og ljótt, og stungu í staðinn upp á pottabyltingu eða amboðabyltingu, án árangurs. Hitt er veigameira rannsóknarefni hvort orðið sé misvísandi, gefi röng skilaboð um inntak og eðli þess sem það á að  lýsa. Búsáhöld, já, en bylting, liggur það eins mikið í augum uppi?

 Til samanburðar má nefna þorskastríðin. Þau voru ekki stríð í hefðbundnum skilningi, ekki eins og Víetnamstríðið eða Falklandseyjastríðið til að mynda. En það var ekki heldur „bananastríðið“ svokallaða milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna svo eit dæmi sé tekið. Ég myndi seint vilja að menn hættu að tala um þorskastríð og búsáhaldabyltingu og færu að kalla þessa atburði þorskadeilurnar og búsáhaldabarninginn eða eitthvað í þeim dúr. Orðið búsáhaldabylting er grípandi og fangar ágætlega þann hita sem var í mörgum. En fólk þarf samt að hafa í huga að þrátt fyrir heitin voru ekki háð stríð með skotárásum og miklu mannfalli á Íslandsmiðum og það varð ekki gagnger bylting í Reykjavík í byrjun síðasta árs, með nýju stjórnarfari og algerum umskiptum í samfélaginu.

Merkir atburðir áttu sér þó vissulega stað; útifundir á Austurvelli undir forystu Harðar Torfasonar frá því í október, borgarafundir í Iðnó og víðar. Kannanir sýndu að meirihluti landsmanna studdi þessar samkomur og það sem þar fór fram. Flestir sem mættu á þær voru „venjulegt fólk“ ef svo má að orði komast, hinn almenni Íslendingur sem var kannski lentur í miklum vandræðum út af myntkörfuláni, atvinnumissi eða öðru sem fylgdi efnahagshruninu, og langþreyttur á aðgerðaleysi stjórnvalda að því er virtist. En svo komust róttækari mótmælendur líka á kreik, ekki margir en því öflugri hver um sig; umhverfissinnar og andkapítalistar, anarkistar og aðrir sem höfðu reynslu af borgaralegri óhlýðni og aktívisma, einkum í sambandi við stóriðjumótmæli. Þessi öfl réðu miklu um það að stundum var gengið lengra en hinum almenna Íslendingi þótti í lagi, til dæmis með atlögu að lögreglustöðinni í nóvember 2008, Seðlabankanum á fullveldisdaginn og Hótel Borg á gamlársdag, að ekki sé minnst á ofbeldisverk svartra sauða í janúar 2009.

Atburðir af því tagi hefðu þótt nær óhugsandi aðeins einu ári fyrr eða svo. Þeir voru að því leyti byltingarkenndir og það voru mótmælafundirnir líka. En þá erum við einkum að miða við fyrri tíma á Íslandi, ekki alþjóðlegt samhengi. Ítalskir róttæklingar sem komu á laugardagsfund á Austurvelli höfðu til dæmis á orði að þetta væru ekki mótmæli, heldur málfundur. Íslendingar sem höfðu búið í Berlín mundu eftir árlegum bílabrennum í borginni á 1. maí.

Svo komu þó átökin í janúar í fyrra, eldur og átök við Alþingi og Stjórnarráðið, afsögn ríkisstjórnarinnar. Það voru einstæðir dagar hvernig sem á það er litið. Að vísu var líka barist á Austurvelli í mars 1949 þegar tekist var á um aðild Íslands að NATÓ, og víða í Evrópu hafa enn harkalegri átök orðið á síðustu árum, t.d. í Grikklandi eða við Ungdómshúsið í Kaupmannahöfn, og reglubundinn hasar í tengslum við G-8 fundina og aðrar alþjóðasamkomur. Það sem var hins vegar nær einstakt á Íslandi var það að eldar loguðu í seilingarfjarlægð frá þinghúsinu og aðsetur ríkisstjórnar lá um skeið undir stöðugu grjótkasti. Það var líka nær einstakt að stjórnin fór frá völdum eftir atganginn, og er það ekki bylting?

Ekki endilega. Tökum dæmi af umræðum á vef anarkista fyrir skemmstu. Þar sagði einn: „Hvað er stjórnarbylting ef búsáhaldabyltingin sk. [svokallaða] var það ekki? Ég tek fram að hún var auðvitað ekki **Byltingin**, en er nokkuð ofsagt að kalla hana /stjórnarbyltingu/? ... Stjórnvöldin skulfu af hræðslu þegar þau sáu hvað var í uppsiglingu. Gamla ríkisstjórnin sagði ekki af sér af yfirvegaðri kænsku heldur á örvingluðu óskipulegu undanhaldi. Henni var m.ö.o. bolað frá. Þetta dugir til að kallast stjórnarbylting, en ekki bylting skv. mínum skilningi. Það er bæði stigs- og eðlismunur. Í stjórnarbyltingu er einmitt bara skipt um flokka við stjórnvölinn, en kerfið heldur sér meira og minna allt eins og það var.“

Þetta rímar svo sem vel við opinberu skilgreininguna, það er í orðabók Árna Bö: „Stjórnarbylting: bylting sem steypir einni ríkisstjórn og stofnar nýja.“ En hér vakna þó samt nokkur álitamál. Í fyrsta lagi var stjórnin í dauðateygjunum þegar búsáhaldabyltingin hófst við þinghúsið 20. janúar í fyrra. Hefði hún ekki fallið hvort eð var? Um það verður auðvitað ekkert fullyrt – rannsóknir á liðinni tíð eru ekki eins og í raunvísindum eða stærðfræði þar sem hægt er að taka eina stærð út úr jöfnunni eða eitt efni úr tilraunaglasi, setja eitthvað annað í staðinn og sjá hver útkoman verður. Hitt liggur þó fyrir að ríkisstjórnin var að molna innan frá og ég vil halda því fram að hún hefði fallið þótt henni hefði ekki verið hrint, ef svo má segja. Í búsáhaldabyltingunni fékk hún náðarhögg frekar en rothögg svo önnur líking sé líka notuð.

Við þurfum einnig að hafa í huga hvað það var sem – og nú vildi ég jafnvel segja hvað það var sem búsáhaldabyltingin vildi – en byltingar eru ekki einstaklingar með vilja. Hvað vildu forsprakkar búsáhaldabyltingarinnar? Hverjir voru þeir og voru þeir allir sammála? Og hvað vildi venjulega fólkið sem var í meirihluta á mótmælafundum frá október 2008 og fram í janúar næsta ár? Fyrst og síðast vildu allir breytingar, aðgerðir. Fullyrða má að drjúgur stuðningur hafi verið kröfurnar sem voru ítrekaðar viku eftir viku á útifundunum á Austurvelli: Burt með ríkisstjórnina, Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, og kosningar svo fljótt sem unnt er.[1]

Í febrúar í fyrra hafði öllum þessum markmiðum verið náð. Að því leyti hafði búsáhaldabyltingin heppnast og fjöldinn fagnaði sigri; skoðanakannanir í janúar sýndu að meirihluti landsmanna studdi mótmælin við Alþingi, að vísu ekki það ofbeldi sem tiltölulega fáir mótmælendur stóðu fyrir, drukknir eða allsgáðir. Hinir róttækustu þóttust þó hafa litlu að fagna og ég gríp hér aftur niður í skoðanaskipti um eðli byltingar og búsáhaldabyltingar á vef anarkista. Þar sagði einn: „Bylting er umbylting, umsnúningur á flestum sviðum samfélagsins og ef hún er ekta þá er hún einnig nokkuð langt ferli. Búsáhaldabyltingar nafngiftin er liður í blekkingu valdhafanna ... Það jaðraði við byltingarástand í örfáa daga en því ástandi var fljótlega snúið við af stjórnvöldum, meginmiðlunum og PR maskínu valdstjórnarinnar. Hin ,,nýja” stjórn gekk inn í löngu mótað og niðurnjörvað ríkisvaldið sem er aðeins örsmátt tannhjól í alheimsvélinni.“

Svo voru aðrir – ekki anarkistar eða aktívistar sem hötuðust við kerfið – heldur „venjulegra“ fólk sem fór ala með sér drauma um gagngerar breytingar á Íslandi; herhvöt gegn rótgróinni spillingu, samtryggingu og einkavinavæðingu; nýtt réttlæti, nýtt flokkakerfi, nýja stjórnarskrá, nýtt lýðveldi og nýja Ísland. Þarna vöknuðu vonir um byltingu úr grasrótinni en auðvitað er skemmst frá því að segja að þær hafa alls ekki ræst. Það eins sem kemur upp þegar maður fer á nýtt lýðveldi  eða nýja Ísland punktur is er „Æ æ þessi tengill virðist bilaður“. Og Borgarahreyfingin sem í það minnsta 7,2 prósent kjósenda bundu vonir við, reyndist líka æ æ biluð.

Fátt virðist hafa breyst til langframa á Íslandi, þrátt fyrir þann byltingarkennda anda sem ríkti fyrir rúmu ári hérna í grennd við okkur. En þá erum við aftur komin að upphafinu hér, það er aðeins ár liðið. Við getum ekki slegið neinu föstu um það hvort langtímamarkmið hafi náðst því langtíminn er ekki liðinn. Með því er ég alls ekki að segja að við eigum ekki að reyna leggja mat á það sem gerðist og greina eftir föngum; við þurfum bara að gera okkur grein fyrir þeim annmörkum sem nálægð í tíma skapar.

Að  því sögðu er það nú samt svo að ár getur líka talist langur tími í lífi þjóðar, og er ekki búsáhaldabyltingin komin á Þjóðminjasafnið? Það eitt og sér ætti að gefa til kynna að hún sé sögulegt rannsóknarefni. Að lokum vil ég því aðeins vekja máls á því hvernig hennar verður að öðru leyti minnst í sögunni. Í grófum dráttum höfum við tvo andstæða póla, hinn jákvæða og neikvæða. Jákvæða útgáfa búsáhaldabyltingarinnar er eitthvað á þessa leið, svo ég vitni í skrif á vefritinu nei: Byltingin var „nokkuð sem ekki hefur átt sér stað síðan Jörundur hundadagakonungur var og hét. Á Íslandi var einfaldlega gerð stjórnarbylting; með beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni hræddi almenningur vanhæfa ríkisstjórn frá völdum. Ég tek ofan fyrir öllum þeim sem gáfu sér tíma til að standa hnarreistir á Austurvelli svo vikum skipti. Og ekki síður þakka ég því fólki sem gekk lengra en að húka með mótmælaspjöld, til dæmis þeim sem rufu vinnufrið stjórnvalda, stöðvuðu þingsetningu og stóðu fyrir inngangi ráðherrabústaðarins. Megi aðgerðir vetrarins blása kúguðum þjóðum kjark í brjóst. En baráttunni er ekki lokið. Búsáhaldabyltingin var einungis áfangasigur, því rætur misréttisins liggja í innsta eðli flokksræðisins og markaðshagkerfisins.“

Svo er það neikvæða útgáfan, eins og hún er sögð á bloggsíðu þekkts hægrimanns: „eigum við kannski bara að muna eftir þessu sem einhverju sem var friðsælt og fallegt? Verður skrifað í sögubækurnar að „búsáhaldabyltingin“ hafi verið „sigur þjóðarinnar“ á kerfinu eða eitthvað álíka? Verður sagt frá því að „þjóðin“ hafi mætt á staðinn til að mótmæla (einhverju) þegar aðeins lítill hluti hennar hafði fyrir því að mæta? Eitthvað segir mér að þessi hópur muni gera hvað hann getur til að hafa söguna af „byltingunni“ fallega. Svona líkt og menn hafa gert Castro og Che Guevara að hetjum í seinnitíð (þó brot þeirra séu mun grófari en forsvarsmanna búsáhaldabyltingarinnar) enda hangir stór mynd af Che Guevara á skrifstofu Vinstri grænna svo dæmi sé tekið. Líklega verður lítið talað um brotnar rúður Alþingishússins, slasaða lögreglumenn, árásir á lýðræðiskjörið Alþingi, þegar reynt var að kveikja í húsinu og svo frv.“

Sum sé, þetta eru lofgjörðin og fordæmingin. Væntanlega verður hin fræðilega hlutlægni einhvers staðar mitt á milli, kannski þannig að venjulega fólkið hugsi, já þetta var circa svona, en þeir sem lofa búsáhaldabyltinguna í hástert eða fordæma hana til fjandans verði um það bil eins mikið óánægðir. Það verður þá bara að hafa það.[2] Teitur Atlason 20.1.20009, „Flísbyltingin er hafin“

[3]http://is.wikipedia.org/wiki/Spjall:Fl%C3%ADsbyltinginDrupal vefsíða: Emstrur