Skip to Content

Leiðréttingar

Í ritdómi Inga F. Vilhjálmssonar í DV er vikið að villum og misskilningi í verkinu. Þar segir. m.a.:

Skortur á þekkingu og misskilningur
Bók Guðna ber þess einnig merki að stundum hefur hann ekki mjög mikið vit eða mikla innsýn inn í sum þeirra viðfangsefna sem hann tekur fyrir í bókinni. Jafnframt lætur hann vera að mestu að fjalla mikið um þátt eigenda, stjórnenda og starfsmanna bankanna í efnahagshruninu enda má skilja Guðna sem svo út frá því sem hann segir í inngangi að hann hafi ekki mikið vit á hagfræði og viðskiptum (bls. 9). Það mikilvæga verk bíður enn einhvers sem treystir sér til þess en Ólafur Arnarsson fjallaði heldur ekki mikið um þennan þátt bankahrunsins í sinni bók.

Um misskilning í bókinni má nefna að Guðni segir til dæmis, þegar hann ræðir um einkavæðingu bankanna árið 2002 og 2003, að S-hópurinn hafi keypt stóran hlut í Búnaðabankanum og að einkavæðingu bankanna hafi lokið þegar Björgólfsfeðgar keyptu ráðandi hlut í Landsbankanum (bls. 16). Sannleikurinn er hins vegar sá að þessu var öfugt farið: ákveðið var að ganga til samninga við Samson-hópinn um kaupin á Landsbankanum áður en ákveðið var að ganga til samninga við S-hópinn um kaupin á Búnaðarbankanum – S-hópurinn vildi meira að segja frekar kaupa Landsbankann. Kaupsamningurinn við Samson var svo undirritaður 31. desember 2002 og við S-hópinn 16. janúar 2003. Eins segir Guðni að Landsbankinn hafi keypt breska Heritable-bankann eftir einkavæðingu bankans árið 2003 en sannleikurinn er sá að bankinn var keyptur árið 2000, áður en Björgólfarnir komu að honum. Því passar ekki að segja að eigendur Landsbankans eftir einkavæðingu hafi keypt Heritable-bankann til að leggja aukna áherslu á Bretlandsmarkað (bls. 65).

Öll þessi gagnrýni á bók Guðna leiðir að sama brunni: Guðni reiðir sig of mikið á unnar heimildir úr fjölmiðlum en ekki frumheimildir. Þetta veldur því að lítið er af nýjum upplýsingum í bókinni, hún er heldur grunn, textinn er á köflum frekar flatur og inn í textann læðist misskilningur eða staðreyndavillur sem sennilega eru tilkomnar vegna þess að Guðni notast of mikið við umfjallanir annarra um þau mál sem hann fjallar um án þess að hafa raunuverulega innsýn inn í þau sjálfur. Að þessu sögðu læðist að manni sá grunur að bók Guðna sé of víðfeðm, að hann nái ekki vel utan um viðfangsefnið vegna þess að hann afmarki sig ekki nægilega vel við þrengra sjónarhorn á hrunið.



Drupal vefsíða: Emstrur