Skip to Content

Kafli úr bókinni

Inngangur. Bók verður til

Hugmyndin að þessari bók vaknaði árið 2003. Ég var þá búinn að vera í fimm ár við framhaldsnám í sögu í Bretlandi og var að leggja lokahönd á doktorsritgerð um landhelgisdeilur á Norður-Atlantshafi. Dag nokkurn í ársbyrjun hringdi Peter Hennessy prófessor, einn minna lærimeistara, í mig og kvaðst hafa rekist á fróðlega skýrslu á þjóðskjalasafni Breta um öryggismál á Íslandi sem leynd hefði verið létt af um áramótin. Þótt slíkt efni kæmi mínum rannsóknum ekki beinlínis við rak forvitnin mann á safnið. Þar settist ég niður og tók til við að lesa skýrsluna, „State of Security in Iceland“. Eftir stuttan lestur gerði ég mér grein fyrir því að þetta var hvalreki. Þarna var að vísu lítið að finna um landhelgismál en því meira um íslenska „leyniþjónustu“ og kerfisbundna skráningu alls kyns upplýsinga um íslenska „kommúnista“. „A detailed and efficient card index,“ sögðu Bretarnir.[1]

Aðrar heimildir um þetta efni komu einnig í leitirnar við rannsóknir í skjalasafni Dwights Eisenhower Bandaríkjaforseta. Löng skýrsla um „innra öryggi“ á Íslandi, „Analysis of Internal Security Situation in Iceland and Recommended Action“, var sérstaklega athyglisverð. Þar var fjallað um spjaldskrá yfir „kommúnista og stuðningsmenn þeirra“, eins og í bresku úttektinni, og auk þess minnst á ýmsar leiðir íslensku lögreglunnar til þess að „fylgjast með undirróðursstarfsemi“.[2]

Hér var komið efni í sérstaka rannsókn. Málið var merkilegt og lítið hafði verið skrifað um það. Árið 1986 hafði Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, þó viðurkennt í viðtali við Helgarpóstinn að frá árinu 1950 hefði embætti hans sinnt „því sem má kalla „innri öryggismál“ eða eitthvað annað“. Um það væri þó fátt meira að segja: „Af eðlilegum ástæðum get ég ekki skýrt frá því í hvaða formi þetta hefur verið í gegnum tíðina og ég get ekki heldur skýrt frá því í hvaða formi þetta er í dag.“[3] Lögreglustjóri tók svo í sama streng tæpum áratug síðar, þá í viðtali við Morgunpóstinn.[4] Enginn krafðist þó frekari upplýsinga og áfram var þögnin um „innra öryggi“ ríkisins í kalda stríðinu nær órofa. Árið 1996 leiddi opinber rannsókn í Noregi í ljós að norska leyniþjónustan og Verkamannaflokkurinn njósnuðu um langt árabil um kommúnista og önnur róttæk öfl í landinu.[5] Þessar uppljóstranir ollu miklu uppnámi ytra en hér á Íslandi virtist lítt eftir þeim tekið.[6] Sömu sögu var að segja árið 1998 þegar vitnaðist um svipaðar aðgerðir dönsku leynilögreglunnar.[7] Sinnuleysið virtist til marks um það mat manna á Íslandi að „svona gerðist ekki hér“.

Erlendu skýrslurnar gáfu annað til kynna. Sumarið 2003 hófst ég handa við frekari rannsóknir, alkominn til Íslands. Einhverjar heimildir reyndist unnt að finna á Þjóðskjalasafni en ekki var það mikið í fyrstu atrennu. Ljóst var að ég þyrfti að leita til yfirmanna þeirra opinberu stofnana sem kynnu að hafa komið að „pólitísku“ eftirliti á Íslandi. Ég hafði í ýmsu öðru að snúast svo þessi eftirgrennslan gekk frekar hægt fyrir sig. Embættismenn voru líka varir um sig, eins og gefur að skilja. Það hjálpaði þó mikið að geta vitnað í skjalfestar heimildir og allnokkur „off the record“ símtöl leiddu til þess að í febrúar 2004 gat ég – svo eitt dæmi sé tekið – skrifað einni stofnuninni bréf með þessum spurningum:

a) Með hvaða fólki var fylgst? Voru það einungis róttæklingar eins og þeir sem ollu spjöllum uppi í Hvalfirði og stóðu fyrir mótmælum og jafnvel óeirðum í Reykjavík undir lok sjöunda áratugsins, eða var það líka fólk sem var með róttækar vinstri skoðanir en tók ekki þátt í slíkri baráttu? Breska skýrslan gefur hið síðarnefnda til kynna en hér þyrfti maður að geta reitt sig á íslenskar heimildir.

b) Hvernig fór eftirlitið fram? Var einungis fylgst með skrifum fólks í blöð og áróðursbæklinga, og mótmælum á opinberum vettvangi … ?[8]

Viðbrögð við bréfum af þessu tagi voru upp og ofan. „Í minni tíð hefur ekki verið pólitískt eftirlit af neinu tagi,“ sagði einn yfirmaður hjá hinu opinbera. Hins vegar vildi hann lítt segja um stöðu mála þegar forverar hans voru við völd.[9] Á einum stað fékkst sitthvað staðfest sem fram kom í gögnunum að utan en hjá öðrum var viðkvæðið að eftir litlu væri að slægjast. „Ég get fullvissað þig um að hér eru engir gamlir fælar í metravís,“ sagði maður sem átti að þekkja vel til og var alls ekki þess legur að reyna að afvegaleiða fólk.[10]

Þótt rangt væri að segja að mér hafi staðið allar dyr opnar virtist enginn reyna að leggja stein í götu mína. Þannig sagðist Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vita að árin 1949-51 hefði verið „gengið mjög langt í ákveðnu eftirliti“.[11] Áður hafði Björn líka sagt frá því á opinberum vettvangi að þegar átökin urðu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 30. mars 1949 hafi sérstaklega verið gætt að heimili hans.[12] Faðir Björns, Bjarni Benediktsson, var þá utanríkisráðherra og helsti skotspónn þeirra sem voru á móti inngöngu Íslands í bandalagið.

Hreinskilni dómsmálaráðherra við mig réð miklu um það að í kafla um Bjarna, sem ég var beðinn um að skrifa í Forsætisráðherrabókina og birtist sumarið 2004, leyfði ég mér að álykta „að eftirlit með pólitískum andstæðingum stjórnvalda hafi aldrei verið meira á Íslandi“ en þessi átakaár.[13] Guðmundi Magnússyni, sagnfræðingi og ritstjórnarfulltrúa á Fréttablaðinu, fannst þetta tíðindi og spurði á hvaða heimildum ummælin væru byggð. Ég svaraði að bragði með óformlegum tölvupósti sem birtur var í blaðinu:

Þessi ályktun er grundvölluð á nokkrum heimildum, staðreyndum og túlkunum.

- Björn Bjarnason hefur skýrt frá því að eftir 30. mars 1949 var um skeið öryggisgæsla við heimili hans, eins og ég nefndi örugglega í greininni. Það er rökrétt að stjórnvöld hafi ekki aðeins látið það duga.

- Bandaríkjamenn héldu lista um „kommúnista“ á Íslandi og sömdu hann eftir uppl. m.a. frá íslenskum stjórnvöldum. Þetta er löngu vitað, sbr. rannsóknir Vals Ingimundarsonar.[14]

- Í öllum okkar grannlöndum var eftirlit með pólitískum andstæðingum stjórnvalda á þessum árum, t.d. í Noregi.[15] Engin ástæða er til að ætla annað en að svo hafi líka verið hér.

- Ég hef breskar heimildir fyrir því að íslensk stjórnvöld [hér hefði verið nákvæmara að ræða um lögregluyfirvöld] höfðu og uppfærðu lista með „kommúnistum“, svo seint sem ca. 1971-72. Þetta var talið nauðsynlegt til að gæta öryggis ríkisins. Hafi það verið hald manna þá, þá voru rökin enn ríkari 1949.

- Ég bar ályktunina undir heimildarmann sem ætti að þekkja til [það var Björn Bjarnason]. Henni var ekki vísað á bug.

Svo má spyrja í hverju eftirlitið var fólgið. Hvort það voru t.d. símahleranir eins og víða annars staðar. Um það vil ég ekki segja eins og sakir standa. Það má varast að gera of mikið úr þessu. Kannski var listinn ekkert annað en símanúmer og heimilisföng úr símaskránni.[16]

Þarna stóð rannsóknin sem sagt sumarið 2004. Ég hafði heimildir fyrir því, eins og ég greindi skýrlega frá í Fréttablaðinu, að einhvers konar „öryggisdeild“ hjá lögreglunni í Reykjavík hefði fylgst með „kommúnistum“ og haldið einhvers konar spjaldskrá um þá. Ekki vakti það þó mikla athygli! En ég var líka farinn að halda að símar hefðu verið hleraðir. Það hlaut að hafa verið hluti hins „ákveðna eftirlits“. Og hefðu hleranir átt sér stað var það auðvitað saga til næsta bæjar.

******

Lausleg athugun leiddi í ljós að afar auðvelt reyndist að finna staðhæfingar um slíkar aðgerðir á sínum tíma. „Símahleranir hafnar“, þrumaði Þjóðviljinn til dæmis 27. mars 1949.[17] En það breytti í raun litlu hvað hafði verið fullyrt fyrr á árum. Yrði unnt að finna óvéfengjanlegar heimildir um hleranir? Það var stóra spurningin og hér skal því haldið hiklaust fram að mikilvægi skriflegra frumheimilda í rannsóknum á liðinni tíð hafi sjaldan verið staðfest jafnrækilega og í þessari bók. Þær hafa breytt getgátum og grunsemdum í fullvissu og staðreyndir.

Það þýðir þó ekki að skrifleg gögn skuli vera upphaf og endir allra sagnfræðirannsókna.[18] „Þegar öll skjöl sögðu sömu sögu leið lygin undir lok og varð sannleikur,“ skrifaði George Orwell í 1984.[19] Þess utan geta skriflegar heimildir verið afar gloppóttar og það er ekki þar með sagt að eitthvað hafi aldrei átt sér stað vegna þess eins að skjalfest sönnun finnist hvergi. Árið 1988 kvörtuðu lögreglumenn á Íslandi til dæmis yfir þeirri rótgrónu venju „að í stað formlegra fyrirmæla komi munnleg tilmæli sem ekki fást staðfest skriflega og yfirboðarar hafa stundum ekki viljað kannast við ef vandræði hafa fylgt máli“.[20] Auk þess má varast að trúa öllum erlendum skýrslum og skeytum eins og nýju neti. Var kannski ekki alveg að marka fullyrðingar útlendinga um „nákvæma og ítarlega“ spjaldskrá yfir „kommúnista“ og aðra? Var þetta allt saman ýkt? „Íslenskir embættismenn slógu um sig og lögðu alltaf áherslu á að allt væri í góðu,” sagði einn úr þeim hópi þegar ég bar upplýsingar um þessa starfsemi undir hann sumarið 2003.[21]

Menn geta líka ákveðið að afneita nánast augljósum heimildum ef því er að skipta. Árið 1986 fylgdust íslenskir lögreglumenn dag og nótt með virkum náttúruverndarsinna og hörðum andstæðingi hvalveiða. Teknar voru myndir af einum þeirra við þann starfa en hann sór af sér hvers kyns eftirlitsstarfsemi: „Það er hægt að taka myndir af öllu. Það er hægt að skrifa allt. Það sannar ekkert.“[22]

Loks geta gögn líka horfið í tímans rás. „Brenndu hana!“ sagði embættismaður í norsku leyniþjónustunni árið 1969 við Ronald Bye, kunningja sinn í forystusveit Verkamannaflokksins sem óttaðist að senn myndi fregnast um hina leynilegu spjaldskrá þeirra. Skráin var brennd og tók verkið tvær nætur. „Við gerðum rétt en við vorum líka að eyða sögunni,“ sagði Bye síðar.[23] Og spjaldskrár voru ekki aðeins brenndar í Noregi á árum kalda stríðsins.

Þótt heimildir hverfi breytist fortíðin samt ekki; það sem gerðist í raun og veru á sínum tíma. Fólk getur líka áfram verið til frásagnar eins og Ronald Bye varð reyndar sjálfur til vitnis um. Hann sagði frá því sem hafði átt sér stað og í minni rannsókn var vitaskuld ljóst að ekki stoðaði að einblína á skriflegar heimildir. Það kom enda á daginn að fjöldinn allur af fólki gat veitt afar mikilvægar upplýsingar sem voru aðeins til í huga þeirra og minni.

Þegar ég hóf mína leit að heimildum um símahleranir spjallaði ég bæði við fólk hjá hinu opinbera sem ætla mátti að hefði kannski átt hlut að máli og þá sem höfðu verið í andófi og mótmælum á sínum tíma; herstöðvaandstæðinga, „aktívista“ og fleiri. Í nóvember 2004 gerðist ég nokkurs konar boðflenna í „róttæklingarölti“ sem gamlir og nýir andófsmenn fóru í til að minnast áralangrar baráttu við Bandaríkin, NATO, auðvaldið og íhaldið. Sjálfur hef ég aldrei tekið neinn þátt í neins konar mótmælum hér á landi og ólst upp á Arnarnesi þar sem nær allir studdu Sjálfstæðisflokkinn nema Steingrímur Hermannsson. Sumir gerðu sér það víst líka að leik ár hvert að standa við Hafnarfjarðarveginn og atyrða Keflavíkurgöngufólk á leið í bæinn að því er sagan segir. Sú frásögn er reyndar líka til af leikfélaga mínum í æsku að hann hafi eitt sinn reiðst foreldrum sínum svo mjög að hann vildi særa þau eins djúpu sári og hann gat – og hvæsti því til þeirra um leið og hann strunsaði út: „Ísland úr NATÓ, herinn burt.“

Síðla árs 2004 tóku róttæklingar mér ljúflega og á röltinu um sögufræga staði í baráttu þeirra – hvort sem var niðri á hafnarbakka þar sem slagorð voru máluð á NATO-herskip 1968 eða í Austurstræti þar sem stálin stinn mættust í Þorláksmessuslagnum fræga sama ár – voru allir reiðubúnir að rifja upp sögur af símahlerunum og öðru eftirliti:

Róttæklingur A:    „Mest hleraði sími landsins var sími Fylkingarinnar, og næstmest hleraði sími landsins var hjá Birnu Þórðar…“

Róttæklingur B:    „…eða Ragnari Stefáns!“[24]

Svona mætti áfram telja og síðustu ár hafa margir, sem létu að sér kveða í einhvers konar andófi, sagt mér sögur af símahlerunum sem hefðu stundum staðið árum saman, með tilheyrandi skruðningum, „tikki“ og jafnvel andardrætti á línunni. Flestar frásagnirnar fundust mér með ólíkindum. En hvað átti maður svo sem að halda?

Mergur málsins var sá að ekkert virtist hægt að sanna. Og það er jú einn helsti galli munnlegra heimilda; þær standast ekki alltaf þær hefðbundnu kröfur í sagnfræði að unnt sé að staðreyna upplýsingar.[25] Það getur því miður verið nær ómögulegt að viðhafa þá gagnrýni – þá Quellenkritik – sem þýskir fræðimenn hófu til vegs og virðingar í faginu á nítjándu öld. Minni fólks er misjafnt og minningar geta breyst í áranna rás. Þannig gantaðist Stefán Pálsson, formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, með það á rölti róttæklinga að svo vel gengi fólki að rifja upp átökin við lögguna og aðra atburði að „jafnvel fjarstaddir menn fara að muna þátttöku sína”.[26]

Í þessari rannsókn minni bættist sá vandi síðan við að sumir sem höfðu frá einhverju að segja voru tregir til, jafnvel þögulir sem gröfin. Þeir töldu engum til gagns að opinbera þessi „viðkvæmu mál“ eins og einn fyrrverandi embættismaður ríkisvaldsins komst að orði.[27] Þar að auki gat leikið vafi á að menn mættu yfirleitt upplýsa um það sem þeir höfðu komist að í starfi sínu. Símamenn eru til dæmis bundnir trúnaði í starfi og í lögum segir svo um þagnarskyldu lögregluþjóna:

Lögreglumönnum og öðru starfsliði lögreglu ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða starfshætti lögreglu og fyrirhugaðar lögregluaðgerðir og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum lögreglu eða eðli máls.

Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.[28]

Vandi minn var því að nokkru leyti sá að „róttæklingarnir“ sögðu gjarnan meira en þeir vissu á meðan sumir opinberir embættismenn vildu aftur á móti helst gefa upp minna en þeir vissu – og bentu á þagnarskyldu sína. Það tók nokkurn tíma og bréfaskipti að rökræða um eðli slíkrar skyldu í upplýsingasamfélagi nútímans. Í einu bréfinu orðaði ég mína afstöðu með þessum hætti:

Trúnaður og þagnarskylda hlóta að teljast til meginreglna í starfi löggæslumanna og gildir það einnig þegar horfið er úr starfi eins og tekið er fram í lögreglulögum.

...

Staðreyndin er [samt] sú að þótt þagnarskylda þurfi að ríkja um einkahagi fólks hverju sinni og núverandi öryggishagsmuni þá má þagnarskyldan ekki verða það ströng að fræðimenn geti aðeins sótt vitneskju í innlend og erlend skrifleg gögn, en þeir, sem þau bjuggu til, þegi þunnu hljóði. Einskis hagur er í því. Annað hvort verður að banna aðgang að öllum skjölum, sem er ómögulegt og andstætt viðhorfum valdhafa um opið upplýsingasamfélag, eða koma til móts við óskir um upplýsingar.[29]

Þetta gekk. Viðtöl voru veitt. Mikilvægar heimildir og ábendingar fengust. En betur mátti ef duga skyldi.

******

Þrátt fyrir allt varð maður að finna hina óvéfengjanlegu sönnun, það sem er kallað á ensku „the smoking gun“ – byssan sem er enn heit þannig að ekki verði um það deilt að skoti hafi verið hleypt af. Næstu vikur og mánuði ræddi ég og skrifaðist á við ýmsa sem ég taldi að gætu gefið einhverjar upplýsingar um símahleranir hér á landi. Félagar í fræðaheiminum í Skandinavíu sögðu nær útilokað að upplýsingar um slíkt væri að finna í skjalasöfnum ráðuneyta, lögreglu eða leyniþjónustu ytra, enda væri Íslands nær ekkert getið í gögnum þar. Formlegar fyrirspurnir til dönsku leyniþjónustunnar, Politiets efterretningstjenesete (PET), og norsku öryggislögreglunnar, Politiets sikkerhetstjeneste (PST), leiddu mig ekki heldur á sporið.[30] Og ekkert fann ég á skjalasöfnum í Bandaríkjunum og Bretlandi.

En hér heima? Vorið 1989 hafði ungur maður, Haraldur Böðvarsson, lokið við kandídatsritgerð í lögfræði sem bar heitið „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“.[31] Í henni var mikill fróðleikur um þau lög sem gilt höfðu um hleranir. Hins vegar var lítið sem ekkert að finna um framkvæmd þeirra í bráð og lengd. Haraldur hafði komist að því fullreyndu að þeir sem hann leitaði til vildu ekkert við hann tala, og breytti engu að hann var sonur Böðvars Bragasonar lögreglustjóra. Embætti Böðvars sagði nei, rannsóknarlögreglustjóri ríkisins sagði nei, póst- og símamálastjóri sömuleiðis og yfirsakadómarinn í Reykjavík tók dýpst í árinni: „Engar upplýsingar hafa verið veittar um þetta efni, engar upplýsingar verða veittar um þetta efni og engar upplýsingar munu verða veittar um þetta efni.“[32]

Þetta lofaði ekki góðu. Haraldur Böðvarsson gat þó bent á það að símahleranir væru stundaðar en nær eingöngu að beiðni fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og þá að fengnum dómsúrskurði eins og lög gerðu ráð fyrir.[33] Um svipað leyti og Haraldur lagði ritgerð sína fram fékkst þetta einnig staðfest á Alþingi. Kristín Halldórsdóttir, þingkona Kvennalistans, spurðist þá fyrir um símahleranir síðastliðinn áratug, meðal annars fjölda þeirra og hvort dómsmálaráðherra teldi „að alltaf sé farið að lögum og reglum varðandi símahleranir“.[34] Í svari Halldórs Ásgrímssonar dómsmálaráðherra var að finna nákvæma sundurliðun á fjölda úrskurða um hleranir ár frá ári, samtals 132 frá 1979 til maí 1989, og eingöngu vegna gruns um fíkniefnabrot. „Dómstólar meta skilyrði til símahlerunar,“ sagði ráðherrann svo. „Því verður að treysta að þeir gæti þess að símahleranir séu því aðeins leyfðar að ríkar ástæður séu fyrir hendi.“[35]

Sjö árum síðar var á ný leitað upplýsinga um símahleranir á Alþingi. Það gerði Svavar Gestsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, og aftur var spurt um hleranir síðustu tíu ár. Nú bar hins vegar svo við að slík vitneskja virtist hafa glatast í dómsmálaráðuneytinu. „Upplýsingar um símahlerunarúrskurði fyrir 1. júlí 1992 eru ... svo brotakenndar og torsóttar að ráðuneytið hefur ekki treyst sér til að taka þær saman,“ sagði í svari Þorsteins Pálssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Svavars í febrúar 1996. Það eitt kom því fram að frá sumrinu 1992 hefðu 42 símanúmer verið hleruð, á grundvelli 27 úrskurða, og væntanlega öll út af rannsóknum á fíkniefnamisferli (þótt það kæmi ekki fram).[36]

Minni þingmanna og embættismanna var svo dapurt að þær upplýsingar sem fram komu á Alþingi árið 1989 voru öllum gleymdar. Og fyrst upplýsingarnar fyrir árin 1986-1992 voru orðnar svona brotakenndar og torsóttar var væntanlega óðs manns æði að gera sér vonir um að til væru heimildir um símahleranir í kalda stríðinu. Sú svartsýni jókst enn við lestur á frétt Morgunblaðsins af svari Þorsteins Pálssonar árið 1996. Þar var haft eftir Sigurði Tómasi Magnússyni, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, að það væri aðeins í fíkniefnamálum, morðmálum, nauðgunarmálum og málum sem snertu „öryggi ríkisins“ að hlera mætti síma: „Mál sem vörðuðu öryggi ríkisins væru afar fátíð og dómsmálaráðuneytinu væri ekki kunnugt um að óskað hefði verið eftir símahlerunum í slíkum málum.“[37]

Þegar hér var komið sögu var kalda stríðinu löngu lokið. Það hafði þó breyst síðan Haraldur Böðvarsson kom hvarvetna að lokuðum dyrum og um leið og ég las hina skorinorðu synjun yfirsakadómara í ritgerð hans – að upplýsingar um símahleranir yrðu aldrei nokkurn tímann veittar – hafði mér reyndar verið hugsað til svipaðra orða sem austur-þýski kommúnistinn Egon Krenz lét eitt sinn falla: „So war es, so ist es, so wird es sein“ – „svona var það, svona er það og svona mun það verða.“[38] En það reyndust auðvitað herfilegustu öfugmæli. Í október 1989 tók Krenz við stjórnartaumum í landi sínu af Erich Honecker, í næsta mánuði hrundi Berlínarmúrinn og innan árs var Þýska alþýðulýðveldið horfið fyrir fullt og allt. Voru nýir tímar ekki líka runnir upp á Íslandi?

Þótt dómsúrskurðir um símahleranir hafi verið kveðnir upp fyrir luktum dyrum verður ætíð að færa þá til bókar og að öllu jöfnu eiga opinberar stofnanir að senda gögn sín til Þjóðskjalasafns Íslands í síðasta lagi 30 árum eftir að þau urðu til.[39] Allur gangur er hins vegar á því að þessari reglu sé fylgt enda er safnið illa í stakk búið að taka við öllum þeim aragrúa gagna sem myndast hjá hinu opinbera. Ég gat þess vegna ekki gengið að því sem vísu að úrskurðir um hleranir í kalda stríðinu væru komnir á Þjóðskjalasafn, væru þeir á annað borð til. En það sakaði ekki að spyrja. Það var því gert, bæði á safninu og hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, arftaka Sakadóms Reykjavíkur sem hefði úrskurðað um símahleranir á sínum tíma.

Og nú hljóp á snærið! Flutningur skjala frá Héraðsdómi var í bígerð og 7. janúar 2005 var mér sagt í trúnaði að þar gæti verið að finna þær heimildir sem ég leitaði að. Rík fræðileg rök þyrftu þó að vera til þess að þær yrðu gerðar aðgengilegar, með ströngum skilyrðum. Við það var ekkert að athuga og ég samdi – með aðstoð lögfræðings og vinar – ítarlega greinargerð þar sem raktar voru hugsanlegar takmarkanir á aðgangi, ákvæði laga og reglna um heimild til aðgangs og fræðileg rök fyrir heimild til aðgangs.[40] Viðurkennt var að upplýsingalög giltu ekki um dómsúrskurði og sjálfsagt væri, með hliðsjón af ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, „að aðgangur að þeim gögnum, sem sótt er um, verði þannig skilyrtur að nöfn þeirra, sem í hlut eiga, verði ekki gerð opinber, nema með skriflegu samþykki þeirra“.[41] Einnig var vitnað í reglur Þjóðskjalasafns um aðgang að skjölum í vörslu þess:

Að jafnaði gildir sú regla að hverjum þeim, sem þess óskar, er heimill aðgangur að skjölum í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands. Á þessu eru nokkrar undantekningar sem flestar lúta að almannahagsmunum og persónuvernd einstaklinga. Þannig eru þau skjöl, sem innihalda upplýsingar um öryggi og varnir ríkisins, ekki opin almenningi fyrr en að 30 árum liðnum frá myndun þeirra. Sömuleiðis eru skjöl, sem innihalda upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga, ekki opin öðrum en þeim, sem málið varðar, fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun þeirra.[42]

Loks benti ég á það í greinargerðinni að víða á Vesturlöndum hefðu fræðimenn og aðrir fengið aðgang að gögnum um símahleranir. Að þessu öllu sögðu tók ég svo fram að þau gögn, sem óskað væri eftir að sjá, yrðu nýtt til að fá upplýsingar um eftirtalin atriði:

- rökstuðningur stjórnvalda og lögregluyfirvalda fyrir heimild til símahlerunar;

- fjöldi dómsúrskurða af þessu tagi ár hvert;

- lengd heimildar til símahlerunar hverju sinni;

- tímasetning símahlerana, t.d. með hliðsjón af opinberum heimsóknum eða umræðum um viðkvæm deilumál á Alþingi;

- tölfræði um atvinnu eða stöðu þeirra sem sími var hleraður hjá.[43]

Nú var að sjá hver viðbrögðin yrðu. Þeir sem málið varðaði hjá Þjóðskjalasafni virtust þegar hafa gert upp við sig að þeir teldu rétt að veita aðgang að gögnunum með þeim skilyrðum um nafnleynd sem um var getið í greinargerð minni. Nokkurn tíma tók þó fyrir ráðamenn hjá safninu og Héraðsdómi Reykjavíkur að ákveða hvor stofnunin skyldi taka ákvörðun, af eða á. Það flækti jafnframt málið að þótt gögn Sakadóms hefðu um skeið beðið flutnings á safnið vildi starfsfólk þess helst ekki bæta þeim strax á aðra skjalastafla sem biðu flokkunar og skrásetningar. En Þjóðskjalasafn gæti þó tekið við einum litlum pakka frá Héraðsdómi. Í byrjun mars 2005 bað ég dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur því um að gögn um símahleranir yrði tekin frá og fengju einhvers konar „flýtimeðferð“.[44]

Þetta varð úr. Um miðjan mánuðinn voru þessi gögn flutt sérstaklega frá Héraðsdómi Reykjavíkur til Þjóðskjalasafns Íslands. Síðan var hringt til mín og sagt að ég gæti haldið á safnið og litið á þau þegar ég vildi. Ég lét ekki segja mér það tvisvar.

******

Sjaldan hef ég verið jafnspenntur og mánudagsmorguninn 21. mars 2005. Þetta voru litlu jól sagnfræðingsins; í gömlu mjólkurstöðinni sem nú hýsti Þjóðskjalasafn Íslands. En hvað yrði í pakkanum? Ekki minnkaði eftirvæntingin – eða líkindin við aðfangadagskvöld – þegar sá skjalavörður sem einna mest vissi um málið sagði íbygginn: „Til hamingju með þetta.“

Gögnin þóttu viðkvæmari en svo að þau yrðu handfjötluð fyrir allra augum á lestrarsalnum á jarðhæð safnsins. Þess í stað var ég leiddur til borðs á skrifstofugangi uppi á 3. hæð. Ég sá út á portið austan hússins. Mig minnir að þar hafi verið snjóföl yfir. En hverju skipti það! Þarna fyrir framan mig var kassi, nýlega merktur með skrárnúmerinu „ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur, 2005, FB/4. FB-Þingbækur“. Þegar lokið var tekið af kom í ljós að í kassanum voru laus blöð – eitthvað um símahleranir, sá ég strax – og dómabók, innbundin.

Bókin var fornfáleg að sjá. Eitt stakk þó í augu: Á henni var nýlegur gulur límmiði. Á hann voru skrifuð tvö símanúmer og fangamark sem reyndist við athugun mína síðar um daginn tilheyra háttsettum starfsmanni í dómsmálaráðuneyti. Mér finnst því líklegt að ráðuneytið hafi verið með í ráðum þegar ákveðið var að veita aðgang að þessum viðkvæmu gögnum. En auðvitað var ég ekki með hugann við það þegar ég var loksins með fjársjóðinn fyrir framan mig. Nú mátti ekki bíða boðanna. Það er hreina satt að ég óttaðist eitt andartak að á hverri stundu kæmi einhver og segði að þetta væru mistök, að ég mætti ekki líta á þetta, og pakkinn yrði tekinn frá mér. En enginn kom. Og ég byrjaði að lesa.

Ég trúði vart eigin augum þegar ég fletti „Lögregluþingbók 249“, löggiltri 4. september 1948, með þéttskrifuðum síðum sem náðu í tíma talið allt til ársins 1976. Þarna voru þeir hver á eftir öðrum, dómsúrskurðir um símahleranir í kalda stríðinu. Fyrst vegna ótta um öryggi ríkisins þegar við gengum í NATO 1949 – ha! – þetta hafði mig grunað; aftur þegar Dwight Eisenhower kom í heimsókn í janúar 1951 – það voru tíðindi – enn á ný þegar herinn kom í maí það ár, og svo þegar landhelgissamningurinn var ræddur á Alþingi í febrúar-mars 1961. Það kom líka á óvart og enn var eitthvað eftir. Í september 1963 kom Lyndon B. Johnson til landsins; þá var hlerað. En bíðum við, var einhver voðahasar þá? Kannski heimtuðu Bandaríkjamennirnir þetta. Áfram gat maður ekki annað en hugsað um þessa löngu liðnu atburði um leið og maður fletti lögregluþingbókinni.

Seint í júní 1968 var utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins haldinn í Reykjavík. Mótmælendur skunduðu þá að tröppunum við aðalbyggingu Háskóla Íslands þar sem hinna tignu gesta var von, settust niður með spjöld sín – „Ísland úr NATO“, „USA leave Vietnam“ og svo framvegis – og kyrjuðu slagorð í svipuðum dúr. Yfirmenn lögreglunnar áttu sér einskis ills von og urðu að láta ryðja völlinn. Kom þá til nokkurra ryskinga. Þetta var allt vitað en nú sá ég að á laun höfðu valdhafarnir þó haft varann á. Laugardaginn 8. júní 1968 hafði sakadómari, að beiðni dómsmálaráðuneytis, kveðið upp úrskurð um símahleranir sem ég renndi augum yfir, nær fjórum áratugum síðar:

Samkvæmt upplýsingum þeim ... í nefndu bréfi ... atferlis sem skaðað gæti öryggi ríkisins ... Er því fullnægt almennum skilyrðum ... úrskurði um hlustanir í síma. ... þykir rétt að heimila ... hlustanir á símtöl ... öflunar upplýsinga ... Símanúmerin eru þessi:[45]

Mig hafði svo sem grunað að hefðu símar verið hleraðir þá hefði það gerst þegar NATO-fundurinn 1968 stóð yfir. Hann var á lista yfir helstu dagsetningar og atburði sem ég hafði sett saman. Þar voru líka heimsókn Williams Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Íslands í maí 1972 og leiðtogafundur Richards Nixon og Georges Pompidou ári síðar. Sagan sagði að símahleranir hefðu átt sér stað þegar Rogers kom hingað: „Við vissum að lögreglan hleraði alla grunsamlega síma,“ hafði ég séð haft eftir Birnu Þórðardóttur í einni frásögn af þeirri frægu heimsókn.[46]

En nú bar svo við að engan úrskurð um hleranir var að finna á árinu 1972, og ekki heldur síðar. Úrskurðurinn út af NATO-fundinum var sá síðasti, sem var kveðinn upp með vísan til „öryggis ríkisins“, allt til loka bókarinnar árið 1976. Ég segi ekki að það hafi valdið manni vonbrigðum en það vakti vissulega spurningar. Hér voru úrskurðirnir komnir en gat verið að menn hefðu einhvern tímann hlerað án þess að hafa til þess leyfi? Eða var þetta bara ímyndun í fólki árið 1972? Hvað með Nixon og Pompidou? Þegar þeir voru hérna hafði Kristján Eldjárn forseti skrifað í dagbók sína að allir ráðamenn væru „mjög kvíðafullir út af þeim viðbúnaði sem mótmælendur hafa í frammi“.[47] Var nú ekki líklegt að kvíðnir menn reyndu að leita af sér allan grun? Það hafði verið gert 1968. Og hverjir komu að þessu? Hverjir hleruðu? Hvernig var staðið að því? Og hvað með þá vitneskju sem fékkst við hleranirnar? Voru til uppskrifuð samtöl einhvers staðar? Eða spólur? Hér gilti hið fornkveðna að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið.

Þegar ég var búinn að fá aðgang að dómsúrskurðunum (og skrifa þá alla upp í tölvu ásamt beiðnum og fylgiskjölum; ljósritun var óheimil) hélt ég áfram að leita upplýsinga hjá heimildarmönnum. Og nú gat maður spurt mun nánar út í símahleranir:

...

4) Eftir því, sem ég kemst næst, eru þær upplýsingar, sem aflað var með símahlerunum, ekki lengur til. Mér sýnist réttast að álykta að þessar upplýsingar hafi eflaust verið gagnlegar (líklega sérstaklega árið 1949) en að þær hafi ekki skipt sköpum; að stjórnvöld og lögregluyfirvöld hafi vitað eða getað getið sér til um hvers konar aðgerðir væru í vændum (t.d. við komu erlendra ráðamanna til landsins) án þess að þurfa að hlera síma. Telurðu þetta rétt metið, eða manstu eftir atvikum þar sem upplýsingar eftir símahleranir komu að mjög miklum notum?

5) Síðasti úrskurðurinn um símahleranir er kveðinn upp 8. júní 1968, vegna væntanlegs ráðherrafundar NATO síðar í mánuðinum. Mér sýnist mjög líklegt að þótt ekki finnist upplýsingar um fleiri uppkveðna dómsúrskurði af þessu tagi, þá hafi símahleranir átt sér stað fram á áttunda áratuginn, t.d. í tengslum við Þorláksmessuslaginn sama ár, „Kópamaros“-liðið sem kvaðst árið 1971 hafa í hyggju hryðjuverk, og leiðtogafund Nixons og Pompidous 1973. Telur þú þetta rétt metið hjá mér?[48]

Með dómsúrskurði í höndunum var einnig hægt að spyrja þá símamenn, sem hugsanlega sáu um eða vissu um tæknilega hlið hlerana, hvernig staðið var að verki. Einn sagði eitt, annar bætti öðru við og að því kom að góðar heimildir um símahleranir og „innra öryggi“ í kalda stríðinu, bæði munnlegar og skriflegar, lágu fyrir. Ég þóttist vita að ég hefði nú frá ýmsu að segja um hvað hefði verið gert í þessum efnum í kalda stríðinu, hvenær og hvernig. En auðvitað var stórum spurningum enn ósvarað og þær allra stærstu voru þessar: Hvers vegna var fylgst með fólki? Hvers vegna var hlerað? Hvað var óttast?

******

Rauði þráðurinn í þessari bók er þess vegna ótti: sá ótti um öryggi ríkisins sem stundum gætti hjá ýmsum ráðamönnum á Íslandi og þær varnir sem þeir gripu þá til. Fyrst dómsmálaráðuneytið fór fram á úrskurð um símahleranir í mars 1949 vegna þess „að tilætlunin sé sú að hindra Alþingi í störfum sínum“ er nauðsynlegt að rekja hér og útskýra rás viðburða þessa átakadaga.[49] Var það rétt metið að til stæði að ráðast á Alþingi Íslendinga? Sama gildir um aðra þætti sögunnar. Við þurfum til dæmis að komast að því hvað þeir sem komu tímasprengjum fyrir í gömlum herbragga í Hvalfirði árið 1969 ætluðust fyrir, eða þá þeir sem rændu dínamíti í Kópavogi tveimur árum síðar og létu hafa eftir sér að þeir ætluðu að ræna forsætisráðherra landsins og „sprengja mannvirki Bandaríkjahers á Íslandi“.[50] Voru þetta einhver vafasöm bernskubrek eða mál sem varðaði „öryggi ríkisins“ eins og stjórnvöld héldu fram?[51] Að þessu þurfti að spyrja gamla lögreglumenn og aðra. Að sama skapi þurfti líka að spyrja þá sem höfðu tekið þátt í „aksjónum“ eins og menn kölluðu hörð mótmæli og aðgerðir:

6. Þegar búið var að ná í dínamítið var þá eitthvað rætt af viti hvað skyldi gera næst?

12. Heldurðu að á þessum árum hefði það einhvern tímann geta komið til að einhvers konar „hryðjuverk“ hefði verið framið á Íslandi, t.d. mannskæð sprengiárás eða mannrán með kröfu um lausnargjald, eins og gerðist hjá Rauðu herdeildunum t.d.? Voru einhverjir hér heima nógu kaldrifjaðir og harðsvíraðir og skipulagðir til slíks?[52]

Sem fyrr dugði þó ekki að leita aðeins munnlegra heimilda. Mikilvægra gagna var aflað í skjalasafni utanríkisráðuneytis (þar voru notadrýgstir skjalapakkarnir „Móðganir við erlend sendiráð“ og „Taka sendiráðsins í Stokkhólmi 1970“).[53]Drjúgar heimildir var að finna í skjalasöfnum Fylkingarinnar, Sósíalistaflokksins og Samtaka herstöðvaandstæðinga svo dæmi séu tekin, og ekki síður í dagbókum lögreglunnar í Reykjavík og dómabókum sýslumannaembætta. Í yfirheyrslum vegna dínamítþjófnaðarins í Kópavogi kom til dæmis fram að „hugmyndir að stofnun skæruliðasamtaka“ hefðu verið lengi í gerjun og mikið um þær talað meðal „kaffihúsakomma“.[54]

Öll þessi eftirgrennslan leiddi til þess að rannsóknin varð viðameiri en ég hafði séð fyrir í fyrstu. Þegar til átti að taka varð ég að rekja áform um eflingu lögreglunnar og stofnun heimavarnarliðs sem gæti barist við uppreisnaröfl í landinu, og í framhaldi af því varð ekki umflúið að horfa til varna gegn vá að utan. Jafnframt varð að setja rannsóknina í víðara samhengi kalda stríðsins og róttækra vinstri afla á Íslandi. Við það komu vandaðar rannsóknir ýmissa fræðimanna að góðum notum, ekki síst verk Þórs Whitehead, Vals Ingimundarsonar og Jóns Ólafssonar, að ógleymdu riti Baldurs Guðlaugssonar og Páls Heiðars Jónssonar um 30. mars 1949 og bók Gests Guðmundssonar og Kristínar Ólafsdóttur um „68-kynslóðina“. Eins verður að nefna námsritgerðir Baldurs Más Bragasonar, Björns Gísla Erlingssonar, Haraldar Böðvarssonar og Péturs Dam Leifssonar.[55]Ég stend í þakkarskuld við alla þessa menn en nefni þó sérstaklega Þór Whitehead, leiðbeinanda minn í sagnfræðinámi við Háskóla Íslands og hjálparhellu æ síðan.

Auk þess er ég þakklátur öllum þeim sem vildu ræða við mig um efni bókarinnar. Loks er ljóst að ég hefði aldrei getað safnað efni í hana án aðstoðar margra góða manna. Erlendis nefni ég Peter Hennessy, prófessor við Queen Mary, University of London, og Barböru Constable, skjalavörð á Eisenhower-safninu í Bandaríkjunum. Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur voru Jóhanna Helgadóttir, Magnús Lyngdal Magnússon, Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður og Valur Freyr Steinsson mjög hjálpsöm. Sérstakar þakkir fær Ragnhildur Bragadóttir, fyrrverandi starfsmaður safnsins. Á Þjóðskjalasafni Íslands voru skjalaverðirnir Jón Torfason og Pétur H. Kristjánsson að ómetanlegu liði og Kristjana Kristinsdóttir, sviðsstjóri skjalavörslusviðs, sömuleiðis. Á handritadeild Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns naut ég helst aðstoðar Braga Þ. Ólafssonar skjalavarðar og Arnar Hrafnkelssonar forstöðumanns. Magný Gyða Ellertsdóttir veitti ýmsa liðveislu á Bókasafni Seðlabanka Íslands. Guðjón Ólafur Jónsson alþingismaður var mér innanhandar í lögfræðilegum málum.

Gunnar Páll Baldvinsson stjórnmálafræðingur safnaði ljósmyndum og teikningum af stakri elju. Í þeim efnum var Gísli Helgason, sagnfræðingur á Ljósmyndasafni Reykjavíkur einnig hjálpsamur. Handrit bókarinnar lásu sagnfræðingarnir Guðmundur Magnússon og Ragnheiður Kristjánsdóttir auk móður minnar, Margrétar Thorlacius kennara, og Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.

Öll veittu þau holl ráð, leiðréttu villur og bentu á ýmislegt sem betur mátti fara. Eftir stendur þó að ég ber einn alla ábyrgð á verkinu.

******

Sú ábyrgð vekur upp þessa spurningu: Getur sá sem kom í heiminn átakaárið 1968 gert sér í hugarlund það andrúmsloft sem ríkti í kalda stríðinu?[56] Brynjólfur Bjarnason, einn forystumanna sósíalista á Íslandi um árabil, lét þessi orð eitt sinn falla í samræðum um fortíðina og rannsóknir á henni:

Það er alveg furðulegt hve skjótt veruleiki hins liðna hverfur í gleymskunnar djúp. Menn geta setið með sveittan skallann mánuðum og árum saman til þess að kynna sér og grannskoða heimildir og beitt til þess aðferðum sem eru kenndar í háskólum og kallaðar vísindi. Og þrátt fyrir allt skilja þeir hvorki upp né niður í þeim veruleika sem ætlunin er að lýsa.[57]

„Veruleiki“ kalda stríðsins var vissulega annar en sú veröld sem á eftir kom. „Þetta voru tímar lífsháskans,“ sagði Matthías Johannessen, blaðamaður og ritstjóri Morgunblaðsins á þeim árum. „Það var ekkert dútl eins og í dag, pólitískt dútl, þverpólitískt dútl. Það var allt upp á líf og dauða.“[58] Þeir sem höfðu staðið hinum megin víglínunnar tóku líka undir að hart hefði verið barist. Einar Olgeirsson sagði „erfitt að setja sig aftur inn í þessa stemningu eins og hún var, þegar kalda stríðið var í algleymingi, annars vegar hatrið hjá þeim og ofsóknirnar og hins vegar reiðina og fordæminguna hjá okkur...“[59]

Það var því ekkert áhlaupaverk að reyna að skrifa um rétt og rangt í kalda stríðinu. Ekki vantaði mann góð ráð frá söguhetjunum. „Þú verður að segja hvað gerðist í raun og veru 30. mars [1949],“ sagði félagi í Æskulýðsfylkingunni sem kvaðst hafa orðið fyrir barsmíðum „hvítliða“ á Austurvelli. „Taugaveiklunin var svo yfirþyrmandi,“ sagði kona sem tók virkan þátt í andófi árin 1968 og þar á eftir um afstöðu lögreglu og stjórnvalda.[60] Á hinn bóginn bentu aðrir á að ekki mætti gera íslenska vinstrimenn að „píslarvottum“ þótt það vitnaðist um spjaldskrár og símahleranir sem hefðu hvort eð var viðgengist alls staðar á Vesturlöndum. Fylkingarfélagar og aðrir sem stóðu fyrir „aksjónum“ upp úr 1968 ættu minnsta samúð skilið, að sumra sögn: „Gættu að því að þetta lið var í alls konar rugli og það hafði engan stuðning í þjóðfélaginu, alls engan.“[61]

Þessi andstæðu sjónarmið heyrðust glöggt á ný vorið 2006 þegar ég flutti fyrirlestur á Söguþingi um þá úrskurði um símahleranir sem upp voru kveðnir í kalda stríðinu.[62] Sovétríkin stunduðu sömu iðju, skrifaði Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins: „Máttu þeir einir beita símahlerunum á Íslandi? Mátti bara stunda þá starfsemi ólöglega við Túngötu?“ Þar að auki hefðu félagar í Sósíalistaflokki og Alþýðubandalagi verið fúsir til að fremja landráð í þágu síns málstaðar: „Innan þessara flokka voru menn sem voru tilbúnir til að starfa fyrir Moskvu. Þeir voru kallaðir fimmta herdeildin.“[63] Nútímaásakanir um „móðursýki“ komu hins vegar einna skýrast fram í þeirri örstuttu samantekt Þráins Bertelssonar rithöfundar „að ofsóknarbrjálaðir ráðherrar hafi fyrirskipað fáránlegar símahleranir“.[64]

Síðan hefur margt gerst í sögunni af sögunni um símahleranir og annað eftirlit í kalda stríðinu. Frá því segir nánar í bókarlok en nú er hins vegar tími til kominn að hverfa um stund inn í (horfinn) heim ógnar, ótta, öryggisþjónustu og njósna á Íslandi.

 

 


[1]TNA. CAB134/3574. SPM(72)26. „State of Security in Iceland“. Skýrsla „Cabinet Security and Methods Policy Committee“, 10. maí 1972.

[2]DDE.White House Office. NSC Staff: Papers, 1948-61. OCB Central File Series. Box 35. OCB 091. Iceland (File#3) (3). „Analysis of Internal Security Situation in Iceland and Recommended Action“, 9. febrúar 1956.

[3]G. Pétur Matthíasson, „Íslensk leyniþjónusta“, Helgarpósturinn, 27. mars 1986.

[4]Pálmi Jónasson, „„Hin íslenska leyniþjónusta““, Morgunpósturinn, 2. febrúar 1995.

[5]VEF.Rapport til Stortinget .. (Lund-rapporten). Sjá einnig: Bergh og Eriksen, Den hemmelige krigen I-II. Riste og Moland, „Strengt hemmelig“.

[6]Sjá þó t.d.: Morgunblaðið, 9. maí 1996.

[7]Morgunblaðið, 28. ágúst 1998. Sjá einnig: Jespersen og Mistrati, Den Hemmelige Tjeneste.

[8]Höfundur til ónefndar stofnunar, 11. febrúar 2004.

[9]Frásögn ónefnds heimildarmanns, 10. nóvember 2003.

[10]Frásögn ónefnds heimildarmanns, 20. ágúst 2004.

[11]Frásögn Björns Bjarnasonar, 11. febrúar 2004. Svipað viðhorf kom fram í tölvupósti Björns Bjarnasonar til höfundar, 10. nóvember 2003.

[12]Björn Bjarnason, „Farsælt varnarsamstarf kallar á verkaskiptingu,” Morgunblaðið, 5. maí 2001.

[13]Guðni Th. Jóhannesson, „Bjarni Benediktsson“, bls. 302.

[14]Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, einkum bls. 183-184.

[15]Sjá t.d. Bergh og Eriksen, Den hemmelige krigen I.

[16]Fréttablaðið, 15. september 2004.

[17]Þjóðviljinn, 27. mars 1949. Sjá einnig: Baldur Guðlaugsson og Páll Heiðar Jónsson, 30. marz 1949, bls. 147.

[18]Um gildi skriflegra heimilda, kosti þeirra og galla, sjá: Haslam, „Collecting and Assembling Pieces of the Jigsaw“, bls. 150-151. Jón Ólafsson, „Sovéttengsl sósíalista“, bls. 182.

[19]George Orwell, 1984, bls. 29.

[20]Alþingistíðindi1988 A, bls. ?? „Löggæsla í Reykjavík 1988“. Bráðabirgðaskýrsla, fylgiskjal með tillögu til þingsályktunar um eflingu löggæslu.

[21]Frásögn ónefnds heimildarmanns, 11. júní 2003. Um þennan vanda skriflegra heimilda sjá: Gaddis, „On Starting All Over Again“, bls. 38. Jón Ólafsson, „Sovéttengsl sósíalista“, bls. 182

[22]„Það var njósnað um mig“, bls. 9.

[23]Bye, Sersjanten, bls. 71-75. Öryggislögreglan í Noregi kallast nú Politiets Sikkerhetstjeneste (PST).

[24]Samtöl höfundar við þátttakendur í „róttæklingarölti“ sem Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu fyrir, 6. nóvember 2004.

[25]Um íslenskar athuganir á munnlegum heimildum, sjá t.d.: Jón Guðnason, „Um munnlegar heimildir“, Sigurður Gylfi Magnússon og Jón Jónsson, „Heimskuleg spurning fær háðulegt svar“, og Guðni Th. Jóhannesson, „Þorskastríð í sjónvarpi“. Sjá einnig: Hodne, Kjeldstadli og Rosander (ritstj.), Muntlige kilder, og Ollila, „Memory and Oral History“.

[26]Frásögn Stefáns Pálssonar á „róttæklingarölti“, 6. nóvember 2004.

[27]Frásögn ónefnds heimildarmanns, 11. nóvember 2003.

[28]Vef. Lagasafn Alþingis. 22. grein lögreglulaga, nr. 90, 1996. Um ákvæði um þagnarskyldu símamanna, sjá 47. grein fjarskiptalaga, nr. 81, 2003.

[29]Höfundur til tveggja ónefndra móttakenda, 29. október 2004.

[30]Heidi Kjær, Politiets efterretningstjeneste, til höfundar, 26. apríl 2006, og Maria Collett Sælør, Politiets sikkerhetstjeneste, til höfundar, 10. maí og 9. ágúst 2006.

[31]Haraldur Böðvarsson, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“.

[32]Haraldur Böðvarsson, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“, bls. 90.

[33]Haraldur Böðvarsson, „Framkvæmd íslenskra réttarreglna um símahlerun og bréfleynd“, bls. 59.

[34]Alþingistíðindi

06.05.1989

1072

fsp. til skrifl. svars Sþ.

Kristín Halldórsdóttir

 

[35]

16.05.1989

1179

svar Sþ.

dómsmálaráðherra

[36]Alþingistíðindi1995-95, A, bls. ?? 120. löggjafarþing. -- 222 . mál. 548. Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um símahleranir

[37]Morgunblaðið, 14. febrúar 1996.

[38]Sjá t.d.: Stefan Berkholz, „Das Liebesnest des Dr. Goebbels“, Berliner Morgenpost, 5. september 2004.

[39]Vef.„Reglur um aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafni Íslands“.

[40]Óútg. „Greinargerð með beiðni um aðgang að gögnum um símahleranir“, 22. febrúar 2005.

[41]Þarna hefði auðvitað mátt bæta við væri fólk, sem í hlut átti, látið skyldi leitað skriflegs samþykkis nánustu ættingja.

[42]Vef.„Reglur um aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafni Íslands“.

[43]Óútg. „Greinargerð með beiðni um aðgang að gögnum um símahleranir“, 22. febrúar 2005.

[44]Höfundur til Helga I. Jónssonar dómstjóra, 5. mars 2005. Með bréfinu fylgdi afrit af „Greinargerð með beiðni um aðgang að gögnum um símahleranir“ sem send hafði verið Þjóðskjalasafni 22. febrúar 2005.

[45]ÞÍ. Sak.R. 2005 FB/4. Lögregluþingbók nr. 249. Úrskurður sakadómara, 8. júní 1968.

[46]Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, ’68. Hugarflug úr viðjum vanans, bls. 211.

[47]Hdr.KE. Dagbók Kristjáns Eldjárn, 27. maí 1973.

[48]Höfundur til ónafngreinds móttakanda, 26. mars 2005.

[49]ÞÍ. Sak.R. 2005 FB/4. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið til sakadómara, 26. mars 1949.

[50]ÞÍ.RÚV. FA/423. Hádegisfréttir, 2. apríl 1971.

[51]ÞÍ.RÚV. FA/422. Kvöldfréttir, 29. mars 1971.

[52]Höfundur til ónafngreinds móttakanda, 6. janúar 2006.

[53]Sjá nánar í heimildaskrá.

[54]ÞÍ. Sak.K. 1997-KC2/187. Sakadómsmálið nr. 19/1971. Endurrit úr sakadómsbók Kópavogs, 23. mars 1971.

[55]Sjá nánar í heimildaskrá.

[56]Fyrir nánari umfjöllun höfundar um þetta álitaefni, sjá: Guðni Th. Jóhannesson, „Geta sagnfræðingar fjallað um fortíðina?“

[57]Einar Ólafsson, Brynjólfur Bjarnason, bls. 123.

[58]RÚV. Árni Snævarr og Valur Ingimundarson, Kalda stríðið, 8. maí 2000. Matthías var blaðamaður Morgunblaðsins árin 1951-59 og síðan ritstjóri til ársins 2001.

[59]Einar Olgeirsson, Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar, bls. 319.

[60]Frásögn á „róttæklingarölti“, 6. nóvember 2004.

[61]Óformlegt spjall við tvo fyrrverandi embættismenn, lok maí 2006.

[62]Óútg. „Símahleranir á Íslandi og öryggi ríkisins í kalda stríðinu“. Fyrirlestur á Söguþingi, 21. maí 2006.

[63]Morgunblaðið, 23. maí 2006 (forystugrein).

[64]Fréttablaðið, 27. maí 2006.



Drupal vefsíða: Emstrur