Skip to Content

Kafli úr bókinni

Hér er upphafskafli Völundarhúss valdsins. Hafa ber í huga að þetta skjal er ekki lokaskjal (má heita víst að einhverjar smábreytingar og leiðréttingar hafi verið gerðar í próförk). Þá vantar blaðsíðutal, tilvísanir og neðanmálsgreinar.

 „Meira að segja gætu þetta vel orðið heimildir.” Inngangur

Kristján Eldjárn hélt dagbók, skrifaði minnisblöð og las inn á segulband frásagnir af fundum með flokksforingjum um stjórnarmyndanir og stjórnarslit í forsetatíð sinni. Þetta eru einstæðar heimildir um einstæða tíma í stjórnmálasögu landsins. Þær sýna vel hve mikil refskák var leikin eftir alþingiskosningar hverju sinni, hve klókir sumir flokksleiðtogarnir voru, hve illa aðrir léku kannski af sér og jafnvel hve litlu kosningaúrslitin sjálf réðu um myndun ríkisstjórna. Þetta eru líka stórfróðlegar heimildir um forsetaembættið sjálft og má ýmsan lærdóm draga af þeim, einkum um þessar mundir þegar mikið er rætt um stöðu forsetans í stjórnskipun landsins.

            Tími er því til kominn að segja alla þessa sögu til hlítar, eins og bent hefur verið á. Við opnun Kristjánsstofu á Dalvík í maí 2005 sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti um stjórnarmyndanir í forsetatíð Kristjáns Eldjárns:

Og þegar allt þetta er tekið saman þá er ég þeirrar skoðunar að það hafi enginn forseti þurft að glíma við jafnmiklar þrautir á vettvangi þjóðmálanna – erfiðar þrautir eins og Kristján gerði – og það er óskráð saga. Sagnfræðingar okkar og fræðimenn eiga eftir að gera þessu tímabili skil.

Tveimur mánuðum fyrr hafði Davíð Oddsson, sem þá var utanríkisráðherra, einnig rifjað upp stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens – ein sögulegustu átökin á valdaskeiði Kristjáns Eldjárns – með þeim orðum að senn kæmi að því að hægt yrði að fjalla um þau „af ró og yfirvegun”. Söguritunin á sér þó lengri aðdraganda. Í ævisögu Kristjáns eftir Gylfa Gröndal, sem kom út árið 1991, segir svo um heimildir bókarinnar:

Dagbækur Kristjáns Eldjárns frá forsetatíð hans, vélritaðar á lausablöð (quarto), í möppum merktum með ártölum; bókarhöfundur sá ekki minnisblöð og þann hluta dagbókanna, sem varða stjórnarmyndanir og fleiri atburði; þær heimildir bíða sagnfræðinga framtíðarinnar (í eigu frú Halldóru Eldjárn, en verða settar á Landsbókasafn).

Sjálfur er ég sagnfræðingur og í árslok 2000 ákvað ég að láta reyna á hvort framtíðin væri runnin upp, ef svo má að orði komast. Ég skrifaði Halldóru Eldjárn og spurði hvort hún teldi tímabært að veita aðgang að þessum heimildum en þær voru þá komnar á handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Svo reyndist vera og kann ég Halldóru og Þórarni Eldjárn, sem hafði samband við mig fyrir hönd hennar, bestu þakkir fyrir þeirra liðveislu.

Sú spurning gæti hugsanlega vaknað hvort eðlilegt sé að þessar heimildir komi nú fyrir almennings sjónir. Haft hefur verið á orði við mig að birting frásagna af samtölum um stjórnarmyndanir á Bessastöðum og skrifstofu forseta kunni „að gjörbreyta samskiptum forseta og stjórnmálamanna við þessar viðkvæmu aðstæður”. Öll þau samtöl við flokksformenn og aðra, sem Kristján skráði hjá sér, voru auðvitað trúnaðarmál þegar þau áttu sér stað. „Við undirstrikuðum báðir að allt sem við töluðum væri privat og óformlegt,” skrifaði hann til dæmis eitt sinn. Á öðrum stað sagði Kristján um eigin hugleiðingar: „Ef einhver skyldi reka augun í þetta einhvern tíma, sem ekki er meiningin …” Þau orð voru þó fest á blað sem síðan var geymt. Þau voru auk þess skráð snemma í hans forsetatíð og fjölluðu ekki um stjórnarmyndunarviðræður. Síðar sést oft að forseti hélt til haga samtölum í stjórnarkreppum einmitt vegna þess að hann ætlaðist til þess að þær upplýsingar kæmu síðar fram. Og í nóvember 1980, þegar hann hafði stytt sér stundir í veikindakasti með því að hlusta á segulbandsspólur með minnispunktum um stjórnarkreppuna veturinn áður, bætti hann við þeim lokaorðum að óneitanlega hefði verið gaman að hlusta á þær: „Meira að segja gætu þetta vel orðið heimildir.”

Sjálfsagt var að bíða aðeins með birtingu þessara heimilda eins og minnst var á í ævisögu Kristjáns Eldjárns. Nú hlýtur tilhlýðilegur tími hins vegar að teljast liðinn frá þeim atburðum sem þær greina frá. Erlendis er oft miðað við að 25-30 ára leynd skuli hvíla á mikilvægum skjölum en síðan er henni aflétt nema öryggishagsmunir eða viðkvæmar persónuupplýsingar séu í veði. Auðvitað getur þá gerst að frásagnir og staðreyndir líti dagsins ljós gegn óskum þeirra sem hlut eiga að máli. Sumarið 2005 voru til dæmis gerð opinber skjöl um fundi Henrys Kissinger og Richards Nixon Bandaríkjaforseta með Indiru Gandhi árið 1971. Þá var hún forsætisráðherra Indlands og Bandaríkjamönnum fannst hún óþægur ljár í þúfu. Hún var „gömul norn”, sagði Nixon; „tík”, sagði Kissinger. Indverjar brugðust auðvitað ókvæða við þegar þetta varð alkunna og í hárri elli þurfti Kissinger að biðjast afsökunar á ummælum sem voru að vísu gróf en höfðu fallið í galgopalegu spjalli fyrir luktum dyrum rúmum þrjátíu árum fyrr.

Betra hefði verið fyrir orðhákana tvo að þessar heimildir hefðu verið brenndar eða geymdar í læstum hirslum um aldur og ævi. En það verður að hafa það ef gömul gögn baka vandræði fyrir embættis- og stjórnmálamenn. Meira er um vert að þau skapa sögu, þekkingu og fróðleik fyrir alla aðra. Og það verður líka að hafa það ef nýjar rannsóknir kollvarpa viðteknum sannindum. Sumarið 1970 skrifaði Kristján Eldjárn þetta í dagbók sína eftir að hafa hlýtt á fjörlegt en frekar afdráttarlaust erindi ungs manns, Halldórs Blöndals, um daginn og veginn:

Allt í einu fór hann að hallmæla vísindamönnum sem sviptu staði góðum og gömlum sögnum sem við þá hefðu loðað, með óþrjótandi þekkingarþorsta sínum. Ingólfur má ekki hafa numið landið, Úlfljótur má ekki hafa haft út með sér lögin, Einar má ekki hafa búið á Einarsstöðum. … Hér er um mjög merkilegt mál að ræða. Það má sem sagt ekki rannsaka, nema þá til þess að láta þess eins getið ef niðurstaða er eins og maður helst vildi, eða öllu heldur eins og Halldór Blöndal vill. Annars á að þegja um niðurstöður. Ég get ekki sagt að ég hafi mikla samúð með þessu sjónarmiði. En þó er því ekki að neita að það getur verið neikvætt að birta niðurstöður rannsóknar, getur verið neikvætt fyrir eitthvað annað, t.d. þjóðernistilfinninguna. En samt er þetta mín skoðun: Sannleikurinn skal fram, annars er það eins og að slá framan í alla rannsóknarstarfsemi.

Sá „sannleikur” sem hér er rakinn ætti engan að meiða. Kristján Eldjárn kvað nær aldrei mjög fast að orði um menn í skrifum sínum; nornir og tíkur Kissingers og Nixons er hvergi að finna í gögnum hans. Auk þess eru þeir stjórnmálaforingjar sem stýrðu stjórnarmyndunarviðræðum í forsetatíð Kristjáns annaðhvort látnir eða hættir almennum stjórnmálaafskiptum, og „allt er þetta nú fortíð og snakk”, eins og forseti skrifaði eitt sinn í dagbók sína! Eigi leynd að hvíla um langa framtíð yfir heimildum sem þessum verður þekking þjóðarinnar á pólitískri samtímasögu veikari en ella og byggð um of á getgátum, hlutlægum flokksblöðum og eigin minningu stjórnmálamannanna. Það væri synd á upplýsingaöld.

Minnispunkta sína skrifaði Kristján yfirleitt að kvöldi dags. Stundum kom þó fyrir að dagar liðu á milli þess að hann skráði samtöl og eigin hugleiðingar hjá sér. Eins og hann skrifaði sjálfur má vænta þess að hann hafi náð að fanga megininntak viðtala sinna við stjórnmálaforingjana hverju sinni, en ekki endilega orð frá orði. Dagbókafærslurnar voru yfirleitt vélritaðar á laus blöð í A4 stærð. Sumt skrifaði Kristján þó með eigin hendi og ýmis stök minnisblöð fylgja dagbókunum. Frásagnir af stjórnarkreppunni veturinn 1979-80 voru svo ekki aðeins festar á blað heldur las Kristján einnig minnispunkta um það efni inn á segulband. Fyrir kom að forseti „sletti” eða notaði slangur í þessum heimildum og er það allt látið halda sér óbreytt, en vart þarf að taka fram að hann hefði aldrei leyft sér slíkt í opinberri ræðu eða riti. Þar var hann í senn, eins og sagt hefur verið, „völundur á töluð orð og snjall rithöfundur enda telst verk hans í dýru gildi”.

Í beinum tilvitnunum eru augljósar innsláttarvillur á vélrituðu blöðunum leiðréttar, zeta fjarlægð, greinarmerkjasetning samræmd og stórum staf og litlum skipt út eftir hentugleika. Einnig er langoftast leyst upp úr skammstöfunum. Er þess þá kannski helst að geta að Kristján ritaði einatt, svo dæmi séu tekin, „ÓJ”, „Ó” eða “Ól J” fyrir Ólaf Jóhannesson eða „Alþband” og „Alþbl” fyrir Alþýðubandalag. Kristján vélritaði minnisblöðin sjálfur á gamla ritvél sem hann átti og kenndi henni um innsláttarvillurnar sem slæddust inn í textann. „[Þ]etta er leiðindaskjóða,” skrifaði hann um ritvélargarminn,

hávær og geltir eins og illa vaninn hundur. Mér finnst þröngt milli stafa, og ég kenni því um að ég slæ fleiri feilstafi á þessa vél en þá sem staðurinn á. Konan heldur þó að þetta geti ekki verið. Skiljanlegt er að vélargreyinu líði ekki sem best einmitt þegar ég er að skrifa um hana sjálfa.

Gögn Kristjáns Eldjárns um stjórnarmyndanir og stjórnarslit í forsetatíð hans eru þungamiðjan í þessari bók. Vitaskuld var þó víðar leitað fanga. Fréttir úr fjölmiðlum og viðtöl við stjórnmálamenn voru nýtt við skrifin og bæta þau oft miklu við frásagnir Kristjáns Eldjárns. Allar þessar heimildir verður hins vegar að vega og meta eftir bestu getu. Flokksblöðin fegra hlut sinna manna og gera lítið úr andstæðingunum, menn muna atburði misvel, frásagnir þeirra stangast jafnvel á og öllu verður að taka með fyrirvara. „Þegar stjórnmálamenn horfa um öxl,” sagði Matthías Johannessen ritstjóri eitt sinn, „hættir þeim til að segja söguna eins og þeir vilja að hún hafi verið, en ekki eins og hún var. Asklok verður himinn.” Svo getur rás viðburða vissulega litið út á marga vegu, eftir því frá hvaða sjónarhóli er horft. „Hver er sannleikurinn í þessu máli,” var spurt um einn stóratburðinn í embættistíð Kristjáns Eldjárns, „– eða er kannski engan sannleik að finna?” Línur úr Arafræði Þórarins Eldjárns koma einnig í hugann:

– Stórvirkur ertu að stela og safna
með stálminni og rúmgóðan haus,
en vandinn er mestur að velja og hafna
og vera ekki dómgreindarlaus.

En Ari hann var ekki öldungis geldur
og aðferðin þróaðist hratt:
– það sem sannara reynist það höfum við heldur
ef hvorugt er satt.

Endanlegan sannleika er alls ekki að finna á þessum síðum. Þær eru uppfullar af ýmsum óumdeilanlegum staðreyndum en frá óteljandi öðrum staðreyndum er ekki sagt af því að þessum eina höfundi fundust heimildir um þær ekki jafnmerkilegar. Val af þessu tagi er einstaklingsbundið verk og tilviljunum háð að ýmsu leyti. Og auðvitað er það ekki svo að hægt sé að velja á milli allra upplýsinga um alla atburði og skoðanir allra sem komu einhvern veginn við sögu. Tiltækar heimildir um það sem gerðist eru ófullkomin brot; leiftur af liðinni tíð. Í fyrirlestri á vegum Sagnfræðingafélags Íslands árið 2000 vék Davíð Oddsson að þessum vanda og setti upp einfalt skýringardæmi:

Setjum svo að forystumaður í stjórnmálum hafi að meðaltali 10-30% allra upplýsinga við höndina, þegar hann verður í skyndingu að taka mikilvægar ákvarðanir en sagnfræðingurinn 60-80% upplýsinganna þegar hann gerir upp niðurstöðuna löngu síðar. Þessar tölur eru engin nákvæmnis vísindi heldur settar fram til skýringar. Mín kenning er sú að sá hluti 10-30% upplýsinganna sem mest áhrif höfðu á stjórnmálamanninn komi ekki endilega fram í þeim 60-80% hluta upplýsinganna sem sagnfræðingurinn hefur síðar meir, heldur falli undir þau 20-40% þeirra sem honum eru og verða ætíð hulin þegar hann gefur út sínar niðurstöður og séu hugsanlega ófáanlegar með viðurkenndum sagnfræðilegum aðgerðum. Þótt upplýsingamagnið sé þannig orðið mikið þegar að sagnfræðingurinn tekur til óspilltra málanna, þá séu þýðingarmestu upplýsingarnar honum ekki endilega tiltækar.

Fyrirlesarinn tók svo dæmi af hitamáli sem margt hafði verið skrifað um. Kjarna málsins hefði þó alltaf vantað og svo yrði um alla framtíð „ef sá sem mest veit um málið kýs að þegja um það til lokadags”. En auðvitað vildi Davíð Oddsson ekki halda því fram að annaðhvort yrðu skrásetjarar sögunnar að vita „allt” en þegja ella. Niðurstaðan hlýtur að vera sú að þótt hálfsannleikur geti vissulega verið slæmur þá sé ófullkomin frásögn nær alltaf betri en þögnin ein, að frekar traust frásögn sé skárri en frekar ótraust frásögn, og að því fleiri sem heimildirnar séu, því traustari verði frásögnin að öllu jöfnu. Og það er söguleg staðreynd, sem ekki verður dregin í efa, að þýðingarmestu upplýsingarnar um stjórnarmyndanir, stjórnarslit og stöðu forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns eru hinar drjúgu heimildir hans sjálfs. Með þær fyrir framan sig fær sagnfræðingurinn oft innsýn í hin mikilvægu „10-30% upplýsinganna sem mest áhrif höfðu á stjórnmálamanninn,” svo áfram sé leikið með skýringardæmi Davíðs Oddssonar.

Síðan kemur alltaf að því að texta höfundar sleppir og lestur annarra tekur við. Þá missir maður vald yfir verki sínu og getur aðeins vonað að lesendur meðtaki textann eins og ætlast var til, eða óttast að það verði einhvern veginn allt öðruvísi. Mun fólk lesa eitthvað óvænt á milli línanna eða hampa einu frekar en öðru, sér og sínum í hag? Þótt maður reyni að hafa mál sitt eins skýrt og mögulegt er verður því ekki ráðið hvernig aðrir skilja textann og túlka, eða misskilja og mistúlka. En sama gildir um þennan vanda og allt annað sem tengist sagnaritun: það verður bara að hafa það. Ekki dugar að gefast upp, og að því sögðu verður nú látið arka að auðnu eins og Kristján Eldjárn komst stundum að orði í skrifum sínum!



Drupal vefsíða: Emstrur